En Jesús sagði þeim þessa dæmisögu: „Nú á einhver yðar hundrað sauði og týnir einum þeirra. Skilur hann ekki þá níutíu og níu eftir í óbyggðinni og fer eftir þeim sem týndur er þar til hann finnur hann? Og glaður leggur hann sauðinn á herðar sér er hann finnur hann. Þegar hann kemur heim kallar hann saman vini sína og nágranna og segir við þá: Samgleðjist mér því að ég hef fundið sauðinn minn sem týndur var. Ég segi yður, þannig verður meiri fögnuður á himni yfir einum syndara, sem tekur sinnaskiptum, en yfir níutíu og níu réttlátum sem þurfa þess ekki við. Lúk. 15.3-7
Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen.
Japanski presturinn Yoshiro Ishida var alinn upp sem búddisti en dag nokkurn rak Nýja testamentið á fjörur hans.
Hann varð óendanlega glaður við að lesa þessi orð Jesú:
„Ég segi yður, þannig verður meiri fögnuður á himni yfir einum syndara, sem tekur sinnaskiptum, en yfir níutíu og níu réttlátum sem þurfa þess ekki við.“
Svo segir hann:
„Ég hélt alltaf að ég þyrfti að blíðka Guð, gera hann sáttan við mig, en þarna las ég um Guð sem þarf á því að halda að frelsa okkur. Og þegar Guð frelsar okkur, Guð finnur okkur, þá fyllist hann gleði. Þetta er einkennilegur Guð, hugsaði ég. Guði er umhugað um mig. Bara mig, eins og ég er. Guð fyllist gleði þegar hann finnur mig. Mér finnst ennþá að fagnaðarerindið um Jesú Krist snúist einmitt um þetta.“
Þessi orð eru einkar athyglisverð því sá, sem talar, er ekki alinn upp við kristna trú. Yfirleitt snúast trúarbrögðin um leit fólks að æðri máttarvöldum. Þau eru viðleitni mannanna til að komast í samband við guðleg öfl og knýja á um velþóknun þeirra.
Kristnin ein snýr þessu við, talar um Guð sem á frumkvæði og fer af stað að leita okkar, eins og hirðirinn í guðspjallinu. Guð sem finnur okkur - og gleðst! Guð sem fagnar yfir þeim fundnu - og fagnar með þeim fundnu. Er ekki stórkostlegt að þekkja Guð sem gleðst yfir því að mega finna þau týndu og villuráfandi, bjarga þeim sem eru í hættu eða sjálfheldu?
Þannig er Guð okkar. Án allra skilyrða og skilmála fáum við að eiga hann að og tilheyra honum, eða eins og segir í pistlinum: „Af náð eruð þið hólpin orðin“ (Efes. 2:5B og 8A).
Við vitum þetta svo sem ósköp vel en getum samt hæglega orðið ónæm fyrir því hve fagnaðarerindi kristinnar trúar er ómetanlegt og einstakt.
Í upphafi prestastefnu er hollt að nema staðar við náðina, þennan innsta kjarna trúarinnar, rifja upp að endurgjaldslaust þiggjum við velþóknun Guðs, fyrirgefningu, nánd og styrk.
Stundum er talað um að hvíla í náðinni. „Glaður leggur hann sauðinn á herðar sér“ (Lúk. 15:5). Við megum hvíla í náðinni þegar við erum ráðþrota og örmagna - eins og lambið hvílir á herðum hirðisins, áreynslulaust og þarf ekki að gera neitt, bara vera þar og njóta þess að láta halda á sér.
Fyrir rúmum fjörtíu árum var fjölskyldan á ferðalagi og við þurftum að komast yfir læk. Pabbi tók mig á bakið og bar mig yfir. Mikið var það notalegt og öryggiskenndin fullkomin!
Ég var átta ára og síðan hefur enginn borið mig á bakinu enda getur það víst enginn, ekki einu sinni sterkasti prestur í heimi!
Hins vegar hefi ég oft verið borinn á sterkum herðum hins leitandi kærleika Guðs. Hver þarfnast þess ekki?
Stundum tengist það vanlíðan í starfi og óánægju og uppgöf að ég villist af leið og dreg mig út úr hópnum. Það þekki ég vel af eigin reynslu. Þá þarfnast ég alveg sérstaklega þeirrar náðar sem hættir ekki að leita fyrr en hún finnur mig.
