Leiðarvísir um meðferð óvina

Leiðarvísir um meðferð óvina

Er ástin bara fyrir “ástvini”? Eða er ástin fyrir fleiri, jafnvel óvini? Getur verið að elskustefna Fjallræðunnar sé leiðarvísir fyrir engla en ekki venjulegt fólk í tvíbentum heimi?

Gamall drykkjubrandari er til í ýmsum útgáfum og meðal annars þessari: ”Viskí getur verið helsti óvinur mannsins. En Biblían segir að maður eigi að elska óvini sína!” Þessi hnyttni gekk í unglingahóp um daginn og er sögð af tilefni texta dagsins. Prédikunin verður þó ekki um drykkjumál heldur óvini. Þeir eru margvíslegir og með ýmsu móti, sumir jafnvel í vökvaformi, mennskir sem ómennskir. Í guðspjallinu er vissulega sagt, að maður eigi að elska óvin sinn. En Biblían hefur aldrei boðið nokkrum manni að drekka óvin sinn! Að elska óvin er ekki að gleypa hann, ekki nota, heldur þvert á móti að leyfa honum að mannast, koma fram sem manneskja og fá að njóta mennsku sinnar.

“Þér hafið heyrt, að sagt var: Þú skalt elska náunga þinn og hata óvin þinn. En ég segi yður: Elskið óvini yðar, og biðjið fyrir þeim, sem ofsækja yður, svo að þér reynist börn föður yðar á himnum, er lætur sól sína renna upp yfir vonda sem góða og rigna yfir réttláta sem rangláta. ... Verið þér því fullkomnir, eins og faðir yðar himneskur er fullkominn.”
Smæðarelska eða stórelska Þessi texti er einn af mörgum gullmolum Fjallræðunnar, ásamt með sæluboðunum, Faðir vorinu, og Gullnu reglunni. Jesús notar ræðutækni andstæðna til að vekja viðbrögð fólks og íhugun. Þið hafið heyrt sagt – en ég segi ykkur. Það merkir einfaldlega, að kenning Jesú væri nýjung, að ástin sé ekki aðeins fyrir svokallaða “ástvini” heldur líka alla hina, jafnvel óvini.

Að elska sína nánustu en síður hina - er það ekki afstaða okkar flestra? Þó við hötum kannski ekki stórkostlega viljum þó fæst eitthvað gera í þágu andstæðinga okkar. Að elska fólkið sitt er sjálfsagt, en er það ekki heldur lágkúruleg elska sem nær ekki lengra en það? Að einangra elsku við sína “ástvini”er eiginlega að elska spart. Að elska bara sína nánustu er elskusmættun og eiginlega siðferði smæðar og andlegrar fátæktar. Það er afstaða hins lokaða og hrædda. Slík afstaða kemur meðal annars fram meðal þröngsýnna þjóðernissinna allra alda og landa, sem skelfast innflytjendur, hræðast hinsegin líf. Þetta er sú afstaða, að elska bara mitt fólk, en hata hina og berja á þeim. Ástin, sem Jesús talar um er stærri og meiri, varðar ekki aðeins fjölskyldu og nærumhverfi, heldur alla veröldina, já alla, lífið sjálft.

Við-ástin og hinna-hatur Jesús var alinn upp við siðferði smæðarinnar, algera aðgreiningu milli hinna góðu og Guði þóknanlegu Gyðinga og svo allra hinna, hvort sem þeir nú voru Rómverjar, eða allir nágrannaættbálkarnir á svæðinu. Staðið var með “okkar” fólki en á móti “hinum.” Stefnan var annaðhvort-eða, annað hvort Við – eða - hinir. Þessi aðgreining var grunnur hinnar gyðinglegu sögu. Guð var eðins gyðinglegur. Gyðingar trúðu á hinn sanna Guð og fengu þaðan forsendu þjóðernis, samhengi og líka von. Svo stendur Jesús þarna á fjallinu og talar gegn frumforsendu hins gyðinglega sjálfs, samhengi sögunnar og þar með forsendu hefðarátrúnaðar eins og flestir höfðu skilið hann. Elska náunga þinn en líka óvin þinn. Þessi kenning hans um, að elska óvininn lýtur að því að eyða aðgreiningu og játa mennsku allra. Að elska óvin sinn er að segja, að Guð elski ekki aðeins einn hóp, einn trúflokk, eina þjóð, einn átrúnað - heldur alla. Að elska óvin sinn er að upphefja hin venjulegu aðgreinandi gildi og sýna, að Guð sé meiri og stókostlegri en svo, að einhverjir eigi eða hafi einkarétt á Guði, geti kennt eina þjóð við Guð og jafnvel aðeins einn átrúnað við Guð. Að elska óvin sinn er að búa til nýja heim, nýja afstöðu og nýja tegund af samskiptum. Að elska óvin sinn er í þessu fjallræðusamhengi tjáning þess, að Guð sé allra, elska Guðs eigi að streyma fram í fólki og líka í garð andstæðinga.

