Dýrð sé Guði
„Dýrð sé Guði í upphæðum og friður á jörðu og velþóknun Guðs yfir mönnum.“ (Lúk 2.14)
Þannig sungu englarnir hina fyrstu jólanótt. Og nú höfum við enn á ný fengið að taka undir söng þeirra, er við fögnum fæðingu frelsarans Jesú Krists og minnumst í gleði og þakklæti komu hans inn í þennan heim.
Dýrð sé Guði föður, sem svo elskaði heiminn að hann gaf einkason sinn til þess að hver sem á hann trúir glatist ekki heldur hafi eilíft líf. Honum einum sé dýrðin um alla tíma. Amen.
Ég óska ykkur öllum gleðilegra jóla kæri söfnuður. Megi góður Guð blessa okkur og varðveita, á þessari stundu og um alla tíma.
Hvers konar jól?
Hvaða merkingu hafa jólin í þínum huga? Hvers vegna heldur þú upp á jólin? Þetta kann að vera skrýtin spurning. Svarið segir sig sjálft: Þú heldur upp á jólin til að minnast og gleðjast yfir fæðingu Jesú Krists. Án hans hafa jólin enga sérstaka merkingu.
Eða hvað? Er þetta sjálfgefið svar? Ég er hræddur um ekki.
Í hugum margra eru jólin orðin nokkurs konar táknmynd, óskilgreind hátíð „ljóss og friðar“. Jólin eru tími fjölskyldunnar, sá tími þar sem fólk kemur saman í skammdeginu til þess að gleðjast og gera vel við sig og aðra. Á jólunum er horft fram á veginn með von og bjartsýni í huga og hjarta, á sama tíma og sólin hækkar á lofti og birtan vex með hverjum deginum sem líður.
Vitaskuld eru jólin allt þetta. Þau eru ekkert minna en þetta. En ef jólin eru ekkert annað og meira en það, þá er engin sérstök þörf fyrir Jesú Krist. Það er þá vel hægt að halda upp á jólin án hans. – Og margir gera það, er það ekki?! Margir hafa slitið jólin út úr sinni kristnu umgjörð. Fyrir þeim eru jólin orðin veraldleg og samhengislaus að meira eða minna leyti. Eftir stendur notalegur tími í faðmi fjölskyldunnar, falleg ljós, fallegar hugsanir, góður matur, gjafaskipti, og skemmtilegt efni í sjónvarpinu.
En auðvitað er þetta ekki heldur sjálfgefið. Margir halda upp á annars konar jól, kristin jól, þar sem gleðin, friðurinn og kærleikurinn, sem jólin bera með sér, eru ekki orsök jólanna, heldur afleiðing þeirra; þar sem gjafir er gefnar í minningu um og þökk fyrir þá miklu gjöf sem er sjálfur frelsarinn Kristur; þar sem bjartsýnin og vonin sem vakna stafar ekki af hækkandi sól heldur fyrst og síðast af Honum sem er ljós lífsins, hinu sanna ljósi sem er inn í heiminn komið; þar sem jólin eru ekki aðeins táknmynd heldur standa fyrir raunverulegan atburð í sögunni sem hefur eitthvað segja um lífið og tilveruna.
Spurningin er hvers konar jól heldur þú upp á? Hverju ert þú að fagna? Yfir hverju ert þú að gleðjast.
Allt sem þú þarft til jólanna
Þeir, sem leitast við að finna Jesú Kristi verðugan stað í jólahaldi sínu gera sér hins vegar oft erfitt fyrir og fara jafnvel á mis við hið sanna innihald jólanna af þeim sökum. Ástæðan er sú að fólk lætur of auðveldlega blekkjast af auglýsingunum sem segja: „Hjá okkur færðu allt sem þú þarft til jólanna.“
Fólk telur sér trú um að jólin komi ekki nema allt sé á sínum stað og ekkert vanti. Slíkur hugsunarháttur hefur því miður ekki einskorðast við jólin. Of lengi hafa of margir talið sér trú um að hið góða líf gangi kaupum og sölum. En raunin er auðvitað önnur, eins og við vitum. En neysluhyggjan – sem við íslendingar höfum sannarlega fengið að kenna á líkt og margir aðrir – hefur því miður gert það að verkum að oftar en ekki fær fólk alls ekki það sem það þarf til jólanna. Það fær miklu fremur streitu, álag, kvíða og áhyggjur. Jólin, þvert á það sem til var ætlast, verða byrði á fólki, andleg, líkamleg og fjárhagsleg. Fólk er orðið uppgefið löngu áður en jólin ganga í garð. Og þegar jólin loksins koma þá er engu líkara en að fólk sé að jafna sig og safna kröftum eftir löng veikindi. Þannig koma jólin og fara án þess að gætt sé að raunverulegu innihaldi þeirra. Fólk hreinlega missir sjónar af tilgangnum – ef það yfirleitt horfði til hans. Umbúnaður jólanna yfirskyggir það innihald sem sönn jól eru fólgin í.
