Textarnir í dag eru sterkir og skýrir. Þannig á orðræða okkar líka að vera.
Fyrst er sagan um Kain og Abel í 1. Mósebók, þar sem Kain lét öfund og illan hug ráða verkum sínum og tók líf bróður síns. Þannig hefur það alla tíð gengið í veröldinni. Þar er rangsleitni, kúgun og ofbeldi. Þar er missætti, misskilningur og misferli.
Pistillinn úr Jóhannesarbréfinu segir svo aftur frá því að annað afl sé í heiminum, kærleikurinn sem frá Guði er kominn. Kærleikurinn sem Kristur sýndi í orði og verki. Það er kærleikurinn sem öllu fórnar. Og hann hvetur okkur til að elska hvert annað á þann sama hátt, elska á óeigingjarnan hátt, fórna fyrir kærleikann, láta stjórnast af honum.
En kærleikurinn á oft erfitt uppdráttar í veröldinni. Engan fréttatíma man ég þar sem ekki er greint frá átökum hér heima eða erlendis. Sagt frá morðum, vígaferlum, ofbeldi. Slíkt fær þar fyrir utan töluvert rými í tilveru okkar. Afþreying er stundum fólgin í að horfa á „glæpamyndir“ um baráttu góðs og ills í ýmsum myndum og tilbrigðum. Yfirleitt sigrar hið góða í þeirri sýndarveröld. Og þar er það líka svo ljóst hver er góður og hver er slæmur. Í sumum gömlum myndum voru góðu kallarnir hafðir með hvíta hatta en vondu kallarnir með svarta. Og söguþráðurinn var um það að góðu köllunum tækist að skjóta vondu kallana. Miklu þróaðra en með sömu leikreglum er þetta í tölvuleikjum yngri kynslóðanna. Einföld afþreying og ekki mikil fyrirhöfn að greina hlutina.
Barátta góðs og ills er miklu flóknari í raunveruleikanum. Oft fer maður gegnum það í huganum, t.d. að kvöldi dags, hvað hefði nú verið hægt að gera betur þennan daginn. Hvernig kærleikskrafan hefði orðið betur uppfyllt. Hvernig haldið sátt og friði – og samt með eindrægni og hreinskilni. Deilur geta sprottið upp, jafnvel milli vina, stundum með óskiljanlegum hætti. Samræðulist er okkur, Íslendingum, ekki alltaf vel lagin. Halldór Laxness lýsir samræðum manna einhvers staðar svo, að þeir hafi skilið hvor annan því verr sem þeir hafi talast fleira við.
Og svo er það guðspjallið um miskunnsama Samverjann. Guðspjallið um særða manninn og þá sem áttu leið fram hjá honum. Þarna voru þeir á prófi. Þeir vissu ekki sjálfir hvílík ögurstund þetta var í lífi þeirra. Þeir voru að fara til að þjóna í musterinu, þeir höfðu ýmsar málsbætur fyrir því að flýta sér. En þeir féllu á prófinu. Þeir námu ekki staðar. Þeir breyttu ekki fyrirætlunum sínum, gerðu ekki það sem þeir gátu fyrir særða manninn.
Þessar aðstæður gerast í lífinu. Við vitum aldrei fyrirfram hvenær mest reynir á, hvenær öllu skiptir að við tökum rétta ákvörðun, ákveðna stefnu. Umræðan undanfarið hefur verið heit, tilfinningaþrungin og mörgum erfið. Um það vil ég tala við ykkur héðan af stólnum í dag og hugleiða í ljósi guðspjallsins.
Ég var allur af vilja gerður til að hjálpa konu sem kom til mín í marsbyrjun 1996. Hún hafði komið til margra annarra en ekki fengið þá hjálp sem hún leitaði að. Nú var komið að mér. Ég vildi heils hugar greiða úr fyrir henni. En það var endaslepp hjálp, því miður. Ég olli henni vonbrigðum og var ekki fær um að veita þá hjálp sem hún leitaði. Það sem ég gerði var ekki nóg. Fyrir það bið ég hana fyrirgefningar. Henni brást ég greinilega. Ég hélt áfram mína leið, gekk áfram til þess að sinna skyldum mínum og margvíslegum verkefnum. En atvikin hafa hagað því svo að þetta hefur oft komið upp í huga minn síðan.
