Lestarsokkar og kertaljós

Lestarsokkar og kertaljós

Og það er í þessu djúpa og kalda myrkri sem nú ríkir sem við höldum hina æðstu hátíð á hverju ári. Við fögnum komu ljóssins í heiminn – ljóssins sem ekki aðeins gerir okkur fært að sjá handa okkar skil, heldur upplýsir okkur – og greiðir leið langt umfram það sem augun sjá.
fullname - andlitsmynd Jóhanna Gísladóttir
25. desember 2015
Flokkar

Náð sé með yður og friður, frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen.

Kæri söfnuður Langholtskirkju, góðir landsmenn.

Jólin eru tími frásagna frá liðinni tíð. Ein falleg saga frá Finnlandi sem gjarnan er rifjuð upp þar í landi á þessum árstíma segir frá móður á lestarferðalagi með tveggja mánaða gamalt stúlkubarn. Þetta var í byrjun árs 1940 og seinni heimstyrjöldin hafin. Lestin stoppaði óvænt á miðri leið þegar í ljós kom að búið var að sprengja upp lestarteinana. Beint á móti móðurinni í lestinni sat fullorðin kona, handavinnukennari á eftirlaunum. Henni þótti miður að sjá ungbarnið sokkalaust um miðjan vetur og tók til sinna ráða. Hún rakti upp hvíta handprjónaða ullarpeysu sem hún var í og prjónaði úr garninu sokka handa barninu á meðan á viðgerð lestarteinanna stóð. Síðar átti móðir barnsins eftir að prjóna mörg hundruð pör af samskonar sokkum á meðan hún lifði og afkomendur hennar tóku við verkefninu eftir hennar dag. Alltaf varð til nýtt sokkapar þegar einhver í hennar nærumhverfi átti von á barni og frásögn um gjafmildi ókunnugu konunnar í lestinni fylgdi með. Þessi saga er vel þekkt meðal prjónafólks í Finnlandi og mörg kvenfélög þar í landi gefa gjarnan lestarsokkana svokölluðu í jólagjöf til barnafólks í sínu héraði.

Sögur sem lýsa upp skammdegið Íslenskar bókmenntir eru ekki mjög auðugar af jólasögum, sem er undarlegt með tilliti til að jólin hafa frá fyrstu tíð kristninnar hér á landi átt sterk ítök í trúarlífi og huga þjóðarinnar. Kannski er það ástæða þess að í flestum fjölskyldum eru til helgisögur sem segja frá kærleika og gjafmildi, sögur sem sagðar eru eftir minni og eru sjaldnast hripaðar niður á blað. Ný verður til með hverri kynslóð. Ætíð eru þetta hugljúfar frásagnir og minningar sem verma og ylja enda þörf á nú er við lifum myrkustu daga ársins. Dagsbirtan liggur undir hýði líkt og við hin og sparar orkuna fyrir sumarið. Við vöknum í myrkri og við sofnum í myrkri. Það er misjafnt hvernig myrkrið fer með mannfólkið. Sumum finnst rökkrið vera eins og ábreiða, værðarvoð sem hægt er að vefja sig inní og hjúfra sig upp að. Öðrum – og alltof mörgum – líður illa, og það er eins og myrkrið seitli inn um vitin, setjist að í skúmaskotum sálarinnar og vindi upp á sig. Litar sýnina. Litar geðið. Verst er þegar því tekst að búa um sig í hjartanu. En án myrkursins þekktum við ekki ljósið. Við kynnum ekki að meta gleðina og feginleikann sem fylgir því að birtan breiði úr sér, umvefji okkur og hreki skuggana á flótta. Við skynjum bergmál sköpunarsögunnar í upphafi Jóhannesarguðspjalls sem lesið var áðan , Guð sagði „verði ljós“. Og ljósið birtist heiminum en fólkið þekkti hann ekki. Í allri sögu mannkyns finnum við þessi átök andstæðna og mótsagna. Og þannig er það enn þann dag í dag. Líf okkar er fullt af mótsögnum og dýpstu sorgir mæta stundum hinni mestu gleði. Grunnt er þar á milli.

Mannsonurinn kom í heiminn okkur að óvörum Og nú kæru landsmenn er stundin er upp runninn. Dagurinn sem allt kristið fólk í þessum heimi fagnar komu ljósins í veröld sem virðist stundum dimm og drungaleg. Við erum þó misvel undirbúin til að taka á móti jólahátíðinni frá ári til árs. Á meðan lítil kríli horfðu á tímann líða á hraða snigilsins nú á aðventunni í formi súkkulaðimola í dagatali sem virtist aldrei ætla að klárast þá hefðu einhverjir gjarnan þegið að fresta hátíðarhöldum þetta árið. Það er erfitt að ganga inn í fögnuð þegar hugur og hjarta fylgja ekki með. Aðventu og jólum er oft líkt við meðgöngu og fæðingu. Börnin koma jú inn í þennan heim öskrandi án þess að bíða eftir neinum, þau láta sig það litlu varða hvort mamma og pabbi eru tilbúin til að taka á móti þeim. Fæðing frelsara okkar var varla neitt frábrugðin, María hefur vitað hvað klukkan sló þegar verkirnir hófust og að ekki væri aftur snúið. Og þannig birtist ljósið okkur í fyrsta sinn, flestum að óvörum. Heiminum hlotnaðist fyrir náð Guðs hvítvoðungur, fæddur fátækum ungmennum sem voru ef til vill ekki með allt undirbúið fyrir komu drengsins en útvalin voru þau engu að síður til þess að annast mannsoninn. Og þótt allt væri við það sama var allt breytt. Fortíð og framtíð mættust í drenghnokkanum, ljósið varð hold, vonin var fædd í heiminn og tíminn stóð kyrr.

