Í fyrra Korintubréfi, 10. kafla, vers 16 og 17, segir Páll postuli:
Sá bikar blessunarinnar, sem vér blessum, er hann ekki samfélag um blóð Krists? Og brauðið, sem vér brjótum, er það ekki samfélag um líkama Krists? Af því að brauðið er eitt, erum vér hinir mörgu einn líkami, því að vér höfum allir hlutdeild í hinu eina brauði.
Samfélag. Koinónía. Að baki þessa hugtaks býr lifandi veruleiki, félagsskapur, fólk sem tilheyrir einum hópi og tekur virkan þátt í starfi hans. Hópurinn, samfélagið er kirkjan.
Í flestum kirkjudeildum tíðkast einhvers konar sameiginleg máltíð. Við getum kallað þessa athöfn brauðsbrotningu, altarisgöngu, máltíð Drottins, kvöldmáltíðarsakramenti eða eitthvað enn annað. Guðfræðin og siðirnir sem við höfum búið þessa máltíð í kann að vera mismunandi, en veruleikinn sem býr að baki hlýtur að vera hinn sami: Að þar eigum við kristið fólk samfélag um frelsarann Jesúm Krist, þar erum við þátttakendur í lífi hans, dauða og upprisu, þar komumst við í snertingu við eilífa, kærleiksríka og fyrirgefandi veru Guðs.
Bikarinn eini og brauðhleifurinn eru skýrar og kraftmiklar myndir þessa sameiginlega veruleika kristins fólks. Í bikarnum sjáum við blóð Jesú, okkur til lífs. Og í brauðinu finnum við líkama Krists, “sem er fyrir yður”, eins og segir í 11. kafla fyrra Korintubréfs. Í helgisiðum sænsku þjóðkirkjunnar eru þessi orð notuð þegar brauði og víni er útdeilt: Fyrir þig gefinn, fyrir þig úthellt. Blóði Jesú var úthellt fyrir þig, líkami hans var gefinn fyrir þig.
Bikar lífsins Þannig erum við minnt á að fórn Jesú Krists á krossinum er fyrir þig, fyrir hvert og eitt okkar og enginn undanskilinn sem vill þiggja. En máltíðin er ekki bara fyrir þig. Hún er fyrir okkur sameiginlega. Einn bikar, eitt brauð. Þannig er líka andlegur veruleiki þess líkama Krists, sem er kirkjan hans á jörðu.
Skyggnumst um stund inn í þennan veruleika með okkar innri augum. Sjáum fyrir okkur bikar, stóran, voldugan bikar, sem fylltur er að börmum, fullur lífgefandi vökva, svo út úr flóir. Með þessu lífi eigum við samleið, hvaða kirkjudeild sem við tilheyrum, við sem játumst undir nafn Jesú Krists, við sem þiggum hreinsun og kraft fyrir blóðið hans.
Á einn veg má segja að við séum bikarinn. Tökum okkur þá stöðu innra með okkur. Við erum sameiginlega sá bikar sem ber uppi blóð Krists. Guð hefur falið okkur það verkefni að bera fyrirgefandi mátt krossdauðans áfram til heimsins, að sjá til þess að hin hrjáðu og sakbitnu fái hlutdeild í lífgefandi mætti blóðsins sem rann á Golgata.
Geymum þessa mynd innra með okkur um stund á meðan við skoðum betur hvað blóðið merkir og þá vökvinn í bikarnum. Blóð er samkvæmt skilningi Gamla testamentisins tákn um líf og lífgjöf. Þetta sjáum við t.d. í frásögu annarra Mósebókar (12.13) af hinum fyrstu páskum gyðinganna, sem samkvæmt boði Guðs slátruðu lambi og smurðu blóði þess á dyrastafi húsanna. Og blóðið varð þeim til lífs. Orðasamsetninguna blóð sáttmálans er einnig að finna í annarri Mósebók (24.8) þegar sagt er frá hátíð sem Móse hélt með fólki sínu vegna boðorðanna. Í þriðju Mósebók (17.11) segir enn: Því að líf líkamans er í blóðinu, og ég hefi gefið yður það á altarið, til þess að með því sé friðþægt fyrir yður, því að blóðið friðþægir með lífinu.
