Við hvað á ég að líkja þessari kynslóð? Lík er hún börnum sem á torgum sitja og kallast á: Vér lékum fyrir yður á flautu og ekki vilduð þér dansa. Vér sungum yður sorgarljóð og ekki vilduð þér syrgja. Jóhannes kom, át hvorki né drakk, og menn segja: Hann hefur illan anda. Mannssonurinn kom, át og drakk, og menn segja: Hann er mathákur og vínsvelgur, vinur tollheimtumanna og bersyndugra! En spekin sannast af verkum sínum.“Þá tók Jesús að ávíta borgirnar, þar sem hann hafði gert flest kraftaverk sín, fyrir að hafa ekki tekið sinnaskiptum. „Vei þér, Korasín! Vei þér, Betsaída! Ef gerst hefðu í Týrus og Sídon kraftaverkin, sem gerðust í ykkur, hefðu þær löngu iðrast í sekk og ösku. En ég segi ykkur: Týrus og Sídon mun bærilegra á dómsdegi en ykkur. Og þú, Kapernaúm. Verður þú hafin til himins? Nei, til heljar mun þér steypt verða. Ef gerst hefðu í Sódómu kraftaverkin, sem gerðust í þér, þá stæði hún enn í dag. En ég segi yður: Landi Sódómu mun bærilegra á dómsdegi en þér.“ Matt 11.16-24
Upp, þúsund ára þjóð, með þúsund radda ljóð. Sálmur sr. Matthíasar Jochumssonar, sem þannig hefst og við vorum að syngja, ber með sér áþekk fagnaðarstef og lofsöngur hans. Ó, Guð vors lands, sem varð þjóðsöngur Íslendinga. Vel fer á því að syngja þennan sálm í lágreistri Þingvallakirkju. Hún minnir í þjóðarhelgidómi Þingvalla á góðan Guð er í andblæ og sólarskini helgar vellina víðu. Skín sól á sumarfjöll / og signdu vatnaföll. / .. gjör fjöll að kristallskirkjum/ og kór úr bjarga virkjum.
Þetta hefur orðið á Þingvöllum. Hér eru kirkjur og kór úr bjarga virkjum og lindir og lífæðar Íslands í margs konar skilningi og hér slær hjarta þess. Sé gætt að þeim hjartslætti skerpast næmi og skilningarvit og það fær gerst, sem annað þjóðskáld Jakob J. Smári, lýsir sem reynslu sinni á Þingvöllum. Nú heyri ég minnar þjóðar þúsund ár/ sem þyt í laufi á sumarkvöldi hljóðu.
Hingað á Þingvöll sækir þjóðin uppörfun og leiðsögn í sögu sína og menningararf og blessun í náðarlindir lifanda Guðs. Þingvallakirkja bendir með hógværu látleysi í himin hans og hæðir og jafnframt á sköpunarundur sem gefur á að líta. Með því opnar hún víða sýn og víddir og glæðir trúarkennd og Guðsríkisþrá. Á helgum völlum í þyti og andblæ liðinnar sögu nær þjóðin áttum, hafi hún hrakist af leið og vikið frá hugsjónum sínum um frelsi og manngildi og getur iðrast synda, endurmetið viðhorf og verk og sótt sér rétt stefnumið.
Kristnihátíðin árið 2000 á Þingvöllum, þegar minnst var kristnitökunnar árþúsundi áður, var böðuð sól og blessuð og minnisstæð öllum sem þátt tóku í eða fylgdust með henni. Enn skein glampandi sól fáeinum dögum síðar er þátttakendur á alþjóðlegri ráðstefnu um Faith in future, trú í framtíð, og trú á framtíð, komu hingað á Þingvelli.
Ráðstefnan, sem að öðru leyti var haldin í Reykjavík, var liður í hátíðarhöldunum. Hana sóttu merkir vísindamenn, heimspekingar og guðfræðingar helstu heimstrúarbragða og ræddu um framtíð mannkyns á nýrri öld og leiðir til þess að hagnýta vísindaþekkingu og innsæi trúarbragða til að vinna markvisst lífi til gagns og gleði. Þeir litu á á hið friðsæla Ísland, umgirt sæ mitt á milli heimsálfa sem tilvalinn stað til að horfa vítt yfir sögu og samtíð og huga að ábyrgri stefnumörkun fyrir framtíðina, og einkum Þingvelli, þar sem unnið var að þeirri merku og sögulegu sáttagerð, sem verið var að fagna. Þeim var ljóst að vísindaþekking krefst ábyrgðar og árvekni svo að nýtist til heilla og ekki má afskræma og misnota trúarbrögð til að tendra og glæða ófriðarbál. Leggja ber áherslu á, að fögur siðferðileg viðmið þeirra séu leiðarmerki framtíðar og vinna að því að óábyrg auðhyggja víki fyrir hugsjónum um velferð mannkyns og stuðla að því að lífsvernd og lífsuppbygging verði að eftirsóknarverðum markmiðum.
