Biblíudagurinn hefur verið árviss viðburður í kirkjunni okkar í meira en hálfa öld. Í ár höldum við upp á 200 ára afmæli Hins íslenska biblíufélags, en það var stofnað þann 10. júlí árið 1815, elsta starfandi félag á landinu. Mikið verður um dýrðir á afmælisárinu, eins og kynnt var á samráðsfundi með fulltrúum nærri tuttugu kristinna trúfélaga og félagasamtaka í Neskirkju í liðinni viku, í samræmi við 9. gr. laga félagsins. Biblíufélagið er þó ekki félag kirkna eða hreyfinga heldur einstaklinga, en byggir á samkirkjulegri hugsjón, eins og sést t.d. í 8. gr. laganna, um möguleikann á að hafa trúnaðarmenn í héruðum landsins og skuli „leitast við að ná til sem flestra kirkjudeilda“ við val þeirra.
Félag okkar allra Biblíufélagið er sem sagt félag okkar allra, sem játum kristna trú, svipað og Gídeonfélagið, www.gideon.is, sem hefur það að markmiði að „færa þeim von sem ekki þekkja náðarverk Jesú Krists, með því að koma orði Guðs í hendur fólks á sem flestum aldursskeiðum þess.“ Einfalt er að gerast félagi, annð hvort með því að fara inn á heimasíðuna, www.biblian.is, eða skrá sig á þartilgerð eyðublöð sem fást á skrifstofu félagsins sem nú er staðsett á Biskupsstofu (sími 528 4004). Með því að vera félagi styðjum við við þýðingu, útgáfu, útbreiðslu og notkun Biblíunnar hér á landi og í öðrum löndum, en HÍB er í samstarfi við Sameinuðu biblíufélögin. Meðlimir fá sent fréttablaðið B+ sem þetta árið verður veglegt afmælisrit og geta að sjálfsögðu haft áhrif á stefnu félagsins með þátttöku í aðalfundi sem verður haldinn í mars.
Þrá eftir ósvikinni trú á Guð Hluti af samstarfinu við erlend biblíufélög er að ár hvert er safnað fyrir útbreiðslu Biblíunnar meðal þjóða sem ekki eiga greiðan aðgang að orði Guðs. Í ár er það Kúba sem söfnunarféð rennur til. Á heimasíðu Biblíufélagsins má lesa frásagnir sem lýsir vel þörfinni fyrir Biblíur á Kúbu. Sagt er frá föður Aþenagoras, sem kom til Kúbu fyrir fimm árum til að þjóna sem prestur í grísku rétttrúnaðarkirkjunni sem stofnuð var árið 2004:
Í dag telur kirkja föður Aþenagorasar sex hundruð meðlimi í Havana og samtals 1200 manns á allri eyjunni. „Það er svo margt ungt fólk í kirkjunni okkar,“ segir faðir Aþenagoras og augu hans ljóma. „Unga fólkið kemur til guðsþjónustu klukkan níu að morgni á sunnudögum og jafnvel þótt guðsþjónustan standi yfir í þrjár klukkustundir, fer samt enginn [...].“„Þú finnur á þér, að kúbverska þjóðin er í meginatriðum alvarlega, andlega hugsandi. Hún þráir ósvikna trú á Guð.“ Margir í kirkjunni hans eru í biblíuleshópum, en erfitt er að safna fólki saman, þegar það býr vítt og breitt um alla stórborgina Havana. Af þeim sökum ætti faðir Aþenagoras að æskja eftir því, að fleira fólk í kirkjunni hans eignist sína eigin Biblíu heima, sem það gæti lesið í upp á eigin spýtur. „Allir í kirkjunni okkar óska eftir Biblíum. En nær enginn á sína eigin Biblíu,“ segir hann. Hann greinir frá því að ekki sé sterk hefð fyrir því að Biblían sé lesin í kirkjunni hans. En í hinu heilaga atferli eru biblíutextarnir miðlægir. Þar er lesið úr guðspjallinu á tveimur tungumálum, bæði grísku og spænsku.