Nærvera Krists Blóð færir þannig líf samkvæmt hugsun Gamla testamentisins. Á þessari hugsun byggir Nýja testamentið þegar talað er um hinn nýja sáttmála í blóði Jesú, sem úthellt er fyrir okkur (sbr. Lk. 22.20). Þannig erum við þátttakendur í lífi Jesú þegar við þiggjum þann veruleika sem blóð hans færir.
Hvernig það gerist hafa fræðimenn hinna mismunandi kirkjudeilda notað mikinn tíma og krafta í að útskýra og deila um. Kannski austurkirkjan komist næst sannleikanum, en hún hefur verið alveg ósnortin af öllum deilum um þetta mál, eins og dr. Einar Sigurbjörnsson bendir á í bók sinni Credo: Innan hennar [austurkirkjunnar] hafa menn ætíð játast nærveru Krists, en þeir hafa aldrei talið nauðsynlegt að skilgreina hana heimspekilega, heldur látið sér nægja að benda á undur holdgunar Guðs sonar og leyndardóm tilbeiðslunnar (bls. 402).
Ef til vill ættum við að hætta að reyna að skilja og skilgreina allt ofan í kjölinn og einbeita okkur meira að því að skynja; finna og sjá að Drottinn er góður, að sæll er sá maður er leitar hælis hjá honum (Sálm 34.9). Þar og aðeins þar, í nærveru Krists, getum við kristið fólk af öllum kirkjudeildum verið einn bikar, eitt brauð, samfélag í raun og sann.
Lífsins brauð Og nú skulum við skyggnast innávið aftur. Við áttum okkur mynd af bikar, bikar, sem útúr flæddi lífgefandi vökvi, líf í fullri gnægð. Bikarinn gæti verið kirkjan, við, sem berum fram líf Jesú Krists til þyrstra meðbræðra okkar og systra. Við hlið bikarsins skulum við nú sjá fyrir okkur stóran, ilmandi, hringlaga brauðhleif. Brauðið samanstendur af mörgum kornum, sem hvert og eitt er einstakt, hvert og eitt afrakstur vinnu fólks á akri, ef til vill í fjarlægu landi. Kornið er bundið saman af vökva, lifandi vatni, og hnoðað af gæsku og rósemi í eina fagra kúlu. Brauðgerð er langt ferli, eins og við þekkjum af sögunni um Litlu gulu hænuna, allt frá sáningu til uppskeru, svo þarf að mala og hnoða og loks baka.
Allt þetta leggur Guð á sig fyrir kirkjuna sína. Hann hefur sáð frækorni lífsins af elsku sinni, beðið og vakað yfir uppskerunni, til að geta sett kornin mörgu saman í eitt deig, eitt brauð, eitt samfélag. Myndin af brauðinu er mynd af líkama Krists, ekki holdi hans í eiginlegri merkingu, heldur þeim líkama sem kirkunni er ætlað að vera. Af því að brauðið er eitt, erum við hin mörgu einn líkami, því að við höfum öll hlutdeild í hinu eina brauði sem er Jesús Kristur. Okkur er ætlað að vera góðilmur Krists fyrir Guði meðal þeirra, er hólpnir verða, og meðal þeirra, sem glatast; þeim síðarnefndu ilmur af dauða til dauða, en hinum ilmur af lífi til lífs (2. Kor. 2.15-16).
Skynjum hin mörgu korn sem saman gera eitt brauð. Verum á okkar stað í brauðinu, með öllum hinum kornunum í koinóníu kristins samfélags. Og finnum ilminn, ilminn sem berst af þeim sem þekkja frelsara sinn og hafa leyft lífi hans að streyma til sín. Verum góðilmur Guðs, ilmur af lífi til lífs.
En Guði séu þakkir, sem fer með oss í óslitinni sigurför Krists og lætur oss útbreiða ilm þekkingarinnar á honum á hverjum stað.
Predikun í samkirkjulegri útvarpsmessu í Fíladelfíu á skírdag 2002