Borðfélagar Jesú

Borðfélagar Jesú

Og gefum okkur að við horfum á myndina sem heilaga kvöldmáltíð og veltum fyrir okkur - hvernig hefði Jesús brugðist við? Sá sem samneytti syndurum, sá sem braut hefðir og ræddir guðfræði við "bersynduga" Samverska konu, sá sem var tilbúinn að ganga gegn hefðbundum gildum eins og því að musterishæðin væri staðurinn til að fórna og tilbiðja?
Mynd

Úrhellisathöfnin við upphaf Ólympíuleikanna fyrir 10 dögum vakti athygli margra og gagnrýni sumra. Aðallega var vegna senu sem sýndi hátíð og minnti á málverk DaVincis af síðustu kvöldmáltíðinni. Ég verð nú að viðurkenna að þetta fór framhjá mér þegar ég fylgdist með athöfninni sjálfri. Ég var svo upptekin af að vorkenna dönsurunum vegna rigningarinnar. En auðvitað varð ég vör við umræðuna eftir á. Stjórnendur hátíðarinnar báðust afsökunar á að hafa sært tilfinningar kristinna. Listrænn stjórnandi hátíðarinnar benti á að hann hefði verið að setja fram hátíð guðanna á Ólympus hæð og byggt á slíku málverki frá 17. öld, sem er geymt á listasafni í Lyon í Frakklandi. Og markmiðið með margs kyns hinsegin mótívum þar var að allir tilheyrðu. 

Að vanhelga málverk

Það er ekkert ólíklegt að málarinn sem málaði hátíð Guðanna hafi veriðundir áhrif af málverki DaVincis um síðustu kvöldmáltíðina. Eða undir áhrifum af fjölmörgum fleiri slíkum "kvöldmáltíðar"verkum og verkum um guðahátíðir. Þetta veislumótív var þekkt í listaverkum alveg frá fornöld. Og það er ekkert undarlegt að grísku guðirnir skyldu settir á stall við upphafi Ólympíuleika sem eiga rætur til Grikklands hins forna. Og ekki undarlegt ef nekt hefur verið sýnileg - annaðsem ég missti alveg af en þið sáuð kannski - keppendur á ólympíuleikum til forna kepptu naktir. Þetta var ein af ástæðum þess að gyðingum var nöp við gríska leika á hellenska tímanum. Nekt karla - því að keppendur voru bara karlar - á almannafæri var guðlast. En það voru sem sagt grísku goðin sem þarna héldu veislu og horfðu á leikana. Vínguðinn Dýonýsos var þarna. Guðinn Apollo sat fyrir miðju, þéttvaxin(n) karl, kona eða kvár með geislaskraut sem minnir á að hann/hún/hán er sólguðinn. 

Það er svolítið merkilegt að fólk skyldi ná að reiðast svona vegna þessa atriðis. Að fólki skyldi finnast það slæmt að hér væri hugsanlega verið að gera einhverja afskræmingu af mynd eftir ítalskan málara. Og sjá í því árás á kristna trú og kristið fólk. Af því að mynd DaVincis af síðustu kvöldmáltiðinni er ekki máluð þegar téð kvöldmáltíð fór fram. Og ég ætla að leyfa mér að fullyrða að hún sé ekki mjög nákvæm lýsing á kvöldmáltíðinni. Eða kannist þið við að allir sitji sömu megin borðs í matarboði?

 En meðal reiðiraddanna heyrðist í þeim sem sögðu að svona hefði aldrei verið reynt gegn múslimum, þeir tækju því svo illa - en öllum þætti í lagi að gera grín að kristnum. Nú verður að hafa í huga að í Frakklandi er saga um hryðjuverk í kjölfar myndbirtinga sem múslimum þóttu guðlast svo að þessi setning er ekki í tómarúmi. En ég á erfitt með að skilja af hverju samanburðurinn er settur fram. Við búum einfaldlega í öðru vísi samfélagi og höfum meira umburðarlyndi. Mér þykir leitt ef einhver gerir grín að trú minni - og ég sé þetta verk ekki þar, en aðrir gera það greinilega - en ég lít á það sem hluta þeirra mannréttinda sem trúfrelsi heyrir til. Og mér er engin vorkunn að verja mína trú - ekki frekar en hinum fyrstu kristnu.

Það sem okkur finnst heilagt

En ef ég reyni að skilja þau sem tóku þetta óstinnt upp þá væri það helst vegna þess að mynd DaVincis er fyrir þeim á einhvern hátt fulltrúi kristindómsins, trúarinnar. Hún er á einhvern hátt heilög fyrir þeim. Og það skil ég því að hún táknar viðburð sem er heilagur, sem er svo heilagur að við endurtökum hann í hverri messu - verðum þátttakendur í honum. Og ef eitthvað er okkur heilagt þá er eðlilegt að grín með það snerti strengi.  Og ef að í stað Jesú og lærisveinanna sitja til borðs fólk sem er kynsegin, öðruvísi, kannski svolítið utangarðs á einhvern hátt og flagga því  - þá gæti það virst lítillækkun á því sem kristin trú birti. Eða hvað?

Jesús sat til borðs með tollheimtumönnum og syndurum. Og það er merkilegt af því að  það að sitja til borðs með einhverjum var að njóta náins samfélags. Jesús tekur aftur og aftur á móti slíku fólki, er með þeim og borðar með þeim. Hann fær alveg að heyra það frá þeim sem töldust til "réttlátu" hópanna í samfélaginu. En heldur uppteknum hætti. Hann les ekki yfir borðfélögum sínum, segir þeim ekki að hætta að syndga, hótar engri illri vist  – nei, hann sýnir þeim virðingu sem manneskjum. Mætir þeim þar sem þau eru. 

