Jólin group

Jólin group

Engill guðar á glugga kominn langan veg. Hvílir þreytta vængi. Inni í stofu birtan mjúk – flauelsmjúk. Prúðbúið jólatréð í horninu mátar sig við spariklætt heimilisfólkið. Ljósin kveikt og augnablik eftirvæntingar speglast í augum barnanna sem horfa á opinmynnt. Í augum barnanna á ævintýrið sinn stað og verður ekki burt tekið þaðan.
fullname - andlitsmynd Þór Hauksson
25. desember 2005
Flokkar

Í upphafi var Orðið, og Orðið var hjá Guði, og Orðið var Guð.Hann var í upphafi hjá Guði.Allir hlutir urðu fyrir hann, án hans varð ekki neitt, sem til er.Í honum var líf, og lífið var ljós mannanna.Ljósið skín í myrkrinu, og myrkrið tók ekki á móti því.

Maður kom fram, sendur af Guði. Hann hét Jóhannes.Hann kom til vitnisburðar, til að vitna um ljósið, svo að allir skyldu trúa fyrir hann.Ekki var hann ljósið, hann kom til að vitna um ljósið.

Hið sanna ljós, sem upplýsir hvern mann, kom nú í heiminn.Hann var í heiminum, og heimurinn var orðinn til fyrir hann, en heimurinn þekkti hann ekki.Hann kom til eignar sinnar, en hans eigin menn tóku ekki við honum. En öllum þeim, sem tóku við honum, gaf hann rétt til að verða Guðs börn, þeim, er trúa á nafn hans.Þeir eru ekki af blóði bornir, ekki að holds vild né manns vilja, heldur af Guði fæddir.

Og Orðið varð hold, hann bjó með oss, fullur náðar og sannleika, og vér sáum dýrð hans, dýrð, sem sonurinn eini á frá föðurnum. Jóh 1.1-14

Engill guðar á glugga kominn langan veg. Hvílir þreytta vængi. Inni í stofu birtan mjúk – flauelsmjúk. Prúðbúið jólatréð í horninu mátar sig við spariklætt heimilisfólkið. Ljósin kveikt og augnablik eftirvæntingar speglast í augum barnanna sem horfa á opinmynnt. Í augum barnanna á ævintýrið sinn stað og verður ekki burt tekið þaðan. Undrun og ævintýri eiga sér ekki takmörk raunveruleikans á jólum-engin sem stendur vakt raunverunnar meinar engli að setjast á gluggasyllu þess sem við óskum okkur helst á jólum. Hann er komin langan veg til að segja frá því sem við vitum en leyfum ekki allrajafna að eigna sér stað – í huga og hjarta.

Á jólum er vitjunarstund á jólum er óskastund. Bjöllur fortíðar hringja inn minningar liðinna jóla og hljóma mismundandi skært – lágt stemmdir tónar eiga sér skærar minningar sem var-aldrei sem á jólum. Ilmur jóla er sætur. Hann er óræður. Það er sem hann sé ekki þessa heims – ilmurinn. Það er hægt að finna fyrir honum en ekki snerta ilm jóla. Ekki halda í hversu mjög sem við vildum eiga. Pakka inn og setja á slaufu og koma fyrir undir jólatrénu. Ilmur jóla lætur ekki binda sig heldur leikur um vitund hvatvís – óráðin - frjáls eins og barnshugur. Á sama tíma og hann er þessa heims á jólum þá er hann það ekki.

Ekki þessa heims?

Kannski vita börnin að jólin eru ekki þessa heims-þess vegna gleðjast þau og blik eftirvæntingar á sér vísan stað í augum þeirra-það hefur ekki slokknað á þeim. Dimma streitu, ótta og kvíða ætti ekki vera að finna í huga þeirra. Það má heldur ekki gerast. Hvað er þá eftir? Hvað verður eftir þegar ævintýri og raunveran renna saman og úr verður Group eitthvað á fáum höndum? Aðeins hluthöfum boðið og hinir standa fyrir utan noprandi-nei jólin koma til allra og jólin eru allra og við þurfum ekki að óttast neitt. Eina stund sameinast allt-raunveruleiki tilverunnar, ævintýrið, helgin-himin og jörð sameinast undir hlýrri sæng drauma okkar um betra mannlíf til handa öllum. Því okkur er öllum boðið að kúra við þann veruleika sem við með jólahaldinu köllum á. Það segir fæðingarstaður frelsarans – í lágreistu fjárhúsi – ekki höll með rauðum dregli sem aðeins útvaldir fá að ganga á og inn til.

Ef ekki á jólum hvenær þá eigum við sem teljumst til fullorðina að leyfa okkur að opna glugga eftirvæntingar sem hafa verið lokaðir svo og svo lengi og hleypa inn engli björtustu minninga því þær eru geymdar en ekki gleymdar hjá honum. Engill bjartra stunda og minninga liðinna jóla er á gluggasyllu okkar, horfir inn – aldrei sem á jólum. Við þurfum ekki að efast að hann er þar og hann horfir ekki aðeins inn heldur og býður þolinmóður að við opnum fyrir honum og hleypum honum inn í tilveru okkar aldrei sem á jólum.

