Jólagleðin föst í "snjóskafli" óuppgerða tilfinninga.

Jólagleðin föst í "snjóskafli" óuppgerða tilfinninga.

Hinn margumræddi jólakvíði er ekki til komin vegna þess að við óttumst óraunhæfar kröfur um að allt eigi að vera fínt og flott á yfirborðinu. Heldur er það miklu frekar á aðventunni og jólum að okkur finnst erfitt að horfast í augu við okkur sjálf.
fullname - andlitsmynd Þór Hauksson
07. desember 2010
Flokkar

Hugleiðing flutt á jólafundi sorgar og sorgarúrvinnsluhóps í Árbæjarkirkju.

Hátíð ljóss og friðar er að ganga í garð. Hugur flestra okkar fullorðnu hvílir oftar en ekki við „Jötu“ bernskujólanna, sveipaður ljóma liðinna jóla, geymt í minningu um dýrleg jól. Á jólum leggjum við okkur fram við að gleðjast og gleðja aðra okkar nánustu og þá sem fjarri okkur standa. Við hvert og eitt okkar leggjum okkur fram við að deila þessari gleði og hamingju sem jólin vissulega færa okkur með birtu sinni og gleði sem einkennir allt og alla. Kannski eru jólhátíðin aðeins draumum um eitthvað sem er ekki í raun? Það sem meira er að við fáum aðeins eitt augnablik að finna og þreifa á þeirri veröld sem barnið í okkur varðveitir, sakleysið að ekkert illt sé til í þessum heimi, því á jólum eiga allir að vera góðir. Fyrir flestum á þessi lýsing við en því miður ekki öllum. Margir þjást af kvíða dagana fyrir og um jólin bæði börn og fullorðnir. Minningar sækja að, sem ná að krafla sig upp á yfirborðið á aðventunni á tíma hefða. Jólin eru táknræn sem fjölskylduhátíð sem gerir þau oft einmannaleg fyrir einstæðinga fyrir þá sem misst hafa náin ástvin eða orðið fyrir öðru erfiðu áfalli og þeir sem jafnvel uppliðu erfiða tíma á jólum í sinni barnæsku. Hátíðin kallar fram minningar oft sárar minningar sem kannski voru farnar að dofna aðeins en fyrir og um jólin stíga fram af fullum þunga. Það er ekkert nýtt hvað þá framandi að finna til kvíða og angistar dagana fyrir og um jólin, sem og aðra daga hversdags. Jólin aðeins skuggi sem fellur á ásjónu barns eða fullorðinna manneskju. Sá kvíði getur verið af margvíslegum toga og orsökum. Andi liðinna jóla gleymir engum, burðast með í fangi sér gleðilegar eða slæmar minningar ef einhverntíma þá á jólum. Hátíð ljóss og friðar aðein skuggi sem átti leið hjá, gaf sér ekki tíma til að líta við og bregða þótt væri ekki annað en örlítilli birtu í huga manneskju sem þráir að fá að vera eins og barn á jólum gleðjast og fagna með fölskvalausan huga með sínum.

Jata bernskujólana fúinn...

Dagana fyrir og um jólin er margt sem gengur fram í sinni sorglegustu mynd. Á jólum gengur áfengisvandinn fram og eyrir fáum. Hjá samsettum fjölskyldum er kvíði hverjir verða saman á jólum. Einstæðingar kvíða fyrir því að vera einir á hátíð fjölskyldunnar. Fráfall, maka, barns eða einhvers annars nákomins ættingja eða vinar. Tímaleysi og fjárhagsáhyggjur geta staðið í vegi að hátíð og boðskapur jólanna nái að hvíla angistar hug. Ramminn utan um jólin er brotin eða skakkur á vegg minninganna. Vonbrigði vegna þess að jata bernskujólanna er fúin, botnin farin úr. Þar sem væntingar ganga ekki eftir verðum við fyrir vonbrigðum því á jólum á allt að ganga upp, allt á vera eins og það var og hefur alltaf verið svo fremur að kyrrlát mynd jólanna hafi átt sinn vísa stað að vera á. Strengur væntinganna til jólanna á aðventunni er yfirleitt spenntur í það hæsta. Kyrrlátur friður tengist jólafrásögunni en raunveruleikinn andspænis sögunni er sá að vinnutíminn er langur, og jafnvel enn lengri hjá sumum í desember en venjulega, hjá öðrum er atvinnuleysi með tilheyrandi angist að eiga ekki fyrir jólunum. Búðarráp með þreytt börnin rétt fyrir lokun til að versla jólagjafir og annað tilheyrandi til jólanna. Auk þess eru allir staddir í troðningnum og kliðnum í Kringlunni eða Smáralindinni á sama tíma. Það er þreyta og pirringur því allir ætla sér að gera sem mest á stystum tíma.

