Guðspjall: Matt. 8. 23-27 Lexia: Sálmur. 107. 1-2, 20-31 Pistill: Post. 27. 13-15, 20-25
Ég óska sjómönnum og fjölskyldum þeirra til hamingju með daginn. Það hefur verið ánægjulegt að fylgjast með þeim breytingum sem átt hafa sér með auknum fiskiskipaflota fyrir neðan bakkann hér á Húsavík. Ein fjögur fiskiskip hafa bæst í flotann auk nokkurra smærri báta frá síðasta sjómannadegi. Þessi breyting hefur haft í för með sér iðandi mannlíf fyrir neðan bakkann þar sem skipin og áhafnir hafa verið þjónustaðar af ýmsum þjónustuaðilum í landi þannig að allir hafa hag af þessu fyrirkomulagi. Margfeldisáhrifa er þegar farið að gæta í samfélagi okkar sem er jákvætt og bindum við öll vonir við það að þeirra megi gæta um alla framtíð samfélagi okkar til hagsbóta.
Fyrir nokkru síðan fór ég í heimsókn í eitt fiskvinnslufyrirtækið fyrir neðan bakkann. Þar stóðu full hlaðin fiskiker í röðum og vinnsla var í fullum gangi í vélasal. Vaskar hendur unnu þar verðmæti úr aflanum. Úti fyrir lágu skipin við festar og löndun stóð yfir úr einu skipinu. Olíubíll stóð við annað skip og verið var að bera kost í það þriðja. Skipverjar sem unnu við löndunina sáu brátt fram á að geta hvílt sig eftir erfiði dagsins þar til skipstjórinn blési til næsta túrar.
Ekki hef ég sjálfur farið til sjós en ég hef þó komið um borð í nokkur skip sem legið hafa við festar hér fyrir neðan bakkann t.a.m. í blessunarskyni og kynnt mér aðbúnað sjómanna um borð í þessum skipum. Vissulega er aðbúnaður þeirra misjafn frá einu skipi til annars eftir aldri þeirra. Stundum hefur mér þó verið starsýnt á dýnurnar í kojunum og ég hef þá velt því fyrir mér hvort sjómenn nái að hvílast nægilega vel milli vakta í kojum þessum.
Fyrir nokkru var gerð rannsókn á svefnvenjum og heilsufari sjómanna sem kynnt var á ráðstefnu um öryggi og heilsu sjómanna um boð í skipum. Ráðstefnan var haldin í tengslum við öryggisviku sjómanna. Niðurstaða rannsóknarinnar var sú að sjómenn hvílast almennt illa og líkamsástand þeirra er í flestum tilfellum bágborið. Lovísa Ólafsdóttir, iðjuþjálfi og framkvæmdastjóri Solarplexus ehf skýrði ráðstefnunni frá niðurstöðum rannsóknar sem hún gerði ásvefnvenjum, svefnmynstri og heilsu sjómanna í því skyni að skoða áhrif góðrar hvíldar sem lið í að draga úr slysum og veikindum, álagseinkennum á stoðkerfi og í að auka afköst sjómannanna. Helstu niðurstöður rannsóknarinnar leiddu í ljós að sjómenn hvílast almennt illa og er þar einkum um að kenna vondum dýnum í kojum sjómannanna. Í öllum tilfellum sem skoðuð voru sást mikill snúningur á hryggjarsúlu sjómannanna þegar þeir lágu á hlið í kojum sínum og álag á herðablaðasvæði og mjóbak var mikið. Sagði Lovísa að töluverð hætta væri á álagseinkennum og sjúkdómum við slíkar aðstæður. Um 62% sjómannanna sem tóku þátt í könnuninni sögðust þannig þjást af verkjum í baki og 49% af verkjum í hálsi eða öxlum.