Gengur gegn viðtekinni hefð. Gerir eitthvað alveg nýtt.

Var hann kannski að segja okkur hvað það er sem skiptir máli?


Guðfræðisamtal við syndara

Guðspjallið í dag, er brot úr sögunni um samversku konuna við brunninn. Þar ræðir Jesús við konu um það hvað sé rétt trúariðkun - að fórna og tilbiðja í Jerúsalem eins og kennimenn Gyðinga segja eða fórna og tilbiðja á Gerizim fjalli eins og kennimenn Samverja segja. En samræðan er römmuð inn af sögusviðinu og persónum sem var ekki minna hneykslanlegt en það að samneyta syndurum - eða en fyrrgreind Signusena. 

Jesús sat við Jakobsbrunn í Samaríu og ræddi við konu. Bara það var sérstakt. Að vera einn á tali við konu, að tala við konu sem var Samverji, að tala við konu sem hafði svo vafasama fortíð að hún fór um hádegi að brunninum – þegar heitast var og ekki von á öðrum að sækja vatn – konu sem hafði átt fimm menn og maðurinn sem hún bjó með var ekki maðurinn hennar. Bersynduga konu. 

Jesús margbrýtur hefðirnar. Margbrýtur það sem hlýtur að hafa mótað hann. Það sem öðrum fannst. Sumsé að karlmaður sem var gyðingur ætti ekki að sitja einn á tali við bersynduga samverska konu. 

En Jesús mætir konunni þar sem hún er og á langt samtal við hana. Hún vitnar til hefðanna og ágreiningsins milli Samverja og Gyðinga: Feður okkar hafa tilbeðið Guð á þessu fjalli – á Gerisím fjalli sem gnæfir bratt yfir suðurhlíðum bæjarins – en þið Gyðingar segið að það eigi að tilbiðja Guð í Jerúsalem. Á öðru fjalli, sumsé. Hvað er rétt?

Og aftur brýtur Jesús hefðina, víkur frá því sem hefur mótað hann sem er að Jerúsalem sé staðurinn. „Sú stund kemur að þið munið hvorki tilbiðja föðurinn á þessu fjalli né í Jerúsalem.“ „Guð er andi og þau sem tilbiðja hann eiga að tilbiðja hann í anda og sannleika.“

Það er ekki réttur staður til að tilbiðja guð heldur rétt afstaða. 

Enginn staður heldur afstaða. 

Ný sýn?

Skoðum þetta aðeins í ljósi senunnar á Signubökkum og þá útfrá því að margir sáu hana sem uppfærða mynd af kvöldmáltíð DaVincis. Sumir voru hneykslaðir, aðrir sárir eins og ég hef tíundað. Og - alveg burtséð frá því að þetta átti víst að vera mynd af einhverju allt öðru - gefum okkur að við horfum á myndina sem heilaga kvöldmáltíð og veltum fyrir okkur - hvernig hefði Jesús brugðist við? Sá sem samneytti syndurum, sá sem braut hefðir og ræddir guðfræði við Samverska konu, sá sem var tilbúinn að ganga gegn hefðbundum gildum eins og því að musterishæðin væri staðurinn til að fórna og tilbiðja? 

Sá sem gerði eitthvað nýtt. Baut hefðir. Talaði um að tilbiðja Guð í anda og sannleika. 

Eins og ég nefni áðan þá var það á einhvern hátt talið alveg sérlega gagnrýnivert að hópurinn á Signu var transfólk, hinsegin eða einhvern veginn utan þess sem hingað til hefur verið litið á sem hefðbundið og sjálfsagt. Hvernig tökum við á því? Með því að horfa bara í hefðina og segja: Svona hefur þetta nú alltaf verið og það hefur dugað hingað til? Eða með því að hlusta á þau sem segja frá og endurskoða skilning og hefðir. Það er áskorun en vel þess virði. 

Í anda og sannleika.

 Það var forsenda þess að boðskapur Krists, að trúin á Krist breiddist út. Andinn glæðir trúna og við erum mótuð af henni. Við erum líka mótuð af hefð, af því sem við höfum séð og undirmeðvitundin hefur mótttekið - eins og að síðasta kvöldmáltíðin hafi farið fram svona sirka eins og DaVinci málaði hana en ekki eins og guðaveislan á Signu. Þess vegna er gott fyrir okkur að vera reiðubúin að endurmeta og biðja guð að veita okkur þann anda sem opnar huga okkar. Sem mætir samborgurum eins og Jesús mætti samversku konunni – horfa með kærleika á manneskjuna og virða hana eins og hún er.

Í anda og sannleika. 

 

Guðspjall

 Jóh 4.19-26 

Konan segir við hann: „Drottinn, nú sé ég að þú ert spámaður. Feður okkar hafa tilbeðið Guð á þessu fjalli en þið segið að í Jerúsalem sé sá staður þar sem tilbiðja skuli.“ 

Jesús segir við hana: „Trú þú mér, kona. Sú stund kemur að þið munuð hvorki tilbiðja föðurinn á þessu fjalli né í Jerúsalem. Þið tilbiðjið það sem þið þekkið ekki. Við tilbiðjum það sem við þekkjum því hjálpræðið kemur frá Gyðingum. En sú stund kemur, já, hún er nú komin, er hinir sönnu tilbiðjendur munu tilbiðja föðurinn í anda og sannleika. Faðirinn leitar slíkra tilbiðjenda. Guð er andi og þeir sem tilbiðja hann eiga að tilbiðja í anda og sannleika.“

Konan segir við hann: „Ég veit að Messías kemur – það er Kristur. Þegar hann kemur mun hann kunngjöra okkur allt.“ 

Jesús segir við hana: „Ég er hann, ég sem við þig tala.“