Gleðilega hátíð.
Sjómannadagur á sér djúpar rætur í menningu þjóðarinnar. Þá erum við svo rækilega minnt á hve búseta okkar og lífsafkoma er háð sjónum og auðlindum hafsins. Þegar ég var að alast upp í Hafgnarfirði þurfti í sjálfu sér ekki sjómannadag til þess að minna okkur börnin á það, þó sjómannadagurinn hafi verið einn stærsti hátíðisdagur í bænum. Við ólumst upp við að syngja í skólanum og fjölskyldusamverum ástsæla kvæðið eftir Magnús Stefánsson sem orti undir skaldanafninu Örn Arnarson:
Hafið bláa hafið, hugann dregur. Hvað er bak við ystu sjónarrönd? Þangað liggur beinn og breiður vegur. Bíða mín þar æskudraumalönd. Beggja skauta byr, bauðst mér aldrei fyrr. Bruna þú nú bátur minn. Svífðu seglum þöndum, svífðu burt frá ströndum. Fyrir stafni haf og himininn.
Þegar ég les þetta kvæði, þá ligggur við að maður fari ósjálfrátt að syngja lagið hans Friðriks Bjarnasonar. Svo hjartfólgið er það og kvæðið getur tæpast án lagsins verið. Í mínu ungdæmi var bryggjan hjartað í bænum og voru sjómennirnir sannkallaðar hetjur í augum okkar barnanna, ekki aðeins hetjur hafsins, heldur hetjur lífsins. Mikið fannst okkur börnunum spennandi að vera í kringum athafnalífið á bryggjunni. Það var einhver dýrðarljómi sem sveif yfir sjómennskunni. Þetta kvæði um Hafið bláa hafið lýsir svo vel þeim hughrifum, þessum innilega andblæ, ekki eins og einhverri nostalgíu úr fortíðinni, heldur í raun og veru. Marga stráka dreymdi um að verða skipstjórar, án þess að hafa mörg orð um það, því skipstjórarnir voru eins og heilagir menn í okkar augum.
Þessi bæjarbragur með höfnina í hjartastað einkenndi íslenkskt þjóðlíf fyrr á árum. Hver mann ekki eftir síldarárunum, þegar daglega var frá aflabrögðum sagt í fréttum útvarpsins og bátar taldir upp hver af öðrum og hversu mörgum tunnum þeir lönduðu og hvar á landinu. Þjóðin þekkti síldarbátana með nafni og helstu verstöðvar og fylgdist vel með aflabrögðum og gæftum. Svo áttum við krakkarnir uppáhaldsbáta eins og uppáhaldslið í íþróttunum, enda var í bland við þetta allt ákveðin keppni um hver yrði aflahæstur á síldinni og svo vetrarvertíðinni líka. Og fjölmiðlar fylgdust vel með og sögðu fréttir af gangi mála. Mér er minnisstætt þegar ég fór til sumardvalar í sveit 11 ára gamall, þá hafði bóndinn orð á því, hvort væri ekki komið nóg af fréttum af aflabrögðum einstakra báta og spurði hvort ekki væri tími til kominn að segja fréttir af því hvað einstakar kýr mjólkuðu mikið í fjósum landsins.
Mikið hefur margt breyst í þjóðlífinu frá þessum tímum fyrir hálfri öld. Hefur söngurinn um Hafið bláa hafið hljóðnað? Eru ný kvæði núna kveðin með öðruvísi boðskap og annars konar dýrðarljóma? Samt á þjóðin efnahagslega velferð og afkomu sína undir fiskveiðum og auðlindum hafsins sem er hryggjarstykkið í búsetu heilu byggðarlaganna umhverfis landið.
Þetta hefur fólkið hér á Djúpavogi fundið áþreifanlega síðustu vikur og vakið rækilega athygli á, m.a í fallegu, en beinskeyttu myndbandi sem hafði mikil áhrif. Eðlilegt er, að spurt sé: Hvernig stendur á því, að byggðalögunum umhverfis landið, sem byggja búsetu sína og afkomu á fiskveiðum og fiskvinnslu, er ekki leyft það lengur,- og með mannsins valdi, og þrátt fyrir að til staðar séu vinnandi hendur, tækin og húsin og bátarnir líka?
Allt fram undir lok níunda áratugar síðustu aldar gátu menn gert út og veitt eins mikið og þeir vildu. En þá blasti við ofveiði og fiskistofnar í hættu skv. mælingum vísindamanna, og aðeins rúmum áratug eftir að þjóðin hafði eignast yfirráð yfir 200 milna fiskveiðilögsögu. Allt fram á þennan dag hefur svo verið deilt hart um stjórnun fiskveiðanna. Í þeim deilum hefur aðgangur sjávarbyggðanna að aflaheimildunum orðið útundan og ekki komist áþreifanlega í deiglu,- fyrr en höggið ríður yfir.
En þá stendur fámenn byggð ein og sér,- varnarlaus, og á sér ekki marga málsvara utan byggðar. Þetta hefur Djúpivogur verið að reyna og er í fótsporum margra byggðarlaga sem eru sömu reynslu brennd. En kennir þessi dýrkeypta reynsla einhverja lexíu og lærum við einhvern tíma af reynslunni svo traustum grunni verði fyrirkomið í stjórnskipulag fiskveiðanna sem styrki búsetu og afkomuöryggi fólksins í sjávarbyggðunum? Búseta, heimilin og fólkið í landinu mega aldrei vera skiptimynt í kvótaviðskiptum á markaði.
