Að kvöldi skírdags

Að kvöldi skírdags

Í gegnum fótaþvottinn býður Jesús til þess samfélags. Að draga að sér fætur sína, að neita sér um þvottinn, merkir að draga sig frá samfélaginu við Jesú, afþakka boðið.
fullname - andlitsmynd Gunnar Jóhannesson
20. mars 2008
Flokkar

Hátíð páskanna var að ganga í garð. Jesús vissi að stund hans var komin og að hann færi burt úr þessum heimi til föðurins. Hann hafði elskað sína, þá sem í heiminum voru. Hann elskaði þá uns yfir lauk. Kvöldmáltíð stóð yfir. Djöfullinn hafði þegar blásið því í brjóst Júdasi, syni Símonar Ískaríots, að svíkja Jesú. Jesús vissi að faðirinn hafði lagt allt í hendur honum, að hann var frá Guði kominn og var að fara aftur til Guðs. Hann stóð upp frá máltíðinni, lagði af sér yfirhöfnina, tók líndúk og batt um sig. Síðan hellti hann vatni í mundlaug og tók að þvo fætur lærisveinanna og þerra með líndúknum sem hann hafði um sig. Hann kemur þá að Símoni Pétri sem segir við hann: „Drottinn, ætlar þú að þvo mér um fæturna?“ Jesús svaraði: „Nú skilur þú ekki hvað ég er að gera en seinna muntu skilja það.“ Pétur segir við hann: „Aldrei að eilífu skaltu þvo fætur mína.“ Jesús svaraði: „Ef ég þvæ þér ekki áttu enga samleið með mér.“ Símon Pétur segir við hann: „Drottinn, ekki aðeins fætur mína, líka hendurnar og höfuðið.“ Jesús segir við hann: „Sá sem laugast hefur þarf ekki að þvost nema um fætur. Hann er allur hreinn. Og þið eruð hreinir, þó ekki allir.“ Hann vissi hver mundi svíkja hann og því sagði hann: „Þið eruð ekki allir hreinir.“ Þegar hann hafði þvegið fætur þeirra, tekið yfirhöfn sína og sest aftur niður sagði hann við þá: „Skiljið þér hvað ég hef gert við yður? Þér kallið mig meistara og Drottin og þér mælið rétt því það er ég. Fyrst ég, sem er herra og meistari, hef nú þvegið yður um fæturna, þá ber yður einnig að þvo hver annars fætur. Ég hef gefið yður eftirdæmi að þér breytið eins og ég breytti við yður. Jóh 13.1-5

Gleðilega hátíð. Megi náð og friður vera með okkur öllum á þessari stundu í Jesú nafni.

Biðjum saman.

Algóði Guð og miskunnsami faðir. Við þökkum þér kærleika þinn í Jesú Kristi, syni þínum, sem þú svo gafst til þess að hver sem á hann trúir glatist ekki heldur hafi eilíft líf. Hann þoldi þjáningu og dauða til þess að við mættum eignast hlutdeild í þínu lífi. Gef okkur kyrrð í huga og hjarta til að hugleiða fórn hans á þessari stundu og styrkjast í samfélaginu við hann. Amen.

Gjörið þetta í mína minningu

Skírdagskvöld markar upphafið af síðasta áfanganum á leið Jesú upp að krossinum. Þetta kvöld bauð Jesús lærisveinum sínum til þeirrar páskamáltíðar sem reyndist hans síðasta. Skammt undan beið Júdas ásamt hermönnunum, og sá píslarvegur sem lá upp að krossinum á Golgata.

Í bréfum Páls postula er að finna elsta vitnisburð kristinnar trúar um það sem gerðist nóttina sem Jesús Kristur var svikinn: „ Því að ég hef meðtekið frá Drottni það sem ég hef kennt ykkur: Nóttina, sem Drottinn Jesús var svikinn, tók hann brauð, gerði þakkir, braut það og sagði: ,Þetta er líkami minn. Gjörið þetta í mína minningu.‘ Sömuleiðis tók hann og bikarinn eftir kvöldmáltíðina og sagði: ,Þessi bikar er hinn nýi sáttmáli í mínu blóði. Gjörið þetta, svo oft sem þér drekkið, í mína minningu.‘“

Í kvöld gleðst öll kirkjan, er samfélag kristins fólks um víðan heim lítur í huga og hjarta til loftsalsins í Jerúsalems og minnist síðustu kvöldmáltíðar Krists með lærisveinum sínum og hugleiðir merkingu hennar.