Vonin hefur verið færð í fang okkar Tímabil eftirvæntingar er nú liðið og ljósið hefur verið lagt í fang okkar. Með Jesú litla fylgdi ný von í þennan heim. Von sem tendrar enn og nærir tvö þúsund árum síðar og mun gera áfram um ókomna tíð. Er einhver gjöf æðri voninni? Henni er hægt að líkja við vatn, án hennar missum við fljótt þrótt og þor. Við töpum neistanum. Hættum að berjast fyrir okkur sjálfum og fyrir því sem skiptir máli. Án vonarinnar eru engir greiðir vegir. Og okkur hættir til að missa vonina þegar myrkrið er sem mest og tilhugsunin um sól og varma eru sem fjarlæg minning. Þó langt sé um liðið frá fæðingu frelsarans þá færa jólin okkur í hvert sinn vonina. Þau minna á Guð sem er enn að verki, enn nálægur og fullur elsku og fyrirgefningar. Því eru jólin sígild jafnvel þótt umbúðirnar sem fæðingarhátíðinni er pakkað inn í færi okkur ekki sömu spennu og þegar við vorum börn, þótt hangiketið sem borið er á borð í jólaboðum í dag valdi okkur á fullorðinsárum meiri bjúg en gleði og þótt við söknum bernskujólanna eða einhverrar manneskju sem við hefðum helst viljað njóta hátíðarinnar með. Jólasaga af Norðurlandinu Sögur lifa áfram. Sögur af kærleikanum. Í minni fjölskyldu sagði föðuramma mín á hverri aðventu okkur barnabörnunum frá jólunum sínum á millistríðsárunum á Norðurlandi. Sagan var löng og að sjálfsögðu sögð eftir minni. Hún hófst með ítarlegum inngangskafla sem fjallaði um mikinn undirbúning húsmóðurinnar á heimilinu fyrir hátíðarnar. Laufabrauðsgerðin ein og sér tók tvo heila daga og allt húsið var þrifið hátt og lágt. Smákökur voru bakaðar, tegundirnar fleiri í minningunni en börnin gátu talið og öllu til tjaldað þrátt fyrir lítil efni og marga munna sem þurfti að metta. Amma lýsti eftirvæntingunni sem lá í loftinu meðal barnanna, andvöku á Þorláksmessukvöldi og einlægri hamingju barnanna á þessum árstíma. Líkt og í dag. Hápunktinum var náð þegar kertin voru tendruð í upphafi aðfangadagskvölds. Myrkrið sem hafði ríkt í húsinu frá hausti, nema þegar bjart var úti, vék fyrir mjúkri birtu kertaljósanna sem fyllti hvern krók og kima og börnin vissu að nú voru komin jól. Við systkinin áttum auðvitað erfitt með að skynja mikilvægi kertaljóssins fyrir tíma jólaseríunnar. Eða eins og Jóhannes Friðlaugsson kennari og skáld orti fyrir rúmri öld síðan:

Þótt rafljósin tindri um hreysti og hallir og hækki vetrarsól. Kertaljósanna birta boðar börnunum - gleðileg jól. Samfélag nærir ljósið innra með okkur

Og það er í þessu djúpa og kalda myrkri sem nú ríkir sem við höldum hina æðstu hátíð á hverju ári. Við fögnum komu ljóssins í heiminn – ljóssins sem ekki aðeins gerir okkur fært að sjá handa okkar skil, heldur upplýsir okkur – og greiðir leið langt umfram það sem augun sjá. Ljósið sem er mannkyni jafn mikilvægt í dag og það var í upphafi. Og því ber ekki að undra að hugljúfar sögur eru rifjaðar upp þegar fólk kemur saman á þessum tíma. Þær minna okkur á að kærleika er að finna í hversdeginum og að ljósið fylgir okkur þegar hátíðinni lýkur, þegar seríurnar koma niður úr gluggunum og jólunum hefur verið pakkað í kassa og þau lögð inn í geymslu. Hið sanna ljós lifir áfram innra með okkur þótt það sé kannski ekki eins sýnilegt og það er í dag.

Það er gott að umvefja sig fólki á þessum tíma. Njóta samfélags ef möguleiki er. Segja hverju öðru og yngra fólkinu frá liðinni tíð og Jesúbarninu litla sem var gefið okkur öllum. Ekki bara útvöldum. Samfélagið nærir ljósið innra með okkur og bægir burtu myrkri sem heldur til í hornunum. Ekki bara yfir jólin heldur alla daga. Því er boðskapur Krist jafn mikilvægur nú og nokkru sinni og okkar að breiða út fagnaðarerindið þegar við göngum héðan út í dag.

Ég bið þess nú að dýrð og helgi jólanna fylli sál þína himneskri gleði. Gleði sem rís hærra en sorgir og raunir, gleði sem einungis Guð sjálfur getur fært þér og hefur nú þegar gert er mannsonurinn var þér gefinn til heilla og blessunar. Dagurinn er svo sannarlega upp runnin. Njótum stundarinnar. Gleðileg jól.

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen