Margir Gyðingar voru komnir til Mörtu og Maríu að hugga þær eftir bróðurmissinn. Þegar Marta frétti, að Jesús væri að koma, fór hún á móti honum, en María sat heima. Marta sagði við Jesú: Herra, ef þú hefðir verið hér, væri bróðir minn ekki dáinn. En einnig nú veit ég, að Guð mun gefa þér hvað sem þú biður hann um. Jesús segir við hana: Bróðir þinn mun upp rísa. Marta segir: Ég veit, að hann rís upp í upprisunni á efsta degi. Jesús mælti: Ég er upprisan og lífið. Sá sem trúir á mig, mun lifa, þótt hann deyi. Og hver sem lifir og trúir á mig, mun aldrei að eilífu deyja. Trúir þú þessu? Hún segir við hann: Já, herra. Ég trúi, að þú sért Kristur, Guðs sonur, sem koma skal í heiminn. Jóh. 11. 19-27
Ég þakka elskulegar móttökur hér í Dómkirkjunni, og samstarf allt og samskipti fyrr og síðar við sóknarnefnd Dómkirkjunnar, presta og starfsfólk, dómorganista og kór, og það góða fólk sem rækir helgidóminn af svo miklum kærleika og trúfesti. Guð launi það og blessi allt. Ég bið söfnuðinum og þjónum hans blessunar á tímamótum þegar séra Jakob Ágúst Hjálmarsson lætur senn af störfum eftir farsælan feril hér sem dómkirkjuprestur, og nýr prestur tekur senn við, séra Anna Sigríður Pálsdóttir. Þeim báðum og nýskipuðum sóknarpresti, séra Hjálmari Jónssyni bið ég heilla og eins miðborgarpresti, séra Þorvaldi Víðissyni. Guð blessi ykkur öll og leiði á þessum mikilvægu krossgötum. Ég gleðst yfir öllu sem hér ber vitni um trúfesti og virðing við sögu og hefð þessa helga húss, og þess erindis sem kirkjan stendur fyrir. Ljós og andi lausnarans leiði kirkjuna sína, að fagnaðarerindið megi framgang frá og lífið góða dafna hér í borginni.
* Sagan sem er guðspjall dagsins er úr 11. kafla Jóhannesarguðspjalls, áhrifarík og saga, án hliðstæðu. Hún lýsir örvinlan og reiði og sorg, vanmætti og varnaleysi manns og sigri trúar, sigri lífsins, sigri Guðs! Hún er einstæð þessa saga. Hún er svo mannleg í látleysi sínu, svo blátt áfram og raunsönn í lýsingum sínum. Að hugsa sér til dæmis þetta, að Jesús kemur of seint. Hann vissi að vinur hans var dauðvona. En kom of seint. Ég held við getum öll ímyndað okkur eitthvað af þeirri angist og ásökun sem liggur að baki því sem þarna er sagt. Jesús kom of seint, útförin afstaðin og Marta hleypur á móti honum og gusar út úr sér í reiði: „Ef þú hefðir verið hér, þá væri bróðir minn ekki dáinn!“ Og við getum vel skilið hana! Þeir eru ófáir sem hafa hugsað eins og hún andspænis sorg og vonbrigðum og áföllum. En jafnframt reiðinni og vanmættinum býr Marta yfir trú á mátt Krists. Játning þessarar hispurslausu konu er hliðstæð játningu Péturs. Hún játar þá trú sem er grundvöllur kirkjunnar, þá trú sem við vorum skírð til og játuðum á fermingardegi. Trú að þessi Jesús frá Nasaret sé Kristur, frelsarinn. Þess vegna erum við hér. Vegna þeirrar játningar og trúar. Og hún er siguraflið, sem sigrar allt.
„Margir voru komnir til að hugga þær Mörtu og Maríu eftir bróðurmissinn.“ segir guðspjallið. Það minnir okkur á mikilvægi návistar og samfélags. Þetta hús er reist utan um slíka návist og samfélag. Já og gömlu, þykku veggirnir hér gætu sagt marga sögu af sorgarstundum og gleðistundum, þar sem samfélagið tók utan um einstaklinginn, eða öllu heldur, þar sem einstaklingarnir, fjölskyldurnar, samfélagið var umlukt og borið uppi af öðru samhengi og æðra, samfélagi heilagrar kirkju, sem lagði orðin á varir og atferlið sem veitti sorg og gleði, huggun og von farveg. Samfélag, nærvera frelsarans.
