Þér hafið heyrt að sagt var: ‘Þú skalt elska náunga þinn og hata óvin þinn.’ En ég segi yður: Elskið óvini yðar og biðjið fyrir þeim, sem ofsækja yður, svo að þér reynist börn föður yður á himnum, er lætur sól sína renna upp yfir vonda sem góða og rigna yfir réttláta sem rangláta. Þótt þér elskið þá sem yður elska, hver laun eigið þér fyrir það? Gjöra ekki tollheimtumenn hið sama? Og hvað er það, þótt þér heilsið bræðrum yðar einum. Gjöra heiðnir menn ekki hið sama? Verið þér því fullkomnir, eins og faðir yðar himneskur er fullkominn. Matt 5.43-48
Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi.
Við kristnir einstaklingar gerum okkur flest ljóst að Guð kristindómsins er persóna. Hann stendur okkur nærri. Við getum talað við hann og heyrt hann tala til okkar. Hann er Guð sem hefur ásjónu, hendur og faðm. Það er ekki unnt að orða þetta betur en að segja að Guð sé kærleikur. Þegar við gerum okkur betur og betur grein fyrir því að við erum elskuð af Guði þá verðum við þátttakendur í því sem ég vil nefna raunverulegt kærleiksævintýri þar sem Guð tekur þátt í ævintýri lífsins með okkur og við með honum. Þá glæðist kærleikssambandið við Guð og það samband hefur góð áhrif á allt okkar líf. Þegar við hugleiðum það sem Drottinn hefur sagt og gert í kærleika, þá stendur hann okkur smám saman lifandi fyrir hugskotssjónum. Það skapast vináttusamband sem fer stöðugt dýpkandi og verður innilegra. Það sem einkennir vináttu sem þróast felur í sér að sjálf orðin verða með öllu óþörf. Orðin hverfa ekki með öllu en þögnin öðlast sífellt meira vægi. Þetta er ekki inntakslaus og þrúgandi þögn. Hún segir okkur að vináttan hafi skotið svo djúpum rótum að ekki sé ávallt unnt að tjá hana með orðum. Við tökum oft eftir þessu hjá öldruðum hjónum hvað þögnin öðlast sífellt meira vægi með árunum þar sem þögnin leggur ríka áherslu á vináttusambandið sem ríkir milli hjónanna.
Í sumar hef ég tekið eftir mörgu fólki af öllum þjóðernum sem hefur átt það sameiginlegt að ganga inn í þennan helgidóm og setjast niður. Það hefur síðan leitast við að beina athygli sinni og kærleika til Guðs í kyrrð og ró, áreynslulaust og án þess að hafast neitt að um stund.
Við höfum flest notið kærleiksríkrar athygli í bernsku. Það ætti ekki að þurfa að segja móður að elska barnið sitt. Móðir sem vakir yfir veiku barni sínu talar ekki við það í sífellu, hún hugsar ekki í sífellu um barnið, hún horfir einungis á það og elskar. Aldraðir hafa mikla þörf fyrir kærleiksríka athygli þegar elliárin færast yfir. Haft er á orði að tvisvar verði hver maður barn. Það er hollt fyrir okkur yngra fólkið að hafa þetta í huga og gleyma ekki aldraða fólkinu. Veitum því jafnan athygli í kærleika.
Í fyrradag var viðtal í kvöldfréttum sjónvarps við Margéti Margeirsdóttur sem er formaður félags eldri borgara í Reykjavík. Hún sagði að það væri full þörf á því að gefinn yrði meiri gaumur að óskum aldraðra hvað búsetumál snertir. Öldruðu fólki sé hrúgað inn á elliheimili jafnvel gegn vilja þess. En í könnun sem gerð var á meðal aldraðra á elliheimilum kom fram að meirihuti aðspurðra væri þar gegn vilja sínum. Þeir vildu fremur vera á heimilum en á stofnunum. Niðurstaða þessarar könnunar ætti að vera ráðamönnum í sveitarfélögum holl áminning um að hlusta betur eftir þörfum aldraðra og leitast þannig við að mæta þeim eftir bestu getu. Það sýnir sig að á næstu árum mun öldruðum fjölga hlutfallslega mjög mikið. Því er brýnt að taka ákveðið á búsetumálum þeirra og búa þeim friðsælt ævikvöld sem næst ættingjum sínum og vinum. Ekki á stórum stofnunum heldur í smærri íbúaeiningum í sveitarfélögum landsins. Það hefur sýnt sig að þar sem sveitarfélögin hafa tekið til sín málaflokk fatlaðra þar hefur tekist að búa vel að fötluðum einstaklingum í manneskjulegu umhverfi þar sem hver og einn fatlaður einstaklingur hefur miklu meira rými en áður tíðkaðist á stærri stofnunum. Og stuðningsnetið um hvern og einn fatlaðan einstakling er þéttara og heillavænlegra fyrir hann. Ég hygg að svipað geti orðið upp á teningnum ef horfið yrði frá stórri stofnanatengdri búsetu aldraðra til reksturs smærri heimila fyrir þá þar sem færri einstaklingar búa saman á ævikvöldi. Það er vert að huga að því að mínum dómi. Þá skapast nánari tengsl milli aldraðra íbúa innbyrðis annars vegar og milli þeirra og starfsfólks hins vegar.
