Arkað til heimkynna

Arkað til heimkynna

fullname - andlitsmynd Sighvatur Karlsson
25. desember 2005
Flokkar

Guðspjall: Jóh: 1. 1-14

Smásaga ein ber nafnið: “Heim á jólum”. Þar segir frá þremur ungmennum, tveimur stúlkum og einum pilti sem eru á leið úr skóla í jólaleyfinu. Þau þurfa að fara yfir heiði. Það brestur á þau blindbylur. Þau brjótast áfram en færðin sækist seint. Að lokum gefst önnur stúlkan upp. Pilturinn hagræðir henni á hennar skíðum og sínum. Svo dregur hann hana á skíðunum en hin stúlkan fylgist með. Og áfram brjótast þau. Loks sjá þau ljós. Þau stefna þangað og nýr kraftur færist í þau. Ljósið skýrist. Þau koma að uppljómuðu húsi og til þeirra berst ómur af söng út í geigvænlega stórhríðina. Þau heyra að sunginn er sálmurinn “Heims um ból”. Þá stendur hin aðfram komna stúlka upp og hrópar fagnandi: “Við erum komin heim”. Það reynist svo að þarna er kirkjukór að æfa söng fyrir jólaguðsþjónusturnar.

Sagan er ekki lengri en hún talar til okkar allra á þessum helga jóladegi því að í sameiningu höfum við leynt og ljóst stefnt saman til ljóssins á aðventunni sem rann síðan upp fyrir okkur á jólum. Kertaljósin á hátíðarborðinu í gærkvöldi voru mild og hlý og minntu hvert fyrir sig á það ljós sem kom í heiminn með lausnaranum sem lagður var lágt í jötu.

Þegar við lögðumst til svefns á jólanótt þá hefðum við gjarnan getað tekið undir með skáldinu Guðmundi Guðmundssyni sem orti.

Ó gef mér barnsins glaðan jólahug við geisla ljósadýrðar vært er sofnar. Þá hefir sál mín sig til þín á flug og sérhvert ský á himni mínum rofnar.

Kertaljósið er einnig á altari þessa helgidóms sem minnir á jötu frelsarans. Jólaljósið sjálft skín í sálum okkar, ekki síst ef okkur hefur auðnast að opna hjartadyrnar fyrir þessu blessaða ljósi eins og stúlkan gerði í sögunni sem stefndi á ljósið og fann það og heyrði jafnframt hinn fagnaðarríka söng sem einnig fann sér leið að hjarta hennar og huga.

Að sönnu eigum við öll minningar um bernskujólin. Þau sem eldri eru minnast fábreyttara helgihalds en nú tíðkast þar sem hangikjötsilmur leið um loftið inn um dyr og gættir í burstabænum. Þar var allt sópað og prýtt og hátíðin undirbúin eins og best var kostur. Gjafirnar, nýir sauðskinnskór, spil og ekki síst kerti sem logaði svo glatt í baðstofunni og minnti á frelsara mannanna. Ég man eftir eplalyktinni frá mínum barnsárum í Reykjavík en þá fengust þau aðeins á jólum. Ég man líka eftir englahárinu sem ég hjálpaði mömmu og pabba við að umlykja jólatréð með. Þá vissi ég ekki hvaða hlutverk englahárið gegndi. Nú veit ég að jólatréð merkir jötuna og að englahárið minnir á köngulóarvef sem helgisögn segir að könguló hafi ofið fyrir hellismunna nokkurn til að Heródesarsinnar fyndu ekki Jesú barnið sem var á flótta til Egyptalands ásamt foreldrum sínum. En einna skærust er minningin um kertaljósin sem pabbi tendraði jafnan á hátíðarborðinu þegar jólin gengu í garð kl. 18 og útvarpsmessan sem fjölskyldan hlýddi andagtug á. Ég vil ekki segja að hún hafi glumið í eyrum mér en ég man að ég vildi þá stundum helst slökkva á útvarpinu!. Það sagði ég vitaskuld engum!