Hin sönnu jól
Hin sönnu jól spyrja alls ekki um ytri umbúnað heldur innri umbúnað – um hugarfar, viðhorf, tiltekna sýn á lífið, um trú og traust. Sönn jól eru ekki veraldleg. Það er ekki hægt að búa þau til eða kaupa þau. Þau eru hvergi til sölu. Það sem þarf til jólanna er í raun ekki af þessum heimi. Hin sönnu jól koma til okkar að ofan. Eins og segir í upphafi Jóhannesarguðspjalls: „Í upphafi var Orðið og Orðið var hjá Guði og Orðið var Guð . . . Og Orðið varð hold.“
Jólin eru fólgin í því að gáttir opnast á milli þessa heims og annars, á milli himins og jarðar, á milli hins tímanlega og tímalausa, á milli hins sýnilega og hins ósýnilega, á milli manns og Guðs.
Jólin snúast um Guð, sem er skapari alheimsins, uppruni og markmiðs alls sem er, heilagur, takmarkalaus, almáttugur og eilífur. Guð sem gerir vart við sig. Guð sem er með okkur. Guð sem kemur til okkar til að gera okkur vilja sinn og kærleika augljósan. Guð sem varð sjálfur maður mannsins vegna, þín og mín.
Hann kemur langt að. Hann kemur niður, langt ofan úr hæðum, úr eilífðinni, þar sem enginn tími ríkir, inn í tíma og rúm. Hann tekur sér stöðu með manninum sem hann hafði skapað, hann sem sjálfur var ekki skapaður. Hann verður maður sjálfur, klæðist mannlegu holdi og tekur á sig allt sem mannlegt er. En hann gerir það til þess að geta gefið manninum hlutdeild í guðdómi sínum. Hann kemur niður til þess að geta haft manninn aftur upp með sér.
Við getum séð fyrir okkur mann sem beygir sig niður, sífellt lengra, mann sem lýtur eins lágt og hann getur, til þess að komast undir og ná utan um einhverja gríðar mikla og þunga byrði. Byrði sem enginn venjulegur maður gæti lyft í eigin valdi. Hann verður að lúta svo lágt til að geta lyft henni upp að hann nánast hverfur undir hana. Þangað til hann beitir ótrúlegum mætti sínum og byrjar að rétta úr sér, hægt og rólega, betur og betur, uns hann hefur náð að lyfta þyngslunum öllum upp á bak sér, og gengur með þau burt.
„Komið til mín“, segir Jesús Kristur. „Komið til mín, allir þér sem erfiði hafið og þungar byrðar, og ég mun veita yður hvíld. Takið á yður mitt ok og lærið af mér, því að ég er hógvær og af hjarta lítillátur, og þá munuð þér finna hvíld sálum yðar. Því að mitt ok er ljúft og byrði mín létt.“ (Matt 11.28-30)
Sonur Guðs gerðist maður svo að menn gætu orðið börn Guðs – ég og þú. Hann kom til þess að taka á sig allar þær byrðar sem þú berð. Hann kom til þess að létta þeim af þér. Jólin gefa Guði ásjónu, þau gera hann sýnilegan og gera kærleika hans áþreifanlegan. Þá ásjónu ber barnið litla í Betlehem. Í því höfum við fyrir augum okkar sjálfan Guð. Það er hann sjálfur sem horfir á okkur. Þegar við skiljum hver Guð er, trúum á hann og leggjum traust okkar á hann þá skiljum við um leið að ekkert getur skipt meira máli en koma hans inn í þennan heim. Það eru ekki til gleðilegri tíðindi en þau.
Að upplifa jólin
Að upplifa jólin er fólgið í því að opna hug sinn og hjarta fyrir Jesú Kristi, fyrir barninu í Betlehem, og gera líf okkar að jötu fyrir það að liggja í. Þegar við gerum það, þegar við gefum Jesú Kristi pláss í okkar lífi, þá tökum við á móti jólunum. Um leið og við þiggjum gjöf Guðs þá gefum við Guði okkur sjálf. Að halda upp á jólin er að vitja barnsins í Betlehem í huga sínum og hjarta og leyfa því að vaxa þar og dafna; að leyfa því að eldast með okkur og okkur að eldast með því. Að vera kristinn er að lofa þessu barni að vaxa innra með sér og taka yfirhöndina í okkar lífi svo að við getum í einu og öllu borið Guði vitni í öllu því sem við hugsum, segjum og gerum, Guð einum til dýrðar, náunga okkar til blessunar og okkur sjálfum til eilífs hjálpræðis. Um það snúast jólin. Það eru jólin. Og þau eiga ekki að vera bundin við einn dag frekar en annan eða einn árstíma umfram annan. Jólin snúast um Guð sem er hér, hér og nú, að leita þín og vill finna þig. Guð sem vill gefast þér. Að halda upp á jólin er að gefast honum.
Megi friður hans og kærleikur blessa þið og varðveita þessi jól og um alla tíma. Í Jesú blessaða nafni. Amen.