Önnur frétt vakti einnig athygli mína í vikunni en það var fréttin af rosknu hjónunum sem ákváðu að gefa bosnísku flóttafólki meiri hlutann af búslóðinni sinni. Eins og við höfum heyrt þá eru nokkrar fjölskyldur að flytja til landsins frá Bosníu og ætla þær að setjast að í Reykjavík. Ein þeirra mun njóta góðs af þessari höfðinglegu gjöf hjónanna sem höfðu á orði að sælla væri að gefa en þiggja. Það er að sönnu rétt hjá þeim.
Það er vert að minnast á þetta góða framtak í tengslum við lesturinn úr gamla testamentinu sem ég las hér áðan en þar segir um réttlætið og kærleikann: “Sú fasta sem mér líkar er að leysa fjötra rangsleitninnar, láta rakna bönd oksins, gefa frjálsa hina hrjáðu og sundurbrjóta hvert ok, það er að þú miðlir hinum hungruðu af brauði þínu, hýsir bágstadda hælislausa menn og ef þú sér klæðlausan mann að þú þá klæðir hann og firrist eigi þann sem er hold þitt og blóð” Og í framhaldinu í þessum fallega texta kemur fram að Drottinn muni blessa hvern þann ríkulega sem gefur af sér í garð þeirra sem eru þurfandi til líkama og sálar.
Byggjum betra samfélag er yfirskrift herferðar sem Rauði krossinn fór af stað með til að kynna starf sitt m.a. í þágu þessara bosnísku flóttamanna sem stjórnvöld hafa heimilað að setjast hér að. Það er nauðsynlegt að vekja máls á þessu og raunar halda þessu máli vakandi í þjóðfélagsumræðunni til þess að minnka fordómana hjá landanum.
Íslendingar hafa skyldur á alþjóðavettvangi að taka við flóttafólki eins og aðrar þjóðir. Vart hefur verið við aukin þrýsting erlendis frá um að við tökum við fleiri flóttamönnum. Við verðum að fara varlega í þessum efnum en þó leitast við að vera virkir þátttakendur í hópi þeirra þjóða sem vilja taka á móti flóttafólki uppfylli flóttamenn skilyrði sem við setjum þeim á hverjum tíma, .t.d hvað fjölskyldustærð varðar, menntun og tungumál.
Við verðum að gefa okkur að eitthvað gott búi innra með öllu fólki á jörðinni. Það er þetta sem mér finnst Jesús vilji kenna okkur í dag í guðspjalli sínu þar sem frelsarinn brýtur blað í sögu lögmáls gyðinga og setur kærleiksboðorðið á oddinn og segir að í stað þess að hata óvinina sé mikilvægara að elska þá. Við elskum þá með því m.a. að leitast við að kynnast þeim og rækta vináttusambandið við þá jafnvel þótt hægt og hljótt fari.
Mér dettur í hug í þessu sambandi frásaga úr Litla prinsinum sem nefnist Iðkunin. Frásagan er á þessa leið: “Refurinn þagnaði og horfði lengi á litla prinsinn: Viltu vera svo vænn... temdu mig! Sagði hann. Það vil ég gjarna, svaraði litli prinsinn., en ég hefi ekki mikinn tíma. Ég þarf að finna mér vini og ég hefi mörgu að kynnast.
Maður þekkir ekki annað en það sem maður temur, sagði refurinn. Mennirnir hafa ekki lengur tíma til að þekkja neitt. Þeir kaupa tilbúna hluti hjá kaupmanninum. En þar sem ekki eru til kaupmenn, sem versla með vini, eiga menn ekki lengur neina vini. Ef þú vilt eiga vin, þá temdu mig!
Hvað þarf að gera?, spurði litli prinsinn. Það þarf að sýna mikla þolinmæði, svaraði refurinn. Fyrst sestu dálítið langt frá mér, eins og þetta, í grasið. Ég mun gefa þér gætur út undan mér og þú segir ekki neitt. Málið er uppspretta misskilnings. En með hverjum degi geturðu sest ofurlítið nær... Þannig tamdi litli prinsinn refinn”.
Við skulum fara að dæmi litla prinsins og gleyma ekki að leggja rækt við vináttuna gagnvart því fólki sem við eigum erfitt með að nálgast t.d. vegna tungumálaerfiðleika, trúar eða menningar.
Við skulum jafnframt einbeita okkur að því að stjórna þeim hlutum sem eru undir okkur sjálfum komnir og hafa ekki áhyggjur af hutum sem við höfum ekki stjórn á. Þannig leggjum við drjúgt af mörkum í því nærsamfélagi sem við lifum og hrærumst í frá degi til dags. Þannig nærist ástin, vonin og kærleikurinn, þeirra er kærleikurinn mestur. Amen.