Jólunum fylgja ýmsir siðir sem eru í hávegum hafðir og er það vel. En kertaljósið hygg ég að sé það tákn sem flestir geta skilið í sínum einfaldleika. Það stríðir gegn myrkrinu sem nú ríkir í svartasta skammdeginu. Það minnir okkur einnig svo vel á það góða og heilbrigða vald sem leitar ekki síns eigin, en það er máttur kærleikans sem umvefur okkar brothætta líf á svo margvíslegan máta. Pilturinn í sögunni góðu hjálpar t.d. stúlkunni sem hafði gefist upp í blindbylnum. Hann reyndist henni sannur ljósberi.

Lítil þriggja ára stúlka sem ég skírði og ber nafnið Elsa Dögg var mér og brúðkaupsgestum s.l miðvikudagskvöld mikill birtugjafi þar sem hún sýndi mér hvað eftir annað leikfangið sitt sem hún var svo hrifin af. “Sjáðu eðluna mína”, endurtók hún í sífellu og nuddaði henni utan í mig. Þessi litla stúlka og pilturinn í sögunni leituðust við hvert með sínum hætti að endurvarpa broti af því ljósi sem kviknaði við sköpun heimsins er Guð mælti “Verði ljós! Þetta orð varð síðan hold í barninu í jötunni, manninum á krossinum, hinum upprisna Jesú Kristi.

Jóhannes guðspjallamaður heldur því fram í guðspjalli dagsins sem nefnt hefur verið jólaljóðið að Jesús Kristur hafi verið þetta Orð sem þá heyrðist er himinninn og jörðin urðu til. “Í upphafi var Orðið og Orðið var hjá Guði og Orðið var Guð”. Samkvæmt þessu heldur Jóhannes því fram að Jesús hafi alltaf verið til. Hann segir að í honum hafi ætíð verið magnaður sköpunarkraftur sem hafi verið leystur úr læðingi við sköpun heimsins sem náði hámarki þegar þetta Orð varð hold, þ.e.a.s. varð barn í jötunni sem óx upp, fullt náðar og sannleika. Við skulum ekki gleyma því í þessu sambandi hversu fræðimennirnir undruðust þekkingu hans þegar hann dvaldi 12 ára hjá þeim í musterinu.

Jóhannes segir um Jesú á öllum aldursskeiðum:: “Í honum var líf og lífið var ljós mannanna”.

Hinir hyggnu fræðimenn undruðust þekkingu þessa barns en þeim var gjörsamlega hulið að Guð sjálfur væri þarna mitt á meðal þeirra í þessu barni sem mælti þó af þvílíkri speki að annað eins hafði ekki heyrst. Þá sannaðist sem fyrr að fagnaðarerindið er hulið hyggindamönnum en opinberað smælingjum.

Þeir sem höfðu sundurmarið hjarta, þeir sem þurftu á hjálp að halda skynjuðu hins vegar sterkt að Guð sjálfur var að verki í barninu í jötunni sem þroskaðist af visku og náð til fulltíða manns og uppfyllti boðorð Guðs með því að vera hreinn og lýtalaus frammi fyrir Guði og mönnum. Engin svik voru til í dagfari hans, hvorki oflátungsháttur né eigingirni. Þess í stað talaði alþýða manna um það að Jesús benti með orðum sínum og viðmóti á það sem væri gott, fagurt og fullkomið. Fólkið talaði um það að Jesús hefði sjálfur sýnt fram á það með lífi sínu og starfi að kærleiksboðorðið sem hann setti sjálfur fram væri æðst allra boðorða. Þar segir m.ö.o. við eigum að elska Guð með öllu því góða sem prýðir okkur og náungann eins og okkur sjálf. Að sönnu var það erfitt þá rétt eins og það er erfitt núna að fylgja þessu boði til hlítar vegna þess að við lifum í föllnum heimi sem þekkti ekki Guð sjálfan sem kom í barninu í jötunni sem varð fólkinu sem hann kom til sönn fyrirmynd.