Er elskustefnan möguleg? Hvers konar kenning er þetta? Ef farið hefði verið eftir þessu hefði saga manna verið öðru vísi, saga þín breytt, líf mitt annað. Hefðu vestræn ríki ráðist á Írak ef farið hefði verið eftir þessu? Hefðu orðið tvær heimstyrjaldir á liðinni öld ef þessi stefna hefði ráðið för? Hefðu morð verið framin á Íslandi fyrr og síðar ef hlýtt hefði verið boðum Jesú? Nei. Settu þessa kenningu Jesú í nútímasamhengi og þá skilst hversu djúpt hún ristir. Ef Ísraelar færu að elska Palestínumenn færi betur. Ef Palestínumenn færu að elska Ísraela færi að rofa til. Kenningin um að elska óvin skapar líf, en hatur óvinar er ávísun á dauða. Settu þetta í þitt eigið samhengi – hefði ekki eitthvað getað farið betur? Hefði elskan mátt lifa?

Verður ekki að stoppa illvirkja til að fyrirbyggja voðaverk? Það er röksemd Ísraela, Palestínumanna, já frummanna allra alda. Er óvinakærleikur ekki bara glópska og fáráðlingaháttur? Allir, sem reynt hafa, vita að illska fólks getur orðið skelfileg, ofbeldið óskaplegt og að stemma verður stigu við því bæði í smálífi okkar einstaklinganna, en líka meðal hópa og þjóða. Niðurstaða margra er því, að það að elska óvinininn sé fróm kenning sem henti betur siðferði engla en hálfskítugum mannheimum. Illum mönnum verði að mæta með valdi og á þá bíti elskan ekki. Hægt er að rökstyðja að einmitt vegna elskunnar verði að bregðast hart við illmennum. En fólki yfirsést jafnan að hin róttæka elskuleið er affarasæll og öflugur valkostur. Valdbeitingin er flestum töm en ástalífið iðka of fáir!

Harry Potter og elskan Hvernig viljum við lifa? Hvað viljum við kenna börnum okkar? Við erum þeim fyrirmyndir og þurfum að vanda okkur. Mannmótun, að mannast, er verkefni allra og á öllum tímum. Það fólk, sem er að fullorðnast þessi misseri, hugsar ekkert síður um elsku, siðferði og óvini en við sem eldri erum. Sonur minn benti mér á dæmi úr fimmtu bók Harry Potter-flokksins, að elskan hið innra getur bjargað lífi.

Voldemort, sem er eiginlega óvinur, djöfull, Harry Potter-bókanna er hatursmaður Harry frá frumbernsku hans. Hann drap foreldra hans og náði nærri að deyða hann barnungan. En Harry lifði af árás hins illa og ber ör, eldingarmerki á enni, frá hinni fyrstu árás illskunnar. Illskan skilur eftir merki á sál og lífi. Í hverri bókinni á fætur annarri ræðst Voldemort gegn Harry Potter og notar líka málaliða í atlögum. En Harry lifir og í fimmtu bókinni verður hann fyrir enn einni árásinni. Þegar allt um þrýtur reynir Voldemort að koma eigin anda í líkama Harry Potter, sem heitir á gömlu máli að andsitja hann. En tilraunin tekst ekki. Af hverju? Þrátt fyrir gríðarlega þekkingu og hæfni skortir Voldemort grunnþátt mannlífs. Voldemort kann ekki að elska, getur ekki látið sér þykja vænt um aðra. Hann er því skertur. Harry Potter þykir vænt um aðra, kann að elska. Þegar Voldemort heldur, að hann hafi náð valdi á honum fer Harry í dauðastríði sínu að hugsa um fólkið sem honum þykir vænt um, þ.e. mannelska sprettur fram í Harry Potter og þar skilur með hinum góða og illa, hið illa getur ekki haldið bráð sinni og hinn vonskan flýr. Elska og illska blandast ekki.

Styrking varnarkerfa Hugsið ykkur þessa umfjöllun, sem lestrarhestar heimsins innlífast. Það er hæfnin til að elska, elskan í sálinni, sem hindrar að hið illa, að hinir illu nái valdi á manni. Ástin elur ekki hatur. Óvinur nær aldrei valdi á ástinni. Þetta er auðvitað ekkert annað en kenning Jesú og kristninnar en líka góðs húmanisma. Afstaða manna litar hvað tekur sér bólstað í sál manna, hvað verður um fólk í lífinu og hvernig því farnast í öllum aðsóknum, sem það verður fyrir. Einu gildir í hverju sú aðsókn og tilraun til andsetningar er fólgin. Ef elskan og hæfnin til kærleika er í fólki verður hið andlega ónæmiskerfi sterkara og hæfnin meiri til að standa keikur í gerningaveðrum lífs og menningar.

