Hvernig gekk?

Hvernig gekk?

Það er vissulega djúpstæð reynsla að standa hér í þessum forna prédikunarstól við setningu Synodus, horfa yfir hópinn þar sem nær allir eru kunnuglegir heilsa ykkur starfssystkinum og öðrum kirkjugestum með kveðju hinna fyrstu kristnu safnaða. Ég hef aldrei verið í þessum sporum fyrr, og þá væntanlega ekki seinna vænna. Ég var vígður 1962 og sótti Synodus sem yngsti presturinn nú hefur það aldeilis snúist við ég er nú með lengstan þjónustualdur þjónandi presta!
22. júní 2005
Flokkar

En Jesús hrópaði: Sá sem trúir á mig, trúir ekki á mig, heldur þann sem sendi mig, og sá sem sér mig, sér þann er sendi mig. Ég er ljós í heiminn komið, svo að enginn, sem á mig trúir, sé áfram í myrkri. Ef nokkur heyrir orð mín og gætir þeirra ekki, þá dæmi ég hann ekki. Ég er ekki kominn til að dæma heiminn, heldur til að frelsa heiminn. Sá sem hafnar mér og tekur ekki við orðum mínum, hefur sinn dómara: Orðið, sem ég hef talað, verður dómari hans á efsta degi. Því ég hef ekki talað af sjálfum mér, heldur hefur faðirinn, sem sendi mig, boðið mér, hvað ég skuli segja og hvað ég skuli tala. Og ég veit, að boðorð hans er eilíft líf. Það sem ég tala, það tala ég því eins og faðirinn hefur sagt mér. Jóh 12.44-50

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú kristi.

Það er vissulega djúpstæð reynsla að standa hér í þessum forna prédikunarstól við setningu Synodus, horfa yfir hópinn þar sem nær allir eru kunnuglegir, heilsa ykkur starfssystkinum og öðrum kirkjugestum með kveðju hinna fyrstu kristnu safnaða.

Ég hef aldrei verið í þessum sporum fyrr og þá væntanlega ekki seinna vænna! Ég var vígður 1962 og sótti Synodus sem yngsti presturinn. Nú hefur það aldeilis snúist við, nú er ég með lengstan þjónustualdur þjónandi presta!

Það eru önnur andlit hér í dag, með öðrum stíl, öðru yfirbragði sannarlega, því að engar voru konur í prestahópnum þá. Það er gott að sjá andlit ykkar hér í dag, starfsbræðranna sem sátu mína fyrstu prestastefnu en látið hafa störfum, þið eruð tengiliðir tímanna.

Kynslóðir koma, kynslóðir fara, presta sem annarra í boðhlaupi lífsins, en þjónusta kirkjunnar er hin sama, Orðið, orð Guðs stendur stöðugt og það kallar sífellt nýtt fólk til sinnar þjónustu – að miðla hinum góðu tíðindum inn í æ flóknari heim og æ flóknari lífsaðstæður.

Þarna fyrir nær hálfri öld, árið 1962 finnst manni nú að flest hafi verið með fábrotnum hætti. Aðeins ein útvarpsrás, og hafði verið svo síðan 1930, langir biðlistar til að fá síma, ekkert sjónvarp, fátt um utanlandsferðir vegna gjaldeyrisörðugleika, aðeins 5 deildir í Háskólanum og að loknu embættisprófi buðu prófessorar kanddötunum dús. Flest var í föstu formi í kirkjustarfinu, þó var fyrsti æskulýðsfulltrúinn nýkominn til starfa en hefðin ríkti, sérilagi í sveitunum, „Skelfing kann ég illa við að sjá þig í þessum brúna molskinnsjakka sr. Bernharður, hann séra Gunnar var alltaf í svörtum fötum” sagði kona í sóknarnefndinni þegar ég kom til starfa.

Synodan var manni mikill atburður, utanbæjarprestar áttu ekki tíðförult til höfuðstaðarins. Ég vígðist til Súðavíkur og þaðan var 14 tíma ferð suður með bíl – jafnvel upp í 17 tíma ef Þingmannaheiðin var “ svartsýn. Reyndar voru launin þannig að fyrst eftir 2ja ára starf, gátum við keypt okkur bíl, lítinn Skoda, kom kannske ekki að sök, það voru hvort eð er engir ökufærir vegir í prestakallinu. Esjan og Heklan sigldu á ströndina með farangur og fólk. Og Fagranes, mjólkurbáturinn kom á föstudagsmorgni til Súðavíkur og ég fékk far til messuhalds í Ögri og komst heim með bátnum á þriðjudagskvöld. Fimm daga útivist mánaðarlega fyrir hverja messu þar!

