Alnæm kvika

Alnæm kvika

Ekkjuna má skoða sem ímynd Guðs, líkingu um Guð. Guð er hin alnæma kvika sársauka heimsins.

Þegar við lesum góða bók mælum við gjarnan með henni við vini og kunningja. En fæst okkar segjum þó hvernig bókin endar eða plottið er. Í dag langar mig til að mæla með frábærri bók sem ég las í sumar og líka segja ykkur frá einu af mörgum viðfangsefnum bókarinnar en án þess þó að eyðileggja lesturinn! Þetta er bókin Hin ótrúlega pílagrímsganga Harolds Fry. Og hún er nú tilnefnd til Bookerverðlaunanna sem segir talsvert um gæðin.

Í bókarupphafi fylgjumst við með manni sem fer út úr húsi sínu í suðvestur Englandi og röltir með bréf í póstinn – og ekki átti hann langt að fara. En vanbúinn og óvænt leggur hann upp í langferð fótgangandi og snýr ekki aftur heim fyrr en hann er búinn að ganga norður allt England og góðan hluta Skotlands líka. Bókin er snilldarvel skrifuð og efnið grípur og heillar. Og auðvitað er svona langferð tákn um lífsgöngu og raunar pílagrímsgöngu sem varðar reynslu fólks.

Eitt af fjölmörgu sem kemur í ljós á göngunni er hve dauði getur farið illa með ástvini. En í bókinni er lýst af næmni hvernig hægt er að vinna með áföll, sætta sig við dauða og leyfa lífinu að lifna, kulnaðri ást að loga að nýju, hamingju að vaxa og upprisu að verða. Hin ótrúlega pílagrímssaga Harold Fry er bók fyrir fólk, bók fyrir okkur, bók um líf þrátt fyrir dauða. Ég get því mælt með henni og hef ekki sagt ykkur meira en þörf er á!

Og bókin er ágætis túlkun á guðspjalli dagsins líka. Hún kom stöðugt í huga mér þegar ég fór að íhuga merkingu þess. Þessi dagur kirkjuársins er stundum nefndur páskadagur á hausti því guðspjallið er um lífgjöf. Saga dagsins er um ekkju, son sem dó og lausnara. Og að lausnarinn kom við sögu er boðskapur um líf, um páska. Staðan var hrikaleg, gömul kona missti allt. Þegar eini sonur ekkju dó þýddi það í þessum heimshluta og á þessum tíma að allt væri búið, tilvera konunnar væri algerlega hrunin. Börn voru eina elli- og sjúkratrygging aldraðra foreldra. Þegar þau hurfu var lífsbjörgin engin. Úr sálardjúpi allslausrar konu braust fram grátur - slíkan grát heyrir Jesús. Hann gekk til konunnar og sagði: „Gráttu ekki.“

Ekkjan í guðspjallstexta dagsins er fulltrúi allra sem hafa elskað en mist - mæðra og feðra, sona og dætra, systkina og frændgarðs. Það er hræðilegt þegar ungt líf deyr skyndilega, ótímabærum og óskiljanlegum dauða. Einu sinni sagði harmþrungin móðir við mig og ég er henni sammála: „Það á ekki að leggja á nokkurt foreldri að jarða barnið sitt.“ Það er á skjön við hrynjandi lífsins að börn deyji. Þá sest haustið að í lífinu og vetrarsorgin nístir. En svo hljómar óvænt og þvert á aðstæður: „Gráttu ekki.“ En er það hægt og gerlegt?

Líf og gleði Þessi saga á sér mikla biblíuhefð að baki. Spámenn Gamla testamentisins voru sérstakir vinir ekkna, munaðarlausra og minnimáttar. Ýmsar stórkostlegar umhyggjusögur eru til í Biblíunni af elskulegu fólki sem hélt vörð um og verndaði ekkjurnar. Svo voru til líka sögur um stórmenni og afskipti þeirra af ekkjum í hinum hellenska heimi. Sagan um ekkjuna í Nain endurspeglar umhyggju og húmaníska afstöðu góðs fólks. Og Jesús Kristur var auðvitað hinn mikli mannvinur og boðberi umhyggjunnar sem heyrði og sá þegar fólk þarfnaðist stuðnings og lífgjafar. Sagan tjáir að í guðsríkinu eru kveinstafir heyrðir og við þeim er brugðist.

Guð ekkjan? En þessi saga á sér fleiri víddir og má líka skilja hana og túlka með afar róttæku móti. Guðfræðin er jú list hinna löngu og stóru hugsana og kristindómurinn átrúnaður lífs og gleði en ekki drunga og dauða. Ekkjuna má skoða sem ímynd Guðs, líkingu Guðs.

Hvernig bregst Guð við þegar við klúðrum málum og förum illa með hvert annað og sjálf okkur? Getur verið að þá gráti Guð? Grætur ekki Guð þegar maður ferst? Er Guð kannski sem ekkja gagnvart stríðshrjáðum heimi, veröld ofbeldis, kúgunar, hrottaskapar? Okkur mönnum er mikið gefið, frelsi til að velja og vit til að skapa. Of oft eru þær gjafir notaðar til ills, fólki, náttúru og mannfélagi er ógnað og misboðið. Já, þá grætur Guð, líka þegar börnin veiklast af hungri og deyja af næringarskorti og móðir jörð er flekkuð og vanvirt. Guð grætur þegar menn eru látnir líða fyrir litarhátt eða þegar fólk er látið gjalda kynferðis síns. Guð er hin alnæma kvika sársauka heimsins.

