Valþjófsstaðarkirkja, jóladagur 2019
Náð sé með yður og friður
frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen.
Lyfti litla barninu úr jötunni
og legg það að hjarta mínu
kannski til að hlýja því,
kannski til að hugga það.
Finn þó fljótt að það er barnið sem hlýjar
mér
og þegar það grípur fast um fingur minn
er það ég sem verð óhrædd.
Undir logandi jólahimni,
með barnið við hjarta mitt
heyri ég nýjan, hreinan tón í brjóstinu.
Um mig hríslast friður himinsins.
Þannig yrkir
Halla Jónsdóttir, kennari, í nýju jólaljóði.
Það að halda
kristin jól er sannarlega að leyfa barninu í jötunni að hlýja sér svo að við verðum
óhrædd og heyrum „nýjan, hreinan tón í brjóstinu.“
Jólin eru
tími andstæðna.
Þau eru
vissulega í hugum flestra gleðitími
þar sem fjölskylda og vinir sameinast við allsnægtaborð. Gjafir, matur og
umfram allt samvera vekja okkur gleði og vonandi líka þakklæti. Og frá
sjónarhóli trúarinnar eru jólin svo sannarlega gleðihátíð. „Sjá, ég boða yður
mikinn fögnuð,“ segir engillinn
Gabríel við fjárhirðana í jólaguðspjalli Lúkasar (2.10). Sonur Guðs er kominn í
heiminn til að frelsa syndugar manneskjur og vísa veginn í eilíft kærleiksríki
Drottins. Það er ástæða til að fagna!
En svo eiga
jólin líka skuggahliðar, andstæður
allrar gleðinnar. Sá sem er einn, á fáa að eða hefur brennt að baki sér brýrnar
til ástvinanna, finnur sjaldan sárar til einsemdar sinnar en á jólunum. Og sú
sem hefur misst eitthvert þeirra sem voru henni kærust, finnur líka hvernig
sorgin ristir enn dýpra þegar vantar í sætið við jólaborðið. Fyrir mörg þeirra
sem þurfa að halda sig frá vímugjöfum geta jólin verið sérlega krefjandi tími.
Birtan hefur líka áhrif á lundina og hér á Íslandi finna ótrúlega margir fyrir
depurð í skammdeginu. Ekki má gleyma kröfunum og atinu sem mörg okkar upplifa á
aðventunni. Þegar væntingarnar eru ekki í samræmi við raunveruleikann getur
fallið reynst hátt. Úttaugaðar barnafjölskyldur eða t.d. starfsmenn verslana
eru jafnvel hreinlega orðnir of þreyttir þegar jólin koma, til að geta upplifað
þau sem hvíld eða gleðigjafa. Og þegar samfélagið heldur allsnægtahátíð í vel
smurðu gangverki markaðsaflanna getur vanmátturinn gripið þau sem hafa lítið
milli handanna.
Svona gæti ég
haldið áfram að telja upp andstæðurnar við jólagleðina og listinn orðið langur.
Sumu hef ég kynnst á eigin skinni en upplifað annað í gegnum samtöl við þau,
sem leita til kirkjunnar í aðdraganda jóla. Skrefin inn til prestsins geta
verið blýþung þegar erindið er að ræða innstu mál hjartans. Þau skref útheimta
mikið hugrekki og traust. Það er svo merkilegt að það að þora að stíga skref af
því tagi, að vera tilbúinn að opinbera vanmátt sinn og veikleika fyrir
einhverjum sem vill hlusta, það er merki um styrkleika.
Einmitt þá, þegar við leitum aðstoðar í vanmætti, þá geta stórkostlegir hlutir
gerst og hinn sanni styrkur okkar komið í ljós! Það minnir á orð Páls postula,
að „mátturinn fullkomnast í veikleika“
(2. Kor. 12.9).
Í
jólaguðspjallinu birtist máttur Guðs í einu af því mest veikburða á jörðinni,
nýfæddu barni. Hafið þið ekki velt því fyrir ykkur hvað afkvæmi okkar mannanna
eru lítils megnug í samanburði við ýmislegt annað í dýraríkinu? Folald, kálfur
eða bara lamb sem er nýkomið í heiminn reynir býsna fljótt að hreyfa sig og
spreytir sig við að standa á eigin fótum. Þetta er ekki hagstæður samanburður fyrir
manneskjurnar: Nýfætt mannsbarn er mánuðum saman alveg óskaplega ósjálfbjarga!
