Jóhannes 8, 2 – 11 Biðjum: Góði Guð, við þökkum þér að þú leiðir okkur inn á grundirnar grænu og að vötnunum friðarríku. Amen. Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Við mennirnir felum okkur á bak við lokaðar dyr, á afviknum stöðum, inni í krókum og kimum, í skjóli nætur og undir huliðshjúpi skuggans. Allskonar feluleikir koma fyrir í sögu mannkyns. Strax í Fyrstu Mósebók segir, að þegar Adam og Eva óhlýðnuðust Skaparanum og neyttu forboðinna ávaxta hafi augu þeirra opnast. Þau gerðu sér grein fyrir að þau voru nakin og bjuggu sér til mittisskýlur til að hylja nekt sína. Síðan földu þau sig fyrir augliti Drottins milli trjánna í aldingarðinum.
Stundum felum við okkur til að forðast ógnir sem af öðrum stafa. Við leitum líka í fylgsnin þegar við aðhöfumst það sem aðrir mega hvorki sjá né heyra. Felustaðir hafa til dæmis verið vettvangur ófárra hjúskaparbrota. Á öllum tímum hefur fólk átt í erfiðleikum með að beina kynhvöt sinni í viðurkennda farvegi. Fólk drýgir hór, karlar með konum, karlar með körlum og konur með konum. Óleyfilegir ástarleikir hafa átt sér stað inni í hlöðum eða á ódýrum hótelherbergjum, með óleyfilegum aðilum og stundum með óleyfilegum fjölda þátttakenda. Maðurinn hefur ekki vílað fyrir sér að drýgja margfalt hór á einni kvöldstund. Útrás hans fyrir holdlegar fýsnir sínar tekur á sig ótrúlegustu myndir.
Ástarleikirnir geta ekki síður orðið dauðans alvara en feluleikirnir. Hinum sjóðheitu og forboðnu ástum fylgja gjarnan ískaldar blekkingar, lygar og svik þar sem maðurinn særir og svívirðir þau sem eru honum kærust og næst. Með einu hliðarspori er hægt að tvístra heilu fjölskyldunum og heimili fólks hafa verið leyst upp eftir gaman einnar nætur. II Hórseka konan í guðspjalli dagsins var staðin að verki og gripin glóðvolg. Komið var að henni í miðjum klíðum. Ekkert er sagt frá elskhuga hennar en búið er að leiða konuna út af felustaðnum og stilla henni upp fyrir framan þá sem áfelldust hana. Farísearnir og fræðimennirnar létu hana standa mitt á meðal sín, komu henni fyrir á punktinum þar sem allra augu hvíldu á henni, allra vísifingur bentu á hana og allra ásakandi orð beindust að henni.
Við sjáum konu sem á sér engar málsbætur og enga undankomuleið. Refsingin blasti við, þau málagjöld sem þessari samtíð þóttu makleg slíkum brotum. Hórsekar konur átti að grýta, bauð lögmálið.
Grýtendurnir töldu það skyldu sína að beita þeim viðurlögum sem konan hafði unnið til; sársaukafullum dauða. Réttlætinu þurfti að fullnægja og réttlætið getur verið miskunnarlaust.
Þó er alltaf fleira á ferðinni en réttlæti þegar sökudólgum heimsins er stillt upp þannig, að allir geti séð, bent á og ásakað. Þegar maður heldur á grjótinu og telur sig hafa rétt til að kasta því í aðra manneskju fylgir því tilfinning um yfirburði. Grjótið í hnefa mínum segir mér, að ég sé betri en sú manneskja sem unnið hefur til þess. Um leið og ég bendi á sökudólginn er ég að benda frá mér. Um leið og ég hef upp vísifingurinn upphef ég sjálfan mig. Guði sé lof fyrir þau seku, alla skíthælana og drullusokkana, alla syndaseli heimsins sem við leiðum fram og látum standa mitt á meðal okkar, á síðum dagblaða, í fréttatímum, á bloggum og í athugasemdakerfum. Allt þetta misyndisfólk er sönnun þess, að þótt ég geti verið slæmur, eru þau miklu verri. III Mitt á meðal okkar standa brjáluðu útrásarvíkingarnir, gráðugu auðmennirnir, vanhæfu embættismennirnir, spillta stjórnmálastéttin, sægreifarnir, afæturnar, lattelepjararnir, landsbyggðarlúðarnir, einangrunarsinnarnir, landráðaliðið, trúleys-ingjarnir, múslimarnir og allt trúaða fólkið. Á þessu landi er enginn hörgull á sökudólgum. Og vegna þess að hverjum sökudólgi fylgja ótal fórnarlömb er líka nóg af þannig lömbum á Íslandi.