Um 80% sjómannanna sögðust fá meiri svefn á fyrri vaktinni í hefðbundnu vaktafyrirkomulagi frystitogara, um 3-4 klukkustundir en aðeins um 2 klukkustunda svefn á síðari vaktinni. Um 43% þeirra töldu sig ekki vakna úthvílda og um 60% sögðust þjást af streituþunglyndi með kvíða og svefntruflunum. Lovísa sagði að í um 40% tilfella mætti rekja streitu til álags að degi til.
Könnunin leiddi enn fremur í ljós að líkamsástand sjómanna er fremur bágborið. Um þriðjungur þeirra féllu í flokk fyrsta stigs offitu og flestir þeirra voru um það bil að falla yfir í annað stig. Lovísa benti á að yfirvigt og offita ylli áhættu á hjarta- og æðasjúkdómum en hefði einnig áhrif á hvíldarþörf. Þar að auki væri ábyrgð sjómanna á eigin heilsu ekki mikil. Réttri líkamsbeitingu væri oftast ábótavant sem væri slæmt því álag í vinnu væri venjulega mikið. Þá sögðust 61% sjómannanna aldrei stunda líkamsrækt, 56% þeirra sögðust reykja og flestir þeirra drekka mikið af kaffi. Lovísa sagði að þrátt fyrir augljós mikil álagseinkenni sæktu sjómenn sér í fæstum tilfellum meðferð við þeim.
Á ráðstefnunni var jafnframt rætt um krabbameinsvalda í starfsumhverfi sjómanna. Dr. Vilhjálmur Rafnsson prófessor við rannsóknastofu í heilbrigðisfræði hjá Háskóla Íslands benti á að krabbamein væri lífstílssjúkdómur, þ.e. krabbameinsvaldarnir fara eftir lifnaðarháttum fólks, svo sem búsetu og aðstæðum á vinnustað. Þannig væri margt í starfsumhverfi sjómanna sem gæti verið orsök krabbameins enda sýndu rannsóknir að krabbamein væri tíðara hjá sjómönnum en öðrum stéttum. Í því sambandi benti Vilhjálmur á tóbaksreyk, ekki síst með óbeinum reykingum. Sem gæti meðal annars valdið lungnakrabbameini. Vilhjálmur lagði á það áherslu að sjómenn yrðu að umgangast krabbameinsvaldandi efni, t.d. einangrunarefnið asbest, með varúð og huga stöðugt að loftræstingu og persónuvörnum. Forvarnir yrðu að hefjast á vinnustaðnum sjálfum.
Við tökum öll undir þessi orð Lovísu og Vilhjálms. Ég tel mjög mikilvægt að hvíldartímaákvæði sjómanna séu virt og þeim séu búin sómasamleg skilyrði til að þeir nái að hvílast milli vakta. Þá þarf að skapa þeim aðstöðu til að stunda líkamsrækt um borð í skipum sínum til þess að þeir geti haldið sér í góðu líkamlegu formi. Flest nýju stóru skipin eru búin slíkri aðstöðu í dag. Útsjónarsemi þarf til að tryggja sjómönnum smærri skipa slíka aðstöðu. Áhugi og vilji er allt sem þarf bæði frá hendi sjómanna og útvegsmanna sem reka skipin. Ef forvörnum í þessum málum er sinnt sem skyldi þá verður það til hagsbóta fyrir alla sem koma að þessum málum og þjóðfélagið í heild sinni.
Á sjónum verða oft svipleg slys og oft skilja aðeins sekúndur milli lífs og dauða. En stundum heyrum við fréttir af lánsamri björgun skipverja líkt og í gærkvöldi þegar ég heyrði að stálskipið Gústi í Papey SF 188 hefði sokkið sex sjómílur suður af Langanesi. Björgunarsveitin á Raufarhöfn var kölluð til en skipverjar á Árbaki EA 5 frá Akureyri voru á sömu siglingaleið skammt frá og björguðu skipverjunum öllum á skömmum tíma. Við samgleðjumst þeim fyrir giftusamlega björgun.
