Biðjum með orðum sálmaskáldsins Hjálmars Jónssonar frá Bjólu: Þér sé, Guð, þökkin tjáð Þín miskunn staðfest er Um himin, lög og láð Lífið streymir frá þér Svo langt sem augað eygir Um vísdóm þinn, gjörvallt vitni ber. Amen
Þetta bænavers minnir okkur á, að lífið er í Guðs hendi, miskunn hans er staðfest um himin, lög og láð og lífið streymir frá Guði svo langt sem augað eygir. Það verður er svo ljóst þegar jörðin skrýðast sumarskrúða með gróanda og grósku. Fuglasöngurinn ómar, lömbin spranga um grundir og fegurð jarðar glæðir huga og sál. Um þetta orti Davíð frá Fagrskógi:
Nú dreymir allt, hvert foldarfræ, að friður ríki um lönd og sæ. Nú lifir allt sinn dýrðardag, nú drottnar heilagt bræðralag.
Já, mikil máttarverk blasa við með sumarkomunni. Og Bóluhjálmar segir, að allt vitni þetta um vísdóm Guðs.
Þessi boðskapur kristinnar trúar hefur verið játning íslenskrar þjóðar um aldir, - aflvaki og hvatning til skapandi verka. Að skynja lífið sitt í faðmi Guðs og njóta gjafa Hans, mega þakka og lofa, biðja, elska og vona. Ekki einvörðungu með þátttöku í helgihaldinu í kirkjunni, heldur í lífinu öllu. Bóndinn sem yrkir jörðina og uppsker til farsældar er að þjóna Guði, kennarinn líka sem uppfræðir í skólum landsins, sjómaðurinn sem aflar fanga úr sjó, verkafólkið með störfum sínum, móðir og faðir sem hlúa að börnum sínum, listafólkið sem glæðir og fyllir lífið andans gjöfum, allar starfandi og skapandi hendur sem umvefja með góðum verkum og menningu til uppbyggingar.
Fólkið, sem ekki getur tekið beinan þátt í atvinnulífinu, m.a. vegna fötlunar, veikinda eða af því að árin mörg hafa lokið hinni formlegu starfsævi, gegna ekki síður mikilvægu hlutverki í þjóðlífinu með návist sinni, þekkingu og reynslu. Sérhver einstaklingur er óumræðilega dýrmætur í augum Guðs hvernig sem aðstæðum er háttað. Þetta er hin heilaga guðsþjónusta að elska Guð og náungann með lífi sínu öllu. Með þátttöku í helgihaldi kirkjunnar erum við að staðfesta og rækta vonina um fegurð lífsins, svo þessi kærleikur megi blómgast. Á uppstigningardegi minnumst við kveðjustundar Jesú með lærisveinum sínum. Þar flytur Jesú sína hinstu ræðu og sagði: „Farið út um allan heim og predikið fagnaðarerindið öllum mönnum“. Þetta erindi barst til Íslands og lögtekið sem trúarsiður í landinu á Alþingi 160 árum eftir að formleg búseta hófst í landinu. Og kristinn siður hefur nært þjóðlífið allt fram á þennan dag, verið grundvöllur laganna, mótað samskipti og samfélag, innblásið menninguna og verið kjölfestan í persónulegu lífi. Þessi kjölfesta heitir trú, von og kærleikur. Hér á Stöðvarfirði hefur þetta fagnaðarerindi verið predikað um aldir. Þessi kirkja var vígð árið 1991 og verður 23 ára á þessu ári. Gamla kirkjan, sem stendur hér innar í þorpinu, var byggð í Stöð árið 1879, en flutt þaðan árið árið 1925 og reist að nýju hér í Kirkjubólsþorpi. Hún var svo afhelguð þegar þessi kirkja var vígð. Saga kirkju á hverjum stað vitnar um menningu. Fáksrúðsfjarðarkirkja fagnar 100 ára afmæli á næsta ári og Heydalakirkja verður á sama ári 40 ára.
Þannig hefur kirkjan verið hornsteinn í lífi þjóðarinnar um aldir og boðskapur trúarinnar verið þungamiðjan í sið og gildismati. Þegar ferðast er um heiminn, sérstaklega til fjarlægra landa, þá mæta okkur gjarnan hefðir og siðir sem verka framandi, öðruvísi en við erum vön. Sömuleiðis þá kynnumst við þjóðlífi fjarlægra landa í daglegum fréttum fjölmiðla og frásögnum af viðburðum og aðstæðum. Oft eigum við erfitt með að meðtaka og skilja, svo framandi geta tíðindin verið. En þegar nær er skoðað, þá eiga siðir þjóða rætur að rekja til trúarbragðanna. Um það getur enginn efast. Trúin er svo stór þáttur í mannlífinu.
