Samtalsprédikun flutt í Vídalínskirkju í Garðabæ
J: Við miðnæturguðsþjónustu í Garðakirkju í gærikveldi var ég að ræða um jólin sem tengslahátíð. Í dag ætlum við að vera meira á þjóðfélagslegum nótum og ræða um samskipti okkar í þjóðfélaginu í ljósi jóla. Hvernig er tengslum okkar háttað sem samferðarmanna og þjóðfélagsþegna? Um hvað sameinumst við sem þjóðfélag og getur verið að sagan um jólin hafi eitthvað til þeirra mála að leggja?
B: Ég myndi benda á þrennt sem ég held að við flest sameinumst um í vestrænni menningu. Í fyrsta lagi leggjum við mikið upp úr frelsi, í öðru lagi viljum við öryggi og loks er umburðarlyndi nokkuð sem fólk er almennt sammála um að skipti miklu máli.
J: Já, ætli flest okkar myndu ekki skrifa undir þetta. Það er örugglega víðtækt samkomulag um það að hver og einn eigi að vera frjáls og gera það sem honum hentar svo lengi sem það skaði ekki náungann. Við viljum lifa við öryggi og svo erum við líka sammála um að enginn skuli dæma annan heldur sýna umburðarlyndi.
B: Og ert þú sammála þessum gildum?
J: Já, ég er hjartanlega sammála þeim og tel þau mjög mikilvæg. En samt vil ég segja að ég álít þau ekki duga. Ég held að heilbrigt samfélag þar sem fólk getur átt gott líf þurfi meira en frelsi, öryggi og umburðarlyndi. Það er nefnilega hægt að eiga helling af þessu þrennu en vera samt sem áður mjög einangraður.
B: Nú er í þessu sambandi rætt um lífsstíls-sviga.
J: Lífsstílssvigar? Það hljómar eins og eitthvert nýtt æfingaprógram.
B: Nei, þetta er hugtak sem er notað til að lýsa því sem þú varst að nefna þegar fólk einmitt býr við frelsi, öryggi og umburðarlyndi en lifir samt við vissa einangrun eða tilgangsleysi. Borgarsamfélag nútímans er að þróast í þá átt að fólk með svipað yfirbragð, neyslumynstur og frístundalíf býr á sömu svæðum, sækir sömu verslunarmiðstöðvar og sendir börnin sín í sömu skóla. En á sama tíma eru þó allir á eigin vegum. Innan lífsstílssvigans eru allir frjálsir, öruggir og umburðarlyndir, gera það sem þeir vilja, eiga öruggt líf, heilsast kunnuglega en enginn er öðrum háður og samskiptin eru grunn.
J: Manstu þegar við lentum í Mexíkóska mollinu í Los Angeles?
B: Já, þar duttum við út fyrir okkar sviga og vorum komin inní ókunnan sviga í stórborginni.
J: Enda horfði fólk á okkur með blöndu af undrun og vorkunn gangandi í gengum verslunarmiðstöð þar sem enginn var á ferli nema Mexíkóar.
B: Lífsstílssvigi nútímans er ekki beinlínis samfélag heldur klúbbur þar sem áþekkt fólk rekst hvað á annað og deilir neyslu sinni og áhugamálum en það deilir ekki reynslu sinni eða málefnum hjartans. Menn kinka kolli en segja engum sögu sína af því að almennilegt fólk er ekki að abbast upp á náungann og þarf heldur ekkert á honum að halda nema svona rétt til þess að staðfesta að allt sé í lagi.
J: Innan svigans eru allir ljúfir og umburðarlyndir. Hver á sínum einkabíl með sjálfvirkan bílskúrshurðaopnara í skyggninu og helst innangengt úr skúrnum svo það þarf ekki einu sinni að hittast fyrir utan. Og þegar inn er komið fer fólk á facebook þar sem vinirnir samanstanda af fólki sem viðkomandi vonar að séu innan hans lífsstílssviga. Á fésbókinni berum við svo fram þá ímynd sem við höfum þróað og teljum að vinum okkar muni falla í geð en við segjum ekki hug okkar, ræðum ekki mál hjartans. - Í svona samfélagi er hvers kyns trú auðvitað mjög óþægilegt fyrirbæri.
