Á aðventunni höfum við beðið komu Jesú. Við höfum farið í ferðalag líkt og María og Jósef. Þetta ferðalag hefur eflaust reynt á okkur flest á ýmsan hátt. En núna erum við komin á leiðarenda. Núna um jólin stöndum við jötuna, finnum fyrir þreytu eftir ferðalagið en þreytan skiptir ekki máli núna, friðurinn og gleðin í hjarta okkar yfirtekur allt. Við hlið okkar standa hirðingjarnir eftir að engill Drottins birtist þeim og sagði að frelsarinn væri fæddur í Jesúsalem. Stjarnan skírn skært fyrir ofan okkur, jólastjarnan sjálf, og lýsir upp himininn með hjálp hinna stjarnanna. Í sálminum Heims um ból eftir Sveinbjörn Egilsson segir að mærin hafi fætt son Guðs sem er frumglæðir ljóssins, sá sem skapaði lífið og ljósið. Hann er kominn til mannanna. Áður vorum við villt í myrkrinu eins og segir í sálminum þá lá allt mannkynið „meinvill í myrkunum“. Með ljósi kviknar líf. Jesús segir: „ég er ljós heimsins hver sem fylgir mér mun ekki ganga í myrkrinu heldur hafa ljós lífsins.“ Með Jesú kom ljósið og Jesús var gjöf Guðs til okkar mannanna. Jólin eru gjöf, ljós í myrkum heimi .Vegna þessa þá fögnum við um hver jól komu ljóssins, við fögnum komu Jesú Krists. Við fögnum komu ljóssins með því að kveikja á ljósum, jólaljósunum.
Það er á þessum tíma sem maður finnur nálægð Guðs. Við finnum fyrir kærleika hans og elsku. Hann vakir yfir okkur í lífi jafnt sem dauða. Hann geymir ástvini okkar sem hafa horfið á braut. Ljós jólanna, auga Guðs vakir yfir sérhverri sál og augu hans hvíla á okkur full elsku og löngunar til samfélags í kærleika. Hann horfir í auga þitt, augu okkar allra og hann einn þekkir óravíddir sálar þinnar. Hann þekkir dýpstu drauma þína og þrár, þekkir erfiðustu reynslu lífs þíns, hann þekkir þig.
Jólin eru hátíð ljós og friðar. Við skreytum heimili okkar með jólaljósum og kertum. Því ljósin gefa okkur hlýju og yl og færa okkur frið í hjartað. Okkur líður vel í kring um ljósin og þess vegna eru bæjarbúar farnir að setja upp jólaljósin mun fyrr en áður var. Við erum farin að sjá jólaseríur í gluggum jafnvel í nóvember. Jólaljósin geta haft heilmikil áhrif á okkur. Við heyrum oft því kastað fram að jólaljósin lífgi uppá svartasta skammdegið, og ég held að það sé alveg rétt. Jólaljósin lífga uppá skammdegið og það er kannski þessvegna sem við erum farin að kveikja á ljósunum fyrr. Það verður léttara yfir öllu og öllum þegar ljósin koma upp. Eflaust muna margir eftir því þegar ekkert var skreytt fyrr en um miðjan desember og allt tætt niður á þrettánanum þannig að ljósin náðu ekki að hanga uppi í mánuð. Í dag fá ljósin að loga lengur og yfir jólin fá þau að skína sem skærast.
Með ljósinu myndast samhugur, okkur verður hugsað til þeirra sem minna mega sín. En samhugurinn brýst líka út í gleði. Margir líta á það sem órjúfanlegan þátt aðventunnar að koma saman þegar kveikt er á jólaljósum á jólatré bæjarins. Það er við svona skemmtun sem hinn sanni jólaandi kemur fram. Þá sjáum við og finnum gleðina, spenninginn, samhuginn og friðinn í hjarta okkar. Friðurinn, hann er mikilvægur og má ekki gleymast á aðventunni og jólunum. Við verðum að gefa okkur tíma til að finna friðinn. Finnum friðinn og njótum fegurðarinnar í friðnum og finnum vellíðunina sem honum fylgir. Öll munum við eftir góðum stundunum um jólin þar sem við fundum fyrir frið. Mín stund er þegar ég hlusta á jólkveðjurnar í Ríkisútvarpinu þar sem fólk um land allt og jafnvel útum allan heim sendir sínum nánustu jólakveðjur, einnig er tíminn rétt eftir að kirkjuklukkurnar hringja klukkan sex á aðfangadag en þá í örskamma stund myndast algjör kyrr og friður; og svo þegar sest er við matarborðið seinna um kvöldið og allir borða góðan mat og njóta stundarinnar. Það er á þessum stundum sem ég finn einna mest fyrir friði í mínu hjarta. Á þeirri stundu kemur yfir mig mikil vellíðunartilfinning, kannski er það maturinn sem gerir það en ég vill halda að það sé eitthvað annað, eitthvað meira en bara matur. Gísli á Uppsölum orti undurfallegt ljóð eða bæn til Drottins þar sem hann fjallar meðal annars um friðinn og ljósið.