* Dómkirkjan í Reykjavík, þar sem hjarta borgarinnar slær. Alþingi hér beint á móti, höfuðstöðvar fjármálastofnanna – já, og öldurhúsin. Klukkan hér í turninum markar eyktir mannlifsins í borginni. Og minnir á eilífðina. Þegar hún var fyrst sett upp fyrir meir en hálfri annarri öld heyrðist hljómur hennar út á Nes. Nú er öldin önnur í henni Reykjavík. Hljómur dómkirkjuklukknanna heyrist vart gegnum dyninn. Og er ekki tími kirkjunnar líka liðinn? Er ekki búið að afskrifa hana af hálfu þeirra máttarvalda sem tóninn slá og taktinn gefa í íslensku samfélagi? Er þetta fornhelga hús nema minning um horfinn heim og hljóm? Alla vega er ekkert hér sem „breytir heiminum.“ Eða hvað? Þegar Víkurkirkja á Seltjarnarnesi varð dómkirkja og grunnur lagður að þessu húsi, þá var verið að leggja grunn að höfuðstað, höfuðborg. Og til þess þurfti dómkirkju. Vegna þess að borg er ekki aðeins götur, hús, verslun og viðskipti, heldur líka það sem mótar samfélag íbúanna, hefðir, menning, siður og sýn á það hvernig manneskjur við viljum vera, hvernig heim við viljum móta. Kirkjan var og er þar mikilvægt tákn og leiðarmerki og bendir á það viðmið sem kristinn boðskapur, trú og von veita. Og sá boðskapur stendur aldrei í tómarúmi og verður ekki aðeins lesinn af bók, -þó að sú bók sé sannarlega bók bókanna-, heldur í samfélagi kirkjunnar. Í iðkun og athöfn kirkjunnar mætum við orðinu sem hljómar af mannlegum tungum í samfélagi lifandi fólks til að snerta það, næra það og blessa það, og þann heim og það líf sem það lifir og hrærist í.
* Málefni miðborgarinnar hafa verið í brennidepli undanfarið og umræður almennt um skipulagsmál. Það er vel. Og það er lofsvert að yfirvöld borgar og löggæsla eru farin ganga fram af rögg til að stemma stigu við þvi alvarlega ástandi sem skapast hefur hér í miðborginni vegna hins hömlulausa skemmtanalífs sem hér hefur verið stuðlað að um nokkra hríð. Sífellt hefur verið reynt á þolmörkin með æ meiri yfirgangi, frekju, dónaskap og svívirðu skrílmenningar. Það er ekki aðeins þörf aukinnar löggæslu og aðhalds, heldur leita allra leiða að hamla gegn þeim öflum sem brjóta niður sjálfsvirðingu einstaklings og samfélags. Svo virðist sem flestar varnir séu æði veikar. Krafan um aukið aðgengi að áfengi fær æ meiri hljómgrunn, fíkniefnin eru falboðin í hverju skoti, og sífellt eru markalínurnar óskýrari varðandi það hvað umhverfið þolir af skepnuskap, hvað „manni er bjóðandi.“ Bendir þetta til þess að okkur hafi mistekist? Mistekist að skapa borgarlíf og siðmenningu sem laðar fram hið góða og hlynnir að lífi og velferð í samfélagi. Því eins og einu sinni var sagt: „Engin þjóð heldur lífi ef hún gerir sjálfa sig að skríl, sama hve göfug hún kann að vera inn við beinið.“
Nú þykir ýmsum krónan ónýt sem gjaldmiðill og íslensk tunga óhæf sem samskiptatæki hins öfluga, framsækna útrásasamfélags sem er Ísland í dag. Það var og. Víst er að gjaldmiðill byggir á og lifir af trausti til þeirra verðmæta sem hann ávísar á. Og það eru ekki aðeins verðmæti kauphallanna. Ég er ekki í vafa um að landið, tungan, sagan og trúin eru allra mikilvægustu þættirnir í því sem gerir okkur að þjóð meðal þjóða. Að menningarþjóð og velferðarsamfélagi. Vel má vera að við séum snjallari í viðskiptum en aðrir um þessar mundir, með meira fjármálavit og meiri möguleika að sækja fram á í viðskiptaheiminum. En snilli, vit og tækifæri er ekki nóg. Það þarf undirstöðu traustrar hefðar, gilda og siðferðis og sjálfsmyndar. Og það er nokkuð sem ekki fæst með skyndinámskeiðum og snöggsoðnum lausnum, heldur mótast og þróast með meðvitaðri rækt og uppeldi kynslóðanna.
