Af orðum þínum muntu sýknaður og af orðum þínum muntu sakfelldur verða.
Mér er kannski hollast að hafa mig ofan úr prédikunarstólnum.
Jakob postuli hefur fundið fyrir taumleysi tungunnar: Allar tegundir dýra og fugla, skriðkvikindi og sjávardýr má temja og hafa menn tamið, en tunguna getur enginn maður tamið, þessa óhemju ...
Könnumst við ekki öll við þetta taumleysi tungunnar.
Hvernig hún tekur á sprett við ólíkustu aðstæður, lætur af sér renna orð í hugsunarleysi, þarflaus orð, særandi orð, slúður, sjálfhælni, hálfsannleika. Hefðum við hugsað okkur um, staldrað við, hefði margt verið ósagt. En orðin ruddust út úr okkur, taumlaust.
Af gnægð hjartans mælir munnurinn. Hvað merkir það? Að orðin eiga sér rætur í huga okkar. Góður maður ber gott fram úr góðum sjóði, en vondur maður ber vont fram úr vondum sjóði. Hvert ónytjuorð sem menn mæla, munu þeir verða, munu þeir verða sakfelldir fyrir á dómsdegi.
Annað hvort er tréð gott og ávöxturinn góður eða tréð vont og ávöxturinn vondur, því af ávextinum þekkist tréð.
Hvert sækir hjartað innræti sitt? Hvert sækir tréð næringu sína sem ræður gæðum ávaxtanna? Í orð Guðs?
Af orðum þínum muntu sýknaður og af orðum þínum muntu sakfelldur verða. Sýknun og sakfelling.
Síðasta sunnudag ræddi ég nokkuð um þörf mannsins fyrir dóm ef hann ættti ekki að týna sjálfum sér. En hver vill láta dæma sig á þessum tímum frelsis og sjálfræðis. Hefur einhver umboð til þess. Ekki Guð. Enda er búið að senda hann í úreldingu og hinn dýrlegi maður kominn í hans stað. Ég segi það sem mér sýnist um þá sem mér sýnist og vaðalinn set ég á markað til að hafa upp úr því. Þeim sem ég er að tala um kemur það ekki við, ekki fremur en það sem ég hvísla við eldhúsborðið heima.
Samt er þessi texti ekki um orð. Hann er um mig og þig. Hver við erum þegar dýpst er skoðað. Staða mannsins gagnvart Guði er sekt. Sjálfur getur hann ekkert tínt úr eigin sjóði sér til málsbóta. Engin sekt, engin fyrirgefning, engin sáttargjörð, engin endurlausn, enginn kristindómur.
Vegna áherslunnar á að maðurinn sé sekur frammi fyrir Guði, líta ýmsir svo á að kristinn maður sé volandi undirlægja og aumingi sem geri fátt annað en velta sér upp úr syndum sínum. Að horfst í augu við synd sína er að verða maður. Að biðja um fyrirgefningu og þiggja hana er að ganga frá fundi Guðs og manns uppréttur og glaður. Ég sé oft fyrir mér þennan straum fólks sem gengur hér að altarinu, þiggur áþreifanlega fyrirgefningu og næringu trúarlífi sínu og gengur síðan héðan út til fundar við hvunndaginn þar sem mætir bæði súrt og sætt, kemur aftur og gengur glatt af fundinum við Jesú Krist. Ég sé aldrei undirlægjusvip en ég sé heilaga gleði og þakklæti, vegna þess að sá sem tók við yfirsjónunum og ónytjuorðunum hins iðrandi syndara, missti minnið um leið og han tók við þeim og minnist þeirra ekki framar. Reisir manninn upp, en brýtur hann ekki niður.
Guðspjall dagsins hófst á tali um fyrirgefningu.
Hver synd og guðlöstun verður mönnum fyrirgefin, en guðlast gegn andanum verður ekki fyrirgefið. Hverjum sem mælir gegn Mannssyninum, verður það fyrirgefið. En þeim sem mælir gegn heilögum anda verður það ekki fyrirgefið.
Hvert var tilefni þessara orða Jesú?. Hann hafði gert kraftaverk á manni sem var haldinn illum anda. Viðbrögð faríseanna sem heyrðu það voru að hann ræki illu andana út með fulltingi illra anda. Jesús hins vegar sagðist reka þá út með anda Guðs. Það er þessi höfnun á sköpunar og lækningamætti anda Guðs sem ekki verður fyrirgefin. Hvers vegna? Vegna þess að hún er í sjálfri sér höfnun á Guði. Sá sem hafnar Guði nær ekki til hans, og Guð nær þess vegna ekki til þess sem hafnar. Fyrirgefning er sátt, sameining þess sem hefur verið sundrað.
Synd gegn heilögum anda. Höfnun á veru Guðs og starfi hans fyrir Jesú Krist.
Ég hef undanfarið verið að velta því fyrir mér hvert íslensk menning stefnir, hver er grundvöllur að uppeldi barnanna okkar. Úr hvaða jarðvegi þau sjúga næringu sína. Hvað tekur við ef þau mörk hverfa sem Guð setur manninum í samskiptum við sig og náungann. Hverju og hverjum tengjast þau ef þau fá ekki tækifæri til að tengjast þeim sem næst þeim standa. Hvert sækja þau fyrirmyndir sínar? Þannig mætti halda áfram að spyrja. Ég neita því ekki að mér finnast blikur á lofti sem benda til hnignunar þrátt fyrir efnalega velmegun. Á ýmsum sviðum í samskiptum fólks ber meira á sjálhverfu tillitsleysi. Sjónvarpsefni og útvarpsefni sem ætlað er unglingum, svo og tónlistarmyndbönd ýmis konar verða sífellt meira ögrandi, ganga sífellt lengra í því að flytja viðtekin siðferðismörk einkum í samskiptum kynjanna og konan er kynnt til sögu sem leikfang, viðfangsefni, ekki sem vinur, félagi, verð elsku og virðingar. Samskiptin eru tilfinningalaus og grundvallast á lostanum einum og einn vinsælasti sjónvarpsþáttur sem lengi hefur verið sýndur, Sex and the City, fjallaði um konur sem söfnuðu bólfélögum af ákafa, engin tilfinningatengsl, ekkert traust, enginn kærleikur.
Og baráttan um auðinn og hin frjálsa samkeppni lýtur um stund lögmálum markaðarins en lýtur fyrr en varir lögmálum frumskógarins og ráðamenn tala niður til þeirra sem troðast undir í dansinum kringum gullkálfinn og eru savo uppteknir af að hrópa húrra fyrir sjálfum sér að þeir heyra ekki grátstafi þeirra.
Enn eitt jarmið um að heimur heimur fari versnandi? Ef til vill. Og þó. Heimur hefur oft farið versnandi og mannkynssagan geymir mörg dæmi þess að menningarþjóðir hafi liðið undir lok vegna spillingar og úrkynjunar og hömluleysis og mannfyrirlitningar.
Synd gegn heilögum anda. Höfnun á því að Guð og heilagur andi hans hafi komið í Jesú Kristi og viðmið hans séu lögmál lífsins. Þá synd er ekki hægt að fyrirgefa, ekki vegna þess að Guð vilji það ekki heldur vegna þess að maðurinn hefur ýtt Guði út úr lífi sínu.
Annað hvort er tréð gott og ávöxturinn góður eða tréð vont og ávöxturinn vondur.
Drottinn, tré mitt ber einatt vondan ávöxt, eða engan ávöxt. Vinn þú á mér kraftaverk fyrirgefningarinnar svo ég beri þér þóknanlegan ávöxt. Amen.