Nú fór hann í bátinn og lærisveinar hans fylgdu honum. Þá gjörði svo mikið veður á vatninu, að bylgjurnar gengu yfir bátinn. En Jesús svaf. Þeir fara til, vekja hann og segja: Herra, bjarga þú, vér förumst. Mennirnir undruðust og sögðu: Hvílíkur maður er þetta? Jafnvel vindar og vatn hlýða honum. Matt. 8:23-27Á fyrri tíð var það siður íslenskra sjófarenda er þeir lögðu frá landi á opnum og illa búnum skipum að taka ofan og gjöra bæn sína. Það var ekki bara vani heldur líka vitneskjan um hvar hjálpina er að finna, allt er í hendi hans. Við heilsumst hér á sjómannadegi, framundan sumarið, sigling á lífsins ólgu sjó. Já, lífið er sjóferð. Með von um gjöfulan túr leggjum við upp, vitandi þó að það getur gefið á og alls óvíst um aflabrögð. Hvað verður vitum við ekki, en hver er og verður vitum við hins vegar. ,,Allt vald er mér gefið á himni og jörðu, … sjá ég er með yður alla daga, allt til enda veraldar”, segir frelsarinn.
Á sjómannadegi minnumst við sjómannanna okkar, þökkum djörfung þeirra og dugnað í aldanna rás. Minnumst þeirra sem kvatt hafa, þeirra sem hlutu hina votu gröf. Við þökkum gjöful fiskimið og þá blessun sem þau hafa veitt landi og þjóð. Við hugsum einnig til sjómannskvennanna og barnanna. Gleymum ekki hlutskipti þeirra og mikilvægu hlutverki á sjómannadegi. Fjölskyldan heima sem hefur þurft að halda sínu striki – oft saknað, horft á úfið hafið, beðið milli vonar og ótta. Sjómannadagurinn er dagur þakkargjörðar og líka gleðidagur.
Sjómennska og kristin trú hafa átt trausta samfylgd alveg frá öndverðu. Dæmisögur og líkingar í guðspjöllunum eru margar sóttar í smiðju sjómennskunnar. Kirkjunni er líkt við skip, og lífi okkar einnig, mitt fley er lítið en lögurinn stór. Hvarvetna má finna líkingarnar. Og hinir fyrstu lærisveinar voru sjómenn. Fylg þú mér! Fiskimenn hlýddu þessu kalli fyrstir allra og sú samfylgd nær allt til dagsins í dag. Það er einmitt það sem gerir trúna okkar svo dýrmæta, að Jesús snýr sér að hversdagslegu aðstæðunum, börnum, fullorðnum, sjúkum, sorgmæddum, vinnandi fólki sem er alla veganna statt í lífinu. Nærvera hans er umvafin hversdagslegum og venjulegum aðstæðum manneskjunnar.
Þótt sjórinn hafi gefið vel þá hefur hann líka tekið. Sjórinn er ógnvaldur. Inn í þær aðstæður er líka talað í guðspjalli sjómannadags. Ákall úr neyð: ,,Herra bjarga þú, vér förumst!“ Oft hefur ótti og örvænting gripið um sig. Skelfileg sjóslys, sjávarháskar, stríð upp á líf og dauða. ,,Hví eruð þér hræddir þér trúlitlir?”, segir Jesús og síðan reis hann upp og hastaði á vindinn og vatnið, og varð stillilogn.
Á prestskaparárum mínum í Ólafsvík komst ég fljótlega að því að sjómannadagurinn var mesti hátíðisdagur ársins. Þetta var ný og stórkostleg upplifun fyrir mig. Kappróðrar, aflraunakeppni, hátíðardagskrá, sjómannamessa, sannkölluð fjölskylduhátíð. Prúðbúnir eldri sjómenn heiðraðir. Á andlitinum mátti sjá að þeir höfðu mátt reyna ýmislegt í tímans rás, höfðu greinilega marga fjöruna sopið. Sjómannadagurinn þar vestra fyrir þremur árum síðan líður mér aldrei úr minni. Það var glampandi sólskin, Breiðafjörðurinn spegilsléttur, fegurð hvert sem litið var. Það var stillilogn. Einu og hálfu ári áður ríkti allt annað ástand. Úfinn sjórinn, örvænting og neyð í bænum. Bátur hafði farist út af Svörtuloftum á Snæfellsnesi. Þrír fjölskyldumenn frá Ólafsvík fórust. ,,Herra, bjarga þú, vér förumst.” Þetta var raunverulegt ákall úr neyð.
Eiginkonur, börn, heilu fjölskyldurnar lamaðar af harmi. Bærinn altekin sorg. Samstaðan, samhugurinn, samhjálpin – mitt í vanmættinum og veikleikanum, koma líka styrkleikar í ljós. Við þurftum að halda þétt hvert utan um annað. Halda áfram saman, þrátt fyrir allt. Og þennan sólríka sjómannadag fyrir þremur árum voru bæjarbúar samankomnir við opnun minningarreits þar sem drukknaðra sjómanna er minnst. Börn sjómannanna sem höfðu farist nokkrum misserum áður, lögðu blóm við minningarstein um feður þeirra. Þetta var viðkvæm stund. Í miðjum minningarreitnum var minnisvarði, stór granítsteinn, tveggja mannhæða hár, með stóru gati í miðju. Listamaðurinn sem hannaði verkið sagði í ávarpi sínu til bæjarbúa: Þegar verkið er skoðað, sagði hann, sjáum við að það hefur verið tekið úr steininum, gatið sýnir að það vantar eitthvað. Frekari skýringar voru óþarfar. Þetta skildu allir viðstaddir. Listamaðurinn bætti svo við: En þegar þið gangið að gatinu, þá blasir líka við nýtt útsýni, ný von, lífið heldur áfram. Í gegnum gatið gátum við horft yfir spegilsléttan Breiðafjörðin. Stillilogn.
