Um þessar mundir bar enn svo við, að mikill mannfjöldi var saman kominn og hafði ekkert til matar. Jesús kallar þá til sín lærisveinana og segir við þá: Ég kenni í brjósti um mannfjöldann. Þeir hafa nú hjá mér verið þrjá daga og hafa ekkert til matar.Láti ég þá fara fastandi heim til sín, örmagnast þeir á leiðinni, en sumir þeirra eru langt að.Þá svöruðu lærisveinarnir: Hvar er hægt að fá brauð til að metta þetta fólk hér í óbyggðum?
Hann spurði þá: Hve mörg brauð hafið þér?
Þeir sögðu: Sjö.
Þá bauð hann fólkinu að setjast á jörðina, tók brauðin sjö, gjörði þakkir og braut þau og gaf lærisveinum sínum, að þeir bæru þau fram. En þeir báru þau fram fyrir fólkið. Þeir höfðu og fáeina smáfiska. Hann þakkaði Guði og bauð, að einnig þeir skyldu fram bornir. Menn neyttu og urðu mettir. Síðan tóku þeir saman leifarnar, sjö körfur. En þeir voru um fjórar þúsundir. Síðan lét hann þá fara.
Mark.8.1-9
Gleðilega hátíð á kirkjudegi Grundarfjarðarkirkju.
Ég þakka það tækifæri sem mér er veitt að flytja Grundfirðingum hamingju og árnaðaróskir og færa fram sérstakar þakkir fyrir örlæti, fórnfýsi og þolgæði safnaðarins í þágu kirkjunnar fyrr og síðar. Ég blessa minningu hirðanna sem á undan eru gengnir og leiddu söfnuð sinn að lindum orðsins hér og áður á Setbergi. Ég minnist með sérstakri virðingu og mikilli þökk vináttu við frú Áslaugu Sigurbjörnsdóttur, Guð blessi minningu hennar, og séra Magnús Guðmundsson, en þau hjónin voru hér í forystu þegar kirkjusmíðin hófst í Grafarnesi, eins það hét þá. Hér var skráður merkur kapítuli kirkjusögu tuttugustu aldar með vinnubúðum alkirkjuráðsins. Hér eru viðstaddir í dag menn sem á unga aldri tóku þátt í vinnubúðunum ásamt ungu fólki frá fjarlægum löndum og kirkjudeildum. Með þessu var brotið í blað í kirkjusögu landsins. Eins með nýbreytni í helgihaldi hér sem voru fjölskyldumessurnar, sem ekki hafði áður þekkst hér á landi.
Við hugsum til séra Magnúsar með hlýju og virðingu og sendum honum héðan hugheilar kveðjur. Guð varðveiti hann og styrki. Drottinn blessi þjóna sína alla. Guð launi og blessi allt það sem unnið er kirkju hans og kristni til þarfa hér, og vaki yfir þessum helgidómi og byggðarlagi.
Sögur guðspjallanna eru margskonar. Þær eiga það sameiginlegt að allar benda þær á þann milda mátt og góða vilja sem er Guð. Við höfum þegið þessar helgu frásagnir sem nesti, þær eru arfur okkar sem mótað hafa menningu og sið okkar heimshluta um aldir. Sagan um Guð og mann, líf og heim, sagan um miskunnsemina, fyrirgefninguna, um krossinn og upprisuna, um það sem er uppspretta vonar og framtíðar. Þær kenna okkur hverju við eigum að trúa, hvernig við eigum að breyta og hvers við megum vona.
Guðspjall dagsins er frásögn um nesti, sem varð að nægtum. Öll guðspjöllin segja þessa sögu, sum nefna til ungan pilt, en samt aldrei með nafni. Skrítið er það. En það segir okkur að hann er bara hvaða drengur sem er, hvaða unga manneskja sem er, - og gæti reyndar eins verið ég eða þú. Það er vafalaust málið í þessari sögu. Við vitum ekki hvað hann hét, en við vitum hvernig manneskja hann var. Hann býður fram nesti sitt svo aðrir mættu njóta. Og þá gerðist kraftaverk.
Hér fyrr í sumar kom sprenglærður breskur professor, dr. Dawkins, og flutti fyrirlestur undir yfirskriftinni: "Trúarbrögð - Rót alls ills?" Vissulega var spurningarmerki við, en ekki fór nú mikið fyrir því í óvenju löngu og ítarlegu Kastljóssviðtali. Hann hélt því blákalt fram að trúarbrögð væru rót alls ills. Hann var spurður hvernig heimurinn liti út ef ekki væru trúarbrögð? Hann svaraði án þess að hika: já þá ættum við amk tvíburaturnana. Merkileg einföldun það! Eins mætti spyrja, hvernig heimurinn liti út ef engin viðskipti væru, eða ef engin ást væri í veröldinni, þar sem flest stríð eru háð vegna viðskiptahagsmuna, og ástin er iðulega undirrót verstu ofbeldisverka! Allt sem manninum er hjartfólgið getur orðið orsök átaka og ills, því miður. Engum dettur þó í hug að afnema það. Eins kom fram það vel þekkta sjónarmið hjá prófessornum, að ekki eigi að kenna börnunum trú, heldur gefa þeim kost á að tileinka sér þá trú sem þeim sýnist þá og þegar þau hafi aldur til. En það er auðvitað ekkert nema innræting, það að þegja um trú er innræting gegn trú.
Hinar helgu frásagnir, bænin og trúin, er besta veganestið, og besta forvörnin í viðsjálverði veröld. Við vitum líka að ekkert foreldri getur haldið óæskilegum áhrifum frá barni sínu. Ekkert foreldri getur varið barn sitt gegn þeim margvíslegu áreitum sem úr öllum áttum sækja að. Foreldri getur ekki varið barn sitt, gegn hinu illa, en það getur miðlað því hinu góða, þeim góðu áhrifum sem helst megna að vernda og verja. Bænin og frásagnir Biblíunnar er staðgott nesti og næring sál og anda. Það er margstaðföst reynsla að bænin og barnatrúin verður iðulega viðnám, viðmið og líflína heim; hjálp í nauðum, leiðsögn í lífi, huggun í sorg.
Bænaversin, biblíusögurnar og barnatrúin gegna eiginlega sama hlutverki og móðurmálið. Það barn sem ekki lærir móðurmál sitt á fyrstu árum ævinnar, mun seint ná fullum málþroska. Barn sem ekki lærir að biðja verður málhalt og lesblint gagnvart því sem mestu varðar í lífinu. Guð blessi þá foreldra og kennara sem standa vilja vörð um hinn kristna sið og uppeldi. Með því að kenna börnunum bænir og sögur og viðhalda iðkun trúarinnar er verið að gefa þeim ungu veganesti sem best dugar til lífsgöngunnar, ekki bara þeim einum, heldur heimi, samfélagi, samferðarfólki. Það er ekkert minna en stórfellt menningarslys í uppsiglingu hér, ef ungt fólk á Íslandi í dag þekkir ekki lengur sögurnar af miskunnsama Samverjanum, eða týnda syninum, eða söguna um krossinn og upprisuna. Hér berum við mikla ábyrgð.
Guðspjall dagsins er saga um kraftaverk. Jesús var staddur í eyðimörkinni og mikill mannfjöldi streymdi að til að sjá hann og heyra. Nú var degi tekið að halla og löng heimferð framundan, og allir matarlausir. Og þá vann Jesús kraftaverk. Nokkur brauð sem drengur hafði í nestisboxinu sínu urðu að nægtum. Jesús tók þau og blessaði og rétti fólkinu svo allir fengu nóg.
Ég hef tilhneigingu til að taka frásagnir guðspjallanna bókstaflega, af því að ég reiði mig á hann sem er sannleikurinn og lífið. En ef til vill, já ef til vinn var kraftaverkið einfaldlega það að Jesús tók þetta litla nesti og skipti því á meðal margra, og þá sáu allir hinir að ef þeir deildu með sér hefðu allir nóg? Jesús nam nefnilega úr gildi þyngdarlögmálið að hver sé sjáfum sér næstur! Hafi hann numið það úr gildi hjá þeim í eyðimörkinni þarna forðum, þannig að allir sáu að það var nóg til svo allir yrðu mettir, þá er það kraftaverk, dásamlegt kraftaverk, eins og alltaf þegar kærleikurinn hefur betur en sjálfselskan og eigingirnin. Þegar trúin og vonin leysir viðjar uppgjafar og vonleysis.
Um það er Grundarfjarðarkirkju ætlað að vitna. Og henni er ætlað að hýsa og umlykja þá iðkun og atferli sem rifjar upp söguna, minnist, miðlar, þeim áhrifum inn í samfélagið hér og til komandi kynslóða, sem mótar og styrkir manneskjur sem láta gott af sér leiða, manneskjur sem láta gjafmildi, góðvild, umhyggju og kærleika ráða för. Manneskjur sem Guð og allir góðir menn og allir góðir englar gleðjast yfir. Það gefi góður Guð að svo verði. Honum sé dýrð um aldir alda. Amen