Jóh. 8. 1 - 11
Náð sé með yður og friður, frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi.
Það varð með einhverjum ráðum að þagga niðri í þessum afvegaleiðandi farandprédikara frá Galíleu. Þarna stillti hann sér upp dagleg á musterishæðinni til að kenna og fávís almúginn lét blekkjast og hópaðist að honum. Og tækifærið kom upp í hendurnar á vörslumönnum trúarinnar, faríseunum og fræðimönnunum. Kona hafði verið staðin að hórdómi. Lögmálið sagði að slíkar skyldi grýta. Herraþjóðin, rómverska yfirvaldið í landinu sagði: Hér dæmir enginn til dauða nema við.
Og þeir leiddu konuna fyrir Jesú og sögðu hvað hún hefði brotið af sér, minntu hann á það sem lögmálið sagði um örlög slíkra og spurðu: Hvað sýnist þér. Hvað eigum við að gera við kvenmanninn?
Jesús laut niður og skrifaði á jörðina. Enginn veit hvað eða til hvers. Sumir ritskýrendur giska á að þetta hafi verið táknræn athöfn. Dóma varð að rita niður áður en þir væru kveðnir upp og þeim fullnægt. En þetta er ágiskun og reyndar aukatriði. Þeim þótti hann seinn til svars og ítrekuðu spurninguna, aftur og aftur, þar til Jesús leit loks upp. - Hvað skyldi hann segja?
Ef hann segði að það ætti að grýta hana yrðu rómverjarnir tortryggnir. Ætlaði þessi sveitaprédikari að taka að sér dómsvald í landinu. Ef hann segði að ekki skyldi grýta hana, þá var auðvelt að saka hann um að telja sig yfir lögmálið hafinn. Pottþéttur leikur.
Jesús leit yfir hópinn og kvað upp sinn dóm: Sá ykkar sem syndlaus er, kasti fyrstur steini á hana. - Nú versnaði í því. Ekki gátu þessir gæslumenn trúarinnar farið að lýsa sig syndlausa. Og þeir skömmuðust burtu einn af öðrum og Jesús hélt áfram að skrifa með fingrinum á jörðina. Konan stóð ein eftir, ráðvillt og spyrjandi. Þá leit Jesús upp og spurði hvað orðið hefði af ákærendunum. „Sakfelldi þig enginn?“ Hún neitaði því. „Ég sakfelli þig ekki heldur. Far þú og syndga ekki framar.“
Um hvað er þessi saga? Er hún um fyrirgefningu, mildi, hræsni, iðrun, - eða dæmið ekki, svo þér verðið ekki sjálfir dæmdir, eða er hún um þöggun. Hún er um allt þetta. Það er ekki talað um að konan hafi iðrast og beðið um fyrirgefningu. En Jesús sakfelldi hana ekki, heldur hvatti hana til iðrunar.
Já, en hann sagði ekki að hún skyldi iðrast. Orðið iðrun er á margan hátt óheppilegt orð, til þess er það og tilfinningatengt. Í raun merkir orðið sem notað er á frummálinu að snúa við, breyta um stefnu. Syndga þú ekki framar. Þannig er iðrun ekki fyrst og fremst tilfinningar þótt þær fylgi með, heldur vilji, vilji til að láta af því sem rangt er. Konan var sýknuð og í mildi var henni bent á að snúa af villu síns vegar.
En þegar upp er staðið er þetta saga um einbeittan vilja fræðimanna og farísea til að þagga niður í Jesú, koma honum í klípu, vekja athygli ráðamanna á honum, að hann væri laumu- uppreisnarmaður.
Það tókst á endanum að þagga niður í honum, - í bili, – með ljúgvitnum tókst að fá hann dæmdan til dauða. En sú þögn stóð ekki lengi. Hann tók að tala að nýju upprisinn. Og sendi postula sína um víða veröld til að tala, prédika fagnaðarerindið um náð Guðs, fyrirgefningu Guðs, sem hann var sjálfur holdgervingur fyrir. Og þeim fjölgaði sem trúðu. Og um leið fjölgaði þeim sem vildu þagga niður í vottum trúarinnar með öllum tiltækum ráðum, morðum ef ekki gafst betur. En kristnir menn, kirkjan, hélt áfram að tala og talar enn. - Og andstæðingarnir halda áfram að tala og tala enn - digurbarkalega, og reyna að þagga niður rödd þeirra sem bera Jesú Kristi vitni.