Söknuðurinn og sorgin voru þarna til staðar, en það var hægt að horfa fram veginn. Fjölskyldur voru tilbúnar að horfa í gegnum minnisvarðann, í von. Það var eiginlega ekki fyrr en ég fór að skoða textann núna fyrir sjómannadaginn hér, að ég gerði mér grein fyrir að í raun hefðum við þar vestra upplifað guðspjall sjómannadagsins. Frá neyðinni, þegar bylgjurnar gengu yfir bátinn, ,,Herra bjarga þú vér förumst!” og til sátta, það var risið upp og haldið áfram. Öldur lægði, hafið varð stillt. Stillilogn.
Hafði frelsarinn verið um borð þrátt fyrir allt? Voru sjómennirnir ekki einir í hrakningunum? Erum við ekki ein í neyðinni og sorginni? Þegar horft er til baka er oft auðveldara að setja hlutina í samhengi. Ekki til að fá ,,patent” svör við lífsgátunni, heldur til að finna að lífið er meira en sýnist. ,,Sjá ég er með yður alla daga allt til enda veraldar.” Við megum trú og treysta. Ólafsvík er aldeilis ekki ein um svona hörmungar. Frásagnir af hrakningum og missi, djúpri sorg, má finna í sjávarplássum hringinn í kringum landið. Sjórinn sem svo ríkulega gefið hefur líka frá okkur tekið og skilið eftir sár. Skemmst er að minnast hins hörmulega slyss á Akureyrinni nú hinn 27. maí sl. þar sem tveir menn héðan úr bænum okkar fórust í eldsvoða. Skelfilegar aðstæður. Hugur okkar er hjá fjölskyldunum sem svo mikið hafa misst.
Trúin geymir engar töfralausnir í þessum aðstæðum, engin meðöl sem taka sorgina burt. En trúin talar inn í aðstæðurnar, inn í ástand manneskjunnar í neyðinni. ,,Úr djúpinu ákalla ég þig Drottinn, Drottinn, hlusta á grátbeiðni mína …Ég vona á Drottin, sál mín vonar, og hans orðs bíð ég. Því að hjá Drottni er miskunn og hjá honum er gnægð lausnar.” Í djúpum sorgarinnar finnum við tilfinningum stað í þessari bæn úr Davíðssálmum. Og í sporum lærisveinnanna, þegar hvessti: ,,Herra bjarga þú, vér förumst!” Trúin viðurkennir mannlega neyð, tilfinningarnar allar, vonleysið, svartnættið. Hvar er Guð? Er hann með í bátnum? Af hverju ég? Hvar er hjálpina að finna? Er til von?
Sjómannadagurinn hér á Akureyri í ár er sveipaður sorg. En gleymum því samt ekki að dagurinn vitnar líka um hugrekki, dugnað, kraft og gleði sem fylgt hefur sjómennskunni alla tíð. Hún er samofin þjóðarsálinni. Og það er svo rík ástæða til að halda Sjómannadaginn í heiðri. Ekki bara vegna sjómannanna heldur líka fyrir okkur hin sem sjaldan eða aldrei höfum migið í saltan sjó. Þetta er beinlínis hluti af því að skilja hver við erum. Og við skulum vera á varðbergi á tímum þegar stöðugt er verið að hagræða og skipuleggja upp á nýtt eða leggja niður. Í hröðum heimi, þar sem tímarnir breytast skjótt verðum við að standa vörð um sjómannadaginn, sem hátíð og dag þakkargjörðar. Við megum aldrei hætta að kannast við hver við erum og hvaðan við komum, þá fyrst er voðinn vís.
Sjómönnum og fjölskyldum þeirra sendum við hjartans hamingjuóskir og þakkir á þessum degi. Guð blessi sjómennina okkar og fylgi þeim í bráð og lengd. Ég sagði áðan að í kristninni trúarhefð væru ófáar frásagnir og líkingar tengdar sjómennskunni. Sálmabókin okkar er þar engin undantekning. Legg þú á djúpið, segir í einum ágætum sálmi, haf Guðs orð fyrir leiðarstein í stafni, og sigldu síðan beint í Jesú nafni. Framundan er siglingin okkar, með vonum og vonbrigðum, tárum hugsanlega og erfiðum stundum en svo bíða líka spennandi viðfangsefni, ögrandi verkefni, ógleymanleg augnablik. En frammi fyrir aðstæðum upp á líf og dauða stöndum við nakin og varnarlaus, þá erum við bara manneskjur í þörf fyrir hjálp. Hvað verður? Hvað tekur við? Á sjómannadegi er okkur beint þangað sem hjálpina er að finna. Með frelsarann um borð er öllu óhætt. Við leggjum á djúpið í auðmýkt, í trausti þess að: Guð í hjarta, Guð í stafni, gefur fararheill.