Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen.
Brúðkaup vekja hjá okkur flestum góðar minningar enda einhverjar skemmtilegustu stundir sem við fáum að upplifa. Ætla má að Guð hafi skapað okkur til gleði öðru fremur og að við séum gerð til að koma saman, fagna og hlæja því það eru þau augnablikin sem lifa oft lengst í minningunum. Við munum marga brúðkaupsdagana, okkar eigin og annarra. Við munum vel hvernig veðrið var, kirkjan, salurinn og veislan. Við munum okkar eigin hamingju eða gleði brúðarparsins og fólksins sem samfagnaði með okkur eða þeim sem giftu sig á góðum degi. Við munum góða matinn og allar veitingarnar, góðu ræðurnar og fallegu orðin sem voru sögð. Orðin sem voru svo tímabær en voru samt bara sögð í tilefni brúðkaupsins. Brúðkaupsminningar lifa flestum minningum lengur.
Ekkert er eins skemmtilegt og brúðkaup. Þau laða fram það besta í okkur öllum. Það er kærleikurinn og ástin sem færir brúðarparið saman í upphafi. Að elska og vera elskuð eru markmið allra sem ganga í hjónaband. Þar felst hamingjan, gleðin vonin og eftirvæntingin. Að horfa á ástfangið par er töfrum líkast. Það er fátt sem toppar það nema finna ástina í eigin brjósti. Ást,- þessa undarlegu tilfinningu sem skapar skjálfta í hnjám, roða í kinn og örari hjartslátt. Hvort sem við elskum einhvern af okkar eigin kyni eða gagnstæðu, Íslending eða útlending, þá skiptir það engu. Öllu skiptir að finna ástina og að hún finni okkur.
Jesús var boðinn til brúðkaups í þorpi sem hét Kana. Hvar það er í dav vita fæstir, þó er það kunnuglegt kennileiti í sögu og bókmenntum, ekki vegna brúðkaupsins heldur vegna atburðarins í veislunni á eftir. Oft er til staðarins vitnað. Á þeim tíma var venja að bjóða öllum í þorpinu en hvers vegna María móðir Jesú, hann sjálfur og lærisveinarnir voru þar er alveg óvíst því sennilega voru þau ekki íbúar þessa þorps. Um parið vitum við ekkert heldur. Þau hafa kannski fundið ástina í hvort öðru en líklegra er þó að ráðahagurinn hafi verið ákveðinn af fjölskyldum þeirra. Þannig var það nefnilega oftar en ekki hér áður og fyrr. Hjónabandið var meira hagkvæmnisgjörningur en samband byggt á ást. Þegar þurfti að sameina jarðir og landskika, fjölskyldur og ættir var brúðkaup oft góð leið. Ef hjón voru heppin lærðu þau að elska hvort annað. Já það er nefnilega hægt að læra að elska aðra. Á sama hátt er líka hægt að æfa sig í að hata annað fólk. Við erum heppin sem fáum að búa með þeim sem við elskum og heppin ef við finnum ástina og enn heppnari ef við erum elskuð til baka og tekst að varðveita alla þá ást gegnum dagana sem mæta okkur svo óendanlega fjölbreytilegir.
Viltu elska og virða í hverjum þeim
kjörum sem Guð lætur ykkur að höndum bera? Er
spurning sem hjónaefni svara við hjónavígsluna. Hér er spurt um trúfesti um
alla framtíð. Það er næsta auðvelt þegar allt gengur vel en spurningin nær ekki
aðeins til þeirra stunda heldur líka hinna stundanna sem eru erfiðar. Við vitum öll að lífið færir okkur líka þunga
daga og áhyggjustundir.
„Þegar við giftum okkur,“ sagði hún, „þá
verðum við tvö um allar áhyggjur.“
„En ég hef engar áhyggjur,“ sagði hann
undrandi.
„Nei, ekki núna,“ svaraði hún. - "En þú ert ekki giftur ennþá."
Oft vex ástin og kærleikurinn í hjónabandi fólks. Það gerist þó ekki af sjálfu sér endilega heldur þegar pör rækta samband sitt. Tala saman, eru saman og vinna að því að vaxa og þroskast saman. Stundumt kulnar glóð ástarinnar og mörg hjón slíta samvistum eins og það kallast þegar einstaklingar halda hvor sína leið. Það er oft óhjákvæmilegt því fólk breytist og lífsstefna einstaklinga á ekki samleið. Mikilvægt er að geta þakkað fyrir góðu stundirnar og það sem pör áttu saman. Þakkað minningar og ef börn eru ávöxtur sambands unnið að uppeldi þeirra með sem bestum hætti. Vinátta og virðing eru dýrmætari flestu þegar hjón eiga ekki samleið lengur.
