Hvers vegna komum við í kirkju? Nýlegar kannanir leiða raunar í ljós að stór hluti þjóðarinnar kemur ekki í kirkju. Við sem erum hér í dag erum sum kirkjuvön, önnur ekki. Hvort sem við komum oft eða sjaldan í kirkju þá velja næstum níu af hverjum tíu foreldrum að bera börn sín til skírnar og svipað hlutfall ákveður að staðfesta trú sína með fermingu á unglingsárum. Vissulega er vert að hafa áhyggjur að því að þessi hlutföll breytist hratt í samræmi við fjölda úrsagna og erfiðrar stöðu Þjóðkirkjunnar.
Hversvegna að koma hingað? Við tökum undir sálmasöng, heyrum orð Guðs úr helgri bók og lagt út af því í prédikun eða hugleiðingu. Væri ekki alveg eins hægt að sitja heima, syngja, lesa í Biblíunni og túlka það sem þar stendur fyrir sig?
Orðið kirkja kemur upprunalega úr grísku og þýðir eiginlega ,,mannamót”, ,,hópur fólks sem mætist”, eða eitthvað í þá áttina. Hvað gerist þegar það safnast saman? Það sameinast um eitthvað, mætir saman einhverju, á samfélag um eitthvað.
Það er einmitt þessvegna sem við komum til kirkju, Til þess að eiga samfélag, sameinast um guðspjallið, sálmasönginn, játa saman trú okkar, upplifa saman. Við mætum í guðsþjónustunni okkur sjálfum, hvert öðru og Guði, eigum samfélag við Guð og manneskjur.
Þetta samfélag getur verið fjölmennt eða fámennt. Við þurfum ekki endilega öll að vera hjartanlega sammála í þessu samfélagi, aðalatriðið er að vera félagsskapur, hópur fólks sem er saman og er kirkja. Jesús hefur sjálfur sagt að hvar sem við komum saman tvö eða þrjú í hans nafni þar sé hann mitt á meðal okkar. Þar með höfum við kirkju, samfélag með Jesú. Kirkja er þar með ekki bara steinsteypta byggingin með altari, orgeli og prédikunarstóli. Það undirstrikum við í dag með því að hittast undir berum himni í fögru umhverfi sem í dag er okkar kirkja. Kirkjan getur í raun verið hvar sem við veljum að koma saman og eiga samfélag þar sem við mætum Jesú Kristi og boðskap hans.
Hversvegna skyldi svo vera þessi ofuráhersla á samfélagið í kirkjunni? Jú, það er vegna þess að rauði þráðurinn í lífi, dauða og upprisu Jesú Krist er spurningin um mig og þig. Spurningin um samskipti, kærleika, virðingu. Við sameinumst um þessar spurningar í kirkjunni.
Hver er ég, hver ert þú? Það er ekki verið að spyrja um stétt eða stöðu, ekki kyn eða litarhátt. Við erum öll jöfn og um leið frjáls frammi fyrir Guði.
Við hittumst hér á fögrum sumardegi í þessum fallega lundi. Tré og blóm, gras og ef við förum niður í vog finnum við vatn og sand.
Við heyrum um synd og sand í guðspjalli dagsins. Konu sem var staðin að verki við að drýgja hór. Það er talið að þessi ljúfsára frásögn hafi ekki verið með í elstu handritum heldur sé hún seinni tíma viðbót úr öðru handriti. Ég trúi að það hafi ekki verið tilviljun heldur handleiðslan Guðs. Frásögnin á við okkur erindi, við höfum margt að henni að læra.
Textinn minnir okkur á sumarið, fagurt umhverfi en svo er það brotið upp á hranalegan hátt.
Umhverfið er helgidómurinn. Það er talað um farisea og fræðimenn, þeir komu með valdi. Þeir höfðu staðið konu að verki við að drýgja hór og voru með hana tilbúnir að dæma og grýta. Bíðum hæg, var konan ein staðin að hórdómi? Þeir sem komu með hana voru með lagabókstafinn alveg á hreinu, enda var hann meitlaður í stein. Slíka konu skyldi grýta samkvæmt Móselögum. Þeir hafa auðvitað líka vitað að það stendur einnig í Móselögunum að bæði konur og karlar sem staðin erum að verki við hórdóm skulu deyja. Undirliggjandi er augljóslega kvenfyrirlitning og kúgun kvenna sem því miður hefur allraf verið ríkjandi í túlkun helgra rita. Það er ekki einskorðað við ákveðna menningu eða trú.
