Ótti og trú
Afi minn var ósáttur við texta dagsins um sauðina og hafrana - fordæming er í honum, og ógn, sagði hann. Hann er dæmi um hvað Guð er reiður og í raun óréttlátur.
Textinn var notaður í kirkjusögunni m.a. til að hræða fólk til trúar. Tökum t.d. ljóðið "Dies irae" sem samið var á 12. öld og hljómaði í sálumessum og á allra sálna messu um aldir í kirkjum.
Dagur reiði, Dagur bræði drekki jörð með logaflæði votta heilög Völufræði.Dauðans ógn, er Drottinn alda dóm í skýjum fer að halda, öllum makleg gjöld að gjalda. --- Drottinn síðan dæma tekur, dulsmál hvert af svefni vekur, kemst þá enginn undan sekur. (Matthías Jochumsson)
Tökum dæmi af "La divina commedia" eftir Dante frá 16. öld, þar sem farið er í gegnum dánarheima frá limbói til hreinsunarelds og niður í sjö dýptir helvítis.
Tökum dæmi af kommagrýlunni, sem leyfði okkur, íbúum hins 1. heims (ríkasta hluta-num) að vinna fullnaðarsigur í kalda stríðinu og búa til nýja heimsskipan, þar sem ið erum laus við kjarnorkuvá og óttann við gereyðingarstríð, sem mín kynslóð ólst upp við.
Hræða fólk, til hvers á fólk að vera hrætt? Hverjum þjónar það að við gerum óttann og tortryggnina - sundrungina að "hvíldarstöðunni"?
Ótti og völd
Við vitum það að krakki sem leggur aðra krakka í einelti, byggir völd sín á því að umhverfið er hrætt við hann, eða vill vera vinur hans. Við vitum að ótti okkar við kom-mana forðum gerði ýmislegt mögulegt, sem annars er óhugsandi, njósnir, yfirdrifin útgjöld til hernaðar og það að lýðræðisþjóðir lokuðu augum fyrir augljósum mannréttind-brotum bandalagsþjóða ... nefni eingöngu fáein dæmi. Óttinn við helvítisvist og eilífa fordæmingu gerði mennina auðsveipa kirkjuvaldi, sem varð víða ríki í ríkinu, með eigin lög og eigin siði, sem gerði henni kleift að starfa óáreitt, hvort heldur til góðs eða ills.
Horfum til nútímans, horfum til þess sem við óttumst: gróðurhúsaáhrif, hryðjuverk, efna-hagslegt hrun (þetta síðasta ekki alveg uppi á borðinu en því er reglulega teflt fram). Þjóðunum er skipt upp í andstæðar fylkingar sem nærast á því að vera á móti hver an-narri, gera "hina" að andstæðingum sem verður að hafa undir. Vissulega mála ég sterkum litum í dag, en úr fjarlægð verður heildarmyndin greinilegri fyrir vikið.
Samúð eða meinlæti
Ég var að ljúka við sjálfsævisögu Karen Armstrong, A Spiral Staircase (hringstíginn), þar sem hún lýsir leið sinni frá trú til trúleysis og til trúar á ný. Karen var nunna í sjö ár til 24 ára aldurs, tók bókmenntafræði í Oxford og hefur skrifað nokkrar afar merkilegar bækur um helstu trúarbrögð mannkyns. Á leiðinni frá guðleysi til trúar á Guð áttaði hún sig á þvi að samúðin er það sem gerir öll trúarbrögð mannvæn. Samúðin (eða gullna reglan) er það sem gerir okkur lík Guði, gerir það að verkum að við fáum að uppgötva Guð, án tillits til þess hvaða mynd við gerum okkur af honum. Með því að taka tillit til hver an-nars, setjum við okkur sjálfum skorður, forgangsröðum og tökum meðvitaða ákvörðun um að gera ekki öðru fólki mein. Það, segir Karen er leið Budda fyrir þá sem ekki geta stundað jóga af þeim krafti sem meinlætamenn stunda, og er frábærlega lýst í bókinni "Siddarta" eftir Hermann Hesse.
Þar segir frá manni, sem gaf allt frá sér til að verða uppljómaður, renna saman við Guð og menn. Allar eigur, öll samskipti við annað fólk og jafnvel son sinn, sem kemur til að búa hjá honum í skóginum, hann vanrækir hann, því líf meinlætamannsins er ekkert fyrir fjölskyldufólk. Þegar allir voru farnir frá honum og hann var einn við lækinn, þar sem hann hugleiddi, uppgötvaði hann loks að hann og lækurinn voru orðnir eitt, niður hans og rennsli var niður sálar hans og rennsli lífs síns. Hann var frjáls og hann var sáttur.