Okkur er boðið til þessarar máltíðar hér í kvöld. Á eftir munum við sameinast um borð Krists er við göngum til altaris, til hinnar helgu kvöldmáltíðar. Síðasta kvöldmáltíðin tjáir allt það sem kristin trú er og snýst um. Í gegnum kvöldmáltíðina sjáum við Jesú Krist á krossinum. Í gegnum brauðið og vínið sjáum við hann sjálfan á krossinum þar sem líkama hans var fórnað og blóði hans var úthellt fyrir okkur.

Þegar við göngum til altaris þá gerum við það til þess að minnast síðustu kvöldmáltíðar Krists, og þeirrar fórnar sem hann færði á krossinum. En við gerum það ekki til þess að heiðra liðin atburð heldur til þess að gera lifandi veruleika og mikinn leyndardóm hluta af okkar lífi. Sá veruleiki er Guð í Jesú Kristi, sem kemur til móts við okkur. Í altarissakramentinu sameinast fortíðin nútíðinni, hið liðna verður hluti af því sem er. Páll minnir okkur á þetta er hann segir: „Í hvert sinn sem þið etið þetta brauð og drekkið af bikarnum boðið þið dauða Drottins þangað til hann kemur.“

Síðasta kvöldmáltíðin snýst um hjálpræði Guðs, kærleika hans og náð. Ef þú gengur til altaris í þeirri vissu að þú gangir til móts við Guð almáttugan þá muntu finna hann og sjá hann og sitja til borðs með honum og þiggja af honum það sem heimurinn getur ekki veitt þér: brauð lífsins og bikar blessunarinnar – Guð sjálfan. Altarisgangan snýst um það að Guð kemur til móts við þig, með fyrirheit um líf í fullri gnægð. Hann vill gefast þér, finna sér rými í huga þér og hjarta til að móta þig og líf þitt að vilja sínum, svo að þú, í hugsunum þínum, orðum og gjörðum, berir honum vitni, berir kærleika hans vitni, þiggir af honum hið sanna líf sem mun varða veg þinn til þess eilífa lífs sem þú þá átt í vændum.

Síðasta kvöldmáltíðin, altarisgangan, er þetta heimboð, boð til lífs. Að ganga til altaris er því trúarjátning. Að ganga til altaris er að ganga til móts við Jesú og gera hann að hluta af eigin lífi. Þegar við göngum til altaris þá erum við fyrir okkar leyti að segja: „Já“. Við erum að bjóða Guði í Jesú Kristi inn í okkar líf og segja: „Ég vil að þú sér hluti af mínu lífi, ég vil að þú hafir áhrif á mitt líf. Ég vil vera þinn. Ég vil miða líf mitt við þig og þín orð. Ég vil þiggja það sem þú hefur að bjóða.“ Þetta heimboð ber ekki að vanvirða heldur íhuga af fyllstu alvöru. Og ákveðum við að þekkjast boð þetta þá fylgi hugur og hjarta með. Minnumst orða Páls: „Hver sem etur brauðið eða drekkur bikar Drottins á óverðugan hátt verður þess vegna sekur við líkama og blóð Drottins.“

Breytið eins og ég breytti við yður

Hvert guðspjall geymir sína sérstöku útgáfu af því sem gerðist síðustu dagana fyrir krossfestingu Jesú. Matteusar-, Lúkasar- og Markúsarguðspjall leggja áherslu á síðustu kvöldmáltíðinu og innsetningu altarissakramentisins. Jóhannesarguðspjall, sem er um margt ólíkt hinum guðspjöllunum þremur, leiðir okkur hins vegar annan atburð fyrir sjónir, atburð sem einnig átti sér stað þetta kvöld í Jerúsalem.

