Konungsgjafir

Konungsgjafir

Þetta er gjöfin sem við þiggjum á jólum. Konungsgjöf sem ætluð er okkur. Mér og þér, hvort heldur sem við njótum hughrifa jólanna í botn með allir þeirri gleði sem þeim fylgir, eða við upplifum blendna jólagleði vegna fátæktar, einmanaleika, sorgar eða einhvers annars sem varpar skugga á tilveru okkar. Konungsgjöfin, gjöfin dýrmætasta, er ætluð þér. Og í henni felast verðmæti sem þú ein, eða þú einn, getur ráðstafað. Þú átt í þessari gjöf veganesti sem getur reynst þér lífsbjörg ef þú lendir í hremmingum, verður vegalaus og alls laus. Og þessi gjöf lifir með þér alla daga, sem stjörnum stráð nærvera Guðs.

Kirkjan ómar öll! Gleðileg jól! Í dag komum við saman, og njótum þess að syngja alla dásamlegu jólasálmana, sem hafa sumir hverjir sennilega hljómað í eyrum okkar síðan í gærkveldi. Hátíðartónið setur svip sinn á helgihaldið, Kertaljósin, jólaskreytingarnar og jólatréð, allt þetta hjálpar okkur að gera messuna að sannkölluðu hafi hljóma, lita og birtu, og það er einmitt það sem við viljum, við viljum upplifa himnesk hughrif á jólum. Því að jólin eru hátíð tilfinninga, skynjunar, vellíðunar. Ég held að viðleitni okkar til þess að skapa alla þessa vellíðan á jólum, sé í grunnin viðleitni okkar til að endurspegla hugmyndir okkar um himneska tilveru. Tilfinningu um að allt sé fullkomnað, allt sé eins og það á að vera. Og jólaundirbúningurinn gengur út á þetta. Að finna birtu, yl, njóta alls þess besta sem tilveran hefur upp á að bjóða, hvort heldur sem er í samveru ástvina, fögrum listum og skreytingum, eða mat og drykk.

En eru jólin þetta? Fegurð, friður og huggulegheit? Veröldin er oft sortans svið, vonskuvindur næðir gjarnan um mannlega tilveru og í fæðingarfrásögnunum sem við heyrum á jólum er hann svo sannarlega til staðar, í aðstæðum litlu fjölskyldunnar sem ferðast frá Nazaret til Betlehem og barn sem fæðist í fjárhúsi, því ekkert annað er í boði. Fjölskylda er ofsótt og leggur á flótta, börn eru myrt af útsendurum harðstjóra. Tilvera mannfólksins er oft napurleg, jafnt í fæðingarfrásögnunum sem og í raunveruleikanum. Glansmyndirnar sem við búum til af fæðingu Jesú eru jafn óraunverulegar og jólasnjór í Betlehem. Það er til brandari sem segir eitthvað á þá leið, að ef vitringarnir hefðu verið konur, hefðu þær komið með pottrétt, barnamat og bleyjur, og þær hefðu komið á réttum tíma! Skemmtilegur snúningur á sögunni, og segir okkur það að sýn okkar á hluti breytist og verðmætamat líka. En þessi snúningur tengir okkur líka við raunveruleikann, tekur glansinn af fæðingarfrásögninni og beinir huganum að praktískum hlutum. Ég hafði reyndar aldrei hugsað út í þetta fyrr en eitthvert skólabarnið sem heimsótti mig í kirkjuna spurði mig: Til hvers notaði Jesúbarnið eiginlega gull, reykelsi og myrru? Ég þurfti að hugsa hratt og fann sennilegt svar: María, Jósef og Jesúbarnið gátu nefnilega ekki farið aftur heim til sín, til Nazaret, eins og þau ætluðu sér, heldur urðu þau að flýja eins og þau stóðu til Egyptalands. Þá hefur það sennilega komið sér vel að eiga gull, reykelsi og myrru, sem voru mikil dýrmæti á þessum tíma, kannski einu verðmætin sem fjölskyldan átti. Og þar að auki voru gull, reykelsi og myrra konungsgjafir, þetta voru þær gjafir sem konungum voru gefnar, og það er aldrei að vita nema að þær hafi opnað einhverjar dyr fyrir litlu fjölskyldunni, reynst þeim einskonar diplómatapassi á erfiðum flótta undan illsku og hatri.