Það skiptir máli hvaða siður trúar ríkir í landi hverju. Þau sem eiga árin að baki þekkja það best af reynslu sinni og skynja svo vel gildi trúarinnar fyrir sið og líf í landinu. Á trúnni hvíla lögin, menningin og velferðin. Oft er trúin aðeins tengd við lífið eftir dauðann. Það er satt, að mikil blessun er vonin um eilíft líf og reynst mörgum huggun í sorg við sárum missi, en ekki síður að rækta ábyrgðina og njóta þess frelsis og þeirra lífsgæða sem von trúarinnar nærir og glæðir. Eilíft líf er fullreynd fyrir upprisu Jesú Krists. En það er á jörðu og himni. Í skírninni er barnið helgað eilífu lífi. Þannig mótar trúin líka lífshætti á jörðu frá vöggu til grafar. Um það vitnaði Jesús Kristur með lífi sínu í orði og verki.
Jesus Kristur er grundvöllur trúarinnar og í honum skynjum við fyrirmyndina. Hann sagði: „Ég er ljós heimsins. Sá sem fylgir mér mun ekki ganga í myrkri, heldur hafa ljós lífsins“. Það er svo mikilvægt, að þetta heilaga ljós fái að lýsa áfram yfir þjóðlífið og sérhvern mann. Það gerist ekki af sjálfu sér, heldur með rækt og iðkun.
Í lútherskri kristni er áherslan hvort tveggja á persónulega trú og siðinn í samfélaginu. Það trúir enginn fyrir annan. En þó. Við biðjum hvert fyrir öðru, og er ekki svo lítið. Bænin er svo mikil kjölfesta í trúarlífinu. Foreldrar, og afi og amma, með börnum sínum í einlægri bæn við rúmstokkinn. Dýrmæt stund er það og fallegt að eiga slíka minningu í farteski sínu um lífsins leið. Og sannarlega hefur trúin blómgast fyrir andans verk mætra mana í gegnum tíðina. Sr. Hallgrímur Pétursson og sr. Einar Sigurðsson eru lifandi vitnisburðir um það, eins og BóluHjálmar og margir fleiri með kveðskap sínum og listarinnar verkum. En um fram allt er það fólkið í landinu sem borið hefur uppi kristinn sið með lífi sínu og þjónustu og notið blessunar andagiftar lifandi trúar þar sem Guð umvefur allt og nærir mátt til verka. Þannig hefur helgihaldið í kirkjunni og þjóðlífinu verið borið uppi af söngfólki aldanna. Mikill er sá arfur og framlag til göfugrar menningar. Það finnum við hér í kirkjunni í dag. Við erum ekki aðeins í fótsporum genginna kynslóða aldanna. Við erum að rækta fallega menningu sem við viljum ekki án vera. Og það gerist ekki af sjálfu sér, heldur vegna þess að hér er fólk sem leggur mikið að mörkum, hlúir að kirkjunni sinni, syngur í kórnum, og fólk sem tekur þátt í helgihaldinu með nærveru sinni. Það er rækt, bæði fyrir sig sjálfan og samfélagið.
Sömuleiðis verður kristinn siður ekki áfram kjölfesta í landinu, nema þjóðin haldi vöku sinni og enn leggi fórnfúst fólk gott að mörkum í nafni kristinnar menningar. En við ræktum ekki fallegan sið með því að fordæma önnur trúarbrögð, og ekki með því að hrópa, að einhverjir séu betri en aðrir, heldur einmitt til þess að fylla okkur umburðarlyndi og skilningi sem mótar virðingu í umgengni við önnur trúarbrögð. Nákvæmlega eins og við komum fram hvert við annað af virðingu, þó ekki séum við öll eins og getum haft ólíkar skoðanir á mörgu. Virðingin og frelsi mannsins er í fyrirrúmi kristinnar trúar.
Á fyrstu prestskaparárum mínum átti ég samleið með aldraðri konu sem kunni hvern einasta sálm í sálmabókinni utanbókar og heilu ræður Jesú úr Nýja testamenntinu. Þannig hefur menning trúarinnar borist frá kynslóð til kynslóðar með lifandi rækt. Þetta eru hetjurnar sem framganga af trúfesti með líf sínu og störfum, ekki með því að hrópa á torgum og berja sér á brjóst, heldur með lífsins þjónustu við Guð og náungann.
En um fram allt er Guð nálægur í orði sínu og verki. Enginn stjórnar Guði og hefur hann á valdi sínu. En trúarvissan um kærleika hans og máttarverk er hin heilaga von. Sumarið sem nú er að blómgast af vorinu og skrýðir jörð og mann yndisleik sínum vitnar um það. Megum við njóta náðar Guðs.
Meðan, Jesús minn, ég lifi, mig lát aldrei gleyma þér, hönd þín mér á hjarta skrifi Hugsun þá, sem dýrust er. Ég bið, þar þá játning set: „Jesús minn frá Nasaret er sú hjálp, sem æ mig styður, er mín vegsemd, líf og friður“. Amen