Brúðkaupið í Kana fór fram án þess að guðspjallamaðurinn Jóhannes hafi um það orð. En veisluna nefnir hann. Þar gerðist það ólán að vínið sem var stór hluti veitinganna kláraðist. Þar var að myndast neyðarástand. Eitthvað hafði brugðist í undirbúningnum. Það er martröð hvers gestgjafa þegar veitingar klárast því það sýnir takmarkaða gestrisni og nísku eða að minnsta kosti slælegan undirbúning. Þessi frásaga er fyrsta táknið eða kraftaverkafrásagan í Jóhannesarguðspjalli en aðrar sex koma í kjölfarið. Frásagnirnar hjálpa til við að varpa ljósi á persónu Jesú. Hver hann var og hvað hann ætlaði sér í fyllingu tímans.
Jesús sonur Guðs byrjar ekki sitt starf í
musterinu eða samkundunni heldur í brúðkaupsveislu þar sem fólk er
samankomið til að gleðjast og fagna. Þar var hann ekki aðalpersónan heldur
aðeins gestur. Hann var aukapersóna sem þó bjargaði veislunni. Þar gerði hann það kraftaverk að búa
til vín úr vatni. Það verk hans hlýtur að vera merki um að hann
hafi viljað að við nytum lífsins okkar,
lifðum til fulls og tækjum þátt í gleðiatburðum. Allir góðir hlutir eiga að finnast í gnægð
og þá sérstaklega vín sem var og er oft
nauðsynlegt til að viðhalda gestrisni og gleði í hamingjuhúsi brúðhjóna. Vínið
var mikilvægt en þó ekki til að drekka sig ofurölvi og skapa böl bæði fyrir
einstakling og fjölskyldu, heldur var það veisluföng til að skapa fögnuð og
glaðværð. Það er þýðingarmikið að í frásögn Jóhannesar er vínið sett í miðpunkt brúðkaupsveislunnar. Það er
nefnt fimm sinnum og það er tekið fram að vínið sem Jesús umbreytti með mætti
sínum var betra en það vín sem byrjaði var á er veislan hófst. Við verðum líka að horfa til þess að veröldin
varð betri eftir að Jesús hafði lagt sína mannlegu hönd á hana. Eftir að hann
hafði læknað sjúka, kennt um breytni og hegðun og unnið sigur á dauðanum með upprisunni.
Kona, hvað ertu að biðja mig um? Tími minn er ekki enn komin segir Jesús við móður sína. Ef til vill voru orðin milduð með tónblæ og svipbrigðum Jesú. Kannski var hann að biðjast undan að gera nokkuð þarna og var með gamansemi við móður sína. Þó virðist ljóst að móðirin María missti ekki traust á syninum. Hún lagði vandamálið í hans hendur og bað þjónana að gera bara allt sem hann segir. Þetta eru síðustu orð hennar í guðspjöllunum því eftir henni eru ekki höfð önnur orð. María trúði að Jesús myndi geta unnið kraftaverk. Kannski minnir afstaða hennar okkur á að við eigum að hafa trú á börnunum okkar. María veit að Jesús er einstakur og hún trúir á hann. Jesús bregst ekki vonum móður sinnar og forðar gestgjöfunum frá skömm og hneisu og skapar hið fullkomna vín. Jesús lætur sig aðstæður varða og var tilbúinn að grípa til aðgerða til að bjarga málum.
Tvisvar í Jóhannesarguðspjalli talar Jesús við móður sína og í bæði skiptin kallar hann hana „konu“. Þetta er í fyrsta skipti. Í annað skiptið var það þegar Jesús hékk á krossinum. Þessi atriði mynda þráð milli atburðanna tveggja. Jesús byrjar samkvæmt Jóhannesi sitt starf í mikilli brúðkaupsveislu sem var svo fjölmenn að vínið þraut. Hann bjargar málum, fyllir allt af víni. Víni sem sem er tákn fyrir vín altarisgöngunnar og blóðið sem var úthellt þegar Jesús var krossfestur. Blóð krists, bikar lífsins segir presturinn þegar gegnið er til altaris. Vatnið frá Kana sem varð vín tengist beint víninu sem við þiggjum við altarið og drekkum sem blóð Krists til að fá hlutdeild í upprisu Jesú Krist.
Yfirlýsing Jesú: „mín stund er ekki komin“ myndar líka þráð til krossins. En hver er þessi stund? „Faðir, stundin er komin“ segir Jesús þegar komið er að því að hann láti lífið á krossinum. Þannig má segja að „stundin“ sé vísun í krossfestingu hans og dauða og það sem fylgdi, - upprisuna sjálfa. Með því að tala um stundina þá er Jesús að vísa til þess sem síðar muni verða. Hann þekkti mætavel hvert leiðin lá, - að krossinum á Golgatahæð.
