Á fyrsta degi ósýrðu brauðanna komu lærisveinarnir til Jesú og sögðu: „Hvar vilt þú að við búum þér páskamáltíðina?“Hann mælti: „Farið til ákveðins manns í borginni og segið við hann: Meistarinn segir: Minn tími er í nánd, hjá þér vil ég halda páska með lærisveinum mínum.“
Lærisveinarnir gerðu sem Jesús bauð þeim og bjuggu til páskamáltíðar.
Um kvöldið sat Jesús til borðs með þeim tólf. Og er þeir mötuðust sagði hann: „Sannlega segi ég ykkur: Einn af ykkur mun svíkja mig.“
Þeir urðu mjög hryggir og sögðu við hann, einn af öðrum: „Er það ég, Drottinn?“
Hann svaraði þeim: „Sá sem dýfði brauðinu í fatið með mér mun svíkja mig. Mannssonurinn fer að sönnu héðan svo sem um hann er ritað en vei þeim manni sem því veldur að Mannssonurinn verður framseldur. Betra væri þeim manni að hafa aldrei fæðst.“
En Júdas, sem sveik hann, sagði: „Rabbí, er það ég?“ Jesús svaraði: „Það eru þín orð.“
Þá er þeir mötuðust tók Jesús brauð, gerði þakkir, braut það og gaf lærisveinunum og sagði: „Takið og etið, þetta er líkami minn.“
Og hann tók kaleik, gerði þakkir, gaf þeim og sagði: „Drekkið allir hér af. Þetta er blóð mitt, blóð sáttmálans, úthellt fyrir marga til fyrirgefningar synda. Ég segi ykkur: Héðan í frá mun ég eigi drekka af þessum vínviðar ávexti til þess dags er ég drekk hann nýjan með ykkur í ríki föður míns.“ Matt 26.17-29
Meistarinn segir: Minn tími er í nánd, hjá þér vil ég halda páska með lærisveinum mínum (Matt 26.18).
Við kross þinn, Jesú
Fyrir augum okkar hér í Hallgrímskirkju höfum við krosstáknið, merki þjáningar, dauða og upprisu frelsarans. Með listamanninum Baltasar Samper fetum við veg orða Jesú, frá hinu fyrsta til hins sjöunda, orð hans sem dæmdur var án saka, fyrir okkar sakir.
Neðst horfum við í auglit hans, horfumst í augu við þjáningu heimsins og heyrum lausnarorðið: Faðir, fyrirgef þeim því þeir vita ekki hvað þeir gera (Lúk 23.34; Passíusálmur 34.3). Á næstu mynd lítur Jesús niður til fólksins sem stóð hjarta hans næst, móður sinnar og Jóhannesar, og talar huggun inn í þeirra líf: Kona, nú er hann sonur þinn. Nú er hún móðir þín (Jóh 19.26-27; Passíusálmur 37.2).
Þriðja orðið ómar í myndinni þar fyrir ofan um leið og augu Jesú beinast að illvirkjanum við hlið hans: Sannlega segi ég þér: Í dag skaltu vera með mér í Paradís (Lúk 23.43; Passíusálmur 40.1). Á vinstri væng krossins, séð úr kirkjuskipinu, gefur að líta angistina í túlkun listamannsins: Guð minn, Guð minn, hví hefur þú yfirgefið mig? (Mark 15.34; Passíusálmur 41.1)
Í hjarta krossins býr einfalt andvarp hins þjáða: Mig þyrstir (Jóh 19.28; Passíusálmur 42.1) og sjötta orðið: Það er fullkomnað (Jóh 19.30; Passíusálmur 43.1) hljómar þar við hlið. Efst hefur Sonur Guðs augu sín til himins og greina má óm upprisunnar í augliti hans: Faðir, í þínar hendur fel ég anda minn! (Lúk 23.46; Passíusálmur 44.1).
Hjá þér vil ég halda páska
Og nú erum við hér á skírdagskvöld frammi fyrir augliti Guðs. Minn tími er í nánd, segir Meistarinn við okkur, hjá þér vil ég halda páska með lærisveinum mínum. Hjá þér og hjá mér, hjá okkur sem þyrstir eftir fyrirgefningu og sátt, hjá okkur sem finnum í þjáningu heimsins skortinn á kærleika og umhyggju. Mig þyrstir, sagði Jesús, og í hjarta mannlegrar þjáningar býr þorstinn, þorstinn eftir Guði.
Þorsti Jesú á krossinum er vitnisburður þess að það var raunveruleg líkamleg þjáning sem hann bar þá - og ber enn með öllum þeim sem finna til. Hinar andlegu kvalir voru líka raunsannar, kvalirnar sem hann leið í Getsemane á skírdagskvöld: Abba, faðir! Allt megnar þú. Tak þennan kaleik frá mér! Þó ekki sem ég vil heldur sem þú vilt (Mark 14.36). Um þetta yrkir Hallgrímur Pétursson (Ps 7.15):
Kvöl sína Jesús kallar kaleik áskenktan sér. Kross þinn og eymdir allar eins máttu nefna hér, því Drottinn drakk þér til, fyrir þig þá hann píndist, svo þú, mín sál, ei týndist. Gjör honum gjarnan skil.
Í kvöl Jesú Krists mætist þorsti mannsins eftir Guði og þorsti Guðs eftir manninum, eins og sr. Hallgrímur segir í Passíusálmi 42.10:
... að herrann Krist hefur mest þyrst af ást og lyst eftir sáluhjálp þinni.Guð þyrstir hér Að hjálpa þér, segir sr. Hallgrímur og bætir við: En hjarta þitt er Óþyrst eftir hans mildi.
Þorsti Guðs beinist ekki að honum sjálfum heldur þrá hans eftir lausn heimsins: Því svo elskaði Guð heiminn að hann gaf einkason sinn til þess að hver sem á hann trúir glatist ekki heldur hafi eilíft líf (Jóh 3.16). Guð þyrstir eftir að slökkva þorsta heimsins, þorsta þinn og minn.
Og svar skáldprestsins hljómar:
Upp á orð þín svarar sál mín, sorgin þó málið heftir: Sjálf þyrsti eg nú, þýði Jesú, og það veiztú, þinni miskunnsemd eftir.
Ef nokkurn þyrstir
Í Biblíunni er margt að finna um svölun Guðs við þorsta mannsins. Þeim sem hefur yndi af leiðsögn Drottins er líkt við tré, gróðursett hjá lindum, það ber ávöxt sinn á réttum tíma og blöð þess visna ekki (Sálm 1.3). Hjá Jeremía spámanni (17.7-8) má lesa þetta indæla fyrirheit:
Blessaður er sá maður sem treystir Drottni, Drottinn er athvarf hans. Hann er sem tré, gróðursett við vatn og teygir rætur sínar að læknum, það óttast ekki að sumarhitinn komi því að lauf þess er sígrænt. Það er áhyggjulaust í þurru árferði, ber ávöxt án afláts.
Jóhannes guðspjallamaður segir frá orðum Jesú á laufskálahátíðinni, á hátíðardaginn mikla (Jóh 7.37-39), nokkru fyrr en þeir atburðir sem við íhugum nú áttu sér stað: “Ef nokkurn þyrstir þá komi hann til mín og drekki. Frá hjarta þess sem trúir á mig munu renna lækir lifandi vatns, eins og ritningin segir.” Þarna átti hann við andann er þau skyldu hljóta sem á hann trúa. Því enn var andinn ekki gefinn þar eð Jesús var ekki enn dýrlegur orðinn.
Ef nokkurn þyrstir, segir Jesús. Ef nokkurn þyrstir þá komi hann til mín. Í kvöld minnumst við síðustu samfunda Jesú og lærisveinanna fyrir krossfestingu hans. Við það tækifæri tók hann kaleik, gerði þakkir, gaf þeim og sagði: “Drekkið allir hér af. Þetta er blóð mitt, blóð sáttmálans, úthellt fyrir marga til fyrirgefningar synda. Ég segi ykkur: Héðan í frá mun ég eigi drekka af þessum vínviðar ávexti til þess dags er ég drekk hann nýjan með ykkur í ríki föður míns” (Matt 26.27-29).
Daginn eftir, á föstudaginn langa, rann blóð hans úr höndum og fótum við naglastungurnar og loks síðusárinu sem hermaðurinn veitti honum eftir dauða hans (Jóh 19.34). Þess minnumst við hér á eftir á Getsemanestundinni þegar altarið verður afskrýtt við lestur úr Markúsarguðspjalli og Sálmi 22 og loks bornar fram fimm rauðar rósir til minningar um sár Krists.
Líf Guðs, okkur til lífs
Blóð Jesú rann - og hann þyrsti. Blóðið er tákn lífsins. Um leið og lífið rann frá honum fann hann þorstann heltaka sig, þorsta þjáningar mannkynsins alls. Fyrir þann þorsta gaf hann líf sitt. Það líf fáum við að meðtaka hér á eftir í heilagri kvöldmáltið, ekki bara á táknrænan hátt í minningu löngu liðinna atburða, heldur fylgir hinu helgaða víni andlegur veruleiki, líf Guðs sjálfs, í, með og undir því sem í kaleiknum er.
Í hjarta krossins er þorsti Jesú. Í hjarta mannsins býr andlegur þorsti, þorsti eftir lífi Guðs, því lífi sem eitt megnar að flytja sátt í alltumlykjandi ást. Úr hjarta sonar Guðs rennur svalalind lífi mínu, eins og sr. Hallgrímur kemst að orði (Ps. 48.16,17):
Um heimsins áttar alla parta Út rann svalalindin skær. Sálin við þann brunninn bjarta Blessun og nýja krafta fær.Við þennan brunninn þyrstur dvel ég, Þar mun ég nýja krafta fá. Í þessi inn mig fylgsnin fel ég, Fargar engin sorg mér þá. Sælan mig fyrir trúna tel ég, Hún tekur svo Drottins benjum á.
Meistarinn segir: Minn tími er í nánd, hjá þér vil ég halda páska... (Matt 26.18).