Já Synodus var mikill atburður ár hvert, skóp ákveðinn áfanga eða vegamót, maður kynntist kollegum, speglaði sjálfan sig í reynslu þeirra, kannaði eigin stöðu.

Kirkjan var sem fyrr segir mjög bundin hefðinni en hún bjó líka við beinan fjandskap ákveðinna hópa og gjarnan árásir. Hún átti á köflum í trúvörn og þótti ýmsum hún ekki aðlaðandi kostur. Við vorum t.d. bara tveir sem hófum guðfræðinám í alvöru haustið 1957 við Björn Björnsson. “ Ætlar þú virkilega að verða prestur Benni “ sagði faðir eins vinar míns við það tækifæri “ þú sem ert nú alveg olræt” Þetta er nokkuð lýsandi dæmi um afstöðu fólks.

En tímarnir breyttust, í stað þessa stundum illvíga fjandskapar kom afskiptaleysið með hina dauðu hönd áhugaleysis sem var kannske erfiðara að fást við. Þá var mikill prestaskortur, allt að fimmtán prestaköll laus. Síðustu áratugina hinsvegar, hefur enn orðið breyting. Víða kemur fram umtalsverður áhugi – en með varúð þó. Vaxandi safnaðarstarf vekur óneitanlega athygli og ég verð mjög var við það í Skálholti að fólk vill vita hvað kirkjan hefur upp á að bjóða í þeirri erfiðu en yndislegu veröld sem við lifum í. Hvað er í þessu í kirkjunni – fyrir mig ?

Nú síðustu árin eftir að ég kom heim eftir alllanga útivist, hef ég greint miklu meiri vísun til kirkjunnar í ýmsum aðgerðum þjóðlífsins en fyrr á árum. Fyrr í þessum mánuði var umræðuþáttur í útvarpi um hæfi og vanhæfi stjórnenda og samræðan tók að fjalla um gildismat og var ítrekað vitnað til hlutverks kirkjunnar þar. Ég hef reyndar sérstaklega orðið var við þörfina fyrir vegsögn kirkjunnar í siðfræði, sérílagi siðfræði viðskipta á útrásatímum. Þar er akur sem þarf að rækta og því afar óheppilegt að dregið hefur úr kennslu í þeirri grein við Guðfræðideildina.

En hér erum við prestar og djáknar landsins, þjónar kirkjunnar til átaka við hin margvíslegu verkefni. Og þetta er enginn hulduher, heldur dýrmætur og kunnáttusamur hópur sérfræðinga. Ætli við eigum ekki í sameiningu um 850 menntunarár á háskólastigi og ca. tvö árþúsund af starfsreynslu. - Áfram kristsmenn, krossmenn !

Og okkur er falið Orðið. Við höfum verið kölluð og erum send með Orð Guðs út í heiminn til að predika það inn í hinar fjölbreyttustu aðstæður samfélagsins – send til að þjóna Kristi og kirkju hans – fólkinu.

Guðspjallið sem við heyrðum frá altarinu hefur sérstaklega verið valið fyrir þetta tækifæri, setningu Synodus, enda talar það beint til okkar presta og djákna. Jesús leggur áherslu á boðunina. Það er faðirinn sem sendi hann sem hefur boðið honum hvað hann skuli segja og hvað hann skuli tala. Hann er ekki kominn til að dæma heiminn, heldur til að bera ljós í heiminn, frelsa heiminn. Ekkert talar hann af sjálfum sér heldur eins og faðirinn hefur sagt honum. Og í kristniboðsskipuninni flytur Jesús verkefnið yfir til okkar – farið, kristnið, skírið, kennið þeim að halda allt sem ég hef boðið yður og ég er með yður alla daga. í Jóhannesarguðspjalli, segir hann: Og huggarinn, sannleiksandinn sem faðirinn mun senda, mun kenna yður allt.

Á ráðstefnu Lúterska heimssambandsins í Reykholti fyrr í mánuðinum var einmitt fjallað um boðun okkar í nútíma. Þar benti einn fyrirlesarinn á, að predikunin sé ekki fyrst og fremst túlkun textans heldur fremur til þess að setja textann á svið, setja hann inn í þær aðstæður sem eru raunveruleiki okkar, nú, svo að hann hafi ný áhrif og skapi nýtt líf. Þá verður fólk ekki lengur aðeins áheyrendur heldur þátttakendur. Hann vakti athygli okkar þessi ræðumaður, en spurt var, hvernig er raunveruleiki okkar nú ? Það var líka bent á, að í fjölmenningu samtímans er mikil lagskipting af efnahagslegum og menntunarlegum orsökum en einnig markast hún af þeim fjölmiðlum og því tengslaneti sem er í gangi hjá hverjum hópi. Netheimarnir eru nefnilega veröld per se og þau eru ófá ungmennin sem eiga þar sitt félagslíf og sækja þangað sitt gildismat og lífssýn.

