En einn af þeim tólf, Tómas, nefndur tvíburi, var ekki með þeim, þegar Jesús kom. Hinir lærisveinarnir sögðu honum: „Vér höfum séð Drottin.“En hann svaraði: „Sjái ég ekki naglaförin í höndum hans og geti sett fingur minn í naglaförin og lagt hönd mína í síðu hans, mun ég alls ekki trúa.“
Að viku liðinni voru lærisveinar hans aftur saman inni og Tómas með þeim. Dyrnar voru læstar. Þá kemur Jesús, stendur mitt á meðal þeirra og segir: „Friður sé með yður!“ Síðan segir hann við Tómas: „Kom hingað með fingur þinn og sjá hendur mínar, og kom með hönd þína og legg í síðu mína, og vertu ekki vantrúaður, vertu trúaður.“
Tómas svaraði: „Drottinn minn og Guð minn!“ Jesús segir við hann: „Þú trúir, af því þú hefur séð mig. Sælir eru þeir, sem hafa ekki séð og trúa þó.“ (Jóh. 20.24.-29)
Mér eru minnistæð orð aldraðrar konu í Reykjavík. Ég var nýbyrjaður sem prestur. Hún kom að máli við mig og sagðist hafa verið við messu í Dómkirkjunni þar sem dómprófasturinn var að kveðja söfnuðinn. Þar hefði hann sagt að nú myndi hann að þessu sinni breyta út frá gamalli hefð og ganga eftir messu til dyra og kveðja söfnuðinn þar með handabandi. Gamla konan var þakklát fyrir þetta að hafa fengið að taka í hönd prestinum sínum, en bætti svo við: „Ég get bara ekki skilið þennan gamla sið að dómkirkjuprestarnir skyldu ræna söfnuðinn þeirri blessun að fá að taka í hönd þeirra eftir messu. Að ég tali nú ekki um að fara sjálfir á mis við þá blessun frá söfnuðinum“
Mér fannst þetta svolítið skondið þá, þegar þessi orð voru sögð. En ég hef oft hugsað til þeirra síðan. Konan leit á handtakið sem blessun, við handtak prestsins var sem sagt ekki aðeins fullnægt kröfum kurteisinnar heldur var blessun miðlað frá hönd til handar, frá hjarta til hjarta. Og það varð mér löngum áleitið umhugsunarefni þegar ég stóð við kirkjudyr að loknu embætti og mín veika hönd mætti handtaki safnaðarins, blessun mín mætti blessun hans, eða öllu heldur blessun Guðs var miðlað í handtaki okkar.
Hefurðu leitt hugann að því hvernig við notum hendur okkar í ýmsum tilvikum þjónustunnar? Við lyftum hönd til að signa okkur, setjum krossins merki á enni og brjóst. Með hendinni er barnið ausið skírnarvatni, við tökum brauð og vín í hönd, við réttum brauðið fram með höndum okkar, leggjum í lófa eða á tungu, lyftum kaleik að vörum með höndum okkar. Hönd okkar í þessum tilvikum er framlenging annarrar, útréttrar handar. Hún er með naglaför, sú hönd, sármerki hinnar ýtrustu kærleiksfórnar.
Á vígslustund réttirðu fram hönd til að handsala vígsluheit. Hönd þín mætti höndum kirkjunnar, hendur biskups og vígsluvotta lukust um þína hönd í þéttu handtaki.
Svo kraupstu við altarið og fannst hendur hinna mörgu á höfði þér, hendur sem táknuðu gjöf andans sem var lögð yfir þig í heilögu samhengi köllunarinnar. Og að baki þeim var höndin hins krossfesta og upprisna, sármerkt höndin hans. Í nafni hans var heilög, almenn, postulleg kirkja að votta, staðfesta og blessa heitin þín og ásetning og senda þig út með blessun Krists og frið.
Síðan hefur handtak þitt, létt og milt eða þétt og fast borið sóknarbarni tákn samstöðu, huggunar, blessunar, hönd er lögð á höfuð í blessun og fyrirbæn. Höndin þín hefur verið farvegur og verkfæri hins dýpsta leyndardóms Guðs náðar og návistar? Já, hendurnar þínar. Að einhver geti jafnvel sagt vegna þín: „Vér höfum séð Drottin!“ Líkami þinn er verkfæri þjónustunnar en ekki aðeins andi þinn, menntun þín, náðargáfur, embætti, staða. Helgað Kristi, að vera handtak frá honum, að bera annarri manneskju lífsmark Drottins Guðs.