Eftir innkomu sína í Jerúsalem safnar Jesús vinum sínum til kvöldverðar. Frásögn Jóhannesarguðspjalls hefst á þessu fallegu og áleitnu orðum: „Hátíð páskanna var að ganga í garð. Jesús vissi að stund hans var komin og að hann færi burt úr þessum heimi til föðurins. Hann hafði elskað sína, þá sem í heiminum voru. Hann elskaði þá uns yfir lauk.“

Í því sem fer á eftir liggur áherslan ekki í kvöldmáltíðinni sem slíkri heldur öðrum atburði sem gerðst yfir borðhaldinu í loftsalnum þetta kvöld. Sagt er frá því er Jesús tók líndúk, batt hann um sig miðjan og tók að þvo fætur lærisveina sinna af alúð og natni. Jesús þvoði fætur allra lærisveinanna. Hann tók fætur þeirra sér í hönd, þvoði þeim og þerraði þá. Af fótaþvottinum er dregið nafn þessa dags, skír-dagur. Að skíra merkir að lauga, þvo, hreinsa.

En hvað þýðingu hefur fótaþvotturinn?

Pétur skildi ekki hvað Jesús var að gera. Það var ekki fótaþvotturinn sem slíkur sem kom honum á óvart heldur sú staðreynd að Jesús skyldi taka hann að sér. Fótaþvottur var viðtekin venja á þessum tíma, ekki síst fyrir máltíðir, og hafði hann félagslega og trúarlega skírskotun. En fólk þvoði sér ekki sjálft, það var verk þjónsins, þrælsins. Á þessum tíma gekk fólk flestra sinna ferða um grýtta jörð, eða rykugar og skítugar götur. Það gekk um í sandölum eða hreinlega berfætt. Áður en gengið var inn tók þjónn eða þræll skótauið og þvoði fætur viðkomandi, oftast sigggróna, rykuga, marða og skorna, skítuga og auruga. Ekki var um að ræða virðingarvert starf. Þessi verknaður skírskotaði til stöðu fólks. Sá sem kraup niður og þvoði var þjónninn, þrællinn. Hann var lægra settur en sá sem stóð yfir honum. Meistarinn, sá sem þvegið var, var yfir þjóninn settur, sá sem hafði vald yfir honum. Það er ekki síst þessi veruleiki, sem Pétur þekkti svo vel, sem bergmálar í orðum hans: „Drottinn, ætlar þú að þvo mér um fæturna? Aldrei að eilífu skaltu þvo fætur mína.“

Þau viðmið og gildi sem höfð voru í heiðri og enduspeglast í fótaþvottinum staðfestu bil á milli fólks og voru til marks um þjóðfélagslega stöðu manna og verðleika þeirra í samfélaginu. Með því að þvo fætur lærisveina sinna brúar Jesús þetta bil, hann umbyltir viðteknum hefðum samfélagsins og gildum þess. Jesús var ekki kominn til þess að láta þjóna sér, heldur til að þjóna og gefa líf sitt til lausnargjalds fyrir marga. Hann tekur sér stöðu þjónsins, hann krýpur niður, hann lýtur höfði. Hann tekur að sér lítilmótlegt verk þrælsins til þess að greypa inn í huga okkar að hann kallar okkur til þjónustu í lífinu, til gagnkvæmrar þjónustu hvert við annað á jafningjagrundvelli, sem börn hins eina sanna Guðs föður. Höfum það í huga að sá sem gengur að borði Krists, sá sem miðar líf sitt við boðskap hans, orð hans og verk, - sá sem gefur sig Kristi á vald - hann á sig ekki sjálfur í eiginlegum skilningi. Hann er Krists. Það að vera Krists, eða leitast við að vera hans, á að hafa afleiðingar, ekki aðeins inn í eigið líf, heldur út fyrir það, inn í líf annarra.

Kristin trú og einstaklingshyggja fara ekki saman og geta aldrei farið saman. Kristinn maður lifir ekki aðeins sjálfs sín vegna. Þess vegna segjum við að kristið fólk sé í heiminum en ekki af heiminum. Einstaklingshyggja er mál heimsins, fagnaðarerindi hans, nánast krafa hans, ekki síst í dag. Fólk miðar allt við sjálft sig. Það er sjálfu sér mælikvarði enda er ekkert æðra manninum samkvæmt fagnaðarerindi heimsins. Það eru mínir hagsmunir, minn ávinningur, mínar þarfir, minn skilningur, mínar skoðanir, sem eru réttar og mestu skipta. Þetta segir heimurinn. En þessu talar kristin trú gegn.