Jólahátíðin þarf alltaf að vera blanda af þessu tvennu sem ég hef talað um. Annars vegar þessi dásamlegu hughrif, öll birtan, fegurðin, gleðin, jólasnjórinn, minningarnar, ilmurinn, hljómurinn..... jólaglansmyndin Hins vegar raunveruleikinn, Betlehem dagsins í dag, raunverulegt flóttafólk, fátækt, einsemd, sorg og missir. Af því er nóg að taka og við skynjum það sérstaklega núna um jólin eftir tvö banaslys í umferðinni. Það er ekkert glansandi við þá mynd. Við megum aldrei aðskilja þetta tvennt, einblína á glansmyndina og gleyma raunveruleikanum. Jólahald án þess að hugsa um aðra er tilgangslaust jólahald því að gleði sjálflægninnar er innantóm og hol. En svo þurfum við ekki heldur að einblína á skuggana og myrkrið, hinn sára veruleika, því að fegurðin, gleðin, birtan, allt eru þetta hlutir sem valda skuggaskilum.

Fæðing Jesú var skuggaskil. Myrkrið ræður ekki lengur ríkjum, það hefur ekki sigrað. Orðið varð hold, með fæðingu Jesú hlotnaðist okkur sú stærsta gjöf sem gefin hefur verið, Guð gaf sjálfan sig. Konungsgjöfin dýrmætasta, sem skín bjartar en gull, ilmar sætara en reykelsi og linar betur þjáningar en myrran, er Jesús. Guð sjálfur sem settist að meðal okkar mannanna, gekk um á meðal okkar og sýndi okkur hver Guð er.

Þetta er gjöfin sem við þiggjum á jólum. Konungsgjöf sem ætluð er okkur. Mér og þér, hvort heldur sem við njótum hughrifa jólanna í botn með allir þeirri gleði sem þeim fylgir, eða við upplifum blendna jólagleði vegna fátæktar, einmanaleika, sorgar eða einhvers annars sem varpar skugga á tilveru okkar. Konungsgjöfin, gjöfin dýrmætasta, er ætluð þér. Og í henni felast verðmæti sem þú ein, eða þú einn, getur ráðstafað. Þú átt í þessari gjöf veganesti sem getur reynst þér lífsbjörg ef þú lendir í hremmingum, verður vegalaus og alls laus. Og þessi gjöf lifir með þér alla daga, sem stjörnum stráð nærvera Guðs, sem lind lífsins fyrir særða sál, sem ljúfur sumarvindur, eins og Vilborg Dagbjartsdóttir orðar svo fallega í ljóðabókinni Síðdegi þar sem hún segir:

GUÐ

Alstaðar finn ég þig yndisleg návist þín umvefur mig

sem ljúfur sumarvindur

Jörðin gengur sinn veg gegnum myrkur - geimryk og glóandi sindur

Hún snýr sér dansandi í hring

En dýrð þín er Drottinn uppi yfir mér og allt um kring.

Dýrð Drottins ljómaði á Betlehemsvöllum og hún birtist okkur í Jesú sjálfum, hinu sanna ljósi frá Guði. Það er þessi dýrð sem við reynum að endurspegla í jólahaldinu, en hún er líka með okkur aðra daga, í erli hversdagsins, í gleði og í sorg. Guð gefi að við megum taka á móti gjöfinni dýrmætustu og leyfa dýrð Guðs að umvefja okkur alla daga.

Dýrð sé Guði, sem varð hold og bjó með okkur. Amen.