Í lífi okkar allra geta komið aðstæður þar sem við erum ein, einmana eða þreytt; þegar við villumst frá hópnum og hættum að þekkja umhverfið. Þá er svo gott eiga hann að sem kemur, finnur okkur og sameinar hjörðinni á ný.
En mynd guðspjallsins af hirðinum snýr líka á annan hátt að okkur sem erum í þjónustu kirkjunnar, þjónustu Krists. Við erum líka í sporum hirðisins í sögunni, send í nafni Jesú til að leita hinna týndu og hröktu og finna þau særðu og löskuðu.
Það eru mikil forréttindi að fá að þjóna með þeim hætti, gleymum því aldrei! Í heiminum er ekki til neitt göfugra hlutskipti en að koma náð og kærleika Guðs til leiðar. Það er hlutverk kristinnar kirkju og starf okkar, hvaða hjörð sem við önnumst. Hirðirinn bar persónulega ábyrgð á hjörðinni. Samt voru oft fleiri hirðar saman með hjarðir sínar. Aðrir hirðar fylgdust áreiðanlega með hjörð þessa hirðis meðan hann leitaði hins týnda. Þeir hjálpuðust að og treystu hver öðrum.
Hirðarnir gátu bæði borið sérstaka ábyrgð á einni hjörð og unnið með öðrum hirðum eins og á þurfti að halda. Hvað með okkur prestana?
Aðrir hirðar geta tímabundið annast hjörðina sem við berum ábyrgð á. Það er ágætt innlegg í umræðu um afleysingar, vaktir og frí. Við þurfum endilega að losna af klafa úreltra hugmynda um einangraða, afgirta einkareiti í víngarði Drottins og búa okkur til raunhæft starfsumhverfi sem eykur almenna vellíðan og starfsánægju.
Tökum líka eftir því að vinirnir fögnuðu með hirðinum þegar týndi sauðurinn fannst!
Ættum við ekki að vera duglegri að samfagna hvert öðru þegar vel gengur, hrósa og uppörva? Ef okkur þykir gott að fá klapp á bakið og heyra hlýleg orð, ættum við að eiga frumkvæði að því sama, ekki bíða eftir öðrum. Náðin og kærleikurinn mæta okkur að fyrra bragði og við eigum að vera fyrri til að veita hvert öðru virðingu.
Öll erum við bæði gefendur og þiggjendur en að þiggja og þjóna eru tveir meginþættir kristninnar sem verða alltaf að fara saman.
Nú til dags er stundum talað um samræðustjórnmál en samræðukristindómur er ekki til. Í eðli sínu er kirkjan ekki lífsskoðanafélag og því síður málfundaklúbbur, heldur leitarsamtök.
Við erum send í nafni Jesú Krists að hafa uppi á þeim týndu. Það er samofið kristinni trú að fara út og starfa.
Takmark kristinnar kirkju er hvorki að hafa réttar skoðanir né tilbiðja Guð á réttan hátt, heldur það eitt að gera vilja hans, sbr. orð Jesú (Matt. 7:21): „Ekki mun hver sá sem segir við mig: Drottinn, Drottinn, ganga inn í himnaríki heldur sá einn er gerir vilja föður míns sem er á himnum“. Í dæmisögunni um hinn hinsta dóm segir Jesús: „Allt sem þér gerðuð eða gerðuð ekki einum minna minnstu bræðra, það hafið þér gert eða ekki gert mér...“ (Matt. 25:40 og 45). Kirkjan er hreyfing. Á reiðhjóli er nauðsynlegt að vera stöðugt á hreyfingu til að halda jafnvægi. Kyrrstaða endar með ósköpum. Þannig er kirkjan líka.
Kirkjan á hreyfingu starfar m. a. gegnum kristniboðið og Hjálparstarfið, Hjálpræðisherinn og Samhjálp, miðborgarstarf og starf með nýbúum, svo fáein dæmi séu nefnd um kirkjuna sem mætir fólki þar sem það er statt á vettvangi lífsins, mætir því í anda hins leitandi kærleika.
Þannig er lifandi kirkja. Um leið og náð Guðs hefur fundið okkur, erum við send út að leita, finna og miðla kærleika Krists inn i allar aðstæður. Þörfin er brýn og verkefnin óþrjótandi.
Pabbi bar mig á bakinu átta ára gamlan. Mörg börn ná ekki þeim aldri. Þriðju hverja sekúndu deyr barn í heiminum úr skorti. Þau eru þá 20 á mínútu, 1200 á klukkustund, tæplega 30 þúsund á sólarhring.
Í Afríku einni deyja 4500 manns á dag úr læknanlegum sjúkdómum, þ. e. a. s., þyrftu ekki að deyja ef þeim stæði til boða sams konar heilbrigðisþjónusta og við njótum - en kvörtum samt yfir. 800 milljónir manna fara svangar að sofa á hverju kvöldi og álíka margir geta varla sofnað fyrir ofáti.
Matvælaverð hækkar vegna þess að ríkari þjóðirnar eru gráðugar og sjálflægar í hugsun og skeyta ekki um hag hinna fátækari.
Í lexíunni er notað myndmálið að Guð varpi syndum okkar í djúp hafsins (Míka 7:19). Svo mikið er víst að syndir okkar eru á góðri leið með að eitra höfin og eyðileggja lífríki þeirra. Eigingjörn skammtímasjónarmið ráða iðulega för í umgengni við náttúruna og auðlindir hennar - en ábyrg framtíðarsýn á erfitt uppdráttar.
Svona er veröldin og stundum verðum við niðurdregin vegna þess. Hvað getum við svo sem gert?
Því svarar guðspjallið: Ekki gera ekki neitt! Hirðirinn settist ekki niður með hendur í skauti og grét yfir týnda sauðinum, heldur gerði eitthvað í málinu. Það hefur Guð sjálfur gert og hann kallar okkur til þess sama. Við erum ekki send til að aumka, heldur bjarga!
Kirkjan á að vera í fararbroddi í baráttu gegn fátækt, sjúkdómum og óréttlæti í heiminum; ekki tala, heldur gera. Við eigum umfram allt að sýna fordæmi, vera sönn, láta verkin tala!
Tómlæti og afskiptaleysi einkennir samtíð okkar. Við erum kölluð til að vera hvorki sinnulitlir neytendur né áhrifalausar strengjabrúður, heldur virkir þátttakendur í þjónustu Guðs, heiminum til lífs! Að þjóna Guði er lífið í fyllstu gnægð sem góði hirðirinn gefur (Jóh. 10:10B). Það er innihaldsríkt og gefandi líf.
En við getum ekki þjónað nema hafa sjálf þegið.
Í flugtaki er farið yfir ýmis öryggisatriði. M. a. erum við minnt á að súrefnisgrímur muni birtast ef á þarf að halda. Þá gildir að setja fyrst grímu á eigið andlit, svo getum við hjálpað öðrum. Þegar ég heyrði þetta upphaflega fannst mér það eitthvað öfugsnúið. Er ekki réttara og göfugra að hugsa um aðra á undan sjálfum sér? Svo áttaði ég mig á því að ef ég set grímuna ekki fyrst á mig, er ólíklegt að ég haldi meðvitund og hafi krafta til að setja hana á aðra.
Sem þjónar fagnaðarerindisins þurfum við fyrst að lifa sjálf í náðinni, rækja og rækta eigið trúarlíf og samfélag við Guð. Annars verðum við fljótlega ófær um að þjóna öðrum.
Kæru vinir!
Mörg okkar eru þreytt eftir annir og álag starfsins í vetur og vor er leið. Notum sumarleyfið til að hvíla okkur og safna kröftum á ný en gleymum ekki að hvíla í náðinni og þiggja stöðugt uppbyggingu Guðs til nýrrar þjónustu við hann.
Leyfum Guði daglega að finna okkur, taka okkur upp, bera okkur áfram. Eins og hirðarnir báru persónulega ábyrgð á hjörðum sínum, eins vill Guð annast og ábyrgjast okkur.
Lyftum líka hvert öðru upp, t. d. hér á prestastefnu, berum hvert annað og hvert annars byrðar (Gal. 6:2).
Förum svo héðan til að bera fólkið okkar, söfnuðina, þjóðina, heiminn, koma kærleika Krists til leiðar í veröldinni. Það er hlutverk okkar, tilgangur lífs okkar og þjónustu.
Og gleymum því aldrei að boðskapur kristinnar trúar er fagnaðarerindi. Enginn hefur meiri ástæðu en við til að gleðjast og fagna. Gleðin er grunntónn alls þess sem kirkja Krists byggist á og stendur fyrir. Lifum í náðinni, nærumst af umhyggju Guðs og þjónum Drottni með gleði!
Dýrð sé Guði föður, syni og Heilögum anda, svo sem var frá upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.