Jóhannes guðspjallamaður heyrði um þessar vangaveltur fólksins og segir ennfremur í jólaljóðinu:

“Hið sanna ljós sem upplýsir hvern mann, kom nú í heiminn. Hann var í heiminum og heimurinn var orðinn til fyrir hann en heimurinn þekkti hann ekki”.

Það er að sönnu hryggilegt, þyngra en tárum tekur að mannkynið hafi hafnað lausnara mannanna meðan hann gekk um á jörðinni og gerði gott. Við sem nú lifum erum enn að hafna honum með ýmsum hætti því að geislabroti frá frelsara mannanna sem er ljós heimsins bregður fyrir í sérhverri manneskju sem dregur andann á þessari jörð. Syndugt mannlegt eðli kemur bersýnilega í ljós þegar fólk gerir ranga hluti og kemur illa fram við aðra.

Jólaboðskapurinn er ákaflega mikilvægur, ekki síst í þessu ljósi. Þrátt fyrir allt er Jesús mitt á meðal okkar í anda sínum og laðar okkur til fylgis við sig til að framkvæma hið góða, fallega og fullkomna, gera þennan heim betri eftir því sem okkur er unnt. Ef hrösunarhella verður á vegi okkar þá fyrirgefur Jesús okkur og hjálpar okkur að standa á fætur. Þ.e.a.s. ef við erum tilbúin að líta í eigin barm og iðrumst synda okkar. Jóhannes guðspjallamaður undirstrikar að Jesús hafi gefið þeim sem trúa á nafn hans rétt til að verða Guðs börn.

Sá sem trúir í hjarta sínu að Jesús hafi dáið fyrir syndir sínar og játar það með vörum sínum verður ný manneskja, Guðs barn. Þetta er jólagjöf sem er dýrmætari en veraldlegur auður og heldur þegar allt annað bregst. Auðæfi jarðar eru sem hismi í samanburði við þessa staðreynd vegna þess að á líkklæðunum eru engir vasar. Hin sanna hamingja og lífsfylling fæst með því að leitast við að dvelja í jólaljósinu árið um kring, íhuga t.d. guðspjöllin þar sem orð Jesú er að finna, biðja í nafni hans, koma eins fram við náungann og við viljum að sé komið fram við okkur. Hafa þannig gullnu regluna og kærleiksboðorðið í huga þegar við göngum í gegnum lífið. Takist okkur þetta þá skynjum við sterkt að Jesús er samferðamaður okkar í lífinu og sannur og tryggur heimilisvinur. Af guðspjallinu má ráða að einmitt þetta hafi verið reynsla þeirra sem Jóhannes guðspjallamaður ræðir um er hann segir að lokum í jólaljóðinu:

“Og Orðið var hold, hann bjó með oss, fullur náðar og sannleika, og vér sáum dýrð hans, dýrð sem sonurinn eini á frá föðurnum”.

Pilturinn og stúlkan lentu í hríðarbyl í sögunni góðu. En þeim jókst kraftur á göngunni heim þegar þau sáu ljósið.

Lífið okkar er alls ekki dans á rósum. Við mætum öll ýmis konar erfiðleikum og áföllum á vegferð okkar. Þess vegna er svo mikilvægt að hafa ljós heimsins, Jesú Krist fyrir augum. Best væri þó að varðveita hann sem best í hjarta sér en þar verður ljósið skýrast. Það er þess virði að halda sér fast við hann í tímans straumi því að hann reisir við niðurbeygða, syrgjendum gefur hann von og þróttlausum þrótt og kraft til ferðarinnar á hjarninu. Þá komumst við klakklaust heim, - og að lokum til heimkynna okkar á himnum. Megi góður Guð gefa okkur yl í hjarta og sól í sinni á þessum jólum og þegar þeim sleppir í Jesú nafni. Amen.

Friður Guðs sem æðri er öllum skilningi, varðveiti hjörtu yðar og hugsanir í Kristi Jesú Drottni vorum.