Þessar hugsjónir hafa því miður ekki fengið þann hljómgrunn og framgang sem vonast var til. Skilyrði virtust þó vera til þess víðs vegar í veröldinni við árþúsundamót að rækta það vel víngarð sköpunar og lífs, að hann gæfi af sér gæðavínber, svo að mið sé tekið af lexíu dagsins, en hann hefur þess í stað svo víða borið muðlinga, friðarvonir hjaðnað, átakaeldar logað.
Flæði fjármagns var mikið en nýttist lítt til að bæta lífsskilyrði og kjör þurfandi fólks í veröldinni. Það jók áhrif og umsvif fjármálafyrirtækja og forhertra og sjálfumglaðra auðjöfra en jafnframt misrétti, raunir og þrautir fjölmargra enda sú óhefta markaðshyggja, sem fylgt var, ekki mótuð af umhyggju fyrir velferð mannkyns. Hömlulaus græðgi leiddi þó óhjákvæmilega til bakslags, efnahagshjöðnunar og hruns fjármálakerfa og fyrirtækja með hvað afdrifaríkustu afleiðingum hér á landi enda hvað hraðast hér og héðan sótt fram í ofdirfskufullum útrásar -og víkingahug.
Varúðarmerki komu fram og mörg aðvörunarljós kviknuðu um hættur sem steðjuðu að samfélaginu en þeim var ekki sinnt. Voru aukin misskipting auðs og glæpatíðni samt ekki augljós vottur um siðspillingu og (s)ýktir lífshættir og þreytandi þensla ekki tákn um röng lífsgildi?
Hættumerki birtust greinilega í þeim vexti og stærð útrásarfyrirtækja sem mældist margföld árleg þjóðarframleiðsla, þótt fáir gættu að þeim. Úr fjarska voru umsvifin að sjá sem aðdáunarverð framsækni smáþjóðar er með færni og yfirburðum sínum jafnaðist á við milljónaþjóðir með framtaki og fjármálasýslu.
Háskatáknin sýndu sig líka sem aðfinnslur og rökstudd gagnrýni erlendra eftirlitsaðila, sem eindregið og ítrekað vöruðu við háttalaginu og töluðu fremur um ofdirsku og háskaleik en trausta og örugga stöðu og för. Uppskrúfaðar arðsemistölur, innherjaviðskipti og krosseignatengsl fengu ekki dulist glöggum augum sem greindu að fjármálafyrirtækin, er virtust traust, stóðu í raun á brauðfótum og voru áhættusamir vogunarsjóðir.
Á það var bent að íslenska ríkið gæti ekki ábyrgst og staðið við fjárkröfurnar, ef illa færi, og því þyrfti að tengja ábyrgðir við innlánasjóði og efirlitsstofnanir í þeim löndum, þar sem fjármálastarfsemin færi fram.
Hörmulegt hrun íslenskra banka og efnahagskerfis hefur dregið fram mistök og misfellur, brot og bresti í stjórnun og eftirliti og leitt af sér kreppu og þrengingar, ógnað fullveldi og framtíð íslenskrar þjóðar.
-Það er ekki svo sem Guðs orð hafi brugðist, segir í pistli dagsins. ( Róm 9.6) Það á einnig við hér og nú. Fyrirheiti hans um líkn og lausn er enn virkt og gefst í fagnaðarerindi Jesú Krists. Það veitist þó hvorki né virkjast nema fyrir endurskoðun og iðrun, viðurkenningu á því sem misfarist hefur.
Vandasamt er að rata einstigið til heilla og komast undan því að tapa efnahagslegu sjálfstæði, erfitt að finna ásættanlega lausn í Icesavemálinu og uppfylla kröfuna um uppgjör og greiðslur. Jafnframt gerhygli, einurð og festu til varnar íslenskum þjóðarhag þarf það ljós og leiðsögn að veitast Guði frá sem miðar til heilla. Því er trúin sem lifandi samband við Guð í Jesú nafni afar mikilvæg í þessum áföllum og ólgusjó,
Börn og ungmenni þarfnast mjög trúarskjóls og styrks á erfiðum tímum. Þau finna með sínum hætti fyrir óvissu og öryggisleysi vegna ótryggs efnahagsástands engu síður en þeir sem eldri eru. Það sýnir sig í viðbrögðum þeirra, líðan og leikjum.
Frelsarinn vildi að börn kæmu til sín, svo að hann fengi blessað þau og hefur gefið leikjum barna gaum, tekið eftir því, að þau líktu að sjálfsögðu mjög eftir framkomu fullorðinna, hegðun þeirra og háttum. Þau hafa hermt eftir þeim, þóst vera flautuleikarar, sem léku gleðisöngva og einnig líkt eftir útfararsiðum og sungið sorgarljóð svo sem lýst er í Guðspjallinu.