Einmitt
þannig valdi Guð að koma inn í þennan heim – í mynd barns.
Og ekki bara
það. Í jólasögunni sjáum við mikinn mannlegan vanmátt. Eiginlega voru ytri
aðstæðurnar við fæðingu Jesú að flestu leyti ömurlegar. María og Jósef voru
kornung og hafa eflaust verið í öngum sínum yfir að þurfa við lok meðgöngunnar
að leggja á sig langt ferðalag til að þóknast útlendum harðstjóra, og fá svo
hvergi gistingu á áfangastað. Fæðingarstofan var dimmur og óhreinn gripahellir.
Í bakgrunninum fréttist af Heródesi, grimmum konungi, sem er tilbúinn að grípa
til vopna gegn saklausum börnum til að tryggja völd sín. Í öllu þessu ati
fæðist Kristur, eins og skínandi og fögur perla, vanmáttugt barn inn í
veikburða heim – en samt sannur Guð af sönnum Guði!
Textinn sem
ég las hér á undan predikuninni er í rauninni jólaguðspjall Jóhannesar
guðspjallamanns. Hann minnist hvorki á fjárhirða, jötu né vitringa, heldur
útskýrir komu Jesú í heiminn og merkingu þess atburðar með ljóðrænum og djúphyglum
hætti. Þó að Jesús fæðist í afar veikburða aðstæðum minnir Jóhannes okkur á að
Jesús er alls ekki af hinu veika, heldur af Guði. Hann byrjar guðspjall sitt svo:
Í upphafi var Orðið og Orðið var hjá Guði
og Orðið var Guð.
Orðið er kröftug leið til að lýsa Jesú
Kristi sem huga og visku Guðs, þeim frumkrafti sem býr að baki öllu, er í öllu
og er langt handan allra mannlegra
hugsana um tíma og rúm:
Hann var í upphafi hjá Guði... og
heimurinn var orðinn til fyrir hann.
Þetta er
barnið í Betlehem: Mátturinn mesti sem birtist í einu því allra veikasta sem
til er hér á jörð.
Skrýtið? Já,
kannski.
Undur? Svo
sannarlega!
Í hinu veika
birtist hinn sterki, sá sem við getum
leitað athvarfs hjá.
Í
jólatextanum sínum, sem er inngangurinn að guðspjalli Jóhannesar, klykkir hann
út með þessum orðum: Enginn hefur nokkurn
tíma séð Guð. Sonurinn eini, Guð, sem er í faðmi föðurins, hann hefur birt hann
(1.18). Þetta gríska orð sem hér
er þýtt með faðmi mætti reyndar þýða
með miklu nánari hugtökum eins og barmur
eða skaut.
Merkingin er
þá:
Jesús hvílir
við brjóst Guðs. Jesús er í fanginu á Guði.
Þetta orðalag
vísar til dýpsta kærleikssambands sem er hægt að hugsa sér. Og ekki nóg með
það. Okkur er boðið að taka þátt í
þessu kærleikssambandi, vegna þess að
Jesús kom til okkar sem manneskja, Orðið varð hold.
Lyfti litla barninu úr jötunni, yrkir hún Halla Jónsdóttir, og síðar
í ljóðinu segir hún:
Finn þó fljótt að það er barnið sem hlýjar mér
og þegar það grípur fast um fingur minn
er það ég sem verð óhrædd.
Lífið
er ekki alltaf einfalt eða auðvelt. Og við þurfum ekkert að setja upp þann svip
á jólunum, að láta eins og það sé alltaf auðvelt. Að minnsta kosti ekki frammi
fyrir Guði. Stundum erum við bara mjög vanmáttug. Guð hefur ekki lofað okkur
auðveldu lífi. En hann hefur lofað okkur að
vera með okkur. Jesús býður okkur að hvíla með sér í fanginu á Guði, við
barm Guðs, og að láta máttinn sinn fullkomnast í veikleika okkar.
Þá
er það barnið sem hlýjar okkur, svo að við verðum óhrædd.
Undir logandi jólahimni,
með barnið við hjarta mitt
heyri ég nýjan, hreinan tón í brjóstinu.
Um mig hríslast friður himinsins.
Dýrð sé Guði, föður, syni og
heilögum anda, svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.