Brúðkaupið þar sem Kristur er brúðguminn og kirkjan brúður Krists er gömul lýsing á sambandi Jesú við okkur. Páll postuli segir í Efesusbréfinu. “Karlmenn, elskið konur ykkar eins og Kristur elskaði kirkjuna og lagði sjálfan sig í sölurnar fyrir hana til þess að helga hana með orðinu og hreinsa hana í vatnslauginni. Hann vildi leiða kirkjuna fram fyrir sig í dýrð án þess hún hefði blett eða hrukku né neitt slíkt. Heilög skyldi hún og lýtalaus.” (Ef. 5:25-27)
Gyðingar höfðu margvíslegar reglur, tengdar lögmálinu, sem þeir höfðu fengið í fyllingu tímans. Þar voru t.d. reglur um hreinlæti. Gestir urðu að þvo bæði hendur og fætur áður en borðað var. Vatn var mikilvægt til að hreinsa burt öll óhreinindi. Í brauðkaupinu í Kana var vatnið í steinpottunum/hreinsunarkerjunum og það vatn notaði Jesú til að breyta í vín. Vatnið er táknrænt fyrir gamla lögmálið sem Jesús fullkomnar með upprisu sinni. Jesús breytir eðli og inntaki lögmálsins og setur sjálfan sig í stað þess. Hann er vínið sem varir og er betra en vatnið sem fyrir var.
Í
hinum guðspjöllunum notar Jesús líkingar á borð við nýtt vín á gömlum belgjum.
Ef nýtt vín er sett á gamla belgi sprengir vínið belgina og allt ónýtist. Nýtt
vín verður að setja á nýja belgi. Hinn nýi boðskapur kristninnar sprengir ramma
gyðingdómsins og verður því að geymast á nýjum belgjum – og þeir nýju belgir
eru kirkjan.
Sagan
um brúðkaupið í Kana er í raun vonarboðskapur sem bendir fram til upprisu Jesú.
Hann kom með vatn og breytti því í vín en
sá atburður felur í sér mikið meira en einföld umskipti á vökvum. Atburðurinn
er tákn sem vísar á krossinn og upprisuna.
Jesús kom inn í tilteknar aðstæður sem hann síðan breytti og
fullkomnaði. Jesús kom til að skapa
eitthvað nýtt. Nýjan sáttmála eða lögmál þar sem hið fyrra hafði ekki dugað.
Boðorðin og reglur gyðingdómsins dugðu ekki til að skapa sátt milli Guðs og manna. Trúin á upprisu Jesú og kærleiksboðskap hans
mun hins vegar duga um alla framtíð. Og að endingu þetta: - gleymum ekki að
Jesús hóf sitt starf á að gleðjast með brúðhjónum og skála við
veislugesti. Brúðkaupið í Kana á því að
minna okkur á að gleðin í lífinu skiptir máli og að það sé pláss fyrir hana í
kirkjunni og í lífinu okkar líka.
Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi, er
og verður um aldir alda. Amen.
Prédikun
flutt í Stokkseyrarkirkju 19. janúar 2020
Guðspjall:
Jóh 2.1-11
Á þriðja
degi var brúðkaup í Kana í Galíleu. Móðir Jesú var þar. Jesú var og boðið til
brúðkaupsins og lærisveinum hans. En er vín þraut segir móðir Jesú við hann:
„Þeir hafa ekki vín.“
Jesús
svarar: „Hvað viltu mér, kona? Minn tími er ekki enn kominn.“
Móðir
hans sagði þá við þjónana: „Allt það sem hann segir ykkur, það skuluð þið
gera.“
Nú voru
þar sex vatnsker úr steini samkvæmt reglum Gyðinga um hreinsun og tók hvert
þeirra tvo mæla eða þrjá. Jesús segir við þá: „Fyllið kerin vatni.“ Þeir fylltu
þau á barma. Síðan segir hann: „Ausið nú af og færið veislustjóra.“ Þeir gerðu
svo. Veislustjóri bragðaði vatnið, sem var orðið vín, og vissi ekki hvaðan það
var en þjónarnir, sem vatnið höfðu ausið, vissu það. Þá kallaði veislustjóri á
brúðgumann og sagði: „Allir menn bera fyrst fram góða vínið og síðan hið lakara
er menn gerast ölvaðir. Þú hefur geymt góða vínið þar til nú.“
Þetta
fyrsta tákn sitt gerði Jesús í Kana í Galíleu og opinberaði dýrð sína og
lærisveinar hans trúðu á hann.