I Það sem þú gerir hefur afleiðingar. Stundum eru afleiðingar gjörða þinna beinar og augljósar, stundum óbeinar og huldar. Sumar þeirra koma ekki fram fyrr en í næstu kynslóðum, þegar þú ert horfinn af sviðinu. Vel má vera að þær afleiðingar breytni þinnar sem þú hvorki sérð né þekkir séu mun þýðingarmeiri en hinar sem þú ert þér meðvitaður um. Þú sérð ekki nema örlítið brot af afleiðingum þess sem þú hefur gert. Þú getur ekki ímyndað þér umfang þess sem þú hefur komið til leiðar. Þú hefur ekki hugmynd um öll vandræðin sem sem þú hefur komið öðrum í og þú gerir þér heldur ekki grein fyrir allri þeirri blessun sem þú hefur fært öðru fólki. Þú gengur til rekkju á hverju kvöldi án þess að þekkja alla þá atburðarás sem þú hefur sett af stað og sofnar á koddann þinn alsæll, grunlaus um öll þau ósköp sem þú hefur á samviskunni. Vald mannsins er að þessu leyti ógnvænlegt. Hann er alltaf að koma einhverju til leiðar. Eitt vængjatak fiðrildis gefur frá sér vart merkjanlegan þyt. Innan eðlisfræðinnar er til kenning um, að ekki þurfi nema eitt slíkt blak til að hafa áhrif á veðrið langt í burtu; þannig getur það verið þessum eina vængjaslætti fiðrildisins að þakka, að hvirfilvindurinn myndaðist ekki, sem annars hefði eytt borginni. Gamla spekin um að oft velti þúfa þungu hlassi fær þannig vísindalega útgáfu með hugtökunum „óreiðukenning“ og „fiðrildahrif“. II Og ekki bara þú ert í sífellu að hafa áhrif á aðra, meðvitað og ómeðvitað, líf þitt og örlög er háð gjörðum annars fólks, nær og fjær í tíma og rúmi. Þú ert alltaf að verða fyrir blessun og bölvun frá öðrum. Eftir því sem við vitum meira verður sú staðreynd sífellt ljósari og skýrari að engin manneskja er eyland. Við erum þvert á móti ein heild og hvert öðru háð. Það sem hver einstaklingur gerir hefur áhrif á heildina. Þess vegna er það ekki rétt að hver sé sinnar gæfu smiður. Gæfan getur verið okkar en það á hvorki við um efnivið hennar né steðjann og hamarinn sem hún er mótuð úr. Það er heldur ekki alls kostar rétt að hver sé sjálfum sér næstur. Við erum hvert öðru miklu nær en við höldum. Við erum upp á aðra komin. „Allt sem þér gerðuð einum minna minnstu bræðra, það hafið þið gert mér,“ segir Jesús. Guð er ekki bara þessi alltumvefjandi og fjarlæga stærð, hvorki úti í ómælunum né í dýpt frumspekilegra kenninga. Við þurfum ekki að sækja Guð ofan eða neðan. Hann er nær okkur en það. Jesús birtir okkur þann Guð sem er í bræðrum okkar og systrum, nær og fjær. Hann birtir okkur þann Guð sem er í mönnunum, náunga okkar. Hann birtir okkur þann Guð sem er samnefnari mennskunnar. „Allt sem þér gerðuð einum minna minnstu bræðra, það hafið þið gert mér.“ III Örlög okkar allra eru ekki einungis samofin í því sem við aðhöfumst heldur hefur það sem við látum ógert líka afleiðingar fyrir aðra, vöntunin á því vængjataki fiðrildisins sem afstýrt hefði hamförunum eða hvarf kornsins sem fyllt hefði mælinn. „Allt sem þér gerðuð ekki einum minna minnstu bræðra, það hafið þið ekki heldur gert mér,“ segir Jesús. Að þessu sinni er Dagur orðsins hér í Grafarvogskirkju tileinkaður þjóðskáldinu sr. Matthíasi Jochumssyni og sú er ástæða þess að ég stend hér í dag; ég er einn af eftirmönnum hans. Akureyrarkirkja og Sigurhæðir, hús skáldsins, standa saman uppi í Brekkunni. Bæði húsin varpa ljóma yfir Akureyrarbæ. Andi séra Matthíasar er hluti af vinnuumhverfi mínu. Húsið hans blasir við út um gluggann á skrifstofunni minn. Mynd af séra Matthíasi er í einum kirkjuglugganna og þar eru rituð upphafsorðin úr þjóðsöngnum, sem hann gaf okkur. Amma mín sáluga kunni sögur af séra Matthíasi. Hún þekkti fólk sem hafði verið sóknarbörn hans. Séra Matthías var góður prestur og hann reyndist þeim vel sem á einhvern hátt áttu um sárt að binda. Í söguköflum sínum segir hann