Kveikt er ljós við ljós, Burt er sortans svið. Angar rós við rós, Opnast himins hlið. Niður stjörnum stráð, Engill fram hjá fer. Drottins nægð og náð Boðin alþjóð er.
Gömul saga segir, að í munkaklaustri einu hafi verið mikið sundurlyndi meðal munkanna, stöðugar deilur og ósætti. Það reynir víst á að búa saman í lokuðu samfélagi eins og klaustri og andinn þar getur líka mengast og byrgt sýn þeirra sem helga líf sitt Guði. Eitt sinn kom í þetta klaustur ferðamaður og dvaldi þar um hríð og auðvitað sá hann og heyrði það sem á gekk. Stöðugt nöldur og ólund og allir óánægðir. Þegar hann kvaddi sagði hann: Einn ykkar er Jesús Kristur. Munkarnir litu á hvern annan undrandi, hver gat það eiginlega verið? En gesturinn sagði ekkert meira og fór sína leið, en skildi eftir sig þessa stóru fullyrðingu, að einn þeirra væri Jesús Kristur. Munkarnir veltu þessu mikið fyrir sér, fannst eiginlega enginn þeirra gæti uppfyllt það að vera Jesús Kristur. Enginn nógu góður, enginn nógu fullkominn, enginn eins og þeir höfðu hugsað sér frelsarann. En eftir að gesturinn fór, var sem andinn í klaustrinu yrði annar og öll framkoma og samskipti munkanna breyttist. Þeir vönduðu sig meira, komu betur fram við hver annan og ekkert illt umtal fékk þrifist meðal þeirra. Jesús Kristur var mitt á meðal þeirra.
Jesús Kristur er mitt á meðal okkar. Jólaboðskapurinn er ekki aðeins að taka á móti kærleikanum, taka á móti Guðs syni, heldur að að leita kærleikans, Jesú Krists, mitt á meðal okkar. Leita hans í heiminum í dag og umvefja, glæða ljós hans, rækta boðskap hans og efla. Með okkar höndum, og okkar hug og með Guðs hjálp, sem hefur sýnt okkur í lífi Jesú Krists, hinn æðsta kærleika, ljósið sanna af Guði tendrað.
Væri lífið ekki annað, ef við leituðum Krists í hverri manneskju sem við mætum?
Mér eru svo minnistæð orð ömmu minnar og mamma mín hafði einnig oft fyrir mér. Þær sögðu svo oft við mig í barnæsku: „Mundu að dæma aldrei aðra manneskju, því þú veist ekki hvað hún hefur mátt reyna í lífinu“. Þetta er góð áminning og mér minnistæð og oft hefur hún komið í hugann í samskiptum mínum við annað fólk, – mundu að koma alltaf vel fram við aðra, því þú veist ekki hvað þau hafa mátt reyna í lífinu.
Góð lífsregla sem gott er að minnast og virða. Að setja sig í spor annarra í samskiptum við samferðafólk, hvert og eitt okkar á sína sögu, lífsögu sem enginn annar á. Og lífsreynslan mótar sérhvert okkar, reynsla sem við getum notað til góðs, jafnvel hin sárasta reynsla getur eflt og styrkt okkur sem manneskjur. Lífsagan og lífreynslan sem mótar hverja manneskju og ekki síst í deiglu bernskunnar. Við minnumst svo margs sem mótar okkur þá.
Að leita alltaf kærleikans í öðrum, leita Jesú Krists í samfélagi samferðafólks, fjölskyldu og vinahópi, rækta það og efla.
Og reyna að bera öðrum ljós frá Kristi. Nú á aðventunni sendi vinur minn spurningu á facebókinni. Hver eru ljósin sem þú sérð á aðventunni í biðinni eftir þessum jólum. Hver eru ljósin mín í nálægð jóla og á helgri hátíð? Í huga koma bernskujólin, æskuheimilið og dásamlegi undirbúningurinn þá, mamma að sauma jólakjólana á okkur fjórar systurnar, allt svo vel gert, oft sat hún við sauma langt fram á nótt. Það var ekki hægt þá, eins og nú að fara bara út í búð og kaupa fínan jólakjól. Og alltaf var ég mætt í nýja kjólnum á jólaskemmtunina í skólanum á síðasta skóladegi, og þá fluttum við krakkarnir leikrit á sal og vorum jafnan í okkar fínasta pússi. Góða lyktin í eldhúsinu í undirbúningi jóla, og höndin hans pabba sem ég fór alltaf með í Hólavallakirkjugarðinn á aðfangadag til að setja fagurlega skreyttar grenigreinar á leiði afa og ömmu, mér er svo minnistæð höndin hans þá, hún var svo sterk en mild og umfram allt traust, það var svo gott að vera með pabba í þessari nálægð missis og dauða og saknaðar og finna að hann passaði mig svo vel.
Já, þetta eru aðeins örfáar kærleikans minningar frá mínum bernskujólum. Ástríkar minningar sem tjá mér svo mikinn kærleika sem ég hef fengið að njóta í lífinu. Um jól og aðra daga líka. Og það er ástæða til að þakka. Hver eru ljósin þín? Þegar við leitum ljósa sem bregða birtu á lífið, þá kallar það fram þakklæti, það er svo margt að þakka.