Valkvíði á aðventu.

Margir standa sjálfa sig að því að finnast það ,,verði" að kaupa dýrar gjafir þrátt fyrir að skuldastaðan á heimilinu sé hrikaleg fyrir. Á jólunum viljum við nefnilega sýna hversu vænt okkur þykir um okkar nánustu, bæta fyrir tíma sem við einhverja hluta vegna höfðum ekki á árinu og það skal pakkað saman í fallegar umbúðir. Það er ekki bara undirbúningurinn sem veldur kvíða og streitu, heldur margt annað sem fólk býr við og upplifir í kringum jól. Börn foreldra sem eiga við vímuefna vandamál að stríða kvíða oft jólunum þar sem allt fer úr skorðum. Foreldrar sem hafa upplifað slík jól í æsku sinni gera allt sem í þeirra valdi stendur til að börnin þeirra njóti betri jóla en þau gerðu sjálf, sem afur leiðir af sér streitu við að uppfylla sínar eigin óskir um að svo verði í huga barna þeirra. Til þess að geta tengst og öðlast þessa gleði og frið jólanna sem okkur er sagt að eigi að vera tökum við okkur til á aðventunni og skreytum okkar nánasta umhverfi með marglitum ljósum inni sem og úti. Hvert sem við förum eru ljós og skreytingar sem minna okkur á jólin og hvers vegna við höldum jól. Það er ekki hægt að taka á móti hátíðinni nema vera búin að skúra skrúbba og helst bóna. Vissulega þurfum við á að halda að ytri aðstæður séu okkur hagfelldar þegar undirbúningur hátíðar á sér stað. Það hefur breyst að fólk almennt er farið að að huga meira að innri þætti undirbúningsins. Kemur til meðal annars að framboð á tónleikum aðventusamverum hvort heldur í kirkjum eða á veraldlegri vísu hefur stóraukist þannig að við stöndum frammi fyrir valkvíða á aðventunni. Vil ég meina að það sýni löngun manneskjunnar til að fá inntak jólanna og boðskap í huga. Vandinn er að þekkja takmörk sín. Á aðventunni eru mörkin milli sýndar og raunveru oftar en ekki óljós. Allt segir að við eigum að vera glöð, okkur á að liða vel, með okkar fullkomnu fjölskyldu, fullkomna heimilið okkar og fullkomið jólahald. Ekkert af þessu er til, en það segir ekkert um það að ekki megi reyna nálgast allt þetta framansagða. Það er alið á þeirri hugmynd að það er ekki pláss fyrir annað en hlutirnir eru einfaldir og lífið sömuleiðis. Það er ekkert til sem er einfalt. Við vitum fullvel að þetta er blekking sem stenst ekki nánari skoðun. Þetta er yfirborðið. Til þess að yfirborð eigi sína tilvist þarf annað og meira að vera undir og halda því uppi – yfirborðinu.

