Nú fór Jesús í bátinn og lærisveinar hans fylgdu honum. Þá gerði svo mikið veður á vatninu að bylgjurnar gengu yfir bátinn. En Jesús svaf. Þeir fara til, vekja hann og segja: „Drottinn, bjarga okkur, við förumst.“Hann sagði við þá: „Hví eruð þið hræddir, þið trúlitlir?“ Síðan reis hann upp, hastaði á vindinn og vatnið og varð stillilogn. Mennirnir undruðust og sögðu: „Hvílíkur maður er þetta? Jafnvel vindar og vatn hlýða honum.“ Matt 8.23-27
Hann lá í rúminu og bar sig illa. Ég heilsaði honum og hann sagði að bakið væri illa farið. Já, það fór illa með bakið að draga bátana upp í fjöru, sagði hann og lýsti svo fyrir mér hvernig menn stóðu í tveimur röðum, snéru bökum saman og beygðu sig til að mynda rennu svo auðveldara yrði að draga bátana á land. Höfnin var ekki komin í þá daga. Hann sagði mér svo sjómannssögu sína og ég sperrti eyrun þegar hann sagðist hafa verið á Maxinum. Ég var vélstjóri en ég bara gat ekki hugsað mér að róa á þeim báti lengur. Maxinn fórst þann veturinn. Já, þarna lá hann sárkvalinn í bakinu eftir erfiði ævinnar og hafði margt reynt á langri ævi. Sá sem fór í plássið hans á Maxinum og gerðist vélstjóri fórst eins og allir þeir er þar voru dag einn í febrúar árið 1946 og um sorg þeirra sem misstu ungan og efnilegan dreng ólst ég upp við, því hann var móðurbróðir minn.
Lífið er undarlegt ferðalag oft á tíðum. Hvað veldur því að einn lifir langa ævi en annar deyr í blóma lífsins? Svarið er okkur hulið en sagan af gamla sjómanninum situr í huga mínum og vekur mig til umhugsunar um lífið og hvernig því er lifað.
Snögglega gerði kolvitlaust veður sagði annar aldinn sjómaður og því slotaði jafn snögglega og það hófst. Við sáum Maxinn en þegar veðrinu slotaði var hann horfinn. Já, veðrabrigðin geta verið mikil í náttúrunni og líka í lífi okkar. Eitt andartak og allt er breytt. Spegilslétt Djúpið er fallegt og ekkert ógnvænlegt, en á augabragði getur það breyst í háar öldur sem ógna lífi og limum. Það getur líka gerst í fjarlægu landi, ekki á úthafi heldur á vatni að öldurnar rísa og báturinn veltir svo mjög að skipverjar óttast um líf sitt. Um slíkan atburð var lesið úr helgri bók hér áðan. „Þá gerði svo mikið veður á vatninu að bylgjurnar gengu yfir bátinn“ segir þar.
Við höfum heyrt þessa frásögu áður. Hún er alltaf lesin á sjómannadegi í kirkjum landsins. Frásöguna af því þegar Jesús var í báti með lærisveinum sínum á Galileuvatni. Veðrið versnaði og lærisveinarnir urðu hræddir en meistarinn svaf rólegur.
* * *
Já, það er kominn sjómannadagur. Til hamingju með daginn ykkar, sjómenn um land allt. Dagurinn vekur okkur til vitundar um starfssvið sjómannastéttarinnar, lífskjör og gildi í þjóðfélaginu. Sjómannadagurinn hefur verið haldinn hátíðlegur í 76 ár hér á landi en áður höfðu menn gert sér glaðan dag á lokadaginn, hinn 11. maí.
Allt er breytingum háð og mikil breyting hefur átt sér stað undanfarin ár hvað sjómannadaginn varðar. Nú er það ekki einn dagur sem hátíðarhöldin standa heldur nokkrir dagar og hátíðir eru haldnar bæði hér í borg og víða um land, sem standa í fleiri en einn dag. Er það í takt við margt annað í nútímanum, það er eins og allt hafi tilhneigingu til að bólgna út. Það kann að vera að við sem þjóð séum komin svo langt frá því sem var og höfum ekki lengur tilfinningu fyrir mikilvægi sjómannastéttarinnar að við þurfum nokkra daga á ári til að minna okkur á, fræða hin ungu og þakka fyrir þá miklu gjöf sem okkur er gefin í gjöfulum fiskimiðum og duglegum sjómönnum. Börnin verða að læra að fiskurinn veiðir sig ekki sjálfur. Mörg eru handtökin við veiðarnar og margar hendurnar sem færa fiskinn frá hafi í búð. Flökin sem við kaupum hafa synt í sjó með haus og sporð og ugga.
