"Í dag er glatt í döprum hjörtum"

"Í dag er glatt í döprum hjörtum"

Það er mín reynsla, að þetta sé jólasálmurinn fyrir mörgum, ekki síst eldri og elstu kynslóð þessa lands. Ég man, að það voru ekki almennilega komin jól á mínu æskuheimili fyrr en þessi sálmur hafði verið sunginn, móðir mín sá fyrir því.
fullname - andlitsmynd Jón D Hróbjartsson
28. desember 2009
Flokkar

Í upphafi var Orðið og Orðið var hjá Guði og Orðið var Guð. Hann var í upphafi hjá Guði. Allt varð til fyrir hann, án hans varð ekki neitt sem til er. Í honum var líf og lífið var ljós mannanna. Ljósið skín í myrkrinu og myrkrið tók ekki á móti því. Maður kom fram, sendur af Guði. Hann hét Jóhannes. Hann kom til vitnisburðar, að vitna um ljósið og vekja alla til trúar á það. Ekki var hann ljósið, hann kom til að vitna um ljósið. Hið sanna ljós, sem upplýsir hvern mann, kom nú í heiminn. Hann var í heiminum og heimurinn var orðinn til fyrir hann en heimurinn þekkti hann ekki. Hann kom til eignar sinnar en hans eigið fólk tók ekki við honum. En öllum þeim sem tóku við honum gaf hann rétt til að verða Guðs börn, þeim sem trúa á nafn hans. Þau urðu ekki til á náttúrulegan hátt né af vilja manns heldur eru þau af Guði fædd. Og Orðið varð hold, hann bjó með oss, fullur náðar og sannleika og vér sáum dýrð hans, dýrð sem sonurinn eini á frá föðurnum. Jóh 1.1-14

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen. - Gleðileg jól!

“Hið sanna ljós, sem upplýsir hvern mann, kom nú í heiminn!”

Í dag er glatt í döprum hjörtum Því Drottins ljóma jól .... oss Drottins birta kringum skín.

Guðs lýður vertu´ei lengur hræddur Og lát af harmi og sorg Í dag er Kristur Drottinn fæddur...

Það er mín reynsla, að þetta sé jólasálmurinn fyrir mörgum, ekki síst eldri og elstu kynslóð þessa lands. Ég man, að það voru ekki almennilega komin jól á mínu æskuheimili fyrr en þessi sálmur hafði verið sunginn, - móðir mín sá fyrir því. Stundum hef ég fengið athugasemdir, þegar þessi sálmur er valinn, nei, hann er svo sorglegur, veljum annan. Er hann sorglegur? Mér finnst það alls ekki, mér finnst hann vera mjög gleðilegur, gleðin flýtur yfir, ljós jólanna breiðir sig yfir allt sem er.

Það eru vissulega mörg döpur hjörtu sem slá í dag, það er víða harmur og sorg og við vitum alveg hvers vegna, ... það eru erfiðir tímar... það hefur mikið gengið á, hér hjá okkur og víða um heimsbyggðina nú sem endranær, en jólin koma og eru komin með boðskap, fagnaðarerindi, sem vissulega er í gildi fyrir alla menn. Stóð það ekki einmitt þannig í guðspjallinu: Hið sanna ljós sem upplýsir hvern mann kom nú í heiminn. Það er öllum boðið, komið til mín, allir, sagði frelsarinn.

Einhverju sinni las ég um baráttuna í S. Afríku, þegar Mandela og hans fylgis- menn börðust fyrir friði og jafnrétti, þeir hvöttu fólk til að setja lifandi ljós út í glugga til að minna á vonina, - að hið illa afl mundi víkja fyrir hinu góða. Margir tóku þátt í þessu, en svo komu skilaboð frá stjórnvöldum um að þetta væri hreinlega bannað á sama hátt og það var bannað að bera vopn. Börnin urðu mjög undrandi og sögðu hvert við annað: Ríkisstjórnin er hrædd við að kveikja kertaljós. Þegar þessu stríði lauk, og fólk fór að skoða samhengið í baráttunni, þá voru ýmsir á þeirri skoðun að þessi táknræni gjörningur, að kveikja ljós hafi átt sinn drjúga þátt í að friður náðist, já mun öflugri en vopnavaldið. Vopn kristninnar eru og eiga að vera að tendra ljós vonar, kærleika og bænar.

