Innlifunaríhugun 3 í beinu streymi frá Grensáskirkju 28.4.20: Grillað á ströndinni
Þriðja þriðjudaginn í röð göngum við inn í frásögn guðspjallanna af Jesú upprisnum í innlifunaríhugun að hætti Ignatíusar Loyola.
Við komum okkur fyrir þannig að sem fæst verði til að trufla okkur, þöggum niður í símum, sitjum með báða fætur í gólfi, axlir slakar, höfuð reist, hendur í skauti. Við búum okkur undir að ganga inn í guðspjallið frá 21. kafla Jóhannesarguðspjalli. Síðast vorum við með Jesú og vinahópnum í aflokuðu herbergi. Núna erum við á allt öðrum stað, við Tíberíasvatn sem líka er kallað Galíleuvatn og Genesaretvatn í Biblíunni. Þarna rennur áin Jórdan í gegn og einnig eru ferskar uppsprettur víða við botninn sem dýpstur er 43 metrar. Sjálft vatnið er það vatn í heiminum sem liggur hvað lægst, á milli 215 og 209 metra undir sjávarmáli. Það er 21 kílómetra langt og 13 kílómetra breitt, 53 kílómetrar allan hringinn, gott veiðivatn. Og nú erum við þar.
Við ætlum að dvelja þarna við vatnið, vera þar og finna, reyna og sjá það sem fram fer. Við biðjum Guð um að leiða innlifun okkar þannig að við mættum vera þar sem Jesús er í frásögn dagsins, við biðjum Guð að fylla okkur eftirvæntingu, opna innri augu okkar og eyru, biðjum Guð að virkja andlegu skilningarvitin okkar þannig að við mættum meðtaka atburðina eins og við værum þar sjálf.
Og nú byrjum við í Jesú nafni, lokum augum og ljúkum upp innri sýn.
Við erum stödd í flæðarmálinu. Það er tekið að kvölda. Vatnið breiðir úr sér fyrir framan okkur. Ferskur ilmur er í loftinu, örlítill andblær strýkur kinn og við finnum víðáttu vatnsins taka á móti okkur. Þarna eru þeir líka vinirnir, Símon Pétur, Tómas tvíburi, Natanael frá Kana, bræðurnir Sebedeussynir og nokkrir í viðbót úr hópnum hans Jesú, konur og karlar. Við sláumst í hópinn og finnum okkur velkomin. Það er eins og þau þekki okkur. Nú heyrum við Símon Pétur segja: „Ég fer að fiska.“ Sum ákveða að drífa sig með honum í bátinn, önnur halda sig í landi. Við gætum farið með út á vatnið, fengið okkur sæti við borðstokkinn, dýft hönd í vatnið, andað að okkur stemningunni. Við gætum líka beðið á bakkanum, tyllt okkur á stein, leyft kvöldsvalanum að kæla okkur niður eftir hita dagsins.
Nú líður að dögun. Þegar báturinn kemur að landi eru þau sem reyndu sig við veiðarnar vonsvikin og döpur í bragði. Við finnum vonbrigði þeirra en líka undrun þegar ókunnur maður slæst í hópinn þarna á ströndinni. Hann spyr: „Hafið þið nokkurn fisk?“ Nei, ekki var það nú. En samkvæmt tillögu hans skellum við okkur aftur út á vatnið með fiskimönnunum og hjálpum þeim að kasta netinu hægra megin við bátinn. Og viti menn, netið fyllist af fiski! Aflinn er svo mikill að við eigum í vandræðum með að draga inn. Við finnum gleðina streyma, já, þarna er lífsbjörgin komin, matur á borðið og allt getur orðið gott á ný.
Skyndilega segir einn bátsverja, lærisveinninn sem var Jesú sérlega kær: „Þetta er Drottinn.“ Þetta er þá Jesús þarna á ströndinni, Jesús sjálfur kominn til að taka þátt í lífsbaráttunni með okkur. Nú gerist allt hratt, Símon Pétur stekkur út í vatnið án þess að hugsa sig um, alltaf hvatvís og snöggur, blessaður vinurinn, og grípur flík til að bregða um sig. Getum við fundið gleði hans og eftirvæntingu að hitta Jesú, vinur hans kæri er kominn, flýtum okkur, förum til hans?
Og þegar við hin komum í land, það tók ekki langa
stund þar sem við vorum ekki langt úti á vatninu, sjáum við að Jesús er búinn
að leggja fisk á glóðir og brauð. Ilmurinn er indæll, við erum svöng eftir
langa nótt við vatnið og erfiðið að draga inn fiskinn, finnum þennan ilm af grilluðum
fiski og nýbökuðu brauði, dásamlegt. Jesús vill næra okkur, þjóna okkur, gefa
okkur að borða til að endurnýja krafta okkar. Og við hjálpum Símoni Pétri og
þeim hinum að koma aflanum í land og Jesús bætir við nýveiddum Pétursfisknum á grillið
svo að nóg verður fyrir alla. Svo býður hann okkur að koma og matast, við
þiggjum brauðið úr hendi hans og svo fiskinn, þetta er heilög athöfn, við
horfumst í augu við lífgjafa okkar og allt bragðast svo vel. Brauðið og
fiskurinn næra okkur eins og nærvera Guðs þarna á ströndinni, nærvera Guðs í
sköpuninni, nærvera Guðs í hjarta okkar. Takk fyrir mig, Jesús!
Guðspjall: Jóh 21.1-14
Eftir þetta birtist Jesús lærisveinunum aftur og þá við Tíberíasvatn.
Hann birtist þannig: Þeir voru saman: Símon Pétur, Tómas, kallaður tvíburi,
Natanael frá Kana í Galíleu, Sebedeussynirnir og tveir enn af lærisveinum hans.
Símon Pétur segir við þá: „Ég fer að fiska.“
Þeir segja við hann: „Við komum líka með þér.“ Þeir fóru og stigu í bátinn. En
þá nótt fengu þeir ekkert.
Þegar dagur rann stóð Jesús á ströndinni. Lærisveinarnir vissu samt ekki að það
var Jesús. Jesús segir við þá: „Drengir, hafið þið nokkurn fisk?“
Þeir svöruðu: „Nei.“
Hann sagði: „Kastið netinu hægra megin við bátinn og þið munuð verða varir.“
Þeir köstuðu og nú gátu þeir ekki dregið netið, svo mikill var fiskurinn.
Lærisveinninn, sem Jesús elskaði, segir við Pétur: „Þetta er Drottinn.“ Þegar
Símon Pétur heyrði að það væri Drottinn brá hann yfir sig flík – hann var
fáklæddur – og stökk út í vatnið. En hinir lærisveinarnir komu á bátnum, enda
voru þeir ekki lengra frá landi en svo sem tvö hundruð álnir, og drógu netið
með fiskinum.
Þegar þeir stigu á land sáu þeir fisk lagðan á glóðir og brauð.
Jesús segir við þá: „Komið með nokkuð af fiskinum sem þið voruð að veiða.“
Símon Pétur fór í bátinn og dró netið á land, fullt af stórum fiskum, eitt
hundrað fimmtíu og þremur. Og netið rifnaði ekki þótt þeir væru svo margir.
Jesús segir við þá: „Komið og matist.“ En enginn lærisveinanna dirfðist að
spyrja hann: „Hver ert þú?“ Enda vissu þeir að það var Drottinn. Jesús kemur og
tekur brauðið og gefur þeim, svo og fiskinn. Þetta var í þriðja sinn sem Jesús
birtist lærisveinum sínum upp risinn frá dauðum.