Aldrei söknum við ástvina sem horfnir eru úr lífi okkar eins sárt og á hátíðum. Minningar um ást og umhyggju og hlýja snertingu sækja þá á okkur. Að eiga sér styrkar rætur, vera sér meðvitaður um jarðveginn sem maður er sprottinn úr er góð andleg forvörn fyrir hvern mann. Það tryggir sálinni rótfestu og næringu. Þegar ég er þess minnugur og meðvitaður hvaðan ég kem er vitund mín styrkari, ég á meira andlegt öryggi. Það er mér ákveðinn andlegur fjársjóður. Fortíðin er akkeri sem ég get gripið til ef áföll verða eða ágjafir á siglingu lífsins.
Heimspekingur hefur sagt: “Að tapa rótfestu er alvarlegasta slys sem hent getur samfélagið. Það samfélag sem slítur rætur sínar flosnar upp. Það sem hefur rótfestu bugast ekki. Og þetta er kannski mikilvægasta þörf mannssálarinnar”.
Í barninu í jötunni, hinum krossfesta og upprisna Jesú Kristi er að finna kærleiksþel, hlýju, nánd, næringu sálarinnar til æðra lífs. Hann er þannig jarðvegur sálarinnar, rótin sem heldur þegar annað trosnar og slitnar.
Frelsarinn hefur þá einstæðu hæfileika að koma kyrrð á sálina og gera rótt í hjarta okkar. Það sjáum við bersýnilega í guðspjalli þessa sjómannadags þar sem segir frá því þegar lærisveinarnir voru um borð í opnum báti með Jesú á Genesaretvatni. Mikið veður gerði á vatninu og bylgjurnar gengu yfir bátinn, lærsveinana og Jesú sem svaf fram í skut. Engar sögur fara af fleti því sem frelsarinn gerði sér að góðu að nota en varla hefur það staðist nútímakröfur um borð í fleyjum nútímans sem sigla um höfin blá. Ég hygg þó að hann hafi engan veginn náð að hvílast sem skyldi. En hvað um það. Lærisveinarnir voru óttaslegnir og vöktu hann, ég segi ekki af værum blundi, og sögðu við hann: “Herra, bjarga þú, vér förumst”. Jesús brást skjótt við beiðni þeirra, hastaði á vindinn og vatnið og varð stillilogn á vatninu, sem og innra með lærisveinunum. Þar komst nefnilega einnig á gleði – og undrunarblendin kyrrð og ró.
Við höfum öryggi og hald í þessari víðsjárverðu veröld þegar við erum rótfest í frelsaranum Jesú Kristi og við skulum leitast við að leggja stund á það forvarnarstarf að iðka bænina og lesa orð Guðs sem er næring fyrir sálina, lesa t.d. guðspjöllin þar sem orð frelsarans er að finna. Jesús er akkeri sálarinnar og miðlar okkur trú von og kærleika.
Í skírninni verðum við óverðskuldað börn Guðs eins og Aþena Marey sem borin var til skírnar hér í dag. Drottinn Jesús Kristur heitir því að vera ætíð með okkur á siglingunni í gegnum lífið. Á táknrænan hátt erum við hér saman sem skipverjar í kirkjuskipi og við horfum í austrið og virðum fyrir okkur ljósið sem þaðan kemur. Jesús er skipstjórinn. Hann þekkir hættuboðana, hefur sigrast á þeim. Hann er okkur því leiðarljós í gegnum lífið.
Enginn getur mælt trú okkar. En við getum endalaust deilt minningum og hamingju og gleðigjöfum fortíðarinnar án þess að þær minnki. Sá kærleikur sem við höfum notið og rekja má þráðbeint til kærleikans í Kristi er kannski ekki alltaf augljós en óbeint áreiðanlega meiri en okkur kemur í hug. En rík erum við ekki bara af því að þiggja kærleika annarra, rík erum við líka af því að geta miðlað kærleika til annarra.