B: Af hverju segir þú það?
J: Af því að trú er mál hjartans. Trú mín varðar ekki bara neyslu mína og áhugamál og ytra „lúkk“ heldur er hún líka um það hvernig ég skil sjálfan mig. Hún er hluti af sögu minni og heimsmynd. Ég fer ekki að tala um trú mína við fólk sem leggur bara áherslu á frelsi, umburðarlyndi og öryggi en vill ekki kynnast mér í alvöru.
B: Aftur fer ég að hugsa vestur til Bandaríkjanna. Manstu öll hliðvörðu samfélögin sem við ókum í gegnum - eða öllu heldur framhjá af því að við komumst ekki inn í þau? Heilu íbúðahverfin afgirt frá allri almennri umferð en handan við girðingar mátti sjá eigulegar fasteignir og falleg græn svæði.
J: Já, þetta var verulega framandi fyrir okkur.
B: En e.t.v. ekki svo framandi. Þessi áhersla sem við erum að ræða hér og erum sammála um að sé hluti af okkar tíðaranda; krafan um frelsi, öryggi og umburðarlyndi fellur í raun vel að svona hliðvörðum samfélögum. Fólk hefur frelsi til að girða af sínar sameignarlóðir, öryggisþátturinn blasir við og það er heldur ekkert að dæma náungann þótt það girði sig af.
J: Og af hverju ferð þú að ræða um þetta þegar ég minnist á trúmál í samtímanum?
B: Af því að á sama máta og þú bendir á að trú verði að vandamáli þegar allir vilja bara frelsi, öryggi og umburðarlyndi en enginn á erindi við annan, þannig verður líka fjölmenningin yfir höfuð að vandamáli í slíku samfélagi. Og hvað gera menn? Setja upp hlið!
J: Ég skil hvað þú ert að fara. Þú ert að meina að ef við einskorðum samtal okkar og takmörkum orðræðuna í almannarýminu við neyslu, áhugamál og almenna hagsmuni en hættum að segja sögu okkar, ræða þrá okkar og skilningi á guði og mönnum. Ef við þannig neitum okkur um að spegla heimsmynd okkar í heimsmynd annara þá getum við álitið okkur frjáls, umburðarlynd og örugg, eins og allt ágæta fólkið sem býr í hliðvörðum samfélögum stórborga. En frelsi okkar snýst þá um það eitt að vera ólík í einrúmi, öryggið er keypt af Securitas og umburðarlyndið snýst um að yppta öxlum og láta fólk í friði.
B: Og er það raunverulegt frelsi ef að er gáð? Getum við verið örugg ef við þekkjum ekki náungann af því að umburðarlyndi okkar er búið að einangra okkur frá honum? Ég vona sannarlega að sá tími kom aldrei í Íslensku samfélagi að menn setji upp hlið utan við íbúðahverfi. Lífsstílssvigarnir eru nógu áletinir þótt við ekki setjum bókstaflega upp lífsstílsgirðingar úr stáli og eftirlitsmyndavélum.
J: Á sama máta hljótum við að vona að lífsstílsgirðingarnar sem ýmis áhrifaöfl vilja setja upp í samfélaginu verði skoðaðar með raunsæi því það er beinlínis hættulegt ef við lærum ekki hvert af öðru og könnumst ekki við hugsanahátt og heimsmynd náungans. Ef samkiptin í samfélaginu eru bara á þunnu tíðnisviði almæltra tíðinda og viðskipta og við bönnum fólki að hafa áhrif hvað á annað með því að boða samferðamönnum trú sína í orði og verki og börnin okkar fara á mis við að þekkja aldagamlar sagnir og hefðir hvert erum við þá að fara? Alltént erum við þá ekki að nota tímann til þess að feta okkur inn í fjölmenningarsamfélagið. Við erum að búa til lífsstílsgirðingar sem gera það að verkum að við hættum að þekkjast og vita hvernig náunginn hugsar.