Tiltekt á jólum

Undir liggur líf og tilvera þeirra sem hafa misst þeirra sem heimilisaðstæður hafa breyst, þeirra sem finna sig í óvissu dagana. Í stað friðarins er komin óvissa og jafnvel pirringur eða togstreita yfir því hvernig hlutunum skal háttað. Margir kannast við hnútinn í maganum sem stækkar alla aðventuna og hinar áleitnu spurningar: Hvernig verða jólin nú í ár? Hvernig eigum við að lifa þau af? Ekkert er eins og það var og hefur alltaf verið. Það eru margir sem kvíða þessum tíma þegar aðstæðurnar eru svona breyttar. Jólin eru mikill hefðatími og fjölskylduhátíð og þegar hún er stokkuð upp virðist það vega að einhverju mjög djúpt innra með okkur. Jólagleðin felst að svo miklu leyti í siðunum og venjunum og því finnst okkur ömurlegt að þurfa að breyta þeim. Þær veita okkur öryggi og staðfesta að lífið gangi sinn vanagang og allt sé í lagi. Hinn margumræddi jólakvíði er ekki til komin vegna þess að við óttumst óraunhæfar kröfur um að allt eigi að vera fínt og flott á yfirborðinu. Heldur er það miklu frekar á aðventunni og jólum að okkur finnst erfitt að horfast í augu við okkur sjálf. Með öðrum orðum-innri tiltekt á sér ekki stað, sem ætti að gerast á aðventunni ef einhverntíma því aðventan er tími uppgjörs innra með en hefur verið fært yfir á það ytra að mestu og ekki gefið pláss fyrir að tendra ljós í huga og sálu. Það vantar ekki að við hlöðum í kringum okkur dóti sem minnir okkur á jólahátíðina. Jólaljós í glugga og trjám og hvar þar sem hægt er að koma því fyrir. Á sama tíma hleypum við ekki að dýrmætum minningum lífs eða liðnum af ótta við að vera skilin eftir í helgi hátíðarinnar. Það er mikið grátið í hljóði því á aðventunni og jólum eiga allir að vera glaðir og reifir. Allt okkar ytra brölt og undirbúningur er dæmt til að vera hjóm eitt ef hugur fylgir ekki máli. Fámennið er hluti af fjársjóðum okkar Íslendinga, samstaðan, samhjálpin er mögulegri. Við getum verið með einum huga. Þetta sést best á aðfangadagskvöld, þjóðin öll heldur hátíð, varla sést hreyfing á götum. Maður óskar bláókunnugu fólki gleðilegra jóla þegar menn mætast augnablik hvort sem það er nú í verslunarkjörnum eða kirkjum. Við finnum að við tilheyrum hvort öðru þegar á reynir. Við finnum það enn betur er harðnað hefur á dalnum.

Jólin sjálf eru ekki háð efnislegri velgengni þótt umbúðir þeirra eigi sess í hagkerfinu. Dýpsta og dýrmætasta reynsla fólks af jólum er ekki af pökkum eða krásum, heldur af samverunni, kærleikanum sem umvefur, kærleika Guðs sem birtist í barninu í jötunni er kvíðin móðir fæddi og fékk síðan að lifa hina æðstu gleði. Þessvegna og aðeins þessvegna getum við sagt hverjum sem vill á hlýða frá þeirri angist sem kann að hvíla innra með okkur, því jólin eru samvera. Samvera þeirra sem lifa og þeirra sem farnir eru lífs eða liðnir. Hverjar sem minningarnar eru af liðnum jólum og hugur hvílir hjá, þá skulum við minnast þess að hátíðin er okkur gefin til þess að fá tækifæri til að endurnýja brostnar vonir, trosnuð bönd og allt það sem við höfum átt sameiginlega með öðrum. Kann að vera autt sæti við jólaborðið, kann að vera að tár renni niður kinnar, kann að vera erfitt að horfast í augu við mennsku sína á tímum sem þessum, kann að vera að huggun alls megni ekki að kalla fram einfaldleika hátíðarinnar og okkar eigin sjálfs. Hvílum við það þannig að dagarnir sem framundan eru verði dagar uppsprettu vonar og farsældar í huga okkar allra sem sameiginlega göngum til móts við þá hátíð sem býður okkur að eiga pláss engum úthýst heldur aðeins æðstu gleði.