1 sd e páska 2015. Dómkirkjan. Útvarp.
Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen.
Apríl er grimmastur mánaða, segir í hinu stórgóða ljóði Eyðilandinu eftir T.S. Eliot. Þetta upphaf ljóðsins er nú samt að verða svokölluð klisja, þ.e. flottur frasi sem margir þekkja og þegar hann er hafður eftir þá kinkar maður kolli, ánægður með sjálfan sig yfir því að vera svolítið menntaður og kunna skil á heimsmenningunni. Sjálfagt eru þeir samt ekki margir sem hafa lesið ljóðið allt og að lestri lokum er líkast til undir hælinn lagt hvort menn hafi skilið nokkuð af því sem þar stóð. Að vísu vantar ekkert uppá það að menn hafi skrifað lærðar greinar um þetta ljóð, sem er nokkuð langt og getur verið jafn myrkt og torskilið á sumum köflum eins og það getur verið blátt áfram og ljóst á öðrum. Margir telja sig sjá þar harða gagnrýni á sjúkt samfélag en sjálfur mun T.S. Eliot einhvern tíma hafa sagt að það eina sem hafi vakað fyrir honum hafi svosem ekki verið annað en að létta af sér “persónulegum og öldungis ómerkilegum kvörtunum út af lífinu; Eyðilandið væri bara nöldur í reglubundinni hrynjandi.” Engu að síður er kvæðið magnað. Og okkur, sem lesendum ljóðsins, hlýtur að vera frjálst að skoða það okkar skilningi; af hverju er apríl grimmastur mánaða? Vissulega má halda því fram að sé grimmdin sé í því fólgin að vonin eftir sumrinu raungerist ekki, maður getur ekki annað en vonað, búinn að þola þennan vetur sem maður vill að taki enda; en það eina sem gerist, er að hann skellur á með annað él. Vonin brotin niður, svæfð, eyðilögð. Þessi skýring er samt svolítið séríslensk, og á lítið skylt við hið evrópska vor sem alltaf er langt á undan okkur. Ég held þess vegna að Eliot hafi ekki átt við þetta; sérstaklega ef við höldum áfram með ljóðið; en þar segir, í ljómandi góðri þýðingu Sverris Hólmarssonar:
(Apríl er grimmastur mánaða) græðir grös upp úr dauðri moldinni, hrærir girndum saman við minningar, glæðir vorregni visnaðar rætur.
Veturinn veitti okkur yl, þakti grundina gleymskusnjó, nærði máttvana líf í morknum rótum.
Það er greinlegt af þessum línum að ljóðmælandanum er ekkert sérlega vel við lífið, eða virðist að minnsta kosti hálf hræddur við það ef grimmdin, sem aprílmánuður býr yfir, felst í því að vekja grösin til lífsins: eða sírenurnar, eins og Elíot segir víst í kvæðinu; betra að láta allt vera undir snjóhulu, geymt, ekki virkt. Ekki lifa lífinu því það kostar svo mikið – ég er ekki að tala um peninga, heldur tilfinningar, orku, athygli. Það getur verið ógnvænlegt að lifa, takast á við tilveruna, mæta því sem að höndum ber hvern dag, stundum hversdagslegt nagg og amstur, stundum vondar fréttir og erfiðar, allt eftir duttlungum hins óbærilega léttleika tilverunnar sem spyr aldrei að því hvað þér finnst, heldur göslar áfram, að því er virðist stjórnlaust á stundum. Oft mæta okkur að vísu góðar fréttir og gleðilegar en við trúum þeim gjarnan tæplega, maður þarf jú alltaf að borga fyrir hið góða, þótt síðar verði. Já kannski er betra að geyma allt, tilfinningar og skoðanir undir hvítu snjávarteppi og gá hvort ekki sé hægt að bíða þetta allt af sér.
Apríl er grimmur fyrir þá skuld að hann rótar í lífi manns þegar maður hélt að allt væri kyrfilega geymt í sínu hólfi.