Hafið bláa hafið, hugann dregur. Það gerir það sannarlega. Guðspjallið, sem ég las frá altarinu, segir frá bátsferð þar sem um borð voru Jesús og lærisveinarnir. Það hvessti og brast á með stormviðri. Þeir vekja Jesú sem hafði lagst til hvíldar og segja: Drottinn bjarga okkur, vér förumst. Jesús hastaði á vindinn og þá varð stillilogn. Þessi saga segir okkur, að Jesús reyndi lífið í blíðu og stríðu með samferðafólki sínu. Ekki Guð upphafinn og langt í burtu, heldur mitt á meðal fólksins, reyndi kjör og liðan fólksins.
Mér er minnisstætt þegar ég lagði höfuðið á koddann í kojunni minni í fyrsta togaratúrnum mínum, þá blasti við augum rétt ofan við höfðagaflinn Biblía og var mikið lesinn. Það sá ég af blöðum bókarinnar. Ég hugsaði til þess, að byrðingurinn á skipinu var þessi þunnu skil á milli mín og hafsins djúpa og á þessum skilum væri Biblía og minnti svo sterkt á, að lífið er í Guðs hendi og þegið af honum. En á milli Guðs og manns eru engin skil, heldur er Guð með og í öllu sem gerist og ber mannsins líf í faðmi sínum.
Þannig hefur það verið um aldirnar og allt fram á þennan dag, að sambúð Guðs og sjómannsins hefur verið svo náin. Óvíða hefur oftar verið kropið til bænar í atvinnulífi landsmanna en einmitt á sjónum. Á árum fyrr voru sjóslysin svo tíð og í raun var lífsins áhætta að sækja sjóinn. Mikið má þakka allar þær framfarir sem orðið hafa í öryggismálum sjómanna, og aðbúnaður um borð hefur tekið svo miklum stakkaskiptum.
Þá gegna slysavarna-og björgunarsveitir svo mikilvægu hlutverki sem hafa með dugnaði og árræði bjargað mörgum mannslífum, auk þess að rækta forvarnir og vera á vaktinni reiðubúnar til hjálpar og þjónustu. Slysavarnasamtökin eiga einmitt rætur að rekja um stofnun sína til strandarinnar í lok 19. aldar við að bjarga sjómönnum úr sjávarháska í stormviðri. Í raun og veru eru slysavarna-og hjálparsamtökin í sporum Jesú með útréttar hendur, alltaf til staðar og til þjónustu reiðibúnar. Frá sjónarhorni þeirra sem bjargað er og komið í öruggt skjól, þá er eins og hastað hafi verið á vindinn og varð stillilogn. Hversu margir, sem bjargað hefur verið um árin, hafa ekki einmitt sagt, að björgunin hafi verið kraftaverki líkust?
Hafið bláa hafið, hugann dregur, og minnir á að allt er þetta grumndvallað á kærleika og sköpun almáttugs Guðs. Og mannlífinu falið til forsjár og farsældar. Í sköpunarsögu Biblíunnar segir, að Guð skapaði þau karl og konu og blessaði þau og sagði: „Verið frjósöm, fjölgið ykkur og fyllið jörðina, gerið ykkur hana undirgefna og ríkið yfir fiskum sjávarins, fuglum himinsins, og öllum dýrum sem hrærast á jörðinni“. Mikil er sú ábyrgð að fara vel með þessar gjafir öllum mannsins börnum til heilla. Við berum ábyrgð gagnvart Guði og hvert öðru sem þjóð og hvernig sem aðstæðum okkar er háttað. En höfum að leiðarljósi að allir eigi að njóta af réttlæti og sanngirni. Það er heilög guðsþjónusta í dagsins önn, að elska lífið í trú, von og kærleika. Og þar er Guð í miðju mitt á meðal okkar, skjöldur og skjól, og aflvaki til góðra verka fyrir mátt hins skapandi anda. Þetta boðar kristinn mannskilningur.
Kirkjan er kjölfestan um þetta kristna gildismat. Þar komum við saman, lofum og þökkum Guði, biðjum og njótum, heilagur samastaður fólksins í blíðu og stríðu. Oft hefur bátnum, sem segir frá í guðspjalli sjómannadagsins, einmitt verið líkt við kirkjuna, emnda er saga kirkjunnar samofin atvinnulífinu í landinu. Í trúnni, sem við ræktum í kirkjunni, blómgast skilningur okkar á tilgangi lífs og verka um leið og við leggjum okkur fram um að auðga fallega menningu. Það gerum við hér í Djúpavogskirkju á sjómannadegi, njótum alls þess sem hér er framborið í þessu fallega húsi sem er svo vel um séð, líka í fallegum söng sem lyftir í hæðir, nærumst af Guðsorðinu og sameinumst frammi fyrir Guði í helagri bæn. Það er menning sem glæðir lífið og hátíðisdag sjómanna fegurð og von.
Guði séu þakkir. Í Jesú nafni Amen.