Enn á ný erum við saman komin á prestastefnu.
Ég vona að ég mæli fyrir munn okkar allra þegar ég segi að sú samkoma sé ætíð mikill fagnaðarfundur. Henni má helst líkja, finnst mér, við fjölskyldusamkomu eða ættarmót. Þá hittumst við prestarnir og makar okkar, og endurnýjum kynnin. Gömul og ný vinakynni, misnáin að vísu en öll sprottin af sömu rót. Rótinni römmu sem við erum greinar af og þiggjum næringu frá - við sem þegið höfum blessun á blessun ofan fyrir helga köllun okkar til þjónustunnar við hinn upprisna Krist Jesú.
Og nú komum við hér saman á gleðidögum, í sumarbyrjun, þessi hópur sem finnur til svo náins skyldleika innbyrðis. Við komum saman til að fagna hvert með öðru og þá fyrst og fremst þeim stórmerkjum sem páskarnir boða. Lífið hefur sigrað dauðann.
Kristur er upprisinn.
Annars værum við ekki hér. Ef Kristur væri ekki upprisinn ættum við ekkert erindi hingað. Trú okkar væri þá fánýt – prédikun okkar ónýt. Við værum aumkunarverðust allra manna.
En nú er Kristur upprisinn frá dauðum.
Hann lifir og ríkir og kallar okkur til fylgdar við sig - við lífið eilífa.
Það eru gleðitíðindin miklu og mestu sem okkur eru gefin til þess að varðveita og ávaxta í hjörtum okkar. Tíðindin sem okkur er falið að kunngjöra öllum þeim sem við mögulega getum náð til með orðum okkar og athöfnum, já, umfram allt með því að láta líf okkar og framgöngu bera þeim vitni. Þannig prédikum við best. Og er það ekki dásamlegt fagnaðarefni að eiga Krist upprisinn í hjarta sínu? Gefur það ekki auga leið að þeir sem þess njóta eiga lífshamingjuna að förunaut, hvernig sem allt veltur um veraldarhag. Samkoma okkar prestanna hlýtur að endurspegla þann veruleika. Hún er í eðli sínu fundur fagnenda.
Þetta eigum við sammerkt með trúsystkinum okkar á öllum öldum. Þannig er kirkjan okkar. Hún fæddist í fögnuði og hefur haft það fagnaðarefni að leiðarljósi allar götur síðan.
Í því ljósi gengu hinir frumkristnu fram og sýndu aðdáunarvert fordæmi. Í þrjár aldir bjó þetta fólk við stjórnvöld sem vildu hreyfingu þess feiga. En grimmilegar ofsóknir komu ekki í veg fyrir útbreiðslu fagnaðarerindisins um hinn upprisna Krist. Þvert á móti. Blóð píslarvottanna varð öflugasta útsæði kristinnar trúar fyrr og síðar. Framganga hinna trúuðu var með þeim hætti að hún vakti aðdáun. Kærleiksþelið, umhyggjan, samábyrgðin og óttaleysið, vöktu undrun og laðaði fólk að hinu unga kristna samfélagi.
Óttaleysið við dauðann vakti sérstaka athygli – sannfæringin fyrir því að líkamsdauðinn væri ekki endir heldur miklu fremur upphaf eins og hún birtist í orðum Páls er hann segir: “Mig langar að fara héðan og vera með Kristi því það væri miklu betra. En ykkar vegna”, segir hann við vini sína í Filippí, “er nauðsynlegt að ég haldi áfram að lifa hér á jörðinni... ykkur til framfara og gleði í trúnni... svo þið finnið betur hver upphefð það er að fylgja Kristi. ... Því lífið er mér Kristur og dauðinn ávinningur”.
Löngu seinna umorðaði sr. Hallgrímur þetta sama trúarstef og sagði: Ég lifi í Jesú nafni, í Jesú nafni ég dey.
Ef einhver stefnuskrá er til sem íslenska þjóðin hefði getað sameinast um í aldanna rás, þá er það þessi játning. Það er sama hvar borið er niður, hvort heldur í ritaðar heimildir eða munnlega geymd, alls staðar skín þetta grunnstef kristninnar í gegn. Í það hefur þjóðin okkar sótt trú sinni næringu, oglífsbaráttunni þor og þrótt “þegar snörur dauðans hafa umkringt hana og angist heljar komið yfir hana”. Þá hefur hún ákallaði nafn Drottins og fundið að hann gerir sífellt vel til hennar. Og mikilvægt er það og segir sína sögu að enn skuli játning Hallgríms vera höfð yfir velflestum þeim sem kvaddir eru.
En hversu djúpt ristir sú játning?
Er ekki miklu líklegra að vonirnar sem bundnar eru við Krist nái aðeins til þessa lífs? Er upprisuboðskapurinn ekki í sívaxandi mæli aðhlátursefni “upplýstra” Vesturlandabúa rétt eins og hann var á dögum Rómarkeisara.