Háskólaprófessor nokkur hér í borg skrifaði orðsendingu á samskiptavef háskólastarfsmanna nú í sumar um upplýsandi bækur um trúmál, sem til þess væru fallnar að upplýsa fákunnandi fólk hér á landi þar sem trúmenn væðu uppi með trúarvaðal og blekkingar. Það var góðra gjalda vert, þótt bókalistinn væri valinn með hliðsjón af lífsviðhorfum prófessorsins. Upplýsingunum um bækurnar fylgdi prédikun. Hann sagði m.a.:
Á Fróni eru flestar fegurstu og dýrustu byggingar enn í raun ríkisreknar og tileinkaðar makalausri almáttugri og alvitri veru sem öldum saman starfsmenn skipulagðrar trúarstarfsemi segja að hafi skapaði allt (og það jafnvel á viku og fyrir aðeins nokkur þúsund árum), fylgist með öllu og stjórni öllu. Þessi staðlausi fornaldaruppspuni er enn stöðugt kynntur sem heilagur sannleikur m.a. af sérstakri stofnun á vegum ríkisins fyrir milljarða á ári hverju. Starfsmenn hennar þykjast gjarnan hafa sérstakt samband við umrædda ofurveru og þannig hafa m.a. eitthvað sérstakt með líf eftir dauðan að gera og jafnvel með fyrirgefningu synda – já, þessir arftakar pyntinga- og ofsóknameistara fornaldar sem reyna jafnvel að kasta eign sinni á allan mannlegan kærleika (aumingja allt hitt fólkið)! Ofurloforð og lýðskrum siðblindustu stjórnmálamanna verða að engu í samanburði. Það er vel þekkt staðreynd að „trúarjátningu“ af ofannefndum toga er af þessari ríkiskostuðu stofnun á ári hverju haldið að nánast sérhverju 13 ára barni af sérþjálfuðu ríkislaunuðu fólki, en þó er um leið líkt og páfagaukar eða bilaður plötuspilari talað um trúfrelsi.Og enn brýndi hann raustina:
Mín persónulega skoðun er m.a. að ekki eigi að sækja ríkiskirkjuna til saka (þó hugsanlega ætti það að gera) heldur eigi að gefa ríkiskirkjunni tækifæri til að leggja sig niður skipulega á nokkrum árum meðan átak er gert til að endurmennta starfsmenn hennar og koma þeim til heiðarlegra skyldra starfa (t.d. í skemmtanabransa og/eða við hvers kyns markaðssetningu eða líknarstörf). Líkt og víða í Evrópu verði kirkjur landsins teknar til uppbyggjandi nota, en fé það sem fæst og sparast verði nýtt til stóraukins líknar-, menningar- og menntunarstarfs, enda menntun þjóðarinnar í molum eftir langvarandi vanrækslu (m.a. á grundvelli „blekkinga“ yfirvalda um hátt menntunarstig). Kirkjan verði þannig ekki sótt til saka fyrir þær ómældu þjáningar vegna ótta og örvinglunar sem hún með blekkingum sínum hefur öldum saman valdið landsmönnum.Svo mörg voru þau orð. Það var þessi hugvekja prófessorsins sem varð til þess að ég gat ekki stillt mig um að senda honum nokkur orð, um menn sem reyndu að klæða guðleysi sitt í vísindalegan búning, Svo sem Richard Dawkins, og umræðan óx orð af orði, þar til ég sagði sem svo við hann að fyrirlitning hans á trú og trúuðu fólki og guðleysistrúarofstæki hans væri svo mikið að það gerði hann óhæfan til upplýstrar umræðu. Og hann svaraði:
Þú vilt greinilega hafa síðasta orðið í samræmi við viðbjóð trúarhrokans sem hefur haldið heiðarlegu fólki í skelfingu öldum saman á vegum brútal yfirvalds. Við sem notum allt okkar líf í leit í óvissu um nánast allt og reynum að vera heiðarlegt fólk sem forðast lygar og blekkingar eigum ekkert sameinginlegt með fólki sem allt þykist vita með heilagri yfirnáttúrulegri vissu. Þvílíkur hroki og heimska, ekki að undra að kúgarar hafa alltaf viljað vera vinir slíkra blekkingameistara. Fyrirlitningu mína á slíku þarf ekki frekar að staðfesta hún er löngu bjargföst. Ég geri aðgengilegan lista yfir fræðibækur um trúmál eftir úrvals fræðimenn, m.a. afburða biblíufræðing. Ekki þurfti meira til að svæla trúarofstækismann úr felum.Svo mörg voru þau orð.
