Bjargráðið steinbítur

Bjargráðið steinbítur

Sjómannadagur 2015 Dómkirkjunni. Útvarpsmessa.

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen.

Ég óska sjómönnum og fjölskyldum þeirra gleðilegrar hátíðar. Gleðilegan sjómannadag!

Já, nú er hátíð, hátíð um allt land; í langflestum bæjum og kaupstöðum er sjómannadagurinn haldinn hátíðlegur í 78. sinn. Markmið dagsins var og er enn að vekja þjóðina til meðvitundar um starf sjómannsins og mikilvægi og gildi þess í samfélaginu. Og það eru engar fréttir fyrir okkur að sjávarútvegur og siglingar hafa löngum fært þjóðarbúinu verðmæti sem hafa verið undirstaða velmegunar og framfara á Íslandi.

Það var árið 1938 sem sjómanndagurinn var fyrst haldinn hátíðlegur; árið eftir hófst síðari heimsstyrjöldin.

Vissulega var landið okkar ekki vígvöllur styrjaldarinnar en samt sem áður voru áhrif hennar hér töluverð og þá sérstaklega á höfunum. Talið er að 200 um Íslendingar hafi farist vegna styrjaldarinnar, langflestir sjómenn eða farþegar á skipum. Flestir fórust vegna árása kafbáta og flugvéla á skip en einnig vegna ásiglinga sem urðu vegna þess að siglt var ljóslaust að næturlagi og að bannað var að nota loftskeytabúnað skipanna; einnig grönduðu tundurdufl skipunum. Og þannig margfölduðust af mannavöldum þær hættur sem endranær fylgja siglingum. En sjó– og farmenn þess tíma lögðu sig í hættu við að koma matvælum og nauðsynjum til Bandamanna í Evrópu og auka um leið hag þjóðarbúsins íslenska.

Nábýlið við sjóinn hefur líka vakið okkur til meðvitndar um mikilvægi öryggis- og björgunarmála á hafinu. Slysavarnir hafa sem betur fer alltaf verið að eflast og þeim ber öllum heiður og þakklæti sem vel hafa stutt að þeim málum og veitt þeim athygli sína og ástundun. Og alltaf er það einstök tilfinning að heyra frettir af gifttusamlegri björgun af hendi Landsbjargar eða Landhelgisgæslunnar eða annarra þeirra sem láta sig varða heill náungans.

---

Föðurland vort hálft er hafið, helgað þúsund feðra dáð. Þangað lífsbjörg þjóðin sótti, þar mun verða stríðið háð.

Þessi orð sungum við áðan og það er ekki ofsagt að lífsbjörgina sækjum við til hafsins.

Dag einn snemma vors stóð ég niðri á bryggju á Tálknafirði og var að kanna aflabrögð. Þetta var fyrsta árið mitt í prestskap vestra; Sómar og Víkingar biðu í röð eftir löndun, flestir vel hlaðnir og sumir á nösunum, en ég stóð og dáðist að þessari fegurð en ég neita því ekki að allt var þetta frekar nýstárlegt fyrir mér; borgarbarninu í nýjum aðstæðum. Allt í einu stóð gamalreyndur sjómaður við hliðina á mér og sagði: “Þarna hefurðu ástæðuna fyrir því að svo fáir Vestfirðingar fluttu til Vesturheims í den.” Mér datt ekkert skárra í hug að segja heldur en “Nú, er það?” og þá útskýrði hann fyrir mér: “Steinbíturinn maður. Hann fer að gefa sig á útmánuðum og það forðaði því að fólkið sylti á vorin.” Þetta liggur í augum uppi þegar búið er að benda manni á þetta og allt í einu var veigamiklum hluta Íslandssögunnar lokið upp fyrir mér eins og barnabók. Fyrir nú utan hvernig manni er bent á að náð Guðs finnur leið að fólki því til bjargar, meira að segja í gegnum steinbítinn.

Þessi litla saga er aðeins ein ótalmargra sem útlista og undirstrika hversu hafið og líf okkar Íslendinga er órofa tengt. Að sjálfsögðu eru til miklu stærri sögur vítt um landið af miklu ríkara mikilvægi sjósóknar og sjávarútvegs fyrir Íslendinga og íslenska hagsmuni. En grunnstefið er alltaf það sama; í hafinu er bjargræði og því eiga þeir sem sækja það, heiður skilinn. Sem og þeir farmenn allir sem efla vorn hag.

Mér finnst ég finna að þegar best lætur sé sjómennska meira en atvinna og jafnvel líka meira en lífsstíll. Í henni felst lífsrythmi, taktur, sem er eins og ósjálfráður og er mótaður af aldalangri sambúð manns og sjávar; að í sjósókninni sé ákveðið birtingarform kjarna mannsins; sjálfsbjargarviðleitni, áræði og þor en jafnframt fyrirhyggja og virðing fyrir aðstæðunum. Í henni kristallast lífsbarátta sem er mikið til alveg á sínum forsendum.

En hinu er heldur ekkert að leyna að þeir tímar koma, hjá sjómönnum jafnt sem öðrum að hlutirnir gangi öndvert við það sem maður vildi.