* Mér varð hugsað til þess, þegar ungi listamaðurinn, Baldvin Oddsson var að spila hér áðan, að hann afi hans, Björn R. Einarsson, var hér ár eftir ár á jólum og spilaði með Páli Ísólfssyni, það setti hátíðarsvip á helgar stundir hér. Nú er þriðja kynslóðin mætt til leiks. Þriðja kynslóðin er manni eitthvað hugstæð um þessar mundir. Og spurningin áleitin: Mun okkar kristna trú og kirkja eiga sér barnabörn? Guð gefi það. Hvernig svo sem veröldin hefur vaggað og oltið þá hefur Dómkirkjan staðið hér á sínum stað. Hún hefur séð marga skálmöldina og oft hefur verið illa spáð fyrir því sem hún stendur fyrir og iðkar. Þegar Dómkirkjan var vígð í lok átjándu aldar var útlit ekki bjart fyrir kristnina í Evrópu, í kjölfar frönsku stjórnarbyltingarinnar, Frakkar höfðu meira að segja tekið sjálfan páfann til fanga! Nei útlitið var allt annað en bjart fyrir kirkju og kristni. En kristnin reis upp á ný. Og sá nýja landvinninga. Jú, Dómkirkjan hefur fyrr séð það svart. Dómkirkjuklukkurnar skæru ná ef til vill vart gegnum dagsins ys og götunnar glaum. En stundum fanga þær þó athygli alþjóðar, til dæmis á aðfangadagskvöld, þegar þær hringja helgi og frið yfir land og lýð. Ekki vildum við vera án þess. - En þetta gera þær aðeins vegna þess að Ríkisútvarpið sér til þess – Og það sem klukkurnar kalla til og minna á um ársins hring, það sem hér er iðkað og boðað og nært innan þessara veggja, það er líf sem sigrar dauðann í sérhverri mynd. Og BREYTIR HEIMINUM! Eflir andann, styrkir samfélagið, treystir grunnstoðir siðmenningarinnar. Guði sé lof fyrir það. Og Guði sé lof fyrir allt það góða fólk sem heldur þeirri iðkun og starfsemi uppi, já, og leggur lið með einum eða öðrum hætti að rækta, næra, efla og styrkja lífsgæði, menning og samfélag. Guði sé lof fyrir foreldrana ótal mörgu sem bera börn sín til skírnar og leitast við að kenna þeim að þekkja Guð og biðja í Jesú nafni, sem fylgja unglingunum eftir til fermingar, og vilja standa vörð um þann félagslega og menningarlega sess sem þessar hollu hefðir, athafnir og uppeldi hafa þó enn í vitund landsmanna. Guði sé lof fyrir góða kennara og leikskólakennara og leiðtoga ungs fólks sem bornir eru uppi af kærleika og hugsjón um hið góða, hið góða líf og góða samfélag góðs fólks á grundvelli hinna góðu gilda og sönnu verðmæta og hollu dyggða kristinnar trúar. * „Ef þú hefðir verið hér….!“ hrópaði hin örvinlaða Marta. En Jesús svarar: „Ég er upprisan og lífið, sá sem trúir á mig mun lifa þótt hann deyi….“ Þetta ítrekar Dómkirkjan. Hún vitnar um hann sem ER. Trúin á hann er siguraflið, sem sigrar. Við mætum hér útréttum faðmi og hlýrri hönd í vatni skírnarinnar og brauði og víni altarisins: „Ég er hér!“ segir hann við þig. „Þú ert minn!“ Við getum seint skilgreint það til hlítar en við þurfum þess ekki heldur. Vegna þess að játning trúarinnar er að þiggja og þakka og staðsetja sig í því samhengi sem heldur sig við þá návist, huggun og björtu von sem skín yfir og merlar lífið allt, og gegnum dagsins ys og götunnar glaum, og dauðans nótt og dimmar grafir. Mættum við öll stöðug standa í þeirri trú.