Enn í dag ofbýður okkur við að heyra um skólana í Afganistan sem hafa lokað á skólagöngu kvenna, þetta er að gerast árið 2011. Við færum okkur nær, svokölluð heiðursmorð hafa verið framin í nágrannalöndum okkar. Sænska samfélagið fylltist réttlátri reiði þegar upp komst um slíkt ódæði fyrir fáeinum árum. Mikið var skrifað og fjallað um málið. Svo gerðist það aftur...og aftur , minna og svo enn minna var skrifað. Það má aldrei verða að við venjumst slíkum fréttum og lítum svo á að það sé hluti af mannlífinu.
Eigum við ekki að færa okkur enn nær eigin veruleika. Í okkar eigin kirkju þekkjum við svo alltof vel hvernig konur sem voru beittar kynferðisofbeldi þurftu að þjást og þola til þess fyrst að vera trúað, svo loksins að vera beðnar fyrirgefningar . Þeim vil ég þakka það mikla verk sem unnið hefur verið síðustu ár til þess að gera kirkjuna okkar öruggari stað. Fagráð og forvarnir eru farin af stað og vilji er til að gera milklu betur. Þessar konur eru í bænum mínum og ég er þeim þakklát fyrir kjark og þrautsegju.
Hvað skrifaði Jesús í sandinn? Synd ... boðorð ... bæn? Hvað situr eftir hjá þér úr frásögunni?
Far þú? Syndga ekki framar? Ég sakfelli þig ekki heldur? Sá ykkar sem syndlaus er kasti fyrstu steini á hana? Horfum í kring um okkur, lítum í eigin barm. Sá/sú okkar sem syndlaus er... Það er allt undir: Þú sem aldrei hefur sagt ósatt, stolið, baktalað, keypt eða selt svarta vinnu, deilt við nágranna, þú skalt kasta fyrst steininum. Þar með er fókusinn fluttur frá sjötta boðorðinu til allra hinna boðorðanna sem okkur reynist oft svo auðvelt að líta framhjá. Það var engum steini kastað.
Hér erum við í dag umvafin fagurri náttútunni. Mildur andvari heilags anda snertir við okkur, fariseum og fræðimönnum, venjulegu fólki sem saman er kirkja. Kirkjan okkar. Við þurfum að æfa okkur að segja hvert við annað: ég sakfelli þig ekki heldur. Þegar við erum búin að ná nokkurri leikni í því skulum við taka næstu æfingu sem þar sem við segjum: Ég sakfelli mig ekki heldur. Höldum áfram að vera kirkja. Hlustum, uppörvum, skiptumst á skoðunum, gleðjumst, sjáum fegurðina í litríku samfélagi.
Sakfellum ekki.
Snemma morguns kom hann aftur í helgidóminn og allt fólkið kom til hans en hann settist og tók að kenna því. Farísear og fræðimenn koma með konu, staðna að hórdómi, létu hana standa mitt á meðal þeirra og sögðu við Jesú: „Meistari, kona þessi var staðin að verki þar sem hún var að drýgja hór. Móse bauð okkur í lögmálinu að grýta slíkar konur. Hvað segir þú nú?“ Þetta sögðu þeir til að reyna hann svo þeir hefðu eitthvað að ákæra hann fyrir. En Jesús laut niður og skrifaði með fingrinum á jörðina. Og þegar þeir héldu áfram að spyrja hann rétti hann sig upp og sagði við þá: „Sá ykkar sem syndlaus er kasti fyrstur steini á hana.“ Og aftur laut hann niður og skrifaði á jörðina. Þegar þeir heyrðu þetta fóru þeir burt, einn af öðrum, öldungarnir fyrstir. Jesús var einn eftir og konan stóð í sömu sporum. Hann rétti sig upp og sagði við hana: „Kona, hvað varð af þeim? Sakfelldi enginn þig?“ En hún sagði: „Enginn, Drottinn.“ Jesús mælti: „Ég sakfelli þig ekki heldur. Far þú. Syndga ekki framar.“Jóh. 8.2-11