Hvað þráum við meira en gott líf, njóta trausts og elsku?
Nýlega las ég athyglisverða bók sem heitir: „The soul of money“ og er eftir Lynne Twist. Þar fjallar höfundurinn m.a. um það, hvað við séum alltof upptekin af því sem okkar vantar. Neyslusamfélagið og auglýsingarnar eru þar stór áhrifavaldur, alltaf verið að bera þau skilaboð hvað á skortir. Okkur vantar nýtt sjónvarp, nýrri og betri tölvu og ný föt. Og höfundurinn áréttar að þessi skortur sem við upplifum stöðugt, byrji um leið og við vöknum að hvern morgunn. Um leið og við stígum fram úr rúminu, þá vaknar sú hugsun, að gott væri að fá meiri svefn, enn meiri tíma til að gera allt mögulegt og ómögulegt, meiri tíma með fjölskyldunni, ég þarf betri bíl, missa nokkur kíló, á engin föt, þarf að hreyfa mig meira, mig vantar, ég þarf, mig skortir, segir höfundurinn. Og er það ekki einmitt í undirbúningi jóla sem ekkert má vanta, við megum ekki segja nei við neinu, allt skal vera fullkomið, meira en nóg af öllu og ekkrt má skorta. Það eru eiginlega enginn takmörk fyrir því hvað okkur vantar. Það er eins og við kunnum ekki lengur að segja þetta er nóg, ég þarf ekki meira.
Hvar eru ljósin þín. Er ekki fremur ástæða til að rækta, njóta og þakka fyrir allt sem við eigum? Telja upp með sjálfum okkur allt það góða sem við eigum, reyna að auðga sátt í sálina með því að njóta. Vissulega eru margir sem eiga lítið og þurfa hjálp, jafnvel hér á Íslandi, en flest höfum við meira en nóg. Lífsgleðin er líka fólgin í að gefa öðrum og samgleðjast, heldur en safna sjálf ofgnótt. Hvar eru ljósin þín? Hugsaðu um allar góðar gjafir Guðs, kærleikans gjafir, börnin þín, fjölskyldu þína, hlýja húsið þitt, vináttu samferðafólks, sjá þetta allt sem Guðs kærleikans gjafir.
Kristur er mitt á meðal okkar, okkar er að sjá hann. Okkar er að flytja hann öðrum.
Við erum eins og steindur gluggi í kirkju sagði vinkona mín. Steindir gluggar eru fallegir. Þeir eru alltaf fallegir, en fegurstir eru þeir þegar við sjáum þá að utan, þegar ljós er kveikt inni í kirkjunni sem lýsir út í myrkrið. Við erum fallegust þegar ljós er kveikt hið innra með okkur, sem fær sent geisla sína út í myrkrið.
Þau eru svo mörg ljósin í kringum okkur. Við erum svo lánsöm að búa í friðsælu landi, þar sem börnin eru örugg, í góðum skólum, og unga fólkið getur menntað sig vel. Það er svo mikilvægt að þakka og meta allt það góða sem við njótum í okkar friðsæla og góða landi. Það er erfitt að heyra fréttir af átökum og hatri í heimi sem alltof mikið er í myrkri, hörmulegar fréttir af börnum sem skotin eru til bana eins og í Sandy Hook skólanum í Newtown í USA. Lítil börn sem voru að undirbúa jólin, búin að fá fína jólakjóla og jólaföt og hlökkuðu til jólanna. Og enn þurfa börn í þessum heimi að líða og þjást fyrir stríð, ofbeldi, vannæringu, heimilisleysi og fátækt. Hvar er Jesú Kristur – hver ber ljós vonar og kærleika, hvar eru ljósin glædd? Ljós jólanna er þar líka. Í myrkrum ljómar lífsins sól, ljósið sem tendrað var við fæðingu barns í gripahúsi og lagt var í jötu því eigi var rúm fyrir það í mannabústöðum. Þetta ljós þráir að lýsa yfir lífið allt.
Og þau eru svo mörg jólaljósin sem skína bjart, hvar sem góðverk er unnið, hvar sem huggun er veitt, umhyggja og elska. Margar fallegar minningar jóla segja frá því. Þar sem ekki er dæmt heldur elskað – Dæmdu ekki, því þú veist ekki hvað fólk hefur mátt reyna, eins og mamma og amma sögðu svo oft. Kveikt er ljós við ljós, segir í jólasálminum, burt er sortans svið, angar rós við rós, opnast himins hlið.
Marteinn Lúther King, sá mikli mannréttindafrömuður, sagði: “Við kveikjum ekki ljós með myrkri, við eyðum ekki hatri með meira hatri heldur með elsku”. Kristur er mitt á meðal okkar, leitum hans og finnum, berum vitni um, ljósið jans, kveikjum ljós við ljós. Það boða heilög og gleðileg jól. Amen.