„Hvað á ég að gjalda Drottni fyrir allar velgjörðir hans við mig?“ var spurt í lexíunni. Jesús svarar því sjálfur: „Fyrst ég, sem er herra og meistari, hef nú þvegið yður um fæturna, þá ber yður einnig að þvo hver annars fætur. Ég hef gefið yður eftirdæmi að þér breytið eins og ég breytti við yður.“ Ef Jesús hefur sannarlega áhrif í lífi okkar þá verður breyting á persónuleika okkar. Við förum að sjá lífið og tilveruna, okkur sjálf og fólkið í kringum okkar, með hans augum – og við breytum eftir því.

Samfélag

Þegar hugsað er um fótaþvottinn þá er samt dýpri merking á bak við hann. Þjónustan við náungann er aðeins önnur hlið þess veruleika sem fótaþvotturinn stendur fyrir. Að vera góður merkir ekki endilega að vera kristinnar trúar. Að ganga fram af kærleika þýðir ekki að maður hafi gengið Jesú á hönd. Að elska þýðir ekki að maður elski Guð. Það geta allir elskað og þjónað. En það getur engin trúað á Jesú án þess að elska og þjóna. Í þeirri staðreynd liggur hin dýpri merking fótaþvottarins. Þegar við spyrjum okkur um dýpri merkingu fótaþvottarins þá er svarið að finna í samtali Péturs og Jesú. Jesús „leggur“ af sér yfirhöfnina áður en hann þvær fætur lærisveinanna. Hér er notað sama orð og notað er þegar því er lýst hvernig Jesús „leggur“ líf sitt í sölurnar fyrir okkur. Þannig vísar fótaþvotturinn til dýpri veruleika en verknaðurinn einn og sér gefur til kynna.

Pétur áttaði sig ekki á þessu. Hann dregur að sér fætur sína. Jesús svarar Pétri: „Ef ég þvæ þér ekki áttu enga samleið með mér.“ Fótaþvotturinn er því forsenda þess að eiga samleið með Jesú, forsenda þess að eiga hlutdeild í honum og þar með samfélag við hann. Fótaþvotturinn táknar það að vera boðin(n) til samfélags við Guð. Í gegnum fótaþvottinn býður Jesús til þess samfélags. Að draga að sér fætur sína, að neita sér um þvottinn, merkir að draga sig frá samfélaginu við Jesú, afþakka boðið.

Fótaþvotturinn minnir okkur því á hvernig Jesús lægir sjálfan sig, leggur sjálfan sig í sölurnar fyrir okkur, til þess að opinbera okkur lífið sem hann geymir handa okkur, hverju og einu. Í gegnum fótaþvottinn - eins og í gegnum altarisgönguna - er okkur boðin hlutdeild í því lífi. Að segja „já“, að þekkjast það boð, er samt ekki eitthvað sem er gert í eitt skipti fyrir öll. Óhreinindi munu loða við okkur og setjast að er við fetum leið okkar í gegnum lífið. Okkur mun verða á, erfiðleikar og freistingar munu verða á vegi okkar. Vi munum mæta ýmsu sem leiðir okkar af þeim vegi sem Jesús varðar. Við munum því þurfa að hreinsa fætur okkar aftur í andlegum skilningi því enginn gengur í gegnum lífið án þess að fá á sig blett. Þetta gildir líka um trúna. Þá skiptir öllu máli að setjast að lindum fagnaðarerindisins og leyfa Jesú að hreinsa okkur að nýju. Gerum við það af heilum hug og hjarta, leggjum við sannarlega traust okkar á Jesú og fyrirheit hans, þá mun opinberast á okkur og lífi okkar sami kærleikurinn og okkur er boðin hlutdeild í, kærleikurinn sem opinberast okkur á krossinum, sá kærleikur sem mun engan endi taka.