Börn leika sér alltaf og líkja eftir því sem þau sjá og heyra. Marteinn Lúther sagði forðum, að embætti barnsins væri að leika sér. Hlutverk barna í heimi Guðs er að leika sér, því að í leikjum sínum læra þau á lífið og átta sig í samskiptum við aðra. Í leik tjá þau tilfinningar sínar, ótta og kviða, tilhlökkun og gleði, læra að virða leikreglur, læra að bera virðingu fyrir öðrum, sé þess jafnframt gætt að þroska þá virðingu með góðum fyrirmyndum.
Þegar efnt er til leikja verða þau sem ætla sér að leika saman að vera sammála um hvað gera og leika skuli, en togstreita getur orðið um það eins og margt fleira. Þegar reynt er að slá á létta og ljúfa strengi hrífur það ekki nema suma og svo ef slegið er á þá þyngri og dekkri er það eins.
Jesús vekur í Guðspjallinu athygli á því að líta megi í slíku samhengi boðun Guðsríkis og viðtökur við henni. Jóhannes skírari var agaður, strangur við sjálfan sig og iðkaði meinlæti. Hann flutti áhrifaríkan iðrunarboðskap, vísaði á nálægð Guðsríkis sem ætti að undirbúa sig fyrir með því að iðrast synda sinna og láta skírast iðrunarskírn. En fundið var að honum. Hvað átti það ofstæki hans að þýða að hírast úti í eyðimörk og nærast á engisprettum og villihunangi?
Jesús var um margt ólíkur Jóhannesi. Hann gaf hiklaust til kynna að Guðsríkið væri framkomið í boðun sinni og gjörðum og deildi geði við hvern sem var, tók tillit til mismunandi aðstæðna og lífskjara, setti sig fordómalaust í annarra spor, fann til með særðum og beygðum, útskúfuðum og voluðum mönnum og opnaði þeim aðgang að gleði Guðs, sem hann miðlaði í umskapandi orðum og líknarverkum. En hann þótti oft vera óagaður og taumlaus. Hann neytti víns og át vel í veislum og gaf sig meira að segja að bersyndugum mönnum og úthrópuðum landráðamönnum. Hvers konar svívirða var það við velsæmi og rétta reglu? Þrátt fyrir speki sína og undursamleg verk var hann því af mörgum léttvægur fundinn.
Jesús hryggist yfir því, að hvorki dómsorð né kærleiksboðskapur um fyrirgefandi líkn og elsku hrærðu verulega við kynslóð hans og fékk hana til að breyta um lífstakt og stefnu og taka þátt í lífsdansinum glaða og hjálpræðisáætlun Guðs, sem hann birti með spámannlegu valdi, táknum og undrum.
Og líkt er enn, hvað það varðar að fæstir huga sem skyldi að augljósum táknum og merkjum er mikið hafa að segja. Flest undum við okkur vel í hröðum leik og sjónarspili efnahagsuppsveiflunnar og ráðamenn veigruðu sér við því að stíga harkalega á bremsur þrátt fyrir hættumerki, létu hvorki segjast af beinskeyttum andmælum né lágværri gagnrýni. Og áfram var hvatt til arðbærra hluta -og verðbréfakaupa þar til að hrunið afhjúpaði skyndilega blekkingarnar mörgu og sýndarveruleikann. Sljóleiki og sjálfsblekking deyfa skynsemi og aðgát og hefta líka framgang fagnaðarerindisins hvort sem hljómur þess er strangur og áminnandi, eða glaður og blíður. Fagnaðarerindi Jesú Krists berst og birtist nú eins og áður sem dómur yfir syndum og misferli. Það afhjúpar sljóleika og svik, röng viðmið og fölsk lífsgildi. En dómsorðið er ekki endanleg niðurstaða svo að hlutskiptið, er borganna beið, sem Jesús vísar til í Guðspjallinu, er ekki óhjákvæmilegt, því að jafnframt iðrunarkröfu sinni miðlar erindið hans góða endurnýjandi lífsstraumi og krafti, sé við því tekið í eftirsjá og einlægri þrá eftir upprisu og endurreisn.
Þingvellir eru helgidómur íslenskrar þjóðar. Hér slær hjarta landsins. Hér eru rætur menningar og þjóðararfs. Og saga þjóðarinnar berst hér að opnum huga og heyrn sem þytur í laufi á sólríku sumri. Lágreist Þingvallakirkja vísar á þær rætur og nærandi andblæ og lífslindir Guðs og minnir á tryggðarböndin við hann í Jesú nafni.
Þrátt fyrir efnahagshrun og hremmingar fyrir land og þjóð, er af því hljótast, er árangursrík endurreisn þjóðarhags að hefjast, sé afl hennar sótt í dýran þjóðararf og þá lifandi Guðstrú og kristni, sem er megin veigur þess arfs og eflir manndáð og drengskap, samstöðu og samkennd, ábyrgðarkennd og elsku.
Sú trú ber sér vitni og birtist í bæn með þessum og áþekkum orðum:
Kom, Jesú Kristi trú. Kom, kom og í oss bú. Kom, sterki kærleiks kraftur, þú kveikir dáið aftur. Ein trú, eitt ljós, einn andi í einu fósturlandi. ( Matth. Jock.)