Og hver eru viðbrögð okkar hinna eldri við þessum nýja tíma. Mörg okkar ráða ekki við þennan lífsstíl, flýja og skapa sitt litla lífsbox þar sem allt er kunnuglegt og viðráðanlegt og varpa þannig af sér allri ábyrgð og lái þeim hver sem vill. En yngri kynslóðin streymir fram. Hverskonar nesti hefur hún fengið frá heimili og kirkju til ferðarinnar út í heim hnattvæðingar og markaðshyggju? Svo var spurt í Reykholti.

Það er sannarlega gild spurning hér og nú, þegar “heimilið” er eitt meginstef Prestastefnunnar. Og hún hefur oft heyrst áður á Synodus. En mér finnst að það séu aðrar og brýnni aðstæður nú en nokkru sinni fyrr. Mörg hin ríkjandi öfl samfélagsins studd hinni ótrúlegu tæknivæðingu afþreyingariðnaðarins, hafa náð slíkum unditökum í mótun og lífsmáta hluta hins unga fólks að kirkjan verður að spyrna hressilega við fótum og styðja heimilið sem allra allra best í uppeldisstarfinu. Þar eigum við leik. Það er nú einu sinni svo þrátt fyrir allt afþreyingarúrvalið, markaðshyggju og hnattvæðingu og öll hin nýju fyrirbæri og slagorð nútímans, þá er manneskjan söm við sig, hefur sömu grunnþarfir sem á öllum öldum, þörfina fyrir nærveru, ástúð, umhyggju, virðingu og frelsi. Það eru áreiðanlega fá börn sem taka tölvuskjáinn fram yfir hlýjan faðm pabba eða innilegar samræður við mömmu ef það stendur til boða með eðlilegum hætti, - ef það er þáttur í lífi heimilisins og gildismat foreldranna liggi því til grundvallar.

Austur í Skálholti höfum við unnið að verkefni þessu tengt sem kallast miðlun reynsluarfsins. Þá höfum við kallað til samfunda eftirlaunafólk og ungt fólk að byrja á vinnumarkaðnum, einnig unga foreldra og þaulreynda afa og ömmur. Það hefur sýnt sig í samtölum þessa fólks að gildismat kynslóðanna er í grunni ekki svo ólíkt, en það rímar ekki alltaf við uppbyggingu og gildismat samfélagsins. Til dæmis hafa þessir hópar yfirleitt talið nægjusemi til dyggða, það sé mikilvægt gildi að miðla í uppeldinu. En hins vegar kemur í ljós að neyslusamfélag okkar afsegir nægjusemina sem dregur úr verzluninni og þar með framleiðslu og ógnar atvinnutækifærum. Semsé neysla í stað nægjusemi.

Eftirminnilegast úr þessum umræðum öllum finnst mér vera kvíði hina ungu foreldra að ala börn sín upp á 21. öldinni þar sem flest virðist á hverfanda hveli og þau kalla eftir stuðningi, góðum ráðum og gildum frá þeim eldri. Og þau bæta við: Er kannske eitthvað hjá kirkjunni – fyrir okkur?

Er þetta ekki mikil áskorun fyrir okkur presta og djákna, þennan vel búna, fjölmenna manna hóp auk allra annarra starfsmanna og sjálfboðaliða kirkjunnar. Í þessari áskorun felst að við eigum þann trúverðugleika hjá þjóðinni að hún taki orð okkar gild, að hún taki Orðið sem við boðum til greina. En það felst líka í þessari áskorun til kirkjunnar að þessi stóri hópur starfsmanna njóti sín og nýtist í því mikilvæga starfi að efla heimilin í uppeldi barnanna með því að koma Orði Guðs til skila, orðinu sem rekur burtu myrkrið - lýsir, frelsar, vísar veg. Orðið sem boðar kærleika Guðs sem engum bregst og er þeim næstur er þarfnast hans mest.

