Guðspjall: Matt: 26: 17-29 Lexia: Sálm 116. 12-19 Pistill: 1. Kor. 10. 16-17
Á skírdagskvöldi íhugum við hvernig Jesús notaði síðustu samverustundina með lærisveinum sínum. Flest myndum við nota slíka stund með vandamönnum okkar og vinum til að segja það sem okkur þætti mestu varða eða okkur lægi þyngst á hjarta. Jesú bað lærisveina sína að útvega sal þar sem hann gæti neytt páskamáltíðarinnar að gyðinglegum hætti með þeim. En þá minntust gyðingar þess þegar Guð bjargaði þeim forðum frá Egyptalandi. Þetta skírdagskvöld vissi Jesús að þetta væri í síðasta skipti sem hann neytti máltíðar með þeim því að síðar um kvöldið yrði hann handtekinn og síðan krossfestur.
Þess vegna bað Jesús lærisveina sína að minnast sín, ekki með því að reisa sér helgidóm sem þennan eða styttu sem þá sem gnæfir yfir Rio de Janero. Hann bauð lærisveinum sínum að minnast sín í hvert skipti sem þeir kæmu saman með samfélagsmáltíð sem hann gaf þeim þar sem hann tók brauð á borðinu fyrir framan sig, braut það, gaf sínum lærisveinum og bauð þeim að skipta því með sér. Síðan tók hann bikar með með víni í og blessaði hann og bauð þeim að drekka allir af þessum bikar. Með þessum hætti var hann ekki aðeins að greipa í huga lærisveinanna ljúfa minningu. Með þessari gjöf opnaði hann lærisveinum sínum dyr áþreifanlegs samfélags við sig áfram eftir að hann var farinn frá þeim í sýnilegri mynd. “Takið og etið....Þetta er líkami minn... Drekkið af honum allir... þetta er blóð mitt”.
Mörgum fer eins og lærisveininum Pétri þegar þeir eiga kost á þátttöku í kvöldmáltíð Drottins að mörgum hefur altarisgangan reynst mjög torskilin athöfn. Þá reisa menn múra skynseminnar gegn helgri máltíð. Þá biðja menn um skilning á því sem í eðli sínu er leyndardómur sem Guð einn þekkir og skilur. En spyrjum ekki hvernig það gerist. Látum okkur nægja að vera í sporum lærisveinanna sem þiggjendur í athöfn, í heilagri kvöldmáltíð þar sem Kristur býður návist sína í undri brauðs og víns og í sigrandi lífi upprisunnar þar sem hann sem er í dag og í gær hinn sami og um aldir. Þar vill hann þvo okkur af öllu því sem lýtir, sýkir eða skaðar og búa okkur undir auðmjúka þjónustu við náungann í hinu daglega lífi. Frelsarinn er sérstaklega nálægur í brauðinu og víninu eins og hann segir sjálfur, þetta er líkami minn, þetta er blóð mitt. Hvernig það getur verið er skilningi okkar ofvaxið. Þess vegna er best fyrir okkur að vera þiggjendur í þessum efnum. Jesús gefur okkur þessa óumræðilega miklu gjöf til þess að hún megi verða okkur til sáluhjálpar, til þess að við getum með sýnilegum og áþreifanlegum hætti tekið á móti fyrirgefningu syndanna og þegið styrk til að lifa daglegu lífi.
Oft getur verið erfitt að trúa fyrirgefningu syndanna. Þess vegna hefur Guð gefið okkur sýnilega tryggingu þess að hann fyrirgefi syndir. Þessi trygging er líkami og blóð Jesú í heilagri kvöldmáltíð. Sænskur prestur hefur sagt fleyg orð um sýnilegan pant Guðs í skírninni og kvöldmáltíðinni, svohljóðandi:
“Nú kemur sálaróvinurinn til manns sem á í trúarbaráttu og segir: “Hvað ertu að gera með þetta ytra? Ekki frelsastu af vatnsskvettu?”
Þá skaltu svara: “Þú segir að skírnin sé ekki annað en vatn og eins getur þú sagt að kvöldmáltíð Drottins sé ekki annað en brauð og vín, að Biblían sé einungis pappír og prentsverta og kross Krists hafi aðeins verið tré. En þegar orð Guðs birtist í tré, pappír, vatni eða brauði og víni, þá met ég það meira en öll vélabrögð þín því að himinn og jörð munu líða undir lok en orð Drottins mun aldrei að eilífu undir lok líða”.
Kvöldmáltíðin er eins og einhver hefur komist að orði að Guð tekur í hönd syndarans. Í orðum sínum tengdri máltíðinni býður Kristur honum náð sína og fyrirgefningu. Takið og etið. Þetta er líkami minn sem fyrir yður er gefinn. Gjörið þetta í mína minningu. Drekkið allir hér af, þetta er kaleikur hins nýja sáttmála í mínu blóði, sem fyrir yður er úthellt til fyrirgefningar syndanna.
Við eigum stundum erfitt með að treysta því að Guð geti fyrirgefið okkur syndirnar, jafnvel prestar hafa fallið í þá gryfju.
Gamlan prest dreymdi að hann stæði frammi fyrir hástóli Guðs og fylltist sálarangist er hann tók að rifja upp gamlar syndir sem honum fannst ásækja sig.