Hún getur nefnilega verið erfið þessi lífsbarátta og vafalítið hafa langflestir einhvern tíma upplifað svipaða angist og lærisveinarnir í bátnum. Þegar öll kunnátta þeirra sjálfra er á þrotum, þegar maður hefur einhvern veginn gert allt sem maður hefur á valdi sínu og er sjálfrátt með, en ytri aðstæður eru samt sem áður þannig að það ræðst ekki neitt við neitt.

Hjálpa þú, við förumst.

Þetta var ákallið; þeir áttu í raun ekkert annað eftir en að ákalla þann sem þeir treystu á, já treystu fyrir lífi sínu.

Hafið vakti ugg í brjósti manna á þessum tíma, var í raun tákn fyrir óreiðuna og helgast það líkast til af því að engin leið er að hemja þá höfuðskepnu sem hafið er. Þess vegna virkaði það mjög sterkt á hina fornu lesendur Guðspjallsins, sem við heyrðum lesið áðan, að Jesús kyrri vind og sjó. En Guðspjallið talar ekki síður sterkt til okkar nú. Sambúð manns og sjávar við Ísland getur verið jafnt hættuleg og hún er gjöful og blessunarrík. En ennfremur má hæglega líta á hafið sem tákn fyrir allar þær ytri aðstæður sem við búum við en stjórnum í raun ekki heldur verðum að semja okkur að; við útbúum okkur gegn þeim eins vel og við getum en getum ekki stýrt þeim algerlega að okkar vilja.

Frásögn Guðspjallsins er fremur einföld og ekki orðmörg. Lærisveinarnir eru um borð í ekki svo ýkja stórum báti á vatni sem var svo sem ekkert mjög stórt heldur og Jesús er um borð. Hann er ekki virkur þátttakandi í siglingunni heldur hallar sér í skutnum eftir erfiðan dag. En þótt Genesaretvatn sé ekki stórt, þá geta mikil veður skollið þarna á og sú varð raunin í þetta sinn, svo mjög rýkur veðrið upp að lærisveinunum verður ekki um sel og sjá þeir sinn kost grænstan að vekja Jesú; sem furðurlegt nokk bregst ekkert sérlega vel við, ávítar þá lítillega en hastar svo á vatnið.

Hvílíkur maður er sá sem jafnvel vindar og vatn hlýða spurðu þeir. Í ljósi þess sem að framan er sagt þá er Jesús sá sem kemur skikki á óreiðuna, hann gengur inní það hlutverk sem Guð hefur. Á ákveðinn hátt er Jesús þarna auglýstur sem sonur Guðs. Hann sýnir guðlegan mátt, kraft Guðs, og þar með tengsl sín við Föðurinn á himnum. Hann er sá sem hefur vald yfir sköpunarverkinu, það er undirgefið honum. Og þannig fer þeim sem treysta. Þeir vissu hvert þeir áttu að snúa sér. Og hann bregst við og bjargar. Og einn er sá flötur á þessari sögu sem mér finnst vert að halda á lofti; þegar lærisveinarnir sáu að þeir hefðu gert allt sem í þeirra valdi stóð en jafnframt að þeir réðu ekki við aðstæðurnar, þá biðja þeir um hjálp. Þeir höfðu þrátt fyrir allt manndóm til að leita sér hjálpar. Og blessunarlega var það nú einu sinni svo að í veikleika sínum horfðu þeir til Krists.

Lærisveinarnir eru ekkert þeir einu sem það gera. Ég veit að margir hafa einmitt upplifað hjálp frá æðri mætti þegar öll bjargráð þeirra sjálfra voru upp urin og haldlaus. Þegar þeir ákölluðu Guð og fengu svar.

Og hvernig sem öll framvinda málanna verður þá hlýtur þetta að vera hið mikilvægasta að geta falið málefni sín Guði í trausti þess að ekkert geti gert okkur viðskila við kærleika hans og umsjá; að allar stundir og í öllum aðstæðum vitum við okkur í hendi hans

(Minning látinna)

Nú hefur verið verður lagður krans að leiði óþekkta sjómannsins í Fossvogskirkjugarði til að minnast þeirra sem látist hafa á sjó. Eg bið yður að rísa úr sætum og minnast jafnframt þeirra sem létust á hafinu á tímum Seinni heimsstyrjaldarinnar. (Fánaberi gengur fram á mitt gólf og hallar fánanum). Þökk fyrir. (Fánaberi reisir fánann og gengur frá honum í stæði og gengur til sætis. Sálmurinn er sunginn).

Er við minnumst þeirra sjómanna sem farist hafa við störf sín við sæinn þá er vert að hafa í huga orð Jesaja spámanns þar sem hann segir: "Svo segir Drottinn, sá er skóp þig. Óttastu ekki, ég frelsa þig. Ég kalla þig með nafni, þú ert minn." Þetta orð er til okkar allra og það má ekki gleymast að við erum Drottins, í lífi og í dauða; ekkert af því sem hann hefur skapað getur verið glatað honum því Kristur er sá sem er dáinn og upprisinn og hefur sigrað dauðann fyrir okkur. Í honum erum við öll eitt, hvort heldur þessa heims eða annars.

Sjómenn, hjartanlega til hamingju með daginn! Um leið og ég þakka ykkar góða starf, bið ég ykkur Guðs blessunar og farsældar í hvívetna.

Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.