B: Og flóttamennirnir sem nú eru á leið til landsins - og eiga eftir að verða miklu fleiri en fimmtíu og fimm - þeir munu þá koma inn í samfélag þar sem enginn vill skilja þá heldur bara skikka þá til að lifa í menningarlegri einangrun. Ef heimsmynd mín á ekki rúm og má ekki sjást fyrr en ég er búinn að ýta á bílskúrshurðaropnarann í seinna skiptið og kominn inn til mín þá get ég ekki fundið mig í samfélaginu.
J: Og nákvæmlega hér kemur jólasagan inn í umræðuna. Sagan af Jósef og Maríu með drenginn er saga af fjölskyldu sem ekki gat skýrt mál sitt fyrir samfélaginu. Hún er lýsing á nútíma þöggun. Hún lýsir m.a. afleiðingum lélegrar stjórnsýslu, sbr. nýju skattalögin sem ungu hjónin voru að uppfylla með þessu ferðalagi sínu. Og hún er líka lýsing á réttarfarslegri ringulreið og pólitísku brjálæði eins og ástandinu sem nú ríkir í Sýrlandi, nokkrum Afríkuríkjum og víðar. Barnamorðin í Betlehem er nokkurs konar frummynd hins pólitíska brjálæðis sem alltaf er að koma upp þegar lög og réttur er fyrir borð borinn. Og inn í þessa kaos ranglætis þar sem allir leggja áherslu á eigið öryggi bak við luktar dyr fæðist jólabarnið.
B: Og í ljósi þess að við vitum að framsetning jólaguðspjallsins er helgisögn og það eru yfirgnæfandi líkur á því að Jesús hafi í raun og veru bara fæðst í Nasaret eins og önnur börn, þá er þetta enn þá meira truflandi. Það er einmitt sértaklega haft fyrir því að fara með söguna af Jesú út fyrir girðinguna og segja hana þannig að fylgjendur hans geti aldrei afsakað það að hreiðra um sig og láta eins og heimurinn sé ekki þarna fyrir utan. Helgisögn jólanna er krafa á okkur um það að lifa ekki innan girðinga heldur gera ráð fyrir veröldinni með því háa flækjustigi sem alltaf fylgir mannlífi.
J: Enda koma fulltrúar framandi menningarheima ríðandi á úlföldum inn í söguna og gerast mikilvægir aðilar að öryggi barnsins þar sem þeir gabba hinn morðóða Heródes. Ef Jósef og María hefðu lagt einfalda áherslu á frelsi, öryggi og umburðarlyndi hefðu þau ekki haft neitt við einhverja úlfaldaríðandi útlendinga að segja. Þau hefðu bara verið kurteis og frávísandi eins og aðrir íbúar Betlehem. En öryggi barnsins var borgið vegna þess að þau kunnu að vera fjölmenningarleg og lesa í aðstæður.
B: Saga jólanna er nútímasaga.
J: Samt mega börn ekki heyra hana. Þau mega hlusta á fréttir af kerfislægu ranglæti, hryðjuverkum og hryllingi en jólasagan sem einmitt lýsir fólki sem heldur sönsum í slíkum aðstæðum er talin vera áróður í okkar samfélagi.
B: Veistu hvað ég held?
J: Nei
B: Ég held að kynslóðin sem núna fær ekki Nýjatestamenntin sín og má ekki heyra jólasöguna í nafni misskilins umburðarlyndis... þegar þessi kynslóð verður tvítug þá mun hún banka uppá hjá Gídeonmönnum og spyrja: Hvar eru Nýjatestamenntin sem við áttum að fá? Síðan mun hún drekka í sig boðskap og persónu frelsarans og tileinka sér raunverulegt umburðarlyndi sem ekki snýst um það eitt að vera frjáls að því að vera ólík í einrúmi?