Heimurinn fæddist fagur. Guð gaf jarðarkringlunni líf, gaf henni fögur klæði. En heimur sem átti sér opna framtíð varð fyrir slysi. Sagan um líkfylgdina í Nain er táknsaga um líf og leiðir manna en í henni hljómar líka aðvörun. Menn lítið ykkur nær. Axlið ábyrgð og takið virkan þátt í lífs- og líknar-starfi Guðs.

Sú von hefur blundað með mönnum á öllum tímum að illskan verði bundin og lágmörkuð, sjúkdómar greindir og læknaðir, stríðum verði útrýmt með friðarsáttmálum milli þjóða og hópa – já, að fólk fái búið saman í friði. Von um gott líf í framtíð lifir í okkur öllum. Kristin kirkja endurómar þann boðskap. Við þekkjum auðvitað vel hættur, ógnir, hræðslu, eigingirni, græðgi og félagslega mótunarþætti sem ógna og spilla gleði og farsæld. Öllum mönnum er boðið að rísa til lífs og taka fast á málum samtíðar til heilla. Og allir eru kallaðir til ábyrgðar. Því hljómar ávallt og ævinlega í öllum aðstæðum. „Rís þú upp ungi maður, ungi heimur.“

Jesús sá líkfylgdina álengdar. Hann heyrði grát og sá tár. Gekk fyrst til konunnar og hún leit upp og horfði á hann starandi sorgaraugum. Og hann sagði: „Gráttu ekki“ og undrið varð.

Hver á lífið? Sagan um þrenninguna, móður, son og lausnarann er ekki sögð heimsbyggðinni til að menn fái svör um eðli kraftaverka eða trúi þeim. Guðspjöllin segja ekki rosasögur eða jarðteinasögur til að æsa menn til óraunsæis. Íhugunarefnið er það eitt að minna okkur á hver á allan mátt í heimi, hver gefur og á lífið. Þessi Jesús, sem er líf alls heims mælir enn í dag. „…ég segi þér, rístu upp.“ Þessi Jesús sýnir þér Guð sem er þér nærri, grætur þegar þú grætur, umlykur þig þegar þú fyllist vanmætti, gefur þér mátt í veikindum, já líf í dauða.

Ungi maður, stattu upp, hafnaðu vonskunni og fjötrum dauðans, sem á þig eru lagðir. Hver maður lifi, rísi upp í einkalífi - hvert samfélag leysi fjötra og lifi. Já, verum menn og lifum. Verði svo mun Guð á himnum ekki lengur gráta, heldur gleðjast yfir nýju lífi, þegar syrgjendahjörð umbreytist í hóp veislufólks, þegar syrgjandi mæður endurheimta yndin sín.

Hvernig er með lífið og páskana í þínu lífi? Koma þeir líka á haustin, þegar allt virðist búið? Þú ert á þinni pílagrímaferð og þér er boðið líf, því Guð skilur grát, missi, vonbrigði og dauða. Guð gefur líf og gleði alla daga, alltaf. Það er efni hinnar ótrúlegu og undursamlegu pílagrímsferðar Guðs í heimi og á erindi við þína lífsgöngu sem má vera ótrúleg og undursamleg líka.

Amen

Prédikun í Neskirkju 23. september 2012, 16. sd. eftir þrenningarhátíð.

Textaröð: A

Lexía: Job 19.25-27 Ég veit að lausnari minn lifir og hann mun síðastur ganga fram á foldu. Eftir að þessi húð mín er sundurtætt og allt hold er af mér mun ég líta Guð. Ég mun líta hann mér til góðs, augu mín munu sjá hann og engan annan. Hjartað brennur af þrá í brjósti mér.

Pistill: Ef 3.13-21 Fyrir því bið ég að þið látið eigi hugfallast út af þrengingum mínum ykkar vegna. Þær eru ykkur til vegsemdar. Þess vegna beygi ég kné mín fyrir föðurnum, sem hvert faðerni fær nafn af á himni og jörðu, að hann gefi ykkur af ríkdómi dýrðar sinnar að styrkjast fyrir anda sinn að krafti hið innra með ykkur til þess að Kristur megi fyrir trúna búa í hjörtum ykkar og þið verða rótfest og grundvölluð í kærleika. Mættuð þið því geta skilið það með öllum heilögum hvílík er víddin og lengdin, hæðin og dýptin í kærleika Krists og fá að sannreyna hann, sem gnæfir yfir alla þekkingu, og ná að fyllast allri Guðs fyllingu. En honum, sem í oss verkar með krafti sínum og megnar að gera langt fram yfir allt það sem vér biðjum eða skynjum, honum sé dýrð í kirkjunni og í Kristi Jesú með öllum kynslóðum um aldir alda. Amen.

Guðspjall: Lúk 7.11-17 Skömmu síðar bar svo við að Jesús hélt til borgar sem heitir Nain og lærisveinar hans fóru með honum og mikill mannfjöldi. Þegar hann nálgaðist borgarhliðið þá var verið að bera út látinn mann, einkason móður sinnar sem var ekkja, og mikill fjöldi úr borginni var með henni. Og er Drottinn sá hana kenndi hann í brjósti um hana og sagði við hana: „Grát þú eigi!“ Og hann gekk að og snart líkbörurnar en þeir sem báru námu staðar. Þá sagði hann: „Ungi maður, ég segi þér, rís þú upp!“ Hinn látni settist þá upp og tók að mæla og Jesús gaf hann móður hans. En ótti greip alla og þeir vegsömuðu Guð og sögðu: „Spámaður mikill er risinn upp meðal okkar,“ og „Guð hefur vitjað lýðs síns.“ Og þessi fregn um Jesú barst út um alla Júdeu og allt nágrennið.