Jólin færa frið til manns, fegurð næra hjarta. Ljósið kæra lausnarans ljómar skæra, bjarta. Ljúfi drottinn lýstu mér Svo lífs veg ég finni. Láttu ætíð ljós frá þér ljóma sálu minni. Gísli á uppsölum
Þó mikilvægt sé að finna friðinn innra með okkur þá er jafnmikilvægt að við reynum að stuðla að friði í kringum okkur. Leggjum deilur og ágreining til hliðar um hátíðirnar. Reynum að stuðla að réttlæti og frið, en friður er og verður aðeins til sem ávöxtur réttlætis. Ef við stefnum að því að stuðla að réttlátu þjóðfélagi á grunni kristinna gilda mun friðurinn renna upp eins og sólin sem yfirtekur myrkrið. Hann mun lýsa upp himininn eins og mörg þúsund ljós.
Það kann að virðast óvinnandi vegur að vera boðberi friðar en það getur líka verið erfitt aðtaka á móti friði. Myrkrið getur orðið svo ríkjandi í lífi manns að erfitt er að fanga ljósið, að taka á móti sáttarboði og fyrirgefningu. Það er erfitt að lifa í deilum og við hatur en um leið getur verið erfitt að leggja deilurnar og hatrið til hliðar og fyrirgefa. En þegar við fyrirgefum þá er eins og ljóstýra kvikni sem verður svo meiri og meiri og líðanin breytist til hins betra. Það má kannski líkja þessu við að vera í mykruðum helli og allt í einu fáum við ljós af vasaljósi í andlitið. Við fáum illt í augun og snúum okkur undan en eftir að hafa vanist ljósinu snúum við okkur í átt að því og meðtökum ljósið.
Sú tilfinning getur komið að okkur finnist við ekki hafa nógu mikið ljós til að lýsa, til að aðstoða, en mörg ljós saman hafa áhrif og maður veit aldrei hvenær þetta eina ljós sem bætist við muni hafa það mikil áhrif að allt verði upplýst. Við umræðu sem þessa er mér oft hugsað til sögunnar um snjókornið sem ég las í bók sem Herra Karl Sigurbjörnsson setti saman og nefnist hún Orð í gleði.
„Segðu mér, hvað vegur eitt snjókorn?“ spurði þrösturinn dúfuna. „Minna en ekki neitt,“ svaraði dúfan. „Þá verð ég að segja þér undursamlega sögu,“ sagði þrösturinn. „Ég sat á bjarkargrein, þétt við stofninn þegar það fór að snjóa. Það var enginn bylur, nei, bara logndrífa, eitt og eitt snjókorn leið af himni, hljóðlega og fyrirhafnarlaust. Og þar sem ég hafði ekkert betra að gera fór ég að telja snjókornin sem féllu á greinina mína og sátu þar eftir. Nákvæmlega þrjármilljónirsjöhundruðfjörutíuogeittþúsund níuhundruðfimmtíuogþrjú talsins. En þegar þrjúmilljónsjöhundruðfjörutíuogeittþúsundníuhundruðfimmtugasta og fjórða kornið féll, brotnaði greinin.“ Við það flaug þrösturinn burt. Dúfan, sem allt frá dögum Nóa var sérfræðingur í þessum málum, sagði hugsandi við sjálfa sig: „Ef til vill vantar aðeins eina mannsrödd til að verði friður á jörðu?“
Amen