Guð sá hvernig honum leið.
Drottinn spurði: “Hvað angrar þig, vinur minn?” Prestur andvarpaði: “Æ, Drottinn, syndirnar mínar angra mig! Guð spurði: Hvaða syndir? Prestur andvarpaði aftur öllu meir en fyrr og sagði við Drottinn: “Ætli þú þekkir þær ekki best Drottinn minn. Ég hef svo oft brugðist þér!” Guð horfði á hann brosandi og sagði: “Ég skil þig ekki. Ég minnist engra synda þinna! Hefurðu ekki játað syndir þínar? Prestur stundi og sagði: Æ, jú,jú, margoft! Og Guð hélt áfram: Og verið fyrirgefið? Nú glaðnaði yfir presti: “Jú, blessað sé þitt
heilaga nafn, þökk sé þér, Drottinn Guð!. Þá sagði Guð: Þá eru þær ekki til! Hef ég ekki heitið að minnast þeirra aldrei meir? Mér er alvara með fyrirheit mín! Gefðu betri gaum að Orði mínu. Sagði ég ekki fyrir munn sonar míns? : Drekkið allir hér af, þetta er kaleikur hins nýja sáttmála í mínu blóði, sem fyrir yður er úthellt til fyrirgefningar syndanna”.
Prestur vaknaði þakklátur og skildi betur en áður: Að fyrirgefa er að gleyma.
Við eigum svo erfitt með að gleyma því sem aðrir hafa gert rangt í okkar garð. Jesús Kristur veit það. í heilagri kvöldmáltíð fyrirgefur hann okkur syndirnar á áþreifanlegan hátt og hvetur okkur til að gjöra slíkt hið sama gagnvart náunga okkar. Hann kenndi okkur að biðja í faðir vorinu: Fyrirgef oss vorar skuldir, svo sem vér og fyrigefum vorum skuldunautum. Kunnum við að fyrirgefa þeim sem hafa syndgað gegn okkur?
Mér kemur í hug frásögn af litlum dreng sem var í fyrsta bekk í skólanum sínum. Hann átti að læra að skrifa með bleki. Þá kom stór blekklessa. Og önnur til. Loks lagði hann þerripappírinn yfir en þá klíndi hann bleki um alla síðuna. Hann rétti upp höndina og sagði: Kennari, má ég fletta blaðinu og byrja aftur?” Kennarinn kinkaði kolli. Drengurinn fletti og fann heila blaðsíðu og byrjaði að nýju.
Þannig er Jesús. Hann býður okkur að byrja aftur þegar okkur hefur gengið illa og lífið hefur saurgast af synd. Sakkeus mátti byrja aftur og blaði var flett í lífi hans. Samverska konan mátti byrja á ný, einnig konan sem staðin var að hórdómi og Jesús sagði við hana: Ég sakfelli þig ekki heldur, Far þú og syndga ekki framar. Eins var um glataða soninn. Hann var ekki ávítaður. Honum var ekki refsað. Nei, allt varð nýtt.
Því er ekki svo farið að Guði sjáist yfir synd okkar eða hann geri lítið úr hinu illa. Alls ekki. En Guð friðþægði fyrir syndina í Jesú Kristi. Þess vegna megum við ekki aðeins fletta og byrja að nýju heldur er allt hið gamla afmáð. Guð mun ekki minnast þess framar. Við megum líka gleyma því sem er að baki og seilast eftir því sem framundan er. Með þessum hætti er okkur auðsýnd mikil náð og mikill kærleikur.
Við viljum gjarnan flokka syndir mannanna og segjum gjarnan að þær séu misjafnlega alvarlegar. En fyrir Guði eru allar syndir jafn alvarlegar og væri mannkyn ofurselt dauðanum ef Guð hefði ekki gefið því sinn einkason sem dó fyrir syndir mannkynsins á krossinum til þess að það mætti lifa fyrir hann.
Fyrir trú á frelsarann á sérhver kristinn maður því kost á því að stíga frá dauðanum til lífsins og lifa sigrandi lífi fyrir náð Guðs sem gerir alla hluti nýja.
Eftir upprisu frelsarans þá skildu menn með nýjum hætti hvers vegna Jesús hafði talað svo oft um veislugleði þegar hann var að segja frá lífinu sem hann kallaði fólk til að lifa og vildi gefa því. Við minnumst veislunnar sem faðir glataða sonar síns sló upp fyrir hann þegar hann sneri heim eftir að hafa sólundað arfi sínum. Sagan af glataða syninum sýnir okkur þann kærleik, þann opna föðurarm sem var fús til að fórna lífi sínu á krossi til að ná fram náðarvilja sínum í þágu mannanna. Þetta er sá veruleiki sem altarissakramentið á að vitna um.
Á hvern hátt er Jesús svo nálægur þér í heilagri kvöldmáltíð? Því svarar engin formúla. Frelsarinn svarar þér sjálfur þegar hann fær að verða þér það sem hann er, vegurinn, sannleikurinn og lífið. En eitt máttu vita um borð Drottins að þar er Jesús sjálfur nálægur með undursamlegum hætti og hann segir við þig og mig. Kom þú og neyttu brauðsins og vínsins, taktu á móti mér. Ég dó fyrir þig, í þinn stað vegna þess að ég elska þig.