Ræða forsætisráðherra í Þingvallakirkju 17. júní 2014
Sálmurinn sem var sunginn við upphaf þessarar hátíðarmessu eftir þjóðskáldið Matthías Jochumsson hefst á orðunum Upp þúsund ára þjóð. Rétt eins og í þjóðsöngnum sameinast í þessum sálmi séra Matthíasar sýn hans um að guðsandinn sé í brjóstinu, sprottinn af sömu rót og tignun náttúrunnar. Traustið á almættinu er hjá honum samofið trúnni á afl, erindi og framtíð þjóðarinnar. Náttúran er í ljóðum hans til vitnis um máttarverk skaparans sjálfs. Sá staður sem við stöndum nú á, Þingvellir, er líklega sá sem helst uppfyllir þessa sýn séra Matthíasar í huga margra Íslendinga. Það er því vel við hæfi að rifja upp að Lofsöngur Matthíasar, þjóðsöngurinn, var saminn fyrir fyrstu eiginlegu þjóðhátíðina sem haldin var á Íslandi, hátíð sem einmitt var fagnað hér á Þingvöllum í tilefni þúsund ára afmælis Íslandsbyggðar árið 1874. Þá, 1874, var hugtakið þjóðhátíð að öllum líkindum notað í fyrsta skipti. Eins og í þjóðsöngnum er í sálminum sem hér var sunginn ort um Íslands þúsund ár. Matthías hafði, eins og ljóðskáldin, menntamennirnir, bændurnir og forystumenn frelsishreyfingarinnar á 19. öld, eitt markmið, að kveikja vilja þjóðarinnar til framfara og til uppbyggingar. Og að endingu til fullveldis. Þjóðhátíðin 1874 var stór stund. Þá steig konungur fæti á íslenska jörð í fyrsta sinn og var viðstaddur hátíðahöldin hér á Þingvöllum í ágústbyrjun. Hann hafði og meðferðis fyrstu stjórnarskrá Íslands, sem var á þeim tíma byltingarkenndur áfangi í frelsisbaráttunni. Stjórnarskráin 1874, um hin sérstaklegu málefni Íslands, var stórt skref á leið Íslendinga að fullveldi. Í henni fólst fyrsta eiginlega viðurkenning konungs og Danaveldis á því að Íslendingar væru sérstök þjóð.
Hugtökin þjóð, þjóðmenning og þjóðríki voru á þessum tíma öflugt hreyfiafl á umbrotatímum í hugmyndasögu Evrópu. Þau voru samofin kröfunni um lýðræði og borgaraleg réttindi og önnur mannréttindi, aukið jafnræði og bætt lífskjör. Íslendingar áttu auðveldara en margir aðrir með að tileinka sér hugmyndina um að allir sem hér byggju tilheyrðu einni þjóð og þá um leið kröfuna um þjóðríkið til handa Íslendingum. Víðar í álfunni höfðu landamæri um aldir miðast við yfirráð konunga, hertoga og fursta sem studdust við stórjarðeigendur með aðalstignir. Landamæri færðust til og frá eftir gengi höfðingja í herleiðöngrum, tungur og mállýskur flæddu um svæði, oft í litlu samhengi við valdhafa hvers tíma. Mörk og mæri Íslands voru aldrei á reiki, þau voru ákvörðuð af náttúrunni sjálfri. Almenningur þessa lands talaði eina tungu sem var töluð hér og hvergi annars staðar þegar fram liðu stundir. Tungumálið, sagnir og kvæði, var varðveitt á gömlum skinnum og fleiri Íslendingar voru læsir á eigin tungu en almennt gerðist í öðrum löndum. Allt frá því að keltneska ritmenningin og norræna kvæða- og sagnahefðin runnu saman hér á landi í öndverðu og sköpuðu hina einstöku íslensku bókmenntahefð sem mörgum hefur verið ráðgáta, höfðu aldrei skapast skilyrði hér á landi til að deila íbúum þessa lands í ólíka þjóðflokka. Trúarbrögðin mögnuðu hér aldrei upp þau ófriðarbál sem annars staðar þekktust. Danskir embættismenn og kaupmenn sem hingað komu yfirgáfu flestir landið aftur. Og meira að segja hin efnalegu gæði, misskipting fjármagns sem var sá neisti sem víða annars staðar kveikti elda frelsisbaráttunnar, náði aldrei að sundra þjóðinni til langframa – eins og góður maður sagði eitt sinn þá deildu flestir Íslendingar kjörum – fátæktinni.
Einsleitnin og fábreytnin náði að skapa samstöðu og Íslendingar áttu fáa óvini nema fátæktina og óblíð náttúruöflin, þó stundum tækjust þeir á við hið erlenda konungsvald og sendisveina þess. Á nítjándu öld varð hugmyndin um þjóðríkið að einu sterkasta hreyfiafli evrópskrar sögu, og breiddist síðar út um aðrar álfur. Á fyrri hluta aldarinnar setti Frakkinn Ernest Renan fram þá kenningu að það sem gerði þjóð að þjóð væri vilji þegnanna til að tilheyra henni. Sú kenning rímar við lýðræðishugsjónina og sjálfan grundvöll stjórnskipunarinnar, að allt vald sé komið frá þjóðinni sjálfri.
Forsenda þess að viljinn sé til staðar er samkennd og samkenndin skapast ef þjóðin þekkir sögu sína og menningu og á sameiginleg minni og hefðir. Jafnframt hefur hún þörf fyrir að móta sér sýn á hvað skapar henni sérstöðu, hvað aðgreinir hana frá öðrum. Það er ekki síst hugmyndin um sameiginlegt minni sem skapar þjóðinni grundvöll. Án minnis og sögu er maðurinn án sjálfsvitundar og sjálfsþekkingar og því fær hann ekki uppfyllt erindi sitt við umheiminn. Á sama hátt er þjóð, sem þekkir ekki sögu sína, menningararfleifð, land og náttúru, án sjálfsvitundar og erindis.