Við eigum ekki að drekka óvininn. Við eigum ekki að bjóða honum að ná valdi og búa í okkur. Við megum leyfa elskunni að fylla okkur svo innan frá, að við hættum að hræðast aðra, sem eru öðru vísi en við. Við megum leyfa elskunni að vera svo sterkri í lífi okkar, að við þorum að sjá aðra með jákvæðni.

Guð horfir á heiminn augum, sem við megum læra að sjá með, augum umhyggju, gleði og viðurkenningar. Elskaðu óvin þinn er leiðarvísir um "meðferð" fólks, já óvina okkar líka. Líf okkar verður kannski ekki auðveldara, en það verður gleðilegra. Heimurinn verður kannski ekki einfaldari en hann verður betri. Guð verður glaðari og við fullþjálfuð þegar við erum kölluð inn í meistaraflokk elskunnar í eilífðarríki Guðs. Elskusiðfræði fjallræðunnar varðar bæði líf í nánd og firð, fólk nær og fjær, líf í tíma en líka í eilífð. Jesús segir jú, að við eigum að vera fullkomin eins og hinn himneski faðir er fullkominn.

Amen

Prédikun í Neskirkju 2. september, 2007, 13. sunnudag eftir þrenningarhátíð

Lexían; Jes 58. 6-12

Nei, sú fasta, sem mér líkar, er að leysa fjötra rangsleitninnar, láta rakna bönd oksins, gefa frjálsa hina hrjáðu og sundurbrjóta sérhvert ok, það er, að þú miðlir hinum hungruðu af brauði þínu, hýsir bágstadda, hælislausa menn, og ef þú sér klæðlausan mann, að þú þá klæðir hann og firrist eigi þann, sem er hold þitt og blóð.

Þá skal ljós þitt bruna fram sem morgunroði og sár þitt gróa bráðlega, þá mun réttlæti þitt fara fyrir þér, dýrð Drottins fylgja á eftir þér. Þá munt þú kalla á Drottin, og hann mun svara, þú munt hrópa á hjálp og hann segja: Hér er ég!

Ef þú hættir allri undirokun, hæðnisbendingum og illmælum, ef þú réttir hinum hungraða brauð þitt og seður þann, sem bágt á, þá mun ljós þitt renna upp í myrkrinu og niðdimman í kringum þig verða sem hábjartur dagur.

Þá mun Drottinn stöðugt leiða þig og seðja þig, þótt þú sért staddur á vatnslausum stöðum, og styrkja bein þín, og þá munt þú verða sem vökvaður aldingarður og sem uppsprettulind, er aldrei þrýtur.

Þá munu afkomendur þínir byggja upp hinar fornu borgarrústir, og þú munt reisa að nýju múrveggina, er legið hafa við velli marga mannsaldra, og þá munt þú nefndur verða múrskarða-fyllir, farbrauta-bætir.

Pistillinn: 1Kor 13.1-7

Þótt ég talaði tungum manna og engla, en hefði ekki kærleika, væri ég hljómandi málmur eða hvellandi bjalla. Og þótt ég hefði spádómsgáfu og vissi alla leyndardóma og ætti alla þekking, og þótt ég hefði svo takmarkalausa trú, að færa mætti fjöll úr stað, en hefði ekki kærleika, væri ég ekki neitt. Og þótt ég deildi út öllum eigum mínum, og þótt ég framseldi líkama minn, til þess að verða brenndur, en hefði ekki kærleika, væri ég engu bættari.

Kærleikurinn er langlyndur, hann er góðviljaður. Kærleikurinn öfundar ekki. Kærleikurinn er ekki raupsamur, hreykir sér ekki upp. Hann hegðar sér ekki ósæmilega, leitar ekki síns eigin, hann reiðist ekki, er ekki langrækinn. Hann gleðst ekki yfir óréttvísinni, en samgleðst sannleikanum. Hann breiðir yfir allt, trúir öllu, vonar allt, umber allt.

Guðspjallið: Mt 5.43-48

Þér hafið heyrt, að sagt var: Þú skalt elska náunga þinn og hata óvin þinn. En ég segi yður: Elskið óvini yðar, og biðjið fyrir þeim, sem ofsækja yður, svo að þér reynist börn föður yðar á himnum, er lætur sól sína renna upp yfir vonda sem góða og rigna yfir réttláta sem rangláta. Þótt þér elskið þá, sem yður elska, hver laun eigið þér fyrir það? Gjöra ekki tollheimtumenn hið sama? Og hvað er það, þótt þér heilsið bræðrum yðar einum. Gjöra heiðnir menn ekki hið sama? Verið þér því fullkomnir, eins og faðir yðar himneskur er fullkominn.