Eitt tungumál í Kristi Enn segir:
Faðir Aþenagoras segir frá því, að draumur sinn sé sá að öll hin ólíku kirkjusamfélög á Kúbu geti sameinast um sömu biblíuútgáfuna. Slíkt myndi gera eininguna á meðal kristins fólks sýnilega. „Í Kristi tölum við öll sama tungumálið. Þá ættum við líka að lesa sömu Biblíuna,“ segir hann.Áður en hann fer út úr skrifstofunni til fundar við Biblíufélagið, horfir hann á okkur með ákafa í augum sínum og greinir frá því hversu mikilvægt það sé að fá biblíuútgáfur fyrir marga, mismunandi hópa; börn, unglinga og þau sem dúsa í fangelsum. Að lokum nefnir faðir Aþenagoras hóp sem hugur hans dvelur sérstaklega hjá: Eldri konurnar. Þær sem oftast spyrja hann, hvort þær geti fengið sínar eigin Biblíur, eru ömmurnar í kirkjunni hans: „Ömmurnar koma til mín og spyrja eftir Biblíum með stóru letri. Þær hafa ef til vill átt Biblíur sem þær hafa lesið í, en nú vantar þær nýjar Biblíur með stóru letri,“ segir faðir Aþenagoras" (af www.biblian.is)
Davíðssálmur 23, þjóðsöngur ungs kristins fólks á Kúbu Raiza Rubio Roche er þrítug, starfsmaður Biblíufélagsins í Havana. Heyrum líka hennar frásögn:
„Sjálf fékk ég fyrstu Biblíuna mína þegar ég var 11 ára," segir hún. „Fyrstu Biblíuna mína á ég ekki lengur. Ég hlýt að hafa gefið hana vini mínum sem ekki átti Biblíu. Fyrsti biblíutextinn sem ég lærði utan að, var Davíðssálmur 23, „Drottinn er minn hirðir“.“ Og hún segir að 23. Davíðssálmur sé næstum því eins og þjóðsöngur ungs, kristins fólks á Kúbu. „Allir kunna þann sálm utan að, sá texti bindur okkur saman.“Raiza hittir oft fulltrúa frá kirkjunum sem koma í Biblíufélagið til þess að kaupa Biblíur. „Það er erfitt að vera sú sem þarf að segja nei, þegar þeir biðja um að fá að kaupa 1.000 Biblíur, en geta aðeins fengið 500. Ég sé það á augnaráði þeirra. Ég vil ekki segja að þeir verði fyrir vonbrigðum, en ég sé að þeir missa svolítið móðinn. Ég hlakka til þess dags þegar ég get afhent öllum eins margar Biblíur og þá langar í.“ (af www.biblian.is).
Framboð og eftirspurn Þetta vandamál þekkjum við ekki, Íslendingar dagsins í dag. Mikill lager er til af Biblíuútgáfunni frá 2007 en hún hefur ekki selst eins vel og vonast var til. Mér skilst að í fyrra hafi aðeins selst 1000 eintök, miðað við 4000 eintök á góðu ári. En margt fólk notar heimasíðu Biblíufélagsins til að fletta upp í ritningunum og leita að völdum hugtökum. Öll við sem höfum aðgang að tölvu eigum því auðvelt með að nálgast Heilaga ritningu á okkar eigin tungumáli.
Þannig var það þó ekki alltaf, að orð Guðs væri aðgengilegt hverjum þeim sem lesa vildi. Við munum frásöguna af Oddi Gottskálkssyni sem þýddi Nýja testamentið í felum í fjósinu í Skálholti, en það var fyrsta þýðing Biblíunnar á íslensku – fyrir utan kafla í helgum ritum hér og þar á miðöldum - og kom út árið 1540. Með þýðingu sinni lagði Oddur „undirstöður íslenzks biblíumáls“ eins og haft eftir Haraldi Níelssyni í grein sem Ólafur Ólafsson kristniboði ritaði í tilefni Biblíudagsins árið 1972 (Morgunblaðið 5. febrúar 1972). Þar er líka vitnað í orð prófessors Steingríms J. Þorsteinssonar um Guðbrandsbiblíu:
Það er óvíst að vér töluðum íslenzku í dag ef Biblían hefði ekki verið þýdd á íslenzku, jafnsnemma og jafn vel og raun ber vitni. Svona er mikil þakkarskuldin sem við eigum að gjalda fyrstu Biblíu-þýðendunum okkar, jafnt að því, er varðar tunguna sem trúna.
Tungumál og trú, varðveisla og vöxtur Biblían varðar sem sagt bæði tungumálið okkar og trúna. Ótal orðatiltæki í íslensku eiga t.d. uppruna sinn í Biblíunni, eins og ég ætla að fjalla um í Laugarneskirkju næsta sunnudag. Og ekki bara það: Að eiga Biblíuna á sínu eigin tungumáli hefur sannarlega stuðlað að og jafnvel verið forsenda fyrir því að íslenskan hefur varðveist svo vel, samanber orð prófessorsins hér að ofan.
En mesta gildið hefur Heilög ritning fyrir trúna. Það er trúarlegur þorsti, ekki ást til eigin tungu, sem knýr ungu Kúbverjana og ömmurnar til að biðja um að Biblían verði þeim aðgengileg. Ástæðan fyrir því að Biblían hefur verið útbreiddasta og eftirsóttasta bók í heimi fram að þessu – og við fylgjendur Jesú Krists viljum að svo verði áfram – er að í henni finnum við Guð ávarpa okkur. Guð á erindi við okkur, erindi vaxtar og grósku, erindi sem hefur varanleg áhrif á líf okkar, okkur til eflingar, umbreytingar og endurlausnar.
Leyfum því að spretta innra með okkur og styrkja okkur sem félaga í Guðs ríki, hinu máttuga tré sem veitir öllum fuglum himins skjól fyrir hreiður sín (Mark 4) – og okkur með. Að draga fram Biblíuna sína og lesa daglega, til dæmis með biblíulestrarskrá Hins íslenska biblíufélags að leiðarljósi sem nú leiðir okkur í gegn um Biblíuna í heild sinni á einu ári, er ein mikilvægasta leiðin til öflugs vaxtar í trú, ásamt bæninni og borðsamfélaginu hvert með öðru og fyrir öðru í nærveru Drottins. Með þrá í hjarta eftir ósvikinni trú finnum við græðslu og grósku í félagsskap við ömmur, ungt fólk og öll hin í orði frá Guði sem við finnum fyrir heilagan anda í því merkilega bókasafni sem nefnist Biblía.
Lestrar: Jes 40.6-8; Heb 4.12-13; Mark 4.26-32