til dæmis frá því þegar hann vitjaði dauðsjúkrar konu sem ekki þorði að deyja en gat ekki farið með bænir. Sálusorgarinn hughreysti konuna með því að segja að Guð ætlaðist ekki til langra bæna og bætti við: „Mundu, að þú ert sjúk, en frelsari þinn heilbrigður. Nú er rödd séra Matthíasar hljóðnuð en hann heldur samt áfram að hughreysta fólk og boða trú á kærleikans Guð í sálmum sínum. Það má því segja að prestsþjónustu hans sé ekki lokið. Sálmarnir hans lifa og ég veit að þeir hafa verið og eru enn til ólýsanlegrar blessunar í lífi fólksins. Séra Matthías er gott dæmi um það hversu víðtækar afleiðingar verk okkar geta haft. Ein lína úr sálmversi, sem hann samdi norður á Akureyri fyrir meira en hundrað árum, er kannski á þessu augnabliki að hella ljósi í vonlaust hjarta. Og hver veit nema línan hafi fæðst í heimsókn skáldprestsins til konunnar, sem ekki þorði að deyja. Þannig eru örlög okkar allra samofin og sá vefnaður liggur í gegnum kynslóðir og landa á milli. Ein hending sameinar þessa óþekktu dánu konu, þjóðskáldið séra Matthías og nútíma Íslending sem hefur áhyggjur af myntkörfuláninu sínu. Við erum hvert öðru háð og upp á hvert annað komin. IV Í því mikla umróti sem nú er í landinu er ekki nema eðlilegt að tekist sé á og orðsins brandi sveiflað. Með orðunum gerum við upp fortíðina og með orðunum búum við til þá framtíð sem við sjáum fyrir okkur. En þá tekur sig upp gamalt mein á Íslandi. Það hefur löngum þjáð þessa þjóð, að þegnar hennar kunna illa að tala saman. Í grein sem Pálmi Hannesson, fyrrverandi rektor Menntaskólans í Reykjavík, ritaði um miðja síðustu öld, gerir hann íslenska umræðuhefð að umtalsefni. Hann segir að hér standi „...flokkur gegn flokki og stétt gegn stétt, ekki til þess að þreyta rökræður með hófsemd..... heldur til að hagnýta til hins ýtrasta andúð, tortryggni og illfýsi.“ Pálmi segir að hér á landi séu stjórnmálaerjur almannaskemmtun og hún þyki dauf ef illdeilur vanti. Svo bætir hann við: „Fjórða hvert ár eru svo haldin allsherjarmót, þar sem menn og flokkar etja kappi. Vitanlega þurfa höfuðkempurnar að temja sér íþróttina til hlítar, enda verða sumar þeirra ótrúlega leiknar. En allur þorrinn kemur til mótsins, hver og einn keifandi með sinn pinkil af andúð, er hann steypir í hinn sameiginlega soðketil haturs og æsinga, sem lengi kraumar í síðan, svo að andrúmsloftið yfir blessuðu landinu er sem blandið eitraðri svælu úlfúðar, tortryggni og getsaka.“ Þessi gamla lýsing á landinu gæti verið úr nútímanum og það bendir til þess að enn eigum við margt ólært í þessum efnum, Íslendingar. Verk okkar hafa afleiðingar og það gera orðin líka. Máttur orðanna getur verið mikill. Þau hafa áhrif. Orð eru til alls fyrst. Þau skipta máli. Nú, á tímum hinna mörgu og stóru orða skulum við huga að orðunum sem við notum og hvernig við högum máli okkar. Þjónustan við náungann felst ekki einungis í því sem við gerum heldur líka í því sem við segjum. Með orðum er hægt að meiða og niðurlægja. Með orðum er hægt að valda ótta og skelfingu og draga máttinn úr fólki. Með orðum má skamma, en með þeim má líka rökræða, uppörva, styrkja, græða og lækna. Við erum hvert öðru háð í orðum ekki síður en verkum. Orðin berast landa á milli og geymast í hjörtum kynslóðanna. Sálmarnir hans séra Matthíasar eru dæmi um líknandi og uppbyggjandi mátt orðanna. Mættu þeir vera okkur til fyrirmyndar og leiðsagnar um hvernig við beitum málinu og Guði séu þakkir fyrir að hið líknandi og frelsandi Orð fær að hljóma á þessu landi, eða eins og séra Matthías segir sjálfur: „Það orð, sem græðir öll vor mein, það orð, sem vermir kaldan stein, það orð, sem kveikir kraft og móð og kallar líf í dauða þjóð.“ Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda.
Það orð sem kveikir kraft og móð
Flokkar