Kannski er líka stundum það þungbærasta við hann, hvað það er erfitt að sjá allt kvikna og vakna til lífsins, vorið alls staðar komið á fullt - nema ef til vill í manni sjálfum; eins og maður sé skilinn út undan; --- Já, það getur verið óþægilegt að láta róta upp í tilveru manns, sópa snjónum ofan af öllum því sem við viljum halda fyrir okkur sjálf en eftirá held ég að við megum gjarnan þakka fyrir að hafa verið rifin upp úr hjólförunum og bent á nýja víddir í tilverunni.
Lærisveinarnir í guðspjalli dagsins voru einmitt í þeim sporum. Ég veit ekki hvort það var einhver apríl í þeim þennan dag; Kannski voru þeir svolítið ráðvilltir því heiminum hafði verið snúið á hvolf fyrir þeim; það sem virtist hafa verið tap og niðurlæging meistarans hafði snúist upp í sigur; hann hafði birst þeim upprisinn en horfið að vísu aftur og þeir vissu ef til vill ekki hvernig þeir áttu að höndla þetta. Hvað þýddi það að hann væri upprisinn? Pétur getur greinilega ekki setið á höndum sér heima og hugsað um þetta allt, hann vill bara skella sér í róður; óþolinmóður eins og sjómennrnir fyrir vestan sem fannst alltaf verst að gera ekki neitt. Og félagar hans fara með honum. Það gengur að vísu ekkert hjá þeim; ekki fyrr en Jesús Kristur hinn upprisni birtist á ströndinni og leggur andann í verkið hjá þeim. Og það sem meira er, hann kallar þá til sín, matast með þeim og síðar í guðspjallinu leggur fyrir Pétur og lærisveinana að vinna hans verk á jörðu.
Þessi atburðir og upplifun lærisveinanna breytti öllu í tilveru þeirra, það má segja að kraftur vorsins í lífi þeirra hafi brotist fram; svolítið eins og leysingar á vori.
Kannski ekkert ósvipað því sem Jóhannes Kjarval orti um í kvæði sínu Við Sólbráð:
Við fannarskör eru strengir vorsins stilltir. Starfandi andi ljóss í geislaflóði leikur þar fjörugt lag af lífsins óði. Hlær og grætur fjall er giljum snjóloft þynnast, gróskuflaumar bruna, stympast, grynnast, stynja klettaþil er ryðjast risagangar.
Gamli doðinn og hinn þrúgandi snjór umbreytist í hreinsandi afl sem ryður lífinu braut. Og þar er “Starfandi andi ljóss í geislaflóði.” Er það ekki einmitt málið? Upprisuljóminn lýsi upp tilveruna, glæði lífið merkingu og krafti.
Kraftur upprisunnar er miklu meiri en aðeins sá sem fólst í þessum eina atburði þegar Jesús reis upp frá dauðum; afleiðingar hans eru svo gríðarlegar; Kristur sigrar dauðann fyrir þig, þannig að í hvert sinn sem dauðinn horfist í augu við okkur, hvort heldur það er í okkar eigin ótta eða ásjónu látins ástvinar, þá horfum við í gegn, lengra og dýpra þar sem elska Guðs skín við okkur handa við myrkur grafar og dauða. Því sá sigur sem Kristur vann er fyrir okkur öll og öll eignumst við hlutdeild í honum. Og þá rennur upp fyrir okkur að páskarnir eru einmitt slík hátíð, sem minnir okkur á höfund lífsins, alls lífs, og hvetur okkur þar með til að þora að lifa. Og allir dagarnir sem við þiggjum eftir páska; já páskaundrið, undirstrika þetta.
Apríl verður þá ekkert grimmur; bara ljúfur; apríl fylltur gleðidögunum sem fylgja bak páskum. Hann verður markaðir þessum boðskap, að Guð sem gefur lífið, sleppir ekki af okkur hendinni. Og hann gefur kraft til lífs. Sama hvernig veðrið er.
Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.