Norskur prestur tók opinberlega afstöðu gegn nazismanum og innrás nazista í Noreg í síðari heimsstyrjöldinni. Hann var tekinn fastur og settur í fangelsi. Þegar kom að yfirheyrslum, þá kom Gestapo-foringinn inn í herbergið, setti byssuna sína á borðið og sagði: Prestur minn, þetta geri ég til þess að þú skiljir að þetta er dauðans alvara. Presturinn brást mjög hratt og örugglega við og lagði Biblíuna sína á borðið við hlið byssunnar. Foringinn spruði: Af hverju gerir þú þetta. Jú, þú kemur með þitt vopn, ég kem með mitt, Guðs heilaga orð.

Orðið varð hold, hann bjó með oss, fullur náðar og sannleika og vér sáum dýrð hans, dýrð sem sonurinn eini á frá föðurnum

... sá Guð, er öll á himins hnoss varð hold á jörð og býr með oss.
- yrkir Valdimar Briem

Immanúel... Hann býr mitt á meðal okkar, þetta er í nútíð, tökum eftir því. Valdimar Briem kunni sína guðfræði, undirstrikar að jólaundirð er alltaf nýtt. Hinn upprisni Drottinn er nálægur fyrir anda sinn og kraft og meira en það, hann stofnaði kirkju, samfélag, sem síðan er kallað Líkami Krists á jörð.

Litli drengurinn sem borinn var til skírnar í dag var gróðursettur á þessu lífsins tré, þessum líkama Krists á jörð, heilagri kirkju. Það, að Orðið varð hold í Jesú Kristi fékk það dásamlega framhald, að líkaminn heldur áfram að vaxa og dafna. Verið í mér, - þá verð ég einnig í yður, sagði frelsarinn. Hann vill nota okkur, hendurnar okkar, tunguna okkar, kærleiksverkin, allt á þetta að vera framlengdur armur undraráðgjafans, friðarhöfðingjans í þessum heimi.

Á þessu ári eru 20 ár frá falli Berlínarmúrsins, þessa hefur verið minnst með ýmsu móti, einnig hafa sögur og atburðir verið ryfjaðir upp frá styrjöldum síðustu aldar og tengdum atburðum. Ég sá viðtal við norskan mann í norska sjónvarpinu á dögunum, Blindheim að nafni, 93 ára öldung, sem sagði frá hræðilegri lífsreynslu sem hann lenti í á stríðsárunum. Hann var í andspyrnuhreyfingunni í Noregi eins og svo margir, mótmælti yfirgangi nazistanna. En það hafði afleiðingar, hann var settur í fangelsi, eins og presturinn sem ég sagði frá hér að framan. En Blindheim var dæmdur til dauða ásamt vini sínum og þeir hýrðust í fangelsi í Berlín í 4 ár, í raun allan tímann að bíða eftir að verða leiddir fyrir böðulinn, hræðileg reynsla og erfið, og þessu lýsti hann mjög vel, en spyrillinn spurði, en hvað var það sem gaf þér kraft til að lifa, hvernig komstu eiginlega af. Jú, ég gat talað við vin minn í fangelsinu, en það sem hjálpaði mér mest var litla NT, sem foreldrar mínir höfðu gefið mér, ég var búinn að finna mörg huggunarorð þar, sem ég strikaði undir og leitaði í, las aftur og aftur og fann að það gaf huggun, kraft, frið. Fallegur vitnisburður um mátt Orðsins, og þetta lífsins samfélag Líkama Krists á jörðu, sem m.a. birtist í vináttunni. Þessi ágæti maður slapp úr prísundinni áður en illa fór, því her bandamanna yfirtók Berlínarborg í tæka tíð. Hann komst heim til Noregs eftir miklar göngur og hrakningar í landi eyðileggingar og hörmunga.

...Á meðan lifir líf í æðum Þig lofar öll þín hjörð Á meðan tungan má sig hræra Á meðna hjartað nokkuð kann sig bæra Hvert andartak, hvert æðarslag Guðs engla syngi dýrðarlag
Valdimar Briem

Það er sama hvað á gengur, það er sama hve tæpt líf okkar getur staðað, vegna hans sem sannarlega kom á helgum jólum, það er alltaf von, þegar hann er annars vegar. Við skiljum ekki þjáninguna, skiljum ekki hvers vegna einn þarf að líða meir en annar, - gáta þjáningarinnar verður alltaf veruleiki á meðan enn heitir í dag, en jafnvel hana megum við leggja í Guðs heilögu hönd, - hann veit hvað okkur er fyrir bestu undir öllum kringumstæðum lífsins, - hann finnur leið. Í þessari trú og von megum við enn á ný halda jól og treysta því að hinn þrí-eini Guð sé nálægur með blessun sína. Við megum glöð taka undir englasönginn, jólasönginn sem aldrei tekur enda.

Dýrð sé Guði föður syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi er enn og verður um aldir alda. Amen.