Sú umræða sem fram fer um fiskveiðar nú um stundir er langt frá því sem forfeður okkar hugsuðu um. Þeir hugsuðu um að metta marga munna og ef vel gekk að geta haft vöruskipti til að auka fjölbreytni í fæðuvali og ef til vill að auka þægindin og lífsgæðin. Þeir hugsuðu ekki um náttúruvernd eða að fiskinn þryti í sjónum eins og nútímamenn gera. Og því síður veltu þeir fyrir sér mengun sjávar og áhrifum hennar á lífríkið og heilsufarið. Sennilega hefði þeim ekki dottið í hug að fjöldi manna myndi hafa atvinnu af því í landi að hugsa um þessi mál og koma í veg fyrir að gullkista fiskimiðanna yrði tóm. Því síður hefði þeim dottið í hug að hvern dag allan ársins hring væru margir flutningabílar fullir af fiski á vegum landsins að flytja fiskinn frá einum stað til annars innanlands sem utan.
Allt er breytingum háð. Það kom fram í gærkvöldi og nótt þegar atkvæði voru talin í sveitarstjórnarkosningunum að kjörsókn var með minnsta móti víða um land. Það eru tíðindi kosninganna var sagt í nótt. Megi þeim vel farnast sem valin voru til verkanna. Guð blessi þau og störfin þeirra.
* * *
Dæmisaga ein segir frá því að ferjumaður nokkur réri fram og aftur yfir mjótt sund. Það fyrsta sem fólk tók eftir þegar það kom út í bátinn, voru árarnar. Á annarri stóð stórum stöfum trú, en á hinni verk. Farþegar vildu fá skýringu á þessum undarlegheitum. Ferjumaðurinn svaraði ekki með orðum heldur tók árina, sem merk var trú, og réri aðeins með henni. Báturinn fór þá í tóma hringi. Þvi næst réri hann með árinni, sem merkt var verk, og það fór á sömu leið . Að síðustu tók hann báðar árarnar, trú í aðra hönd og verk í hina og réri með báðum í einu. Þá miðaði litla bátnum jafnt og þétt áfram.
Þessi saga minnir okkur á að trúin felst ekki bara í orðum og að verkin okkar blessast betur þegar við vinnum þau ekki í eigin mætti. Sá Guð sem hefur allt vald á himni og jörðu, svo kröftugt að jafnvel vindar og vatn hlýða honum vill líka að við hlýðum og tökum mark á því boði að mega vera börnin hans. Þegar trú og verk fara saman þá miðar okkur áfram á lífsins leið. Trú án verka leiðir okkur aðeins í hringi. Verk án trúar einnig. Á sjómannadegi er okkur líka ofarlega í huga allt það góða starf sem unnið er á sviði slysavarna og björgunar. Það er dýrmætt að fólk skuli gefa af tíma sínum öðrum til hjálpar og öryggis. Þar fáum við að sjá trú í verki og ber að þakka fyrir það fórnfúsa starf allt.
Jesús svaf í bátnum segir í guðspjalli dagsins. Veðurofsinn og brælan virtust ekki hafa minnstu áhrif á hann eins og lærisveina. Þeir urðu hræddir og kölluðu á hann sér til hjálpar. Kristján Jóhannsson söng um fullkomnunina hér áðan. Hennar var leitað og hún fannst í birtunni, andrúmsloftinu, ilmi blómanna og færði ný tækifæri, nýja dögun. Við erum alltaf að leita að fullkomnuninni. Við viljum vera fullkomin og við viljum hafa allt í kringum okkur fullkomið. Þess vegna rannsökum við, leitum, framkvæmum til að ná sem bestum árangri. Við leitum eftir fullkomnun og hagkvæmni í veiðum og vinnslu, í orkugjafa sem knýr skip og báta. Þetta var ekki efst í huga lærisveinanna í bátnum. Þeirra hugsun snérist um það að lifa af. Þess vegna kölluðu þeir á Drottinn sér til hjálpar því þeir treystu því að hann hefði ráð og allt vald í hendi sinni. Hann gæti fært þeim nýja dögun, áframhaldandi líf og ný tækifæri. Það gefur á lífsbát flestra mann einhvern tímann á ævinni. Hvert leitum við þá? Reynum við að komast af í eigin mætti eða leitum við annað? Það er ekki ráð að fá hvar sem er en ef við viljum vera lærisveinar Jesú getum við brugðist við eins og þeir. Kallað á hann okkur til hjálpar. Okkur er óhætt að leyfa Kristi að stýra lífsbátnum okkar og treysta honum fyrir lífi okkar öllu, hér og nú og um eilífð alla.
* * *
Hér í Dómkirkjunni er fáni með stjörnum, jafnmörgum og hlutu hina votu gröf á umliðnu ári. Nöfn þeirra og líf er geymt í föðurhjarta Drottins. Við sameinumst í bæn fyrir þeim og ástvinum þeirra.
Nú verður lagður blómsveigur að minnisvarða óþekkta sjómannsins í Fossvogskirkjugarði í virðingu, þökk og samúð. Rísið úr sætum og við lútum höfðum svo í þögn
Veit þeim, ó Drottinn, þína eilífu hvíld, og lát þitt eilífa ljós lýsa þeim. Þeir hvíli í þínum friði. Hugga þau sem eiga um sárt að binda, signdu hverja minningu, varðveit hverja von, þerra hvert tár. Í Jesú nafni. Amen.