Við erum öll mótuð Jer
18:1-10, 1Kor
13.1-8, Lúk
10:38-42
Við heyrðum orð Drottins til Jeremía… frásögnina um leirkerasmiðinn sem mótaði kerið að sinni vild… JÁ… Öll erum við mótuð… og oftast með tilliti til kynferðis… Við erum mótuð af foreldrum okkar, fóstrum, kennurum, umhverfi, aðstæðum þar sem við ólumst upp, áföllum sem við höfum orðið fyrir og margvíslegri reynslu… og við höfum ólíka persónuleika, þannig að sterk reynsla fyrir einn, getur verið virkilegt áfall fyrir annan. Allt okkar mat byggist á reynslu okkar og þekkingu… og þegar við ölum upp eða ólum upp okkar börn, þá notum við sömu aðferð, við mótum þau… amk, reyndum.
Guð talaði um þjóð sína
eins og óþekkan krakka, krakka sem þurfti að tukta til hlýðni, krakka sem myndi
sleppa við refsingu ef hann hlýddi en er refsað fyrir óhlýðni… við þekkjum
þetta úr uppeldinu… stundum er þetta það eina sem virkar… en síðan er
Guð eins og við “mömmurnar” og pabbarnir, fljótur að fyrirgefa, kyssa á bágtið og
hvetja áfram. Guð veit… og við vitum… að
við misstígum okkur öll á lífsleiðinni… en líkinguna við leirkerasmiðinn skiljum
við öll. Við erum mótuð.
Í gegnum aldirnar hafa mæður
kennt dætrum sínum og feður sonum sínum þau hlutverk sem lágu fyrir þeim. Á
öldum áður var ekkert val og lífið stanslaus barátta… og einmitt í þeim
aðstæðum fyrir rúmum 150 árum dettur konum í hug að stofna félag, til að styðja
aðrar konur eða fjölskyldur sem áttu erfitt. Hugsið ykkur, á tímum þegar allir áttu nóg með sig… ferðalög
voru tímafrek og erfið, heimilin mannmörg og mestallt unnið í höndum, þá
stofnuðu þær félag til að hafa bætandi áhrif á samfélagið… og hugsjónin var
svo vel grundvölluð að hún lifir enn… þó tímarnir séu breyttir og félögin urðu
svo mörg að landsamband var stofnað fyrir 90 árum. Þetta lýsir ótrúlegum
náungakærleik.
Elska skaltu náungann eins og sjálfan þig sagði Jesús… og postulinn sagði að ef við hefðum ekki kærleika þá værum við eins og hljómandi málmur eða hvellandi bjalla. Það er ekki nóg að fá bara mat á diskinn og föt á kroppinn, við þurfum kærleika og þegar kærleikurinn nær tökum á hjartanu þá er hann eins og mamman í uppeldinu, fyrirgefur allt, öfundar ekki, hann breiðir yfir allt, trúir öllu, vonar allt, umber allt. Á heimasíðu kvenfélagasambandsins er hjarta, formað úr kjörorðum félaganna: samvinna, kærleikur, virðing og vinátta eru skrifað með stærsta letrinu, allt mikilvægir þættir til að efla starfið innan hvers félags og starfið úti í samfélaginu.
Ég nefndi áðan að við erum öll ólíkir persónuleikar, með ólík áhugasvið og hæfileika. Í öllum kvenfélögum eru hæfileikaríkar konur. Hver einasti maður hefur fleiri en einn hæfileika, en okkur er tamt að draga úr þeim eða tala þá niður… Ef okkur er hrósað fyrir góða köku, þá er það ekki af því að við erum góðar að baka… nei, það er af því að við höfum svo góða uppskrift, góða hrærivél eða góðan bakarofn… það sama á við um prjónaskap… en stelpur, þó tugþúsundir kvenna kunni að prjóna þá er það samt hæfileiki… Við skulum aldrei gleyma því... að kvenfélögin í landinu lifa, starfa og eru til VEGNA hæfileika ykkar… og listin við að láta samstarf ganga vel er að leyfa öllum að njóta sín þar sem hæfileikar þeirra liggja, hrósa og kunna að segja TAKK þegar okkur er hrósað.
En lítum núna á guðspjallið sem sagði frá ólíkum systrum Mörtu og Maríu. Marta bauð Jesú og lærisveinum hans heim… og sakaði svo Maríu um að “nenna” ekki að hjálpa henni í eldhúsinu… já við konurnar viljum alltaf eiga eitthvað gott í matinn eða með kaffinu þegar það koma gestir… þarna var ekki hægt að hlaupa út í búð og kaupa veitingar… svo, ef gestirnir áttu að fá eitthvað… þá varð að útbúa það heima… textinn sagði ekki hvað gestirnir væru margir heldur aðeins að Marta vildi veita sem mesta þjónustu. Kannski hefur Marta ekki séð fram á að ráða við “veisluna” sína svo hún kvartar við Jesú að fá ekki hjálp… Hún fékk örugglega ekki svarið sem hún bjóst við frá Jesú. Nei, María hafði valið góða hlutskiptið... Eigum við konur þá að hætta að töfra fram veislur þegar það koma gestir? Eða hvað á þessi saga að kenna okkur?
Ég held að sagan bendi okkur á að við, bæði konur og menn, verðum að huga betur að okkur sjálfum... María valdi góða hlutskiptið... því hún þurfti á boðskapnum að halda... hún þurfti að “hlaða batteríin” Í hvert skipti sem við förum í flug, segja öryggisreglur okkur að við verðum að setja súrefnisgrímuna FYRST á okkur sjálf... ÁÐUR en við hjálpum öðrum... Þetta var María að gera... og þetta getur einmitt verið það sem við þurfum á að halda, þegar álagið er mest.
Við þurfum að hugsa vel um okkur til þess að við getum hjálpað
öðrum... Það er sama hvort við tölum um fjölskyldu eða félag, það er
nauðsynlegt að hugsa vel um innra starf, álag og hlúa hvert að öðru... svo
við getum öll blómstrað í samfélaginu.
Gerði þá Marta greyið ekkert rétt? Jú, svo sannarlega, hún bauð Jesú heim... það þurfum við líka að gera og við þurfum að hlusta á boðskap Jesú... eins og María gerði. Þessi boðskapur mótar okkur og líf okkar... eins og leirkerasmiðurinn og lífið er svo miklu auðveldara þegar kærleikurinn ræður ríkjum. Kærleikurinn fyrirgefur allt og fellur aldrei úr gildi.
Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen