Gleðilega jólahátíð! Ýmsir koma við sögu í sögunni af fæðingu Jesú. Þar eru hirðarnir sem gættu um nóttina hjarðar sinnar. Vitringana þrjá þekkjum við með nafni. Þar er móðirin, María, frægasta og elskaðasta persóna þessarar sögu fyrir utan Jesúbarnið. Og þar er Jósef. Jósef í þessari sögu er eins og Jósef á öðrum kórglugganum hérna í kirkjunni. Þar má sjá hirðana, sá minnsti þeirra stendur fremstur en María með barnið er í miðpunkti. Jósef er aftast. Og þar er hann líka í sögunni, í bakgrunni hennar, þögull, heldur sér til hlés og lætur ekki mikið fyrir sér fara. Þó er Jósef mikill örlagavaldur í þessari framvindu atburða. María, heitkona hans, varð þunguð áður en þau höfðu verið saman. Samkvæmt sögunni grunaði Jósef að heitkona hans hefði verið sér ótrú. Sú afstða þarf ekki að koma neinum óvart. Á þeim tíma hefði slík hegðun kvenna getað kostað þær lífið. En Jósef var valmenni, segir Matteus guðspjallamaður, og ætlaði að skilja við Maríu í kyrrþey til að gera henni ekki opinbera minnkun. En þá gerist nokkuð sem skiptir sköpum; Jósef dreymir draum þar sem engill útskýrir fyrir honum hvernig barnið hafi komið undir, hvaða hlutverk það hafi og hvað það eigi að heita. Og ef Jósef leikur stærra hlutverk í drama fæðingarsögunnar en við höfum gert okkur grein fyrir, höfðu draumar ekki minni áhrif á atburðarásina. Þegar vitringarnir höfðu fundið Jesúbarnið og fært því gjafir fengu þeir bendingu í draumi um að láta Heródes konung ekki vita hvar barnið væri að finna. Heródes sat um líf þess. Draumurinn bjargaði því. Og aftur var barninu bjargað með skilaboðum í draumi, þegar engill vitraðist Jósef í einum slíkum og sagði honum að flýja strax með þau mæðgin til Egyptalands, því Heródes vildi granda því. Draumar eiga stóran þátt í því að sagan af Jesú er eins og hún er. Og draumar eru stórmerkilegir. Í fornum gyðinglegum fræðum segir að hver draumur sem ekki hafi verið ráðinn sé eins og óopnað sendibréf. Margt býr í þoku draumanna. Í nútíma sálgreiningu og djúpsálafræði hefur draumum verið mikill gaumur gefinn. Niðurstaða þeirra rannsókna er meðal annars sú, að draumarnir séu óaðskiljanlegur hluti af því að vera maður. Draumarnir hafa það hlutverk að koma jafnvægi á sálarlíf okkar. Í draumum geta verið fólgin mjög holl ráð. Oft kemur þar upp á yfirborðið ýmislegt sem leynist í undirmeðvitundinni og við annaðhvort gátum eða vildum ekki skynja. Í myndmáli draumanna er ekki einungis litið til baka og það skoðað sem við höfum bælt eða flúið, heldur horfum við þar ekki síður fram á veginn, fáum uppörvun og hvatningu til góðra verka og erum vöruð við því sem getur reynst okkur skaðlegt. Sálvísindi nútímans voru auðvitað ekki fyrst til að uppgötva mikilvægi draumanna. Þau vísindi staðfesta margt í fornri visku um drauma og hafa fært hana í vísindalegan búning. Fólk í öllum menningarsamfélögum og trúarbrögðum hefur borið ómælda virðingu fyrir draumlífi mannsins. Víða eru draumarnir taldir mótöld og afruglarar skilaboða úr öðrum víddum tilverunnar. Jólin eru tími draumanna. Fáar stundir eru draumkenndari en nýliðin nótt. Jólanóttin er sveipuð helgi og dulúð. Hún