Helstu forvígismenn sjálfstæðisbaráttunnar, Jón Sigurðsson, Baldvin Einarsson, Fjölnismenn og fleiri, unnu látlaust að því að efla þekkingu Íslendinga á eigin menningararfi jafnt sem að færa þeim heim nýjar hugmyndir og upplýsingu. Að fortíð skal hyggja er frumlegt skal byggja, kvað Einar Benediktsson. Það er því mikilvægt að við eflum rækt okkar við sögu og menningararf þjóðar okkar. Saga Íslands frá lokum sjálfstæðisbaráttunnar er saga ótrúlegra framfara. Þær framfarir urðu ekki af sjálfu sér. Þær urðu til vegna þess frelsis sem Íslendingar öðluðust til að nýta tækifærin og þá hæfileika og kraft sem þjóðin bjó yfir. En þær urðu líka vegna þess hvernig við fórum með frelsið. Saga og menning landsins og gildismatið sem þróast hafði á Íslandi varð til þess að frelsið nýttist okkur vel. Þar er þáttur kirkjunnar ómetanlegur. Um aldir hafði starf kirkjunnar myndað tengingar sem héldu þjóðinni saman í þessu dreifbýla landi. Fyrir tíð almenns velferðar- og menntakerfis var kirkjan oft eina athvarf þeirra sem minna máttu sín. Hún rak það takmarkaða velferðarkerfi sem haldið var úti í hinu fátæka landi, fátækrahjálpina. Hún sá um lestrarkennslu og aðra fræðslu og var starfsvettvangur flestra Íslendinga sem komist höfðu til mennta. Á stundum veitti hún fulltrúum hins erlenda valdakerfis mótstöðu. Umfram allt er þó boðskaðurinn um samhjálp, náungakærleik, mannréttindi og að menn skuli koma fram við aðra eins og þeir vilji að komið sé fram við sig gildi sem mótað hafa samfélag okkar. Tækifæri okkar eru nú fleiri en fyrri kynslóða sem áður byggðu landið. Við ferðumst um heiminn, öðlumst fjölbreytilega reynslu og njótum menningar annarra þjóða. Við getum valið að búa og starfa með öðrum þjóðum og fólk annars staðar að getur til jafns kosið að lifa hér og starfa. Á þennan hátt er heimurinn smærri og tækifærin stærri en nokkru sinni fyrr. En okkar eigin saga og menning hjálpar okkur líka að meta menningu, reynslu og siði annarra þjóða. Það að rækta samkennd þjóðarinnar og sameiginlega vitund hennar um menningu sína, sérstöðu og vaxandi fjölbreytni fer því saman við góð og vaxandi samskipti við aðrar þjóðir. Kirkjan og trúin eru mikilvægur hluti af menningu okkar og sögu. Hún hefur mótað uppbyggingu samfélagsins, menntun, gildismat, velferðarkerfið, stofnanirnar og félagsstarfið. Það var því rökrétt að Mattías Jochumsson skyldi í skrifum sínum tengja trúna, náttúru landsins og frelsi þjóðarinnar nánum böndum.
Góðir kirkjugestir. Í dag minnumst við 70 ára afmælis lýðveldisins Íslands sem var stofnað hér á Þingvöllum 1944, þegar fullnaðarsigur var unninn í baráttunni fyrir sjálfstæðu þjóðríki á Íslandi. Þá samþykkti þingheimur nýja stjórnarskrá fyrir Ísland, þar sem fjallað er um stjórnskipan landsins, og rétti allra manna til mannréttinda, frelsis, skoðana og trúar sem hornsteinum samfélags okkar. Þessi réttindi, sem lýðræðisríki nútímans byggja á, rekja uppruna sinn til svipaðs tíma og þess þegar hugmyndir um þjóðríki og lýðræði ruddu sér til rúms. Engu að síður er í stjórnarskránni kveðið á um sérstakt hlutverk þjóðkirkjunnar og að ríkisvaldið skuli styðja hana og vernda. Þessi ákvæði stangast þó ekki á, enda gegnir þjóðkirkjan mikilvægu hlutverki fyrir samfélagið allt, í fortíð, samtíma og framtíð. Hér á þessum stað, á Þingvöllum, hafa lýðveldið, kirkjan og þjóðararfurinn bundist traustum böndum. Þingvellir eru fremsti þjóðminningarstaður okkar, svo notuð séu orð frú Vigdísar Finnbogadóttur. Þessi helgi reitur er sameiningartákn og sameign okkar allra.
Látum orð Jónasar Hallgrímssonar, sem hér hvílir að kirkjubaki, fylgja okkur þennan þjóðhátíðardag á Þingvöllum á 1140 ára afmæli Íslandsbyggðar:
Hver vann hér svo að með orku? Aldrei neinn svo vígi hlóð! Búinn er úr bálastorku bergkastali frjálsri þjóð. Drottins hönd þeim vörnum veldur; vittu, barn! sú hönd er sterk; gat ei nema guð og eldur gjört svo dýrðlegt furðuverk.Hamragirðing há við austur Hrafna rís úr breiðri gjá; varnameiri veggur traustur vestrið slítur bergi frá. Glöggt ég skil hví Geitskór vildi geyma svo hið dýra þing. Enn þá stendur góð í gildi gjáin kennd við almenning.