„Kom hingað með fingur þinn og sjá hendur mínar, og kom með hönd þína og legg í síðu mína ..“ Fingur og hönd, sár í lófum og síðu. Líkami, hold, blóð.
Stundum finnst okkur þetta svolítið óþægilegt, jafnvel ósmekklegt. Allt tal um sár Krists og blóð. En við megum ekki gleyma því að orðið varð hold, hold og blóð. Barnsgrátur í Betlehem, kvalastundur á Golgata, stirðnað hold og storknað blóð sem lagt var í gröf. Orðið var hold. Við deyddum það hold, negldum á kross. En Guð reisti hann upp frá dauðum. „Efni vort er það sem var frá upphafi, það sem vér höfum séð með augum vorum, það sem vér horfðum á og hendur vorar þreifuðu á, það er orð lífsins.“ Þetta segir Jóhannes. Orðið varð hold, orð lífsins varð maður á jörðu. Kristin kirkja vitnar um orðið sem varð hold, já og blóð. Ekki myndlíking andlegra sanninda. „Kom hingað með fingur þinn,“ segir Jesús við Tómas, „…kom með hönd þína.“
Prófessor Jóhann, blessuð sé minning hans, sagði okkur stúdentum forðum að svo hafi verið um Konfusíus sagt að hann hefði verið svo kurteis að jafnvel það hvernig hann bylti sér í svefni bar vott um fyllstu háttvísi! Páll postuli segir: „Vitið þér eigi að líkami yðar er musteri heilags anda? Vegsamið því Guð með líkama yðar.“
Liturgía, hin helga þjónusta og atferli er ekki aðeins að fylgja forskriftum, heldur að temja atferli sitt, aga líkama sinn jafnt sem sál, að það beri blessunina fram. Líturgía er ekki fornleifafræði heldur guðfræði. En ekki aðeins guðfræði heldur og háttvísi. Liturgía er öðrum þræði kurteisi, háttvísi, tjáning virðingar, virðingar við Guð og menn. Enginn liturg getur verið góður liturg ef hann kann ekki eða iðkar ekki frumatriði mannlegrar háttvísi í samskiptum við fólk. Ef hann leggur sig ekki eftir því að sýna náunganum virðingu í orðum sínum og atferli. Liturgía er að staðsetja sig með Kristi og þeim sem hann kallar og leggur líf sitt í sölurnar fyrir. Liturgía er að setja sér fyrir sjónir og minnast þess að það eru aðrir við við sem Guð talar til, og sem hætta jafnvel lífi sínu með svari sínu. Liturgía er þakklát viðurkenning þess að aðrir fjölskyldumeðlimir hafa rétt og þarfir, og ég – þótt vígður þjónn sé- , er hvorki einka- né eftirlætisbarn. Liturgía er að taka sér stöðu í því samhengi sem er samneyti syndaranna, sem Jesús tekur að sér, sýknar og endurleysir.
Liturgía er líkamstjáning. Iðkuð guðfræði, ekki leikræn tjáning andlegrar speki, eða upprifjun einhvers sem eitt sinn var, heldur atburður þar sem orðið verður hold, orð lífsins, sem hendur okkar fá snert og þreifað: á hönd er rétt fram með friðarorð, kné eru beygð, brauð lagt á tungu, vín borið að vörum, líkami Krists, krossfestur, upprisinn, svo við getum þekkt hann aftur er hann verður á vegi okkar í hinum minnsta bróður og systur. Orð lífsins. Drottinn minn og Guð minn!
Samvera okkar á synodus er senn á enda. Þakka ykkur, kæru systkin, góða og gefandi samveru, samstarf og samhug allan.
Við synodusslit tökum við höndum saman, myndum hring fyrirbænar og samstöðu og syngjum syni Guðs heiður og lof, og berum hvert öðru blessun hans, frelsarans krossfesta og upprisna. Hönd er lögð í hönd systkina, kollega. Við, með okkar sár og sorgir, við með okkar vonir og gleði við tökumst í hendur. Við myndum keðju umhyggju og kærleika og fyrirbænar, og göngum svo héðan út með blessun Guðs til móts við verkin, veginn og daginn.
„Sjálfur friðarins Guð helgi yður algjörlega, og andi yðar, sál og líkami varðveitist alheill og vammlaus við komu Drottins vors Jesú Krists. Trúr er sá sem yður hefur kallað. Hann mun koma þessu til leiðar. Amen.“
Flutt við Synodusslit, í Egilstaðakirkju, 20. júní 2002