Í þeim efnum hefur ekkert breyst í 2000 ár. Fagnaðarerindið er og verður heimska mörgum en öðrum kraftur Guðs. Það sem hefur breyst er sá vitnisburður sem við mörg hver, hin kristnu, gefum með lífi okkar og framgöngu. Eða vekjum við, almennt talað, aðdáun þeirra sem fyrir utan standa?
Berum við með okkur þann fögnuð trúarinnar sem líklegt er að smiti út frá sér og laði fólk til fylgdar við Krist upprisinn?
Kirkjan okkar, stendur vörð um siðinn í landinu, hina kristnu arfleifð. Það er dýrmæt varðstaða sem skiptir miklu máli. En kirkjan er þó fyrst og femst samfélag trúaðra. Það er trúin sem skapað hefur siðinn. Og ef trúin er ekki lifandi og virkt afl í samfélaginu, getur ekki hjá því farið að siðurinn verði að innantómu hismi í hugum fólksins til brúks á tillidögum og við hátíðlegar athafnir. Það gefur auga leið að um leið og siðurinn fellur í gildi fer siðferðið sömu leið. Þá leitar það ekki lengur æðri viðmiða, verður ábyrgðarlaust og auðsveigt að þeim þörfum sem í hag koma hverju sinni.
Það er nákvæmlega þetta sem hefur verið að gerast í hinum vestræna kristna heimi á síðustu tímum. Í þessu liggur rót kreppunnar sem við öll súpum seyðið af.
En hver er þá lærdómurinn sem af þessu er dreginn?
Hið nýja Ísland 21. aldar skal rísa úr öskustónni undir fána nýrra gilda. En þegar að er gáð kemur í ljós að það eru gömlu góðu kristnu gildin sem þjóðin kallar á og þarfnast. Þau má þó alls ekki kalla kristin og það má heldur ekki gefa því undir fótinn að til þess að þau standi undir væntingum og verði ekki sjálfhverf, verði þau að hvíla á því hugarfari sem trúin ein getur skapað. Þess í stað skal girða þau lagasetningum. Ný stjórnlög er svarið. Lög sem skulu þannig úr garði gerð að siðlausir menn komist ekki framhjá þeim með bellibrögð sín.
Fáum virðist hugkvæmast það sem þjóðin hefur þó haft fyrir satt í 1000 ár og Eysteinn munkur orðaði svo vel í kvæðinu sem allir vildu kveðið hafa: Varðar mest til allra orða undirstaðan sé réttlig fundin. Þar vísar hann að sjálfsögðu í orð postulans: Annan grundvöll getur enginn lagt en þann sem lagður er, sem er Jesús Kristur. (1.Kor. 3.11)
Einhverra hluta vegna er svo komið að fólkið í landinu horfir framhjá þeim grundvelli sem hún lengst af hefur byggt tilveru sína á. Yfirgnæfandi meirihluti þess vill þó viðhalda siðnum en fáir sjá í honum fólgið hið mótandi afl hugarfarsins sem allt veltur á.
Hér er mikið verk að vinna. Kirkjan okkar ber þar þunga ábyrgð.
Hún hefur haft og hefur enn yfirburðastöðu til að hafa gjörtæk áhrif á trú og lífsviðhorf fólksins í landinu. Hún hefur hátt í 300 starfsstöðvar vítt og breitt um landið. Þessar starfsstöðvar, kirkjuhúsin sem varða landsbyggðina frá innstu dölum til ystu stranda eru leiðarsteinar alls þorra fólksins á vegferð þess um lífið,. Á þessum stöðum og í kringum þá er fólkið að finna. Engin stétt í landinu hefur viðlíka aðstöðu til að ná til þess og við prestarnir með boðskapinn sem skiptir sköpum um það hvernig til tekst með hið nýja Ísland 21. aldar.
Þetta þurfum við ætíð að hafa í huga.
Það skiptir óendanlega miklu máli hvernig við rækjum köllun okkar.
- Við þurfum að þétta raðirnar. - Reka sundurlyndisfjandann á haf út. - Styðja hvert annað með ráðum og dáð. - Kalla fram það besta hvert hjá öðru . - Deila skoðunum okkar innbyrðis af hógværð, elskusemi og sanngirni. - Bera virðingu fyrir störfum hvers annars. - Leyfa okkur hverju einu að finna að við séum mikils virði og mikilvæg í þjónustunni. - Vera hvert öðru „til framfara og gleði í trúnni... svo við finnum betur hver upphefð það er að fylgja Kristi“.
Með þessu móti getum við myndað sterka, samheldna og kærleiksríka liðsheild, hæfa til að sækja fram og vinna fagnaðarerindinu þann sess í hugum þjóðarinnar sem fært getur henni farsæld og varanlega hamingju á nýrri öld.
Við erum vorboðar – til þess erum við kölluð.
Kristur er upprisinn.
Fögnum og verum glöð.