Á jólum er nefnilega vitjunarstund. Þar sem hvert og eitt okkar er vitjað af þeim sem veit og þekkir okkar innstu væntingar og þrár. Væntingar og þrár sem kalla á okkur því að stundir hafa liðið hjá sem við höfum ekki gefið okkur tíma til að staldra við og hlusta eftir þeim.

Á jólum eigum við að þakka af heilum hug. Það gerði lítill drengur fyrir mörgum árum siðan. Prestur einn tók eftir að það vantaði Jesúbarnið í jötuna í fjárhúsinu sem hafði verið komið fyrir utan kirkjuna. Allar aðrar persónur og leikendur voru á sínum stað. Hver í ósköpunum tæki bara Jesúbarnið,en ekki neitt annað, hugsaði prestur. Hann fór og leit í kringum sig. Þá kemur hann auga á litinn dreng með sleða í eftirdragi. Honum fannst hann sjá einkennilega þúst á sleðanum. Prestur fer til stráksins og sá þá að Jesúbarnið lá á sleðanum. “Hvað í ósköpunum ertu að gera?” spurði prestur. “Ég er að draga Jesú á sleðanum mínum” svaraði drenghnokkinn. “Hvers vegna ertu að því?” spurði presturinn, alveg gáttaður. Drengurinn lét sér ekki bregða, heldur svaraði glaður: “Ég lofaði Jesú, að ég mundi dragann, ef ég fengi sleða í jólagjöf.”

Ilmandi leyndardómur

Kann að vera að sleði leynist í einhverjum leyndardómsfullum pakkanum sem spenntur kúrir undir slúttandi tré heima í stofu-hver veit hvað býður í brekku framtíðar þeirra sem sjá jólin í dag með huga barnsins-geta ekki á heilum sér tekið á því kvöldi sem sveipað er dulúð ilmandi helgi.

Aum/ur er sá sem ekki hrífst með og ljáir huganum vængi sem leitar uppstreymis ljúfra minninga sinna eigin æsku því þær eiga sína uppsprettu. Kann að vera að þær séu sveipaðar myrkri vonleysis og dimmra nátta-brattar brekkur ógnar verða á stundu sem þessari - aflíðandi í ljúfu rennsli tímans sem að baki er. Hvort heldur sem við erum ung eða öldruð, veröldin stór eða lítil í huga, þá sækir og kallar jólahátíðin fram barnið í okkur. Á jólum megum við láta eftir okkur að gleðjast sem börn. Á jólum hlustum við á sömu söguna aftur og aftur eins og börn.

“Fæddi hún þá son sinn frumgetinn, vafði hann reifum og lagði hann í jötu, af því eigi var rúm fyrir hann í gistihúsi.”

Við höfum margoft heyrt söguna um fæðingu frelsarans áður - ólíkt hirðunum á Betlehemsvöllum sem var brugðið mjög. Hún kemur okkur ekki á óvart eins og myrkrið gerði forðum daga. Við þurfum ekki að standa út við glugga og gæta að engli vitundar okkar og hvort boðskapur sögunnar hafi borist í næsta hús því hún hefur gert það með birtu þeirri sem hún ber með sér. “Sjá ég boða yður mikinn fögnuð.” Í þeim fögnuði böðum við okkur og tökum þátt í næstu daga.

Tilefni jólanna og hið djúpa innihald er leyndardómurinn mikli að Guð kemur og dvelur mitt á meðal mannanna. Þennan leyndardóm flytur Biblían í myndum sem snerta okkur og tala skýru máli.

Frásögn Lúkasar af fæðingu Jesú á svo greiðan aðgang að sérhverjum manni að það er eins og hún hafi alltaf verið til staðar innst í undirmeðvitund okkar.

Hlustum eftir boðskap Krists um þessi jól, boðskap ljóssins og kærleikans og líka eftir að jólin eru að baki. Látum þann boðskap ná valdi á okkur og lýsa okkur.

Kjarni jólaboðskaparins er að Jesú megi fæðast í hjarta, að hann megi komast inn í undirmeðvitund okkar og hafa áhrif á líf okkar allt, á hugsun og breytni í stóru og smáu á hátíðum sem aðra daga ársins. Hann er ímynd hins ósýnilega Guðs, frumburður allrar sköpunar, í þeirri mynd var hann skapaður. Til þeirrar myndar stefnir þrá hans. Þrá að við fáum að taka þátt í því undri sem jólin eru í raun og sann. Í því undri er ekki spurt um verðleika, ríkidæmi eða neitt það sem kann að útiloka okkur frá fæðingarhátíð frelsarans. Hátíðin sækir okkur heim hvar sem við erum og hvernig sem við erum. Megi góður Guð gefa ykkur og fjölskyldu ykkar nær og fjær - Gleðileg jól.