Full af gleði - og kvíða

Full af gleði - og kvíða

Skáldið ræðir við Guð um tilfinningar sínar sem við öll getum væntanlega samsamað okkur við, gleði og kvíði gagnvart lífsundrinu.

Um daginn fóru heldri borgarar úr Fossvogsprestakalli í vorferð í Hvalfjörðinn. Við heimsóttum meðal annars Hallgrímskirkju í Saurbæ sem vígð var þann 28. júlí árið 1957. Þá voru þar prestshjón Guðrún Þórarinsdóttir og Sigurjón Guðjónsson, sálmafræðingur og sálmaskáld. Þau hjónin, frú Guðrún og séra Sigurjón, sátu staðinn í rúmlega þrjátíu ár og var þeirra þáttur í að kirkjan reis svo fögur og listaverkum prýdd, ómetanlegur.

 

Nokkrir sálmar eftir séra Sigurjón eru í nýju sálmabókinni okkar. Einn þeirra er yndislega fallegur skírnarsálmur, númer 351, þýddur úr norsku.[1] Sálmurinn lýsir svo vel tilfinningum foreldra með „með eitt lítið barn“ í sínum höndum, gleði yfir undri lífsins en líka kvíða fyrir huldri framtíð. Skáldið ræðir við Guð um tilfinningar sínar sem við öll getum væntanlega samsamað okkur við, gleði og kvíði gagnvart lífsundrinu.

 

Full af gleði yfir lífsins undri

með eitt lítið barn í vorum höndum

:,: komum vér til þín sem gafst oss lífið. :,:

 

Full af kvíða fyrir huldri framtíð
leggjum vér vort barn í þínar hendur.
:,: Blessun skírnar ein fær veitt oss styrkinn. :,:

 

Inn í þessar stóru og miklu tilfinningar talar nærvera Guðs, Guðs sem „geymir dýptir allra heima“ en vitjar líka okkar í smæð okkar. Kannski er þarna tilvísun í lofsöng Maríu (Lúk 1.48): „Því að hann hefur litið til ambáttar sinnar í smæð hennar, / héðan af munu allar kynslóðir mig sæla segja.

 

Full af undrun erum vér þér nærri!
Þú sem geymir dýptir allra heima,
:,: vitjar hinna smáu - tekur mót oss. :,:

 

Nýja lífið sem við fæðumst til í skírninni, lífið í Kristi, er hið sanna líf „í trú og trausti“, segir skáldið, lífið sem lifir áfram, ljósið sem aldrei slokknar.

 

Fyrir þig, af föðurelsku þinni
fæðumst vér á ný til lífs í Kristi,
:,: til hins sanna lífs í trú og trausti. :,:

 

Og við takmörk tímans áfram lifa
fyrirheitin þín við skírnarfontinn,
:,: skírnarljósið skín þá lífið slokknar. :,: 

 

Þannig er skírnin dýrmætari en nokkur orð ná yfir, gjöf skírnarinnar er líf sem ekki takmarkast af tíma og rúmi. Og bæn skáldsins er sú, að við mættum fyllast trúargleði gagnvart því undri lífsins sem ekkert fær tekið frá okkur.

 

Meiri auð en orð vor ná að inna
öðlumst vér í skírnargáfu þinni.
:,: Drottinn, lát oss fyllast trúargleði. :,:

 

Tilfinningin yfir því undri lífsins sem lítið barn er, og þeim kvíða sem hulin framtíð þess vekur, tekur á sig andlega vídd, þegar nærvera Guðs er færð í orð og þar með gerð meðvituð, lífgefandi viðvera Guðs sem ekki aðeins barnið fær að njóta heldur einnig við sem berum það fram á bænarörmum.

 

„Ég hef augu mín til fjallanna, hvaðan kemur mér hjálp?“ spyr annað skáld og svarar sjálfu sér: „Hjálp mín kemur frá Drottni, skapara himsins og jarðar.“ Við hverja skírn hljóma lokaorð Davíðssálms 121 sem bæn fyrir barninu: „Drottinn varðveiti útgöngu þína og inngöngu héðan í frá og að eilífu.“

 

Hverjar sem tilfinningar okkar eru, gleði, kvíði eða hvað það nú er, megum við vita að Guð er okkar hjálp, okkar vörður, Guð varðveitir okkur og allt það sem móðurást okkar beinist að, eigin börn eða annarra, lífsstarfið, köllun okkar í von og trú og kærleika.

 

Við megum vita að Guð hjálpar okkur í veikleika okkar, já andi Guðs, sjálf nærvera Guðs biður fyrir okkur. Við megum vita að allt samverkar til góðs þeim sem Guð elska. Því felum við allt það viðkvæma og varnarlausa í Guðs hendur, bæði það sem í okkur býr og eins það sem er allt um kring, öll þau sem í gleði og kvíða horfast í augu við líf sitt og barna sinna, biðjum um stöðuga ást Guðs, viðveru Guðs í öllu sem er.

 

Þetta vil ég hugfesta, þess vegna vil ég vona:

Náð Drottins er ekki þrotin, miskunn hans ekki á enda,

hún er ný á hverjum morgni, mikil er trúfestiþín!

Drottinn er hlutdeild mín, segir sál mín, þess vegna vil ég vona á hann.

Góður er Drottinn þeim er á hann vona, og þeirri sál er til hans leitar.

Gott er að bíða hljóður eftir hjálp Drottins. (Harmlj. 3.21-26)



[1] T Svein Ellingsen 1971 – Sigurjón Guðjónsson – Vb. 1991

Fylt av glede over livets under

L Egil Hovland 1976 – Vb. 1991