En hér er erfiður þröskuldur í vegi. Einyrkja búskapur okkar presta flestra dregur úr skapandi starfi, frumkvæði og úthaldi. Enda leggja flestar eða allar aðrar stéttir ofurkapp á að mynda teymi til verka sinna og telja það forsendu góðs árangur og vellíðunar í starfi. Christina Odenberg biskup í Lundi var spurð hérlendis hvaða gagn hefði verið að aðskilnaði ríkis og kirkju í Svíþjóð? Hún sagði; Mesta gagnið í mínu biskupsdæmi var að okkur tókst þá loks að útrýma einyrkja prestaköllum og hún bætti við; Það getur verið illt fyrir söfnuð að hafa aðeins einn prest að leita til en það er beinlínis hættulegt fyrir prestinn að þurfa alltaf að draga vagninn aleinn – það þekkjum við öll –

Já við þekkjum það mörg, ef ekki öll. Ég starfaði um árabil í svo litlum söfnuðum að ég hafði einfaldlega ekki nóg að gera þótt viljinn væri til þess. Það var sannarlega ekki mér að kenna að verkefnin væru svona takmörkuð, samt komst ég fljótlega í varnarstöðu, reyndi að réttlæta verkefnaskortinn og fyllti tíma minn með allskonar hliðarverkum. Það hvíldi á mér að mér bæri að flytja Orðið, til sóknarbarnanna, en ég hafði takmarkaðan aðgang að fólki, að eyrum fólks. Það var svo erfiltt að vera einn í verki, ég fann að ég sinnti ekki köllun minni nógu vel, það olli vanlíðan og vanda með sjálfsmyndina. Hver var ég eiginlega, til hvers er ég hér?

Ég þjónaði síðar í svo stórum verkahring að ég réði varla, ja, reyndar alls ekki við verkefnið. En það var betra, sjálfsmyndin var allt önnur, ég var þess alltaf meðvitaður að ég var prestur, sendur til að flytja hið lýsandi, frelsandi orð inn í þá fjölmörgu hópa sem ég hafði aðgang að.

Ábyrgð prestsins var mér mikil byrði lengi vel. Ég hafði tekið við Orði Guðs og átti að koma því til skila. Annars vegar varð ég að finna því farveg, finna þá staði og stundir þar sem fólk var til viðtals á hraðri lífsgöngu sinni og hinsvegar að finna orðinu búning, túlka það orð sem er heiðingjum heimska, skynseminni skandal, þannig að trúin nemi það, það verði lifandi orð í raunveruleika dagsins. Þetta verkefni er illmögulegt, ómögulegt á stundum og mér fannst ég aldrei gera það sem bæri.

Ég hef fengið að flytja þetta orð í öllum heimsálfunum og á nokkrum tungumálum. Og þótt ég þekkti hvorki menningu fólksins né hefði nægileg tök á tungumálunum, fannst mér ég ekki gera erindi mínu verri skil en þegar ég var á heimavelli. Þetta var mér bæði undrunar- og umhugsunarefni.

Svo gerðist atburður sem ég vil deila með ykkur. Það var á suðurströnd Madagascar. Ungur evangelisti, berfættur og barnslega glaður flutti predikun í skugga pálmatrés á mjög einfaldri og ambögulegri frönsku. Það voru í rauninni engar forsendur fyrir því að orð hans næðu til mín, flestar aðstæður okkar voru ólíkar. En það gerðist. Textinn opnaðist fyrir mér, orðið varð lifandi í þessu framandi umhverfi og það hrærði við mér.

Hvað gerðist – eða hvað held ég að hafi gerst?

Þessi ungi evangelisti, sárfátækur og menntunarlítill ,bar með sér mikinn trúverðugleika, útgeislun hans og öll framkoma vitnaði um trúarafstöðu hans - og svo var andi Guðs að verki í mér. Hann opnaði huga minn og hjarta svo ég leyfði Orðinu að ná inn að hjartarótum mínum. Þetta var lausnarorðið, það er Andinn sem vinnur verkið í predikuninni á hvaða máli og í hvaða menningu við störfum.

Auðvitað vissi ég þetta, hafði lesið um þetta í öll þessi ár, jafnvel predikað það – en nú var það hin frelsandi vissa.

Þessi reynsla hefur létt byrði mína og ég vildi deila henni með ykkur öllum sem líka hafa verið send með Orðið. Við erum ekki ein að verki að reyna að gera hið illmögulega, við erum einfaldlega verkfæri sem andi Guðs notar til að koma hinum góðu tíðindum um Krist til skila til hjartanna, að setja skilaboðin á svið mitt í raunveruleika fólks, boðskapinn um hann sem kom ekki til að dæma heldur frelsa heiminn. Og Guðs andi mun vel fyrir sjá – jafnvel þótt eitthvað bresti á um trúverðugleika okkar - syndugs fólks.

Guðspjallið undursamlega var lesið frá altari áðan – sá texti verður líka lokaorðin mín hér, um þann texta verður engu bætt með okkar orðum, biðjum hins vegar að Guðs heilagi andi opni huga okkar og hjarta fyrir orði Krists er hann segir í Jóh. 12 40 50 Amen.

Flutt við upphaf Prestastefnu, 22. júní 2005.