Samúðin er ekki svona. Hún leitast við að mæta öðru fólki þar sem það er statt. Hún er mér ennþá í minni, myndin af bekkjasystur minni, Margréti, þegar við fyrir um 25 árum síðan stigum upp í strætó á Lækjartorgi, ung kona kemur til vagnstjórans og spyr hvort hún megi koma með, hún hafi gleymt veskinu sínu og geti því ekki borgað. Vagnstjórinn sagði nei, en Margrét rétti henni strætómiða, án þess að segja nokkuð og settist hjá mér án þess að bíða eftir því að unga konan þakkaði fyrir sig. Það var ekki stærð gjafarinnar sem markaði spor sín í minninguna heldur hve eðlilegt það var Margréti að gera þetta. Eins og að anda eða eins og að brosa við gleðilegum tíðindum.
Tómt helvíti?
Samúðin er það sem skilur heillavænlega trú frá hættulegum öfgum. Karen Armstrong benti á það að líkast til muni mörgum finnast himnaríkið snautlegur staður, ef allir, ALLIR verða þar. Flestum finnst líkast til gott að horfa niður frá himnum og sjá a.m.k. einhverja stórglæpona engjast í víti ... eða hvað?
Það fannst afa mínum ekki. Hann las söguna af sauðunum og höfrum þannig að Guð væri hefnigjarn Guð, óttalegur og varasamur. Afi var og er ekki einn um þá skoðun og tilfinningu. Fólk sem er alið upp við strangan aga og sér fólk í kringum sig koma fram við hvert annað af miskunnarleysi, er líklegra til að eiga trú þar sem miskunnsemin nær eingöngu til hugsunarinnar en ekki hjartans (kannski er það af því að lífið er erfitt, kannski af því að fólk þarf að fela veikleika sína, eins og börn sem leggja önnur í einelti gera oft).
Texti dagsins um sauðina og hafrana er einmitt svona texti, gerir skýran mun trúar sem nær eingöngu til yfirborðsins og trúar sem gagnsýrir okkur. Bæði sauðirnir og hafrarnir koma af fjöllum þegar Jesús sest í dómarasætið og sýnir þeim þeirra góðu og slæmu hliðar. Hinn miskunnarlausi vissi ekki að hann væri miskunnarlaus og hinn miskunnsami vissi ekki að hann væri miskunnsamur. Báðir sjá ekki lengra nefi sínu.
Botninum náð - ný byrjun
Horfum á samhengi sögunnar, sagan um sauðina og hafrana er þriðja sagan um dóm Guðs. Sú fyrsta fjallar um húsbónda sem lætur auðæfi í hendur ráðsmönnum sínum og fer til fjarlægs lands.
Önnur er um tíu meyjar sem bíða brúðkaups. Báðar fjalla um tækifæri sem er nýtt og tækifæri sem er glatað. Þjónninn sem gróf auðævin og ávaxtaði þau ekki, hann er settur á byrjunarreit. Hann fattaði ekki trixið og lærir það vonandi, eins og góður AA maður, að lífið byrjar þar sem maður náði botni og er byrjaður að byggja upp. Sama má segja um meyjarnar sem voru svo óheppnar að muna ekki eftir að taka með sér auka ljósmeti. Þær verða hyggnar næst og láta söguna ekki endurtaka sig. Og ég hygg, að þeir sem ekki kunna að miskunna, þurfi að læra eins og allir aðrir, að það er ekki grimmdin eða afskiptaleysið heldur umhyggjan, sáttaviljinn og samstaðan með fólki sem á allt sitt undir manngæsku okkar, sem gerir okkur sterk, trú og tæk til samfélags með Guði og mönnum. Sagan um sauðina og hafrana er ekki saga um grimmd Guðs, heldur saga um það, hve langt við getum þurft að fara til þess að við sjáum að okkur, að við áttum okkur á lífinu, að við snúum við blaðinu og leitumst við að verða gott fólk. Stundum þurfum við að missa allt sem okkur er í hendur gefið, stundum verðum við að missa af tækifærinu, eins og meyjarnar tíu, og stundum verður það grátur og gnístran tanna okkar sjáfra, sem vekur okkur af sjálfselskum blundi okkar til þess að við iðrumst, bætum ráð okkar og trúum, þ.e. að ganga sömu götu og Jesús gekk og margir góðir á undan og á eftir.
Sagan af sauðunum og höfrunum minnir mig á það, að gæskan er öflugri en illskan og að gæskan verður að verða hluti af okkar innsta manni, til þess að breyta okkur úr höfrum í sauði. Þannig verður nýr heimur til, nýr himinn og ný jörð þar sem lög Guðs um kærleika og sátt allrar sköpunar er skrifuð á hjörtu okkar, þannig að við vitum það með verkum okkar, e.t.v. án þess að gera okkur grein fyrir því að viðhöfum breyst frá því að vera hafur í sauð, frá því að vera kærleikssnauður til þess að vera full af ást.
Lokaorð mín í dag eru orðin sem við syngjum sem fastan lið í hverri guðsþjónustu, kyrie eleison, Drottinn sýndu mér miskunn. Tvö orð á grísku, fjögur á íslensku. Meira en nóg, vilji maður vera sömu megin og sauðirnir.