Miskunnsami Samverjinn nam staðar og kom manninum til hjálpar. Hann gerði meira en að staðnæmast, hann lagði sitt mannlega hyggjuvit og sínar jarðnesku hendur í það verk að líkna. Hann staðnæmdist og fylgdi því eftir með miskunnarverkinu. Mig skorti eftirfylgnina. Það vantar oft að við viljum fórna, fórna öllu fyrir þann sem þjáist.
Ef hugur fylgir máli þá gefðu, gefðu allt, þeir glatast fyrst sem engu fórna vildu. Til himins kemur aldrei hjarta sem er kalt og hikar við að gera sína skyldu. Augun eru ekki alltaf opin. En þau geta opnast.
En hver er þá lærdómurinn af þessu – og það sem við getum lært. Til mín talar einatt sama erindið í þessu sambandi:
”...Því meðan til er böl sem bætt þú gast og barist var á meðan hjá þú sast er ólán heimsins einnig þér að kenna.”
Ólán heimsins er okkur sameiginlegt viðfangsefni.
Það á að mæta þjáningunni með athöfn, án skilyrða, án þess að spyrja spurninga um forsendur, sögu, uppruna, stéttarstöðu, ættir eða þjóðerni. Hún er sammannleg, þjáningin og hún gleymir engum – ekki frekar en sorgin. Þar eru allir jafnir.
Það liggur milli línanna í guðspjalli dagsins að hugsjón líknarinnar, ástríða virks kærleika, skuli verða okkur eiginleg. Harmsaga mannkynsins er sú, að við skömmtum viljann til líknar, teljum annað mikilvægara, skipta meira máli, firrum okkur ábyrgð með annríki og því að telja sum verk öðrum brýnni. Við forgangsröðum á öld annríkisins. Að baki liggur ekki illur vilji, heldur það að jarðneskt lífsstríð með öllu sínu amstri og basli, hefur innprentað máltækið að hver sé sjálfum sér næstur. En kannski er lausnin í þessu, frelsunin, hjálpræðið. Með skýrari sýn, heilli og einlægari trú. Boðskapur og erindi Krists í heiminn er einmitt þessi. Að kalla okkur til þjónustu, svo takmörkuð og brotgjörn sem við erum. Ófullkomið fólk kallar hann til starfa og í því veika fólki vill hann vera heill og máttugur.
Þannig má líkja Kirkju Krists á jörð við stóran spítala. Setjum svo að við komum þangað inn og sjáum fólk í alls konar ástandi, illa farið af slysum og sjúkdómum. Við hristum þá ekki höfuðið og segjum með vandlætingu: Þetta er ömurlegur spítali, það eru allir veikir. Við spyrjum miklu frekar um það hvernig gangi að lækna og læknast? Hvern bata fáum við?
Það er hvatning Jesú Krists til okkar. Farðu og starfaðu fyrir ríki mitt, fyrir kærleikans, réttlætisins og miskunnarinnar ríki. Sá sem vinnur miskunnarverk er náungi og reynist meðbróðir eða meðsystir þess sem er í neyð. Og það gerum við þrátt fyrir að okkur geti mistekist. Við hættum ekki að reyna. En þrátt fyrir þetta, þótt við göngum alla leið, dugir það ekki til hjálpræðis. Enginn verður fullkominn af eigin verkum. Við erum alltaf komin upp á náð Guðs. Hjálp hans og hjálpræði þurfum við alltaf. Hann einn stenst og bregst aldrei. Það segir séra Valdimar Briem í lokaversi sálmsins sem við sungum áðan:
Sá eini' er hvergi fram hjá fer, er frelsarinn vor blíði. Hvert mein hann veit, hvert sár hann sér, er svellur lífs í stríði. Hann sjálfur bindur sárin öll og særðum heimför greiðir, eymdum eyðir, og loks í himnahöll til herbergis oss leiðir.
Augu okkar eru ekki alltaf opin – en þau geta opnast. Leyfum okkur að vona, að við færumst fram til meiri líknar, til næmari skilnings á lífi og heill hvers annars. Þá erum við kærleikssamfélagið sem Kristur starfar í, með opin augu og næman hug. Og Kristur segir við okkur: „Sæl eru þau augu sem sjá það sem þér sjáið. Því að ég segi yður: Margir spámenn og konungar vildu sjá það sem þér sjáið en sáu það ekki og heyra það sem þér heyrið en heyrðu það ekki.“
Amen.