Þjóðkirkjan hefur legið undir áföllum undanfarin ár vegna gamalla hneykslismála. Unnið hefur verið heiðarlega að því að fá allt upp á yfirborðið um hvernig á þeim málum var tekið á sínum tíma til að geta gert betur í framtíðinni, sbr. skýrslu sem lögð hefur verið fram. Í því er iðrun kirkjunnar fólgin, viljanum til að gera betur, auk þess sem iðrunin hefur verið orðuð og fórnarlömbin beðin fyrirgefningar. Fyrirgefningu er ekki hægt að heimta. Það er á valdi þess sem beðinn er fyrirgefningar hvort hann treystir sér til þess. Mistök höfðu verið gerð við meðferð málsins sum léttvæg önnur alvarleg, engin saknæm. Vinna hófst við að setja nýjar reglur og skerpa á gömlum.
Ýmsir hafa látið óánægju sína í ljós með viðbrögð kirkjunnar við skýrslu nefndarinnar sem falið var að rannsaka málin og gera tillögur til úrbóta. Mér virðist þau vonbrigði oftar en ekki snúast um það að nefndin úthlutaði ekki grjóti til að kasta að þeim sem orðið hafði á. Því miður eru jafnvel prestar í þeim hópi og beina ásökunum að þeim sem þeir kalla kirkjustjórnina, þ.e. biskupi og forseta kirkjuþings. Í góðri trú, án efa, til að gera kirkjuna trúverðuga, þeirri trú að kirkjan vinni traust á ný ef skipt er um forystu. Ég kem ekki auga á það. Ef þjónar kirkjunnar sýna ekki hver öðrum mildi og sanngirni og fyrirgefi á sama hátt og sá sem þeir þjóna gerði, verður kirkjan ekki trúverðug í augum þeirra sem vænta mildi og umhyggju frá þessum sömu þjónum.
Kirkjan öðlast ekki traust þótt einhverjir vinni skylmingar á bloggsíðum, í dagblöðum eða á fundum. Hún vinnur traust að nýju heima í söfnuðunum, þar sem prestar eiga í samskiptum og sinna þjónustu við sóknarbörnin. Gjörvallan starfsþrótt kirkjunnar þjóna þarf að leggja í starfið innan safnaðanna, þar þarf sátta og uppbyggingarstarfið að fara fram. Þar hitta starfsmenn kirkjunnar kirkjuna, þ.e. er söfnuðurinn, samfélag trúaðra, - þar þarf að byggja traustið upp, þar er nútíminn, sem þarf að mæta. Þar þarf að hlaða vörður og ryðja veg til framtíðar, fremur en kasta grjóti í meinta sökudólga.
Og hvað er ég eiginlega að fara með þessu, að grauta saman stóryrðum háskólaprófessors og skylmingum um menn og málefni innan kirkjunnar. Jú, það er til að benda á að sótt er að kirkju og kristni af guðlausum áhrifamönnum og samtökum guðleysingja sem skirrast ekki við að bera fyrir sig vísindalega þekkingu til að kveða upp dóma um tilvist Guðs og vitnisburð Jesú Krists um hann og þagga það allt niður. Þar er andstæðingurinn. Sundruð er kirkjan ófær um að verjast og sækja, byggja upp og styrkja, fræða og vekja. Aðeins sameinuð, biðjandi, boðandi, þjónandi og fræðandi getur kirkjan varist guðlausu trúarofstæki og vitsmunahroka. Sameinaður í kærleika, getur söfnuður Krists á Íslandi varist og sótt í Jesú nafni. Einbeitum okkur að því.
Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda.