Egilsstaðakirkja - Biblíudagurinn
2023 – Markús 4.26-34
Náð sé með yður
og friður frá Guði, föður vorum, og Drottni Jesú Kristi. Amen.
Um síðustu helgi
birtist áhugavert viðtal í Mogganum við Ásgeir Jóhannesson, sem nú er 91 árs
gamall. Þegar hann var unglingur og
nýbyrjaður í Menntaskólanum á Akureyri, haustið 1948, veiktist hann af lömunarveikinni
sem lagðist á hluta bæjarbúa af völdum veirusýkingar og var gjarnan talað um
Akureyrarveikina í því sambandi. Ásgeir varð mjög alvarlega veikur, þurfti að
hætta námi og lá lengi milli heims og helju. Svo fékk hann inflúensu ofan í
kaupið, og talið var að hann myndi ekki lifa lengi. En einmitt þá fór hann að
hjarna við. Hann var mörg ár að ná upp starfsþreki, rétt eins og sum okkar
upplifa nú langvarandi afleiðingar Covid-veirunnar. Honum tókst þó að lokum að
ganga í Samvinnuskólann, gerðist kaupfélagsmaður, stofnaði fjölskyldu, vann sig
áfram skref fyrir skref með mikilli gát gagnvart heilsunni og endaði sem
forstjóri Innkaupastofnunar ríkisins um langt skeið, auk þess að sinna ótal
mörgum félags- og trúnaðarstörfum.
Ásgeir segir í
viðtalinu að á sínum tíma hafi hann orðið mjög reiður Guði fyrir að leggja
þessi veikindi á sig, og það er ósköp eðlilegt. Það merkilega er hins vegar að
þegar hann horfir til baka í dag er hann í raun þakklátur fyrir þá óvæntu stefnu
sem líf hans tók á þessum tíma, því að þegar fram í sótti markaði hún grunninn
að farsælu lífi þar sem Ásgeir var víða í forystu og lét gott af sér leiða með
ýmsum hætti.
Við þekkjum það
sennilega flest að stundum tekur lífið óvæntar beygjur í aðrar áttir en við
ætluðum okkur. Sannarlega getum við upplifað aðstæður og erfiðleika í þessu
lífi, sem eru svo hörmulegir að enginn sjáanlegur tilgangur er með þeim. En
stundum getum við horft til baka, jafnvel löngu síðar eins og Ásgeir, og fundið
að Guð hafi verið að verki, líka þegar við vorum í miðju stormsins eða niðri í
djúpinu, og að Guð hafi leitt atburðarásina til blessunar á endanum. Það sjáum
við frekar eftir á.
Jesús segir okkur
tvær stuttar dæmisögur í guðspjalli dagsins. Þær fjalla báðar um frækorn og í
þeim báðum táknar frækornið ríki Guðs, veröldina þar sem orð Guðs fær að ráða
ríkjum: hið góða og fagra og fullkomna. Og saman geta þær sýnt okkur hvernig Guð
starfar í því hversdagslega, en líka því óvænta og stórfenglega – kemur okkur á
óvart, líkt og saga Ásgeirs.
Fyrri sagan fjallar
einfaldlega um mann sem sáir hveitikorni og fær loks uppskeruna sína. Eins og
þið kannski munið eru fjögur guðspjöll í Biblíunni og margar sögur eru í
tveimur eða fleiri af guðspjöllunum. En þessa litlu sögu finnum við bara hér, í
Markúsarguðspjalli. Það hefur verið sagt í gríni að ástæðan fyrir því að hún
hafi ekki komist á blað hjá hinum guðspjallamönnunum sé nú hreinlega af því að
hún sé svo leiðinleg! Í öllu falli fjallar hún um nokkuð sem er ákaflega
hversdagslegt: sáning og uppskera. Það er ekkert óvænt „plott“ í þessari
frásögn.
Ég hef aldrei
reynt sjálfur að rækta korn, en þegar maður setur niður til dæmis kartöflur eða
haustlauka, þá tekur maður því svolítið sem sjálfsögðum hlut að puðið muni nú
bera einhvern ávöxt, kartöfluuppskeran verði tilbúin að hausti og laukarnir
gefi af sér falleg blóm að vori. Jesús beinir sjónum okkar að því að allt slíkt
er í raun undur Guðs. Á sama hátt starfar Guð með orði sínu á undursamlegan
hátt. Ef við leyfum orði Guðs að hljóma í lífi okkar og í samfélaginu, mun það
bera ávöxt – og við vitum ekkert endilega hvernig, eða hvert það mun
leiða okkur. En líkt og jörðin ber „sjálfkrafa“ ávöxt, eins og það er orðað í
dæmisögunni, þá mun Guðs ríki vaxa og verða augljóst, jafnvel þó að við teljum
það í svipinn fjarri – rétt eins og fólk taldi á sínum tíma að unglingurinn
Ásgeir Jóhannesson ætti ekki langa lífdaga framundan. Annað átti eftir að koma
á daginn.
Seinni sagan sem
Jesús segir líkir Guðs ríki við sérstaka tegund af frækorni, mustarðskornið, sem
er örsmátt en verður samt að glæsilegri plöntu. Hér þurfum við aðeins að
staldra við. Jesús segir að tréð sem sprettur af mustarðskorninu verði „öllum
jurtum meira og f[ái] svo stórar greinar að fuglar himins get[i]
hreiðrað um sig í skugga þeirra.“ Líklega hafa áheyrendur Jesú annaðhvort
hlegið dátt eða rekið upp stór augu við þessa fullyrðingu, enda notaði Jesús
húmorinn mikið til að hreyfa við fólki. Mustarðstréð verður nefnilega ekki nema
svona fimm til sex metra hátt, en til samanburðar eru alaskaaspirnar og
sitkagrenið inn á Hallormsstað að nálgast 30 metrana! Í hlýju loftslagi
Mið-Austurlanda hafa því fjölmörg tré verið miklu stærri og með glæsilegri
greinar.
Hvað er þá svona
merkilegt við tré sem sprettur af mustarðskorni? Hvernig líkist það Guðs ríki? Fyrir
fuglunum sem finna skjól þar er það sannarlega mikilvægt, rétt eins og mörg
okkar finna skjól og athvarf hjá Guði og í orði Guðs.
Svo er þetta líka
harðger planta, hún getur skyndilega sprottið upp á óvæntum stað, við erfiðar
aðstæður, og tekið að breiðast út, eins og til dæmis lúpínan. Og svo eru dökku
sinnepsfræin af mustarðsplöntunni auðvitað notuð til matar, og á dögum Jesú
voru þau líka notuð í lækningaskyni. Þannig getur þessi planta verið tákn um
næringu og heilbrigði.
En hvers vegna
segir Jesús þetta, sem er hálfgerður brandari, að mustarðstréð verði „öllum jurtum meira“?
Kannski er Jesús einmitt
að benda á að mælikvarðarnir hjá okkur manneskjunum, um hvað sé stórt og
glæsilegt, séu ekkert endilega réttir út frá Guðs ríkinu. Sú sem hefur flesta
fylgjendur á Instagram eða Snappinu hefur ekki alltaf mest fram að færa í raun
og veru. Sá sem nær að kaupa og drekka flestar flöskur af Prime verður ekki endilega
betri í íþróttum. Og unglingur sem veikist hættulega og dettur út úr skóla gæti
náð langt í lífinu á endanum, því að lífið kemur okkur á óvart og Guð kemur
okkur stöðugt á óvart.
Í samfélaginu
okkar á Vesturlöndum virðist Guðs ríki alls ekki stórt eða fyrirferðarmikið og
það lítur ekki út fyrir að mikill áhugi sé á boðskap Biblíunnar. Samt getum við
treyst því að Guð sé að verki, með undraverðum hætti með ekkert okkar skilur
eða býst við.
Guð vill mæta
okkur og starfa í lífi okkar – bæði í því sem er ótrúlega hversdagslegt,
jafnvenjulegt og að sá og uppskera korn, og líka í því óvænta.
Kannski er Jesús að minna okkur á að Guðs ríki líti ekki út eins og glæsihallir veraldar, heldur eitthvað allt annað, eitthvað sem við bjuggumst alls ekki við – og að þar munum við finna óendanlega blessun.
Dýrð sé Guði, föður, syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.
(Myndina af Egilsstaðakirkju tók Unnar Erlingsson.)