Hér varð hrun. Alltaf er verið að minna okkur á að hér fór allt svo gjörsamlega fjandans til að það þótti óstjórnlega fyndið þegar forsætisráðherrann bað Guð, helsta óvin fjandans, að blessa Ísland. Eftir mikilmennskubrjálæði bóluáranna tók við tímabil minnimáttarkenndar og mölbrotinnar þjóðarsjálfsmyndar enda er ekki langt á milli þjóðrembunnar og sjálfsfyrirlitningarinnar, sem ef til vill eru tvær hliðar á sama hlutnum.
Þegar við erum óörugg og óviss um okkur sjálf freistumst við til að vera dómhörð við aðra. Ef við sjáum ekkert jákvætt hjá okkur sjálfum geta veikleikar hinna verið stökkbretti til að lyfta okkur upp úr lágkúrunni. Yfirsjónir þeirra og sekt verða upphafning okkar. Það er gömul og vinsæl brella að nota bresti náungans til að fegra sjálfan sig.
Vel má spyrja hvort íslensk stjórnmálamenning sé þessu marki brennd. Hvort of sjaldgæft sé, að íslenskir stjórnmálaflokkar reyni að höfða til okkar með því að draga upp fyrir okkur ákveðna framtíðarsýn, gera grein fyrir glæstum hugsjónum og afla þeim fylgis en þess í stað sé aðalatriðið að útmála galla, heimsku og jafnvel illsku andstæðinganna. Stundum finnst manni íslenskir stjórnmálaflokkar ekki hafa neina eiginlega stefnu nema þá að tryggja með öllum ráðum að hinir komist ekki til valda. IV Því er þó ekki að neita að ásakendur og ákærendur heimsins hafa allir nokkuð til síns máls. Maðurinn er stórvarasamur og engin tilviljun að hann telur sig þurfa að fela það sem ekki þolir dagsljósið. Syndin er til og syndin er lævís og lipur.
Farísearnir og fræðimennirnir töldu sig hafa fullan rétt til að grýta konuna; í raun væru þeir að grýta syndina. Þeirra Guð var hinn vinsæli Guð hreinna lína og skýrra marka, sá Guð sem skerpir skilin á milli okkar, hinna réttlátu, og hinna sem eru sek, sá Guð sem gerir okkur mögulegt að spegla ágæti okkar í stórkostlegum breyskleika hinna. Þegar þeir stóðu frammi fyrir hinni seku konu brugðust þessir herramenn við með áfellisdómum og grjótkasti. Það er hvorki í fyrsta né síðasta skiptið sem maðurinn grípur til þeirra úrræða í baráttu sinni við synd og sekt.
Jesús tók öðruvísi á þessum mannlega breyskleika. Hann skrifaði með fingri sínum á jörðina, þá sömu jörð og átti að taka við blóði sakborningsins. Við vitum ekki hvað hann skrifaði. Ef hann hefði skrifað það á netið hefði það geymst og varðveist því manni er sagt að netið gleymi engu. Hitt sem ritað er á jörðina hverfur ofan í hana í næstu rigningu eða fýkur burt með næstu vindhviðu. Kannski var Jesús einmitt að sýna það með skrifum sínum í rykið að hann vildi ekki dæma. Og þegar hann bað þann syndlausa að kasta fyrsta steininum gátu ákærendur ekki framfylgt hörðum dómum sínum. Hendur þeirra sigu. Hnefarnir opnuðust og steinarnir duttu á jörðina einn af öðrum.
„Ég sakfelli þig ekki heldur,“ sagði Jesús við konuna. Jesús hóf ekki upp vísifingur sinn til að benda ásakandi á hana. Hann lyfti fingri sínum til að benda konunni út í lífið. „Farðu,“ sagði hann við hana. „Farðu af þessum vettvangi dómhörkunnar,“ sagði hann. „Farðu út í lífið þitt og haltu því áfram.“
Og þegar konan var lögð af stað heyrði hún kallað á eftir sér, að syndga ekki framar. Þótt Jesús neiti að dæma og sakfella veit hann að til að halda áfram að lifa lífinu þarf að vara sig á syndinni. Og hann veit að syndin er ekki í því fólgin að móðga siðapostulana eða hinn stranga Guð þeirra. Syndin er að gera það sem er manni sjálfum ekki til góðs. Syndin er að vera sjálfum sér til bölvunar. Syndin er að kannast ekki við sjálfan sig. Syndin er að fela sig í göllum hinna. Syndin er að leynast í fylgsnum fyrir sjálfum sér og Guði.
Í dag göngum við út til lífsins með sömu viðurkenningu í eyrunum og uppörvun hans sem vill hjálpa okkur að lifa sjálfum okkur og öðrum til góðs. Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda.