Af og til tölum við um fótbolta hérna í kirkjunni. Það verður einhvern veginn ekki hjá því komist þegar hin fagra íþrótt leggur undir sig dægurmenninguna eins og núna er. Þessa dagana stendur yfir Evrópumót í fótbolta þar sem Ísland er illu heilli ekki meðal keppenda. Ég horfi því á leikina meira sem ákveðinn listviðburð og spennan er víðsfjarri.
Pollamót
Önnur og mikilvægari ástæða þess að hin knattspyrna er mér hugstæð núna er sú að ég er nýkominn frá Vestmannaeyjum frá Pollamóti sem svo nefnist. Þar kepptu sonur minn og félagar hans í KR á þessum grænu grundum fótboltans. Drengjahópar fylltu fallega bæinn á Heimaey. Þeir marseruðu í einkennislitum síns félags um stéttirnar og sungu jafnvel baráttusöngva. Svo þegar flautað var til leiks var ekkert gefið eftir.
Ég stóð í brekkunni með öðrum foreldrum og við gáfum frumstæðar skipanir af slíkum krafti að ég finn að enn er hálsinn aumur. Öll höfðum við augun á vellinum, þessari rétthyrndu flöt þar sem liðin mættust. Snilldartaktar leikmanna vöktu hrifningu og þegar mistök voru gerð fór angistarkliður um hópinn. Þessi grasbali fangaði alla athygli okkar.
Hvert er aðdráttaraflið?
Hugsuðir hafa velt þessum málum fyrir sér. Hvað býr að baki þessu einbeitta áhorfi, eru það bara tilþrif og taktar? Á hvað góndum við eiginlega þarna í brekkunni? Horfðum við á vígvöll eins og hér forðum þegar herforingjar skipulögðu átök einkennisklæddira stríðsmanna? Er sjálf flötin tákn um yfirburði samfélags sem getur leyft sér að leika sér á grösugum túnum – þarf ekki að nýta þau sem beitihaga? Slíkt hefðu nú einhvern tímann þótt undur og stórmerki.
Er völlurinn mögulega lífið sjálft smættað niður í þessa fermetra þar sem alls kyns togstreita á sér stað á milli ólíkra fylkinga? Já, eða má jafnvel túlka hann sem innra sálarlíf manneskjunnar þar sem takast á kraftar, sitthvað getur gengið upp og annað fer úrskeiðis.
Leikreglur
Túnið er afmarkað með línum. Allt er á sínum stað, engar torfærur, hæðir eða skurði og reglur eiga að vera öllum kunnar. Það er ein af þverstæðum tilverunnar, finnst mér, þetta með leikreglurnar. Við erum ekki ýkja hrifin af boðum og bönnum. Samt er að svo að um leið og einhver hópur ætlar að skemmta sér við leik, er byrjað á því að setja reglur. Þetta gera barnahópar líka. Hvað má og hvað er bannað? Hver eru viðurlögin?
Og til þess að allt sé með felldu sér dómarinn til þess að refsað sé yfir allar misgjörðir. Það var táknrænt á þessu Pollamóti, þar sem liðin voru skipuð tíu ára strákum, að dómarinn bar í orðsins fyllstu merkingu höfuð og herðar yfir leikmennina. Það átti vel við og undirstrikaði það hvernig réttlætið á að gnæfa yfir öllu.
Markið?
Þá komum við loks að textunum sem hér voru lesnir. Hvað segja þeir okkur? Fjalla þeir ekki um rétt og rangt? um dóma og dómara?
Spámaðurinn Sakarías talar inn í aðstæður þar sem skilyrði voru ákjósanleg til réttlætis og guðsdýrkunar. Blómaskeið ríkti í landinu. Musterið stóð á sínum stað og fólk flykktist þangað með fórnargjafir sínar. En það sem vakti fyrir þessum talsmanni almættisins er að benda á hversu skammt sú tilbeiðsla nær ef ekki fylgir hugur máli.
Já, spámaðurinn er eins og dómari og raunar eru bækur í Gamla testamentinu sem kallast Dómarabækur. Skilaboðin eru skýr:
,,Fellið réttláta dóma og sýnið hver öðrum miskunnsemi og samúð. Níðist hvorki á ekkjum, munaðarleysingjum, aðkomumönnu né fátæklingum og hyggið ekki á ill ráð hver gegn öðrum í hjarta yðar."
Hérna sjáum við leikreglur sem standa ofar öllum helgisiðum og hverju því skrúði sem fatnaður eða húsakynni geta borið. Ef lífið væri íþrótt þá liti markið svona út. Ekki að klekkja á öðrum, berast hátt eða beita þau valdi sem minna mega sín. Því er einmitt þveröfugt farið. Tilgangurinn birtist okkur í hinum minnstu systkinum. Markmiðið er að hlúa að þeim sem geta ekki sjálf staðið á eigin fótum.
Það er áhugavert að skoða þetta í ljósi þess aðdráttarafls sem hópíþrótt á borð við knattspyrnuna hefur. Og ég vil síst draga hér upp andstæður. Þótt hún sé ótvírætt keppni í yfirburðum af einhverjum toga þá verður lítið um dýrðir ef leikmenn fylgja ekki reglum. Þess vegna þótti mér það svolítið táknrænt þegar dómar á völlum Vestmannaeyja stóðu upp úr á leikvanginum.
Að endingu eiga jú allir að sitja við sama borð. Kraftar og andlegir burðir þýða ekki að einum líðist það sem öðrum er bannað.
Dæmið ekki!
Í guðspjalli dagsins mætti þó ætla að Kristur hafi horn í síðu dómara. Hann varar við því að fella dóma: „Dæmið ekki og þér munuð eigi verða dæmd.“ Á þessum orðum hefst textinn kunni og við hljótum að spyrja okkur hvort iðja dómaranna eða þær ákvarðanir sem við fellum á hverjum degi um okkur sjálf og samferðafólk falli undir þann hatt. Hvernig er hægt að lifa án þess að dæma? Er það ekki háttur upplýsts fólks að dæma?
Ræðan endar þó ekki í þessum orðum. Framhaldið leiðir okkur inn á þekktar slóðir daglegrar umræðu þar sem vísað er til þeirrar meintu áráttu fólks að „sjá ekki bjálkann í eigin auga“ en enblína á „flísina í auga náungans“.
Augu
Er það bara ég – eða finnst engum öðrum það óþægilegt að tala um flísar og bjálka í augum?
Hér hefur augað jú aðra og dýpri merkingu. Það endurspeglar það sem við höfum auga á, hvert sjónir okkar beinast. Mér finnst alltaf skemmtilegt að hugleiða vörnina sem litríkt fiðrildið hefur í skógarþykkninu. Kynslóðir þessara lífvera hafa í gegnum tíðina þróað með sér afbragðs leið til að forða þeim frá því að enda í fuglsmaga. Þar hafa myndast stórir hringir á vængjunum – hringir sem minna á augu. Og fuglinn sem sveimar yfir trjátoppunum í leit að æti fyllist skelfingu þegar hann sér þá. Þeir eru eins og tvö starandi augu!
Má í þessu sambandi minna á örlög útlagans Grettis. Honum tókst með kröftum sínum að leggja drauginn Glám eftir magnaða rimmu. En áður en Glámur var allur lagði hann það á garpinn að augu hans myndu fylgja honum um alla tíð og af þessu hlaust slíkt friðleysi að söguhetjan naut engrar hvíldar. Augun voru skæðari en armarnir.
„Auga fyrir auga“ segir í hinu forna lögmáli endurgjaldsins. Dómarnir eiga að vera réttlátir. Leikreglurnar eiga að gilda um alla. Hin sterku lúta sömu lögmálum og þau sem veikar standa.
Hvar leynast töfrarnir?
Fótboltasveinar inni á vellinum voru vissulega í aðalhlutverkinu hjá okkur sem horfðum á. En dómarinn réði þó örlögum þeirra. Þegar hann gaf merki stöðvast leikur og átök féllu niður. Það þýðir lítið að deila við þá eftir að þeir hafa fellt sinn dóm þótt við hefðum alveg kosið víti í Vestmannaeyjum þarna í blálok síðasta leiksins!
Í Evrópukeppninni eru dómarar ölmusumenn miðað við leikmennina. En þeir fyrrnefndu ráða samt. Enginn spyr um laun og frægð í því sambandi. Án þeirra fengist vart nokkur til að taka þátt nema þeir sem teldu sig sterkari og skæðari en aðrir og gætu valdið meira tjóni en þeir sjálfir þyrftu að þola. Ekki væri nú gaman að slíkri íþrótt.
Þar leynast liklega töfrarnir sem láta okkur mæna á leikvanginn. Í heimi þar sem engar reglur gilda er lífið ekki gott. Þá drottna hin öflugu yfir þeim sem hafa minni burði og stjórnlaus átök geysa úti um allt. Líf fólks við síkar aðstæður verður, eins og við segjum við fermingarbörnin, bæði erfitt, hættulegt og stutt.
Keppni sem lítur skýrum reglum er andstæða þessa. Og Biblían birtir okkur að sönnu mynd af þeim mörkum sem líf okkar á að stefna að. Þar birtist okkur mynd umhyggju og alúðar fyrir þeim sem þurfa á kröftum okkar að halda. Tilgangurinn er ekki að undiroka heldur að geta sett sig í spor, hlusta á og skilja. Þess vegna nefna spámenn Gamla testamentisins ekkjur, munaðarleysingja og aðkomufólk í sömu andrá og vilji Guðs er útlistaður.
Lögmál er samt ekki fagnaðarerindi og fagnaðarerindi er ekki lögmál. Að endingu erum við breyskar manneskjur, sem stígum iðullega feilspor í lífinu og þurfum á fyrirgefningu að halda en ekki köldum dómi. Þar liggja varnaðarorð Jesú við að fella of stranga dóma. Augu okkar eiga ekki að einblína á brestina heldur vera næm fyrir því sem er gott og byggir upp.
Þannig er það líka að þegar hinir alráðu dómarar á knattspyrnuvellinum hafa flautað til leiksloka, þá hafa þeir lokið störfum sínum að sinni. Bendingar þeirra og flaut hafa engin áhrif lengur. Um leið og leiknum lýkur tekur eitthvað annað við. Svo er því einnig háttað í Guðs ríki. Þegar flautað er til leiksloka í lífinu okkar þá leggur dómarinn frá sér flautuna og hið sama gera hinir mannlegu dómstólar sem að endingu játa takmörk sín andspænis hinu eilífa valdi Guðs.