býr yfir sérstakri kynngi og á djúpa kyrrð. Það er eitthvað óraunverulegt við jólanótt. Myrkur hennar er nánast botnlaust en samt hlýrra en annað næturmyrkur. Aldrei glitrar snjórinn jafn fallega og undir stjörnum og í tunglsljósi jólanæturinnar. Og sé stórhríð þessa nótt þegar við minnumst fæðingar Jesú, hjúfrum við okkur undir hreinum sængum og skynjum eitthvað heilagt og óumræðanlegt við norðanáttina. Meira að segja þessi eini bíll sem þú heyrir að ekið er um götuna þína seint á jólanótt hljómar ekki eins og þegar sami bíll keyrir sömu götu eitthvert hádegið í janúar. Dagurinn í dag er einnig draumi líkastur. Jóladagur á sér fáa ef einhverja jafningja. Morgunmaturinn á jóladegi, að sofa frameftir, fá sér heitt súkkulaði, bregða sér í göngutúr í Kjarna, borða hangikjöt, vera í fjölskylduboði, horfa á sjónvarpið, lesa bók, hlusta á tónlist og njóta lífsins; allt þetta er öðruvísi á jóladegi en á öðrum dögum af því að jóladagur er allt öðruvísi en aðrir dagar. Hann er varla af þessum heimi. Maðurinn er þannig gerður, að veruleikinn er honum ekki nóg. Manneskjan hefur aldrei sætt sig við hlutina eins og þeir eru. Hún þarf annað og meira en þá veröld sem við blasir. Þess vegna sest hún niður og semur sögur, yrkir ljóð, heldur jól og aðrar hátíðir og á drauma, vonir og hugsjónir. Öllu þessu er sameiginlegt að vera í vissum skilningi óraunverulegt. En allt þetta á það ennfremur sammerkt að vera aflvaki breytinga og umskipta í veröldinni. Þannig getur það verið því óraunverulega að þakka að það raunverulega breytist. Jólin eru á margan hátt tími þess óraunverulega. Þau eru tími vona, hugsjóna og drauma. Á jólum látum við okkur dreyma um heiminn eins og hann gæti orðið. Þess vegna er það jólunum að þakka að heimurinn verður stundum eins og við viljum að hann sé. Jólin kveikja von um betri heim og sá sem þá kemur til okkar vill efla þá von í brjóstum okkar. Fyrir mörgum öldum orðaði Jesaja spámaður hana fyrir hönd okkar allra og enn þann dag í dag getum við gert hana að okkar: „Þá mun úlfurinn búa hjá lambinu og pardusdýrðið liggja hjá kiðlingnum. Kálfur, ljón og alifé munu ganga saman og smásveinn gæta þeirra. Kýr og birna verða saman á beit, ungviði þeirra hvílir hvort hjá öðru og ljónið mun bíta gras eins og nautið. Brjóstmylkingurinn mun leika sér við holu nöðrunnar og barn, nývanið af brjósti, stinga hendi inn í bæli höggormsins. Enginn mun gera illt, enginn valda skaða á mínu heilaga fjalli því að allt landið verður fullt af þekkingi á Drottni eins og vatn hylur sjávardjúpið.” (Jesaja 11, 6 – 9) Árið 1967 sendi bandaríski tónlistarmaðurinn Stevie Wonder frá sér jólalagið Someday at Christmas. Þar eru á ferðinni sömu vonir og hjá Jesaja spámanni. Í laginu segir Stevie Wonder meðal annars: „Einhver jólin munu engin tár vera til, allir menn verða jafnir og enginn mun óttast neitt, einu skínandi augnabliki, einni bæn frá heiminum eins og hann er í dag.” Draumar geta skipt sköpum. Draumar og vonir eru aflvakar breytinga. Betri heimur á upphaf sitt í einu skínandi augnabliki. Það augnablik er í dag. Gleðileg jól!
Jólin eru tími draumanna
Flokkar