Þeir spurðu hann þá: Hvaða tákn gjörir þú, svo að vér sjáum og trúum þér? Hvað afrekar þú? Feður vorir átu manna í eyðimörkinni, eins og ritað er: Brauð af himni gaf hann þeim að eta.Jesús sagði við þá: Sannlega, sannlega segi ég yður: Móse gaf yður ekki brauðið af himni, heldur gefur faðir minn yður hið sanna brauð af himni. Brauð Guðs er sá, sem stígur niður af himni og gefur heiminum líf.
Þá sögðu þeir við hann: Herra, gef oss ætíð þetta brauð.
Jesús sagði þeim: Ég er brauð lífsins. Þann mun ekki hungra, sem til mín kemur, og þann aldrei þyrsta, sem á mig trúir.Jh. 6.30-35
Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen.
Við skulum biðja:
Drottin dýrðarinnar, þú sem gefur okkur allt sem við þörfnumst til að lifa, og gefur okkur Jesú Krist, son þinn, hann sem er brauð lífsins. Opna hjörtu okkar og huga svo að við meðtökum hversu ríkulega gæsku þú sýnir öllum mönnum í Jesú Kristi, bróður okkar og Drottni. Amen.
* * *
Fyrir mörgum árum átti ég þess kost að taka þátt í 10-daga gönguferð um Hornstrandir. Er það svo sem vart í frásögur færandi. Og þó. Þessi ferð er um svo margt eftirminnileg – skilur eftir góðar minningar – upp í hugann koma undurfagrar landslagsmyndir – ég lærði að þekkja blóm og fugla og síðast en ekki síst eignaðist ég þar vini fyrir lífstíð.
Þegar þessi ferð var farin fyrir 25 árum – voru ekki reglulegar ferðir á Hornstrandir, semja þurfti við smábátasjómenn til þess að fá far og setja sig á land og sækja sig að ákveðnum tíma liðnum.
Þá var og ekki heldur mikið um frostþurrkaðan mat og því vandasamt að útbúa nesti til 10 daga ferðar þar sem ferðalangar þurftu að bera allar byrðar á bakinu. Og það er eitt af því sem gerir þessa umræddu ferð svo eftirminnilega. Sá sem tók að sér undirbúning ferðarinnar sýndi ótrúlega útsjónarsemi að því að mér fannst.
Það voru útbúnir þrír matarpakkar og sendir á undan hópnum á tiltekna staði, svo að við ferðalangarnir þyrftum aldrei að bera meira en þriggja daga matarbirgðir á bakinu. Allur matur komst óskemmdur í okkar hendur og það var veislumatur á diskum okkar á hverju kvöldi.
Eitt af því sem þykir nauðsynlegt að hafa með í nesti er brauð og fyrir því var séð í þessari ferð. En það verð ég að segja að illa leist mér á það að þurfa að borða 3-4 vikna gamalt brauð og enn verr leist mér á blikuna þegar ég sá brauðið. Það var glerhart og krumpað, pakkað í plast. En viti menn, þegar klippt var á plastið gerðist eitthvað – jú, það var eins og það færðist líf í brauðið og eftir skamma stund var lungamjúkt brauðið dregið út úr plastumbúðunum. Brauðið hafði verið pakkað í lofttæmdar umbúðir.
* * *
Guðspjallstexti þessa Drottins dags er í beinu framhaldi af þeim kunna texta sem segir frá því er Jesús mettar mannfjöldann. Í þessum kafla er dregin fram munur þess að mettast af líkamlegri fæðu og hinni andlegu svo og, að fólkið kallaði á kraftaverk og undur. Jesús minnir fólkið hins vegar á að það eru ekki mennirnir sem gera kraftaverkin, heldur eru þau Guðs verk.
Textinn fjallar um kærleika Guðs til mannanna, hvernig Hann vill gjarnan sjá manninum fyrir góðu lífi í gnægð matar og lífshamingju.
Minnt er á hvernig Drottinn sá Ísraelsmönnum fyrir mat á leiðinni til fyrirheitna landsins með því að senda þeim brauð af himnum - manna – en því skal ekki gleymt í þeirri sögu, að rík áhersla var á það að taka sér aldrei meira af manna en sem dygði í dagskammtin. Áminnt var um hófstillingu og varað við græðgi.
,,Matur er mannsins meginn,” segir orðtakið, og annað segir: ,,Maðurinn lifir ekki á einu saman brauðinu.”
Og víst er um það að allt hið lifandi þarfnast fæðu til viðhalds og vaxtar, við þurfum okkar daglega brauð. En maðurinn þarfnast líka þeirrar fæðu sem ekki verður mæld á vog eða með málbandi, það er lífsins brauð – brauðið sem mettar hungur lífsins, veitir fyllingu í hug og hjarta, brauðið sem seður manninn með þeirri fæðu sem leiðir til góðrar breytni og kærleiksríks hugarþels.
* * *
Halldór Laxnes segir í sögunni Sagan af brauðinu dýra frá konu nokkurri sem fékk það verkefni að sækja pottbrauð í hverasand skammt frá bænum. Brauðið hafði hún í skjólu sem hún hafði tekið með sér og í var brauðdeig til þess að baka. Svo vill til að þegar konan snýr til baka, skellur á þoka og hún lendir í villum og finnst ekki fyrr en eftir þrjá daga. Þegar hún fannst var brauðið ósnert í skjólunni. Aðspurð að því hvers vegna hún hefði ekki fangið sér brauðbita – hvort hún hefði ekki verið svöng – svaraði hún því til, að maður æti nú ekki það sem manni væri trúað fyrir. Þegar frekar var gengið á hana sagði hún: ,,Því sem manni er trúað fyrir, því er manni trúað fyrir.” Og bætir svo við: ,,Getur maður nokkurn tíma verið nokkrum trúr nema sjálfum sér.?”
Hollusta og trúmennska eru hluti af því að vera góð manneskja – eru góðar dyggðir. Í fagnaðarboðskap Krist finnum við aftur og aftur þau skilaboð að manneskjan skuli vera trú Guði sínum og sjálfri sér. Eignast svör við því hvernig manneskjur við viljum verða. – ,,Elska skaltu náunga þinn eins og sjálfan þig,” segir Hann
* * *
,,Ég er brauð lífsins,” segir Jesús. ,,Þann mun ekki hungra, sem til mín kemur og þann aldrei þyrsta, sem á mig trúir.”
Jesús býður okkur mönnunum að setjast að gnægtaborði fagnaðarerindisins, þar sem trú, von og kærleikur eru í öndvegi. Á því borði eru ekki harðir brauðmolar, pakkaðir inn í plast og lofttæmdar umbúðir heldur lifandi orð og hvatning til þess að vera öðrum mönnum það sem viljum að þeir séu okkur.
Hvatning til þess að biðja, leita og knýja á og ekki síst fyrirheitið um eilífa náð og miskunn Guðs hvenær sem við erum tilbúin til þess að leita eftir því.
Helgi Hálfdánarson orðar þetta svo í sálmi sínum:
Kristur veitist allur öllum ævinlega, þá vér föllum fram við blessað borðið hans. Kristur eyðist ei né þrýtur, alla blessun hver einn hlýtur, þó að neyti þúsund manns. (Sb.229,4)
Megi okkur öllum auðnast að meðtaka og þiggja lífsins brauð af borði Drottins.
Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.
7. sd.e.trin